« Andtrúarróttæklingar höfðu hálfan sigur á landsfundi undarlegra 'íhaldsmanna'Kristnir málefnahópar í stjórnmálaflokkunum »

28.03.09

Barizt um hjónabandið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Mjög alvarleg tillaga var hluti af drögum að ályktun fjölskyldunefndar Sjálfstæðisflokksins, sem fyrir lágu, þegar landsfundur kom saman í fyrradag. Tvenns konar árás á kristinn sið og kristin gildi felst í þeim:
1) að hjónavígsluréttur verði tekinn af kirkjum og trúfélögum; 2) að hjónabandið verði formlega "afkynjað" – látið ná jafnt yfir hjónaband karls og karls eða konu og konu eins og hið náttúrlega hjónaband karls og konu. Að þvílík tillaga komi fram á flokksþingi þeirra, sem íhaldssamastir eru taldir á stjórnmálasviðinu, sýnir ljóslega, hversu alvarlega er sótt að kristnum grundvallargildum á þeim vettvangi.

Á landsfundinum er uppi virkt og vonandi árangursríkt varnarstarf gegn þessari tillögu, en endanleg ákvörðun fundarins verður þó ekki ljós, fyrr en allsherjarfundur hinna 1900 landsfundarfulltrúa hefur tekið afstöðu til tillagna þessarar róttæku fjölskyldunefndar.

Drögin eru þannig:

Málefni samkynhneigðra
Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum og skilgreiningu á hjónabandinu verði breytt þannig að á Íslandi gildi einungis ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða.

Sjálfstæðisflokkurinn telur óeðlilegt að forstöðumenn trúfélaga hafi á sínum höndum þann löggjörning sem hjónavígsla felur í sér. Sá gjörningur skal vera á höndum ríkisvaldsins og þá munu trúfélög hafa sjálfdæmi um það hvers konar sambúðarform hljóta blessun innan vébanda þeirra.

Allir einlæglega kristnir menn hljóta að sjá, hvílíkt áhlaup þetta er á kristilegt hjónaband (sjá einnig HÉR). Og þetta kemur upp í flokki, sem um margra áratuga skeið lýsti því yfir, að hann styddi kristna trúararfleifð, fjölskyldugildi og siðferði. Því miður gerðist það á síðasta landsfundi, að slíkt ákvæði landsfundaryfirlýsingar var formlega fellt niður, mörgum kristnum mönnum til undrunar og sársauka. En í reynd er þetta í fullum takt við andkristna stefnu flokksins í mörgum málum á þessari 21. öld (m.a. með lögleiðingu vændis, tilrauna og gernýtingar á fósturvísum og með ýmsum tízkufrumvörpum sem beinast gegn kristnum fjölskyldugildum og öryggi barna; sbr. einnig þessa grein).

Meðferð málsins í fjölskyldunefnd

Jafnan starfa málefnahópar flokksins nokkra mánuði fyrir landsfund. Þessi tillaga var hluti af tillögum hennar (þær eru HÉR í heild). Á landsfundinum eru þær svo teknar fyrir í sömu nefnd, en útvíkkaðri, með frjálsri þátttöku hvaða landsfundarfulltrúa sem áhuga hafa á þessum málaflokki umfram önnur nefndastörf.

Tveir fundir voru haldnir í þeirri nefnd, í gærkvöldi og í morgun. Tóku sennilega um 60 menn þátt í fundinum í gærkvöldi, en 30–40 í morgun skv. fréttum sem höfundi þessarar greinar hafa borizt úr nefndinni. Hafa komið fram breytingartillögur til góðs, en vegnað misjafnlega. Þó hefur málið þokazt mjög í rétta átt, samkvæmt samþykktum nefndarinnar í dag. Þá er reyndar eftir endanleg afgreiðsla landsfundarsamkomunnar, en þar geta komið fram breytingartillögur og niðurfelld ákvæði jafnvel verið endurreist til lífs.

Séra Geir Waage í Reykholti bar í gær fram frávísunartillögu um alla þá tillögu, sem birt var hér ofar. Sú frávísunartillaga var felld með um 2/3 atkvæða, og vildi hann þá ganga af fundi og hafði við orð, að honum væri skapi næst að segja sig úr flokknum. Er hann þó einn af traustustu mönnum hans og talar þar jafnan á landsfundum, vinsæll maður og ráðagóður.

Þá kom fram breytingartillaga um að fella burt orðin "og skilgreiningu á hjónabandinu" í fyrri málslið tillögunnar, og var hún samþykkt – þar stendur þá eftir:

Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum verði breytt þannig að á Íslandi gildi einungis ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða,

og er það ærin árás á kristna siðvenju í sjálfu sér.

Önnur breytingartillaga kom fram, raunar með allt öðru orðalagi, en til að lina ályktunina, þó með vissri málamiðlun við hana og fyrri stefnu landsfundar 2007, en sú tillaga hlaut ekki samþykki, e.t.v. vegna lengdar hennar.

