« Mynd af 10 vikna fóstri vekur bæði athygli og "óánægju"Bæn heil. Tómasar frá Aquino »

03.04.08

  00:38:35, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1208 orð  
Flokkur: Stofnfrumurannsóknir og tæknifrjóvgun (IVF)

Frumvarp um tilraunir og gernýtingu á fósturvísum samþykkt eftir sáralitlar umræður á Alþingi Íslendinga

Það er með þungum hug, sem upplýsa verður lesendur Kirkjunetsins um þá hryggilegu staðreynd, að róttækt frumvarp um árásir á fósturvísa mætti engri mótspyrnu á Alþingi og var afgreitt þaðan endanlega mánudaginn 31. marz. Ekki einn einasti þingmaður sá sóma sinn í því að standa gegn frumvarpinu, og höfðu þó ýmsir andmælt því, m.a. herra Karl biskup Sigurbjörnsson með góðum rökum og fleiri sem sendu um það umsagnir ...

Geta má þess, að sá, sem þetta ritar, hefur skrifað um það nokkrar greinar á þessu vefsetri sem og margar á Moggablogginu. Alllöng grein mín þar, að meðtöldum tilvitnunum í orð Karls biskups, birtist daginn eftir samþykkt ólaganna, ber þar yfirskriftina: 'Skammarlegasta frumvarp þingsins, um gernýtingu fósturvísa, samþykkt einum rómi !!!' og hefur fengið fjölda athugasemda, raunar margar frá mér sjálfum, sem stend þar all-einangraður í vörn fyrir siðræn gildi í málinu. Þá minnti ég aftur á málið í hádeginu í gær með stuttum pistli undir heitinu 'Róttækara frumvarp um fósturvísa en aðrar þjóðir vilja rennur í gegn án mótstöðu og fjölmiðlar nefna það ekki einu sinni!'

Það merkilega er, að það er eins og þögnin hafi gersamlega gleypt þetta mál, jafn-fréttnæmt og ískyggilegt sem það þó er, að Íslendingar ryðjist þannig fram til slíkrar gernýtingar (exploitation, Ausnutzung) þeirrar mannlegu lífveru sem fósturvísir er og hlaupi um leið fram úr öllum siðuðum nágrannaþjóðum.

Fordæmi sem þegar liggja fyrir um dráp fósturvísa
1. Það er vissulega ekkert nýtt, að hér séu fósturvísar drepnir, rétt eins og fóstur seinna á þroskaskeiðinu. Strax með lykkjunni var farið að tortíma fósturvísum, sem og, að talið er, með sumum gerðum 'pillunnar'.

2. "Næsti áfangi okkar Íslendinga" á þeirri braut var að velja þá tilhögun tæknifrjóvgunar, þar sem jafnan var og er (að nauðsynjalausu) reynt að frjóvga allnokkur egg úr hverri þeirri konu sem vill fá barngetnað, en "umframfósturvísarnir" síðan frystir til geymslu, ef á þyrfti að halda til tæknifrjóvgunar, unz eftir visst árabil er ákveðið að "henda" þeim eða farga. Þetta varð að sjálfsögðu handhæg réttlæting síðar (eins og t.d. nú á þessu löggjafarþingi) til að "liðka fyrir" því, að nota mætti fósturvísana "í stað þess að drepa þá". Er þetta enn eitt dæmið um það, hvernig hallar undan fæti í sleipri siðferðisbrekkunni (the slippery slope of a moral stance) og leiðin verður hæg til heljar fyrir mannlegt líf, þegar þá menn, sem áttu að standa í ístaðinu, brestur allar forsendur og fyrirstöðu til að hrinda af sér blíðmálgri, ásjónufagurri ásókn veraldarhyggjunnar. Þeir þóttust þá geta gert málamiðlun við samvizku sína, í stað þess einfaldlega að hlýða henni, og eiga síðan erfitt með að standa gegn frekari kröfum og landvinningum hinnar efnishyggjulegu dauðamenningar. Þannig fór með fósturdeyðingamálið á sínum tíma, og út frá því alvonda máli hafa varnirnar sömuleiðis veikzt fyrir nýfædd, fötluð börn.

