« Ritningarlesturinn 23. september 2006Ritningarlesturinn 22. september 2006 »

22.09.06

  08:22:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 825 orð  
Flokkur: Bænalífið

Bænin fyrir öllum íbúum jarðarinnar

S. l. miðvikudag vék ég að mikilvægi bænarinnar fyrir öllum íbúum jarðarinnar: SJÁ. Hún er samofin boðorðum Drottins og enginn sá sem hlýðnast þeim ekki getur nálgast Guð vegna þess að náð Guðs lifir ekki í honum. Æðst þessara boðorða og uppfylling þeirra allra eru þessi:

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?" Jesús svaraði: „Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.' Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.' Ekkert boðorð annað er þessum meira" (Mk 12. 20-32).

Og í Jóhannesarguðspjalli lesum við: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars" (Jh 13. 34-35). Og á öðrum stað:

„Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“ (Jh 14. 15).

Hann áminnti okkur jafnframt á að án sín gætum við ekkert gert: „Án mín getið þér alls ekkert gjört“ (Jh 15. 5) og bætti við: „En hjálparinn, Andinn Heilagi, sem Faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður“ (Jh 14, 26). Við getum því hvorki elskað Guð fremur en náunga okkar nema helgandi náð Heilags Anda glæði þessa elsku og þetta tvennt er óaðskiljanlegt: Eftir því sem við elskum Guð meira elskum við jafnframt náunga okkar meira. Heil, Silúan frá Aþosfjalli varði öllu sínu lífi í fyrirbæn fyri íbúum jarðarinnar vegna þess að hann elskaði Guð afar heitt. Því sagði hann að bræður okkar og systur (líka hin ófæddu og þau sem sofnuð væru í Kristi) væru líf okkar.

Í pistli mínum vék ég að því að þetta væru lokaorð Maríubænarinnar: Heilaga María Guðsmóðir. Bið þú fyrir oss nú og á dauðastund vorri. Þetta dýpkar því skilning okkar á þessari heilögu bæn kirkjunnar. Þegar við biðjum helgandi náð Heilags Anda að glæða með okkur elskuna til náunga okkar, langar mig núna að sýna ykkur hvernig við getum unnið með hinni helgandi náð og gert takmark okkar eitt og hið sama og hennar: Að uppfylla boðorð Krists. Það felst í því að ganga í BRÆÐRALAG GÆSKUNNAR! Það teygir anga sína meðal kaþólskra karla og kvenna um alla jarðarkúluna. Það eina sem krafist er til inngöngu er VILJAÁSETNINGURINN EINN. Bræðralag gæskunnar felst í eftirfarandi þremur atriðum:

(1). Að hugsa aldrei fjandsamlega um nokkurn karl eða konu.
(2). Að tala aldrei illa um nokkurn karl eða konu.
(3). Að koma aldrei illa fram við nokkurn karl eða konu.

Þessar þrjár dyggðir krefjast þess að sjálfsögðu að þeim sé framfylgt í verki og hin virka náð mun vissulega gera okkur þetta kleift. En þessum þremur dyggðum fylgir vitaskuld einnig ákvæði um iðrun. Þau felst í eftirtöldum atriðum:

(a) Að fara með stutta fyrirbæn fyrir fórnardýri illsku okkar sökum ódrengskaparhugsunarinnar sem glæddist í hjartanu og kemur frá Satan.

(b) Að auðsýna fórnardýri illsku okkar einhvern kærleiksvott áður en sólin sest, og ef slíkt er ekki unnt, þá að fara með miskunnarbæn fyrir hinum sama enn einu sinni: Kristur Drottinn, miskunna þú honum og jafnframt fyrir okkur sjálfum: „Jesús, auðmjúkur og af hjarta lítillátur. Gef að hjarta mitt megi samlíkjast þínu hjarta. “

Svona einfalt er þetta. Nú getum við tekið af hreinu hjarta og huga undir fyrirbæn heil. Silúans fyrir öllum íbúum jarðarinnar:

Miskunnsami Drottinn!
Ég bið þig um að allir
íbúar jarðarinnar
læri að þekkja þig
fyrir Heilagan Anda!

Við biðjum hvorki fyrir heiminum eða syndum heimsins, eins og Drottinn uppfræddi okkur um: „Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir“ (Jh 17. 9) vegna þess að náð Heilags Anda kennir okkur að hata syndir heimsins. Við biðjum fyrir fórnardýrum Satans í heiminum: Að náð Heilags Anda megi snerta skynlaus hjörtu þeirra. Svona einfalt er þetta og þannig öðlumst við „náð á náð ofan“ vegna þess að Jesús elskar alla menn og „Drottinn vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1Tm. 2. 4.)

No feedback yet