« Hið eina sem nauðsynlegt er til þess að hið illa sigriHvers vegna ræður kirkjan til pílagrímsferða? »

15.05.06

  21:21:34, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 239 orð  
Flokkur: Bænir

Bæn til Maríu Stjörnu hafsins

María, Stjarna hafsins lít þú hingað til mín,
þar sem ég krýp frammi fyrir náðarhásæti þínu,
þar sem svo margir sem elska móðurhjarta þitt
hafa orðið aðnjótandi hinnar mestu náðar,
þar sem þú hefur aflað hryggum huggunar,
fátækum hjálpar, sjúkum heilbrigði, syndurum fyrirgefningar.

Kær móðir mín ég kem til þín með mínu mesta trúnaðartrausti.
Kraftaverkin mörgu sem gerst hafa fyrir bænarstað þinn, veita mér, vesælum syndara, bjargfasta von um að þú,
móðir miskunnarinnar, viljir líka hlýða á bæn mína.

Já, ég ákalla þig og bið, unaðslega móðir,
elskuverða Stjarna hafsins,
lát þú mig ekki fara héðan án bænheyrslu.

Þú getur hjálpað mér, því að þú er máttugust næst Guði,
þú ert fús til að hjálpa mér,
því að þú ert full kærleika til allra barna þinna.

Minnstu þess, miskunnsama móðir,
að aldrei hefur verið sagt að neinn,
sem leitað hefur verndar þinnar með trúnaðartrausti,
hafi farið bónleiður frá þér.
Ætti ég þá að vera fyrsti vansæli maðurinn
sem þú létir frá þér fara án bænheyrslu? Nei, nei, góða móðir.

Á þessum helga stað getur þú, fyrir máttuga fyrirbæn þína, aflað mér hjálpar í neyð minni og huggunar í kvöl minni. Amen.

15 athugasemdir

Kristinn Ásgrímsson

Athyglisverð bæn í ljósi heilagrar ritningar.
Hvar talar biblían um:
1.Náðarhásæti Maríu?
2.Að María fyrirgefi syndir?
3.Að María heyri og svari bænum?
4.Að María sé máttugust,er hún máttugri Guði föður þá?
5. Er hún nær Guði en Jesú?
Eða flokkast þessi bæn undir kaþólska hefð,utan kenningar biblíunnar ?

17.05.06 @ 19:48
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þú veist það væntanlega Kristinn, að iðulega leita hinir trúuðu fyrirbæna fólks á jörðu. Þannig vill Guð hafa þetta. Hvað sérð þú þá athugavert við það að hinir heilögu sem vörðu lífi sínu á jörðu til að biðja fyrir öðrum haldi því áfram á himnum. Heldur þú kannske að þeir gleymi okkur?

Sami Heilagur Andi fyllir allt í öllu og sameinar hina stríðandi kirkju á jörðu og hina sigrandi kirkju á himnum. Já, þetta er svo sannarlega óaðskiljanlegur hluti hinnar heilögu arfleifðar bæði innan Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar.

Það er satt best að segja dálítið þreytandi að hlusta sífellt á bollaleggingar mótmælenda sem afneitað hafa hinni heilögu arfleifð. Hvernig getur nokkrum manni dottið sú firra í hug að hin Alhelga (Panhagian) standi Guði nær en Jesús? JESÚS ER GUÐ. En hún hugsar jafn mikið um okkur í móðurelsku sinni eins og þegar hún bað með postulunum í Jerúsalem fyrir komu Heilags Anda, eins og lesa má um í Postulasögunni.

Heilaga María Guðsmóðir. Bið þú fyrir okkur nú og á dauðastundu vorri! Þetta hefur verið ákall kirkjunnar frá upphafi vega: Panhagia despoina Theotoke, sozon hymas segja bræður okkar og systur í Austurkirkjunni. Alhelga Mey og Guðsmóðir, bjarga okkur!

Ég vil síðan í áframhaldi af þessu visa til greinar sem mun birtast innan skamms sem fjallar um Maríu Guðsmóður sem hina Fyrstu örk hins Nýja sáttmála. Rétt eins og Hebrearnir fylgdu sáttmálsörkinni í eyðimörkinni fylgir kirkjan Maríu Guðsmóður sem Fyrstu sáttmálsörk hins Nýja sáttmála í hinni nýju herbúðarskipun Drottins sem hann innleiddi með Holdtekju sinni á jörðu.

17.05.06 @ 20:28
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

1.
Um sérstaka náð Guðs til Maríu meyjar má lesa í Lúk.1, 28-30:

Og engillinn kom inn til hennar og sagði: “Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.” En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: “Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði.

Síðar í Lúk. 1, 41-45 segir svo:

Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði hárri röddu: “Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni.”

Hér kemur eftirfarandi fram:
a) Hún nýtur náðar Guðs - hefur fundið náð hjá Guði.
b) Drottinn er með henni.
c) Hún er blessuð meðal kvenna.
d) Hún er móðir Drottins.
e) Hún er sæl.

Í þessu samhengi er ekki svo fráleitt að tala um náðarhásæti - enda hefur engri annarri hlotnast sú náð að verða móðir Drottins.