En tæknifrjóvgun byrjaði sem sé fyrst fyrir (a) gift hjón, sem lengi höfðu glímt við ófrjósemi og var því einna auðveldast að afla samúðar til þess að keyra síðan á þessa ósiðlegu aðferð tæknifrjóvgunar, sem svo dýrkeypt er fyrir mannlegt líf á fyrstu stigum sínum.

3. "Tæknifrjóvgunardæmið" hélt síðan að blása út eins og gorkúla – og hefur vafalítið gert það að einhverju leyti vegna gífurlegs fjölda ófrjósemisaðgerða líka, bæði á konum og körlum, hér á landi, síðustu 10-15 árin. En útvíkkun þessarar aðferðar nær nú líka til (b) fólks í sambúð, sem og til (c) lesbía í staðfestri samvist, og nú er búizt við, að fyrir þingið verði lagt óheillafrumvarp um tæknifrjóvgun fyrir (d) einhleypar konur! Lokastigið á þessu ferli verður þá líklega það, að (d) karlmenn (ekki sízt samkynhneigðir!) fái, út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar*, að eignast tæknigetin börn með hjálp "leigumóður". Annars er of snemmt að spá fyrir um "lokastigið á þessu ferli", því að jafnan virðist hægt að fara út í enn meiri öfgar en mann óraði nokkurn tímann fyrir.

4. Eitt nýjasta megináhlaupið á fósturvísa var "neyðargetnaðarvörnin" svonefnda, sem ég hef fjallað um hér áður í allýtarlegri grein. Fyrir tilstilli þeirrar töflu, sem drepur fósturvísi í nánast annað hvert sinn sem hún hefur einhver áhrif, er nú sennilega verið að drepa nokkur hundruð fósturvísa hér á landi á hverju ári.

Það er því eðlilegt, ef einhver skyldi spyrja: Er þá nokkuð verið að auka á óhæfuna með samþykkt þessara laga Alþingis frá í fyrradag? Var ekki þegar verið að drepa fósturvísa, og er það öllu verra en að nota þá öðrum til hjálpar? Og er ekki ákvæði í þessum lögum sem beinlínis leggja bann við, að fósturvísir séu búnir til í þeim tilgangi einum saman að nota þá til tilrauna eða hagnýtingar í þágu annarra?

Svar mitt er, að vissulega er það, sem sagt var hér allra síðast, rétt eftir haft, en það breytir því ekki, að við höfum komizt á nýtt stig í siðferðislegri forherðingu, þegar við kjósum að nota eitt líf (ekki okkar sjálfra, heldur annarrar lífveru, sömu tegundar og við) til að freista þess að hjálpa einhverjum öðrum. Að gera tilraunir á slíku lífi, hluta það í sundur og brúka til þess, sem okkur þykir hentugt, er aldrei siðlegt. Hér er vert að minnast orða Karls biskups í þeirri álitsgerð sem hann sendi Alþingi.

Það hefur verið viðurkennd grundvallarregla að ekki sé heimilt að nota barn eða fóstur í rannsóknaskyni. Manneskja má aldrei vera hráefni eða tæki til annarra gæða. Ræktun og notkun stofnfrumna vekur spurningar um mannhelgi og virðingu fyrir lífinu. Grundvallarhugsunin um virðingu fyrir manngildinu og lotningu fyrir lífinu verður að ráða för.

Þessi orð hefði ég gjarnan viljað gera að lokaorðum mínum, en því er hins vegar við að bæta, að öll þessi mál og hvernig þeim er komið ættu að sýna okkur, hve brýnt það bæði var og er að beita sér gegn þeirri aðferð, sem valin var hér á landi til tæknifrjóvgana**, og gegn bæði lykkjunni, ef enn er notuð, og hinni rangnefndu "neyðargetnaðarvörn".