Í morgun gerðist það svo á fundi nefndarinnar, að 11. málsgrein ályktunardraganna, þ.e.a.s. allur seinni málsliðurinn ("Sjálfstæðisflokkurinn telur óeðlilegt .... vébanda þeirra.") var felldur burt. Það er vissulega sigur fyrir kristið fólk og kirkjur í landinu, því að þar með er ekki lengur reynt að leggja hjónavígslugerninginn alfarið undir ríkisvaldið og afnema kirkjubrúðkaup – enda hefði það verið saga til næsta bæjar, ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði gengið svo langt í ríkisvæðingu sinni og andstöðu við óskir og venjur alls þorra landsmanna!

Í stað þessa niðurfellda ákvæðis kom fram viðaukatillaga, frá sömu kristnu mönnum, og hljóðaði þannig:

Tryggja skal, að trúfélög hafi sjálfdæmi um, hvaða hjúskaparform tveggja einstaklinga hljóti blessun innan vébanda þeirra.

Þessi tillaga var einnig samþykkt, og ber að fagna því, þó að hér sé því raunar sleppt að amast algerlega við "afkynjuðum" hjónaböndum (trúfélögin hafa þó frelsi til þess samkvæmt tillögunni). En með þessu er varðveittur réttur fólks til að gifta sig í kirkju fremur en hjá sýslumanni, og frelsi kirkjunnar er sömuleiðis óskert.

Þannig stendur þá málið eftir seinni fund fjölskyldunefndar, sem þannig gekk frá málinu, og mun mörgum vera létt að sjá hér þessi ályktunardrög í miklu skapfelldari búningi. En ekki er sopið kálið, fyrr en í ausuna er komið, og verður að bíða endanlegrar afgreiðslu landsfundarins, áður en við höfum fullvissu fyrir því, að ekki fari verr en nú horfir.

Allt þetta mál sannar, svo að lengur verður naumast um efazt, nauðsyn þess, að stofnaðar verði kristnar málefnanefndir í öllum stjórnmálaflokkunum.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Athyglisvert er að kynjakvótarnir, þ.e. reglan um jafnan fjölda af báðum kynjum skuli ekki eiga að ná yfir hjónabandið, en eiga samt að gilda um framboðslista og rætt hefur verið að þeir eigi að gilda líka um stjórnir félaga þó það skref hafi ekki verið stigið ennþá.

Segja má að þetta sé dæmi um árangursríka baráttu þeirra þjóðfélagshópa sem sótt hafa þessi réttindi, þ.e. um hjónabandslög óháð kynferði. Spurning hverjir munu vilja sækja sinn rétt næst, kannski þeir sem vilja fá að giftast fleirum en einum?

Ef ríkisvaldið ákveður að halda sig algerlega innan ramma borgaralegra og réttinda sem mótuð eru af veraldlegum viðhorfum og láta skoðanir trúfélaga sig engu eða litlu varða, jafnvel þó að um sterkar hefðir sé að ræða þá gætu málin þróast í þessa átt. Sú undantekning er þó á þessari framtíðarsýn að þetta sama ríkisvald gæti viljað hafa kynjakvóta á fjölda aðila í félaginu, svo fremi að ekki sé um hjónaband að ræða m.v. nýjustu fréttir.

Það vekur aftur upp þá spurningu af hverju kynjakvótar eigi ekki að gilda um hjónabönd en eigi samt að gilda um flest önnur félög? ég held að það sé íhugunarefni hvað það er í í nútímanum sem orsakar þessa mótsögn og um leið er þessi þróun áskorun fyrir þá sem vilja halda í hefðbundin sambúðarmynstur samfélagsins. Áskorun sem felur í sér að verða að samþykkja gerólíkt gildismat en það sem hefur gilt um aldir í okkar heimshluta.

Kannski felast í þessu sóknarfæri fyrir þá sem vilja fara hefðbundnar leiðir því ef nútíminn hefur gleymt því af hverju hann er eins og hann er, þá er auðvitað ekkert sjálfsagðara fyrir hann en fara í dálitla upprifjun. Eins og þróun mála er í dag er því lítið hægt annað en að vona og trúa að sú upprifjun muni þá að öllum líkindum ekki verða þeim í óhag sem aðhyllast kristin viðhorf í sifjamálum, og þá á ég við klassísk kristin viðhorf.

28.03.09 @ 15:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég þakka þér, Ragnar, fyrir gott innlegg með þinum athyglisverðu ábendingum. Þetta um kynjakvótana er vel til fundið um þessa félagsstofnun sem hjónabandið er.

Þú imprar á þeirri frekari þróun frá hefðbundnum háttum, sem búast mætti við hér, og vissulega sér maður víða taumlausa stefnu farna að hasla sér völl, ófeimna við að storka virðulegri hefðum, og er þetta áhyggjuefni augljóst þeim sem virða þetta vel fyrir sér.

Þú endar á vonarfullum atriðum, og ég þakka þér.

29.03.09 @ 01:00
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

open source blog