2.
María fyrirgefur ekki syndir enda er þess ekki beiðst í bæninni heldur er sagt:

þar sem þú hefur aflað hryggum huggunar,
fátækum hjálpar, sjúkum heilbrigði, syndurum fyrirgefningar

Það að afla fyrirgefningar er ekki hið sama og að fyrirgefa, í bæninni er það María sem aflar fyrirgefningar Guðs sem meðalgangari milli Guðs og mannsins sem mælir fram bænina.

3.
Hver einasti í samfélagi heilagra getur heyrt bænir og kosið að verða við þeim eða ekki. Hinir heilögu eru meðalgangarar milli Guðs og manna. Með því að þeir verði við bænum er átt við að þeir flytji mál þess sem bænina biður og gerist talsmenn þeirra frammi fyrir hásæti Drottins.

4.
María er ekki máttugri Guði, en hún er máttugust í samfélagi heilagra, eða eins og segir orðrétt: „Þú getur hjálpað mér, því að þú er máttugust næst Guði“.

5.
Er hún nær Guði en Jesú? Nei það er hún ekki. Jesús er Guð, sonurinn í hinni heilögu þrenningu. María Guðsmóðir er ekki hluti þrenningarinnar, en líklega er erfitt að rökstyðja í ljósi ritningarinnar að nokkur postulanna nái stöðu hennar því hún er móðir Sonarins, dóttir Föðurins og maki Heilags Anda.

Flokkast bænin undir kaþólska hefð utan ritningarinnar?
Mér er ekki kunnugt um neinar kaþólskar hefðir sem ganga í berhögg við Heilaga ritningu. Heiðrun Maríu Guðsmóður var óslitin frá upphafi, frá því hún stóð við krossinn og bað síðar með postulunum í loftstofunni. Sú hefð rofnaði ekki hér í Norður-Evrópu fyrr en með siðbreytingunni.

Einn góður maður notaði oft dæmisögu um málverk til að skýra stöðu Guðsmóðurinnar. Hann sagði eitthvað á þessa leið: Hugsum okkur að frægur málari sem hefði málað margar myndir málaði nú sína fegurstu mynd og hengdi hana upp. Þessa mynd sæju margir menn og bæru mikið lof á myndina fyrir stórkostlegt handverk. Væru þeir á nokkurn hátt að flytja málverkinu lof? Nei það væri firra að láta sér detta það í hug, með lofi sínu um málverkið væru þeir auðvitað að lofa meistara þess, málarann sem málaði myndina. Á sama hátt erum við ekki að tilbiðja Maríu Guðsmóður þó við lofum hana, leitum meðalgöngu hennar og gefum henni sæmdarheiti, því það lof sem henni er flutt er að sjálfsögðu allt Guðs, skapara hennar.

Menn hafa líka sagt eitthvað á þessa leið: Ég vil biðja beint til Guðs. Vitaskuld er það gott og rétt. Að sjálfsögðu eiga menn að biðja til Guðs Föðurins, Sonarins og hins Heilaga Anda. Slíkar bænir útiloka samt ekki né hindra að leitað sé til sérstakra manna sem við getum kallað helga, lifandi eða látinna um fyrirbænir.

18.05.06 @ 18:16
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Gulllok arkar hins Gamla sáttmála var nefnt náðarsæti og sem Fyrstu sáttmálsarkar hins Nýja sáttmála var hið Flekklausa Hjarta Maríu náðarhásæti Guðs sem endurspeglaði dýrð hans, líkt og sekhínadýrðin hvíldi yfir náðarsæti arkar Gamla sáttmálans. Sjá lok Hugleiðingar 79 í Tjaldbúð Móse. Þar getur Kristinn séð undurfagra umfjöllun um fyrirbænaþjónustuna sem er í reynd skrifuð að mótmælandanum Hjalmar Ekström, þannig að sumir mótmælemdur eru að minnsta kosti sammála kaþólskum um þá sál sem verður að staðgengli Krists á jörðu í fyrirbænaþjónustunni:

TENGILL

18.05.06 @ 18:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka ykkur, bræður. Þetta er í senn góð guðfræði og heilagrafræði. Mér fannst ég (í fljótfærni) vera að lesa Jón Rafn áfram, Ragnar, þegar ég var kominn inn í þitt innlegg, taldi hann þá vera að útleggja með enn ýtarlegri og ekki síðri hætti það, sem hann sagði strax á eftir innleggi bróður Kristins (forstöðumanns Fíladelfíu í Keflavík). Ég gleðst yfir einingu ykkar og styrkleika í svörum ykkar og ekki sízt yfir svari þínu, Ragnar – þú ert ekki gamall (þó ungur!) Maríulegíónarmaður fyrir ekki neitt. Hitt var vitað, að Jón Rafn er rótfastur í hinni heilögu arfleifð kirkjufeðra og helgra manna fyrr og síðar, sem báru engan kinnroða fyrir að bera kenningu kirkjunnar um heilaga Guðsmóður vitni.

Má ég bæta einu við: Hinrik biskup Frehen, sællar minningar, doktor í guðfræði og mikill Biblíufræðingur (biskup í Landakoti, ef ókaþólskir minnast hans ekki), miðlaði mér þeirri vitneskju úr fræðaheiminum, að orðin í Lúk.1.42: “Blessuð ert þú meðal kvenna,” eru svokallaður hebraismi, þ.e. hebreskt málfarseinkenni, sem merkir hér í raun: þú ert hin blessaðasta af öllum konum. Og hver mótmælir því