––––––––––––––––––
* Þ.e. í 65. gr. stjórnarskrárinnar: " ... Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."
** ...

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það eru þrír athyglisverðir fletir á þessu máli sem mig langar að minnast á. Í fyrsta lagi er þetta: Forsenda fyrir því að “gernýta” stofnfrumur fósturvísa og þar með um leið að binda enda á sjálfsætt líf þeirra eða lífsmöguleika er að því er virðist vanþróuð og brigðul tækni við tæknifrjóvgun sem gerir að verkum að fleiri fósturvísar eru búnir til en nauðsynlegt er. Hvað þá ef þessi tæknifrjóvgunartækni verður bætt eða löguð þannig að ekki falli til umframfósturvísar? Munu menn þar með hætta rannsóknum á þeim? Er það nú trúlegt ef þær rannsóknir verða búnar að vera í gangi í einhvern tíma og aðrar þjóðir eru mun frjálslyndari hvað það varðar og fordæmi eru fyrir lagasetningu þar sem rannsóknir af þessu tagi eru heimilaðar?

Í öðru lagi virðast þessar rannsóknir vera það skammt á veg komnar að fátt virðist fast í hendi um útkomu. Ef fyrir lægju öruggar tilraunir og verkferli um það hvernig stofnfrumur einhverra spendýra hefðu verið notaðar til að lækna alvarlega sjúkdóma í þessum dýrum gegndi kannski öðru máli, en í þessu ljósi kemur hraðinn við að koma þessu máli í gegn hér á Íslandi þar sem umfang starfsemi af þessu tagi er mjög lítið undarlega fyrir sjónir. Er kannski hugsanlegt að menn vonist til að hingað leiti áhættufjármagn á líftæknisviðinu, fjármagn sem leitar frá stöðum þar sem þrengri skorður eru settar fyrir þessa starfsemi? Ég spyr því ég veit ekki svarið, ekki af því að ég sé að gefa neitt í skyn, en endurtek bara að ferlið í ljósi þessarar stöðu mála kemur mér undarlega fyrir sjónir.

Í þriðja lagi er hið að því er virðist þegjandi samkomulag alþingismanna og fjölmiðla um þessi nýju lög. Hér er deilt meira um hvar bílhlöss af grjóti eru sett í vegi en þetta mál. Það þarf þó kannski engan að undra að svona fór í landi þar sem þegjandi samkomulag er um að gera ekkert til að breyta núverandi fósturdeyðingalögum. Alþingismenn í stjórnarandstöðu hafa greinilega metið stöðuna þannig að í þessu máli væri ekki eftir neinum atkvæðum að slægjast og mótstaða við frumvarpið gæti aðeins skaðað þá og þeirra flokk. Í þessu ljósi er þögn fjölmiðla um málið sérlega skiljanleg. Þetta er mál sem sátt er um á Alþingi og því er það ekki fréttnæmt. Öflugustu ljósvakamiðlarnir eru í eigu ríkisins og því er ekki að vænta frumkvæðis frá þeim. Það er líka svo að þegar hinir pólitísku leiðtogar taka ekkert frumkvæði þá er ekki að vænta mikils frumkvæðis frá öðrum aðilum, hvorki fjölmiðlum né almenningi. Þetta leiðir hugann óneitanlega að þeirri spurningu hvort þörf sé á að koma nýjum sjónarmiðum að í stjórnmálum, sjónarmiðum þar sem lífsvernd er gert hærra undir höfði en stjórnmálaflokkarnir vilja gera þegar á hólminn er komið.

03.04.08 @ 19:36
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er frábærlega vel upp byggt, málefnalegt og gefandi innlegg frá þér, Ragnar, afar sterkt að vægi, þótt málfarið og rökhyggjan sé sem slík mótuð af hófsemd og yfirvegun, og mun ég sýna meiri viðbrögð við þessu þegar ég kemst til þess – og eins á Moggabloggi mínu. – Með kærri kveðju og þakklæti.

03.04.08 @ 21:46
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software