« SÝRACUSA Á SIKILEY 1953: HIN GRÁTANDI GUÐSMÓÐIR Á HEIMILI JANNUSOHJÓNANNA (9) Guðspjall dagsins »

08.01.07

  10:17:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1913 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

BANNEUX Í BELGÍU 1933: MÓÐIR HINNA ANDLEGU SNAUÐU (8)

banneux_1

HIN BLESSAÐA MEY Í GARÐI BECOFJÖLSKYLDUNNAR

Í upphafi hljómuðu þessar fréttir um hina blessuðu Mey hneykslanlega í eyrum hins guðhrædda Abbé Louis Jamin, sóknarprests í Banneux. Hann hafði þekkt þessa stúlku, Mariette Beco, síðastliðin fimm ár. Það var klukkan sjö að kveldi þess 15. janúar árið 1933 þar sem þær Mariette og móðir hennar voru enn önnum kafnar við húsverkin þar sem þetta byrjaði allt saman. Mariette hafði sest á litla bekkinn við gluggann sem snéri út í garðinn, þegar hún tók skyndilega eftir ljósi þarna úti í myrkrinu. Hún sá konu í myrkrinu þetta vetrarkvöld sem stóð til hægri við hana þaðan sem hún horfði. Það virtist lýsa af konunni. Fyrstu viðbrögð hennar voru einungis að segja: „Ó!“

Þessi tólf ára gamla stúlka var furðu lostin að sjá hið eggmyndaða ljós sem umvafði líkama konunnar, hið sama og umvafði hana í opinberuninni á Teypeyachæðinni í Mexíkó 400 árum áður. Hún var íklædd tandurhreinum og skjannahvítum kyrtli. Kyrtilfaldur hennar lyftist aðeins frá jörðu þar sem Mariette sá í hægri fót henni þar sem sjá mátti gullna rós. Rósakrans sem virtist vera úr demöntum hékk á hægri armlegg hennar í gullinni keðju. Hendur konunnar voru samanluktar líkt og í bæn.

MAMMA MARIETTE SKELFINGU LOSTIN

Mariette nuddaði sér um augun og kenndi olíulampanum um þessar sjónhverfingar. En konan stóð þarna áfram og brosti til hennar, þannig að Mariette kallaði til mömmu sinnar: „Mamma, það er kona þarna úti í garðinum!“ „Vitleysa!“ svaraði frú Beco, en Mariette stamaði: „Falleg kona í skrúðklæðum, hvítum kyrtli og í blárri kápu.“ Frú Beco kímdi og sagði: „Jæja já! Líklegast Guðsmóðirin.“ En síðan leit hún sjálf út um gluggann og greindi hvítt ljós í konulíki, en gat ekki séð hana eins greinilega og dóttir hennar og sagði skelfingu lostin: „Þetta er norn!“ og dró gluggatjaldið fyrir gluggann. Nú var Mariette alveg viss um að hún sæi eitthvað, dróg gluggatjaldið frá og sagði með sannfæringarkrafti: „Nei, þetta er í raun og veru blessuð Guðsmóðirin. Hún brosir til mín. Hún er svo falleg.“

Fyrir tilviljun hafði hún fundið rósakrans og tók nú að biðja og eftir nokkrar deildir sá Mariette hvernig konan bærði einnig varirnar og nú gerðist einstæður atburður sem var með öllu óþekktur í fyrri Maríuopinberunum: Konan hóf vinstri hendinni á loft og benti Mariette að koma til sín með vísifingrinum. Þegar hún hljóp að útidyrunum varð móðir hennar fyrri til og læsti þeim. Mariette hraðaði sér aftur að glugganum, en konan var horfin. Hún kraup niður og bað rósakransbænina í um það bil tíu mínútur.

ANDHVERFUR VERALDARHYGGJU OG TRÚAR

Hvað er það sem gerir opinberanirnar í Banneux svo athyglisverðar í þessu lítt þekkta þorpi sem einungis er unnt að finna á landakortu með því að rekja sig út frá borginni Liége í samnefndu héraði í austurhluta Belgíu? Það er það sem Robert M. Maloy, SM., sagði: „Hið undursamlega verk hinnar blessuðu Meyjar í Banneux felst í því að umvefja líf náðarinnar móðurörmum sínum í öllum meðlimum hins leyndardómsfulla líkama Krists.“ Þessi sannleikur er í raun og veru sá sami og okkur opinberast sífellt að nýju, hið yfirskilvitlega verk heilags Anda og brúðar hans sem miðlara allrar náðar. Við sjáum þetta hlutverki hennar sem hinnar lifandi arkar hins Nýja sáttmála áþreifanlega í orðunum hér að ofan: „Mariette kraup niður og bað rósakransbænina í um það bil tíu mínútur.“ Það var þessi leyndardómur sem varð þess valdandi að þessi belgíska telpa féll saman þegar hin sæla Guðsmóðir leið yfir furutrén og kvaddi hana í hinsta sinni með orðunum: „Vertu blessuð – þar til við sjáumst í Guði,“ og faðir hennar varð að bera hana heim í fanginu og leggja hana í rúmið í bakherbergi hins lágreysta hús Beco fjölskyldunnar sem regnið buldu látlaust á.

Það var gert grín að henni og hún varð jafnvel að sæta barsmíðum skólafélaga sinna og faðir hennar var hafður að háði og spotti á fundunum í sósíalistafélaginni sem „stólpi kirkjunnar!“ Það var í annarri opinberuninni sem hann tók að trúa á það sem var í raun og veru að gerast. Honum var kunnugt um myrkfælni Mariette og fylgdi í humáttu á eftir henni þegar hún læddist skyndilega út klukkan sjö á miðvikudagskvöldið og hann varð vitni að því þegar hún kraup niður til að biðja rósakransinn:

Tilraunir hans til þess að fá hana til að rísa á fætur í þessu myrkri og kuldanepju báru engan árangur. Af einhverrum ókunnum ástæðum gat hann ekki fengið sig til að snerta við henni. Skyndilega sá hann hvernig barnið hóf hendurnar á loft. Það var einungis Mariette sem sá Guðsmóðurina birtast að nýju í dýrðarljóma þar sem hún nálgaðist jörðu á milli tveggja stórra furutrája. Smám saman varð hún stærri og brátt stóð hún um það bil í meters fjarlægð frá telpunni og stóð á gráleitu skýi í um það bil þrjátíu sentímetra hæð frá jörðu. Mariette veitti því athygli hverni höfuð hennar var umvafið ljósgeislum, sem voru einna líkastir löngum og stuttum „blýöntum“. Hún lagði lófana saman og varir hinnar blessuðu Meyjar bærðust líkt og hún tæki undir rósakransbæn Mariette, en hún snerti ekki perlurnar á hvíta rósakransinum sem hékk á hægri handleggi hennar. Meðan á þessu stóð gekk faðir hennar áhyggjufullur inn í bakgarð hússins, snéri síðan til baka, gekk að útidyrunum, skellti þeim aftur og snéri lyklinum í skránni með miklum hávaða. Síðan kom hann út aftur og hrópaði: „Þú ert örugglega að missa vitglóruna!“ Þrátt fyrir þessi áhyggjumerki, þá óttaðist hann engu að síður að snerta telpuna.

HERRA BECO GENGUR Á FUND SÓKNARPRESTSINS

Hann vissi ekki hvað hann ætti að grípa til bragðs og ákvað að líta við hjá Abbé Jamin, en hann var ekki enn kominn úr hinni vikulegu ferð sinni til Liége. Faðir Mariette var með öllu friðlaust og nú datt honum í hug að ná í frænda sinn sem snéri til baka með honum ásamt ellefu ára gömlum syni sínum. Hinn sæla Mey gaf Mariette nú aftur merki með fingrinum um að fylgja sér og leið áfram í loftinu á skýinu í gegnum op á limgerðinu og Mariette fylgdi henni eftir. Faðir hennar hrópaði í örvæntingu: „Hvert ertu að fara? Snúðu við!“ Svar Mariette var afdráttarlaust: „Hún er að segja mér að koma!”

Þrisvar sinnum nam Mariette staðar á veginum og féll á hnéin á gaddfreðna jörðina. Skyndilega beygði telpan til hægri út af veginum og féll til jarðar við uppsprettulind sem ekki hafði verið þarna áður. Guðsmóðirin sagði: „Stingdu höndunum í vatnið. Þessi lind er eign mín. Vertu blessuð.“ Opinberuninni var lokið og hin blesssaða Mey hvarf sýnum yfir furutrjánum við lindina.

RÁÐÞROTA SÓKNARPESTUR LEITAR HJÁLPAR

Faðir Jamin var einnig ráðvilltur og ákvað að taka benediktusarprest nokkurn, föður Boniface del Marmol, með sér til Banneux. Hann hafði greint prestinum frá því að hann vildi fá eitthvað teikn til staðfestingar á því sem hér ætti sér stað, „til dæmis, að faðir Mariette snérist til trúar!“ Þeir komu til heimils Beco fjölskyldunnar klukkan í kringum tíu um kvöldið og Mariette var í fastasvefni. Það var nú sem enn annað kraftaverk átti sér stað: Faðir Mariette kom að máli við Abbé Jamin og bað um að mega koma til skrifta daginn eftir og meðtaka altarissakramentið. Guðsmóðirin hafði hafið perestroiku sína og glasnost í hjörtum fólksins í Banneux!

Þetta er sjálfur kjarni boðskaparins í Banneux, kjarni sjálfs fagnaðarerindisins: Að mannssálin snúi sér með opnu hjarta til Drottins Jesú Krists. Og það er hin blessaða Guðsmóðir sem leiðir okkur til þessarar uppsprettu allrar náðar sem hún var fyllt og það er hún sem miðlar okkur af þessari fyllingu sinni í myrkri trúarinnar. Það er þetta sem við sjáum gerast með áþreifanlegum hætti á heimili Becofjölskyldunnar. Hún kemur til hinna snauðustu allra snauðu til að gefa þeim hlutdeild í þessari náð sinni: Til þeirra sem veraldarhyggjan hefur svipt allri von!

Faðir Mariette var ekki einungis snauður í efnalegu tilliti. Hann var örsnauður með andlegum hætti og hafði verið rifinn upp með rótum úr arfleifð kirkjunnar eins og milljónir samferðamanna hans. Sunnudagurinn 15. janúar 1933 var á engan hátt frábrugðin öðrum slíkum á heimili Beco fjölskyldunnar. Enn einn sunnudagurinn leið án þess að fjölskyldan sækti messu. Þegar Mariette tilkynnti föður sínum aðeins rúmlega mánuði áður, að hún ætlaði sér ekki að sækja trúfræðslu hjá föður Jamin til undirbúnings fyrir fermingu sína, var það auðsótt mál. Þegar á þriðjudeginum eftir fyrstu opinberunina tók hún að sækja að nýju trúfræðslutímana og þann 12. febrúar 1933 – en daginn áður hafði hún enn einu sinni séð hina blessuðu Mey og Himnadrottningu – meðtók hún í hjarta sínu hinn himneksa fjársjóð, Jesús. María hafði leitt hana til Sonar síns.

Allar opinbernanirnar í Banneux bera þessum sannleika vitni. Þrátt fyrir að Guðsmóðirin birtist Mariette ekki frá 20. janúar til 11. febrúar eða frá 20. febrúar til 2. mars, þá auðsýndi Mariette stöðuglyndi sitt og kom á hverju kveldi klukkan sjö og baðst fyrir þrátt fyrir snjókomu, vindgnauð og úrhellisrigningu, allt upp í þrjár stundir í senn. Í raun og veru eiga opinberanirnar í Banneux sér stað við ömurlegustu ytri aðstæður sem hugsast getur meðal fólks sem var svo snautt, að það hafði jafnvel glatað sjónar á Guði. En boðskapur hinnar blessuðu Meyjar rættist til fulls sem hún flutti Mariette þann 11. febrúar árið 1933, “Je vines soulagare la suffrance – Ég er komin til að létta þjáningar ykkar.“ Orð hennar enduróma í hjörtum þeirra sem ljúka þeim upp fyrir þessum sannleika: „Adieu – þar til við sjáumst á himnum!“

Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990 og á
http://www.marypages.com/banneux.htm

No feedback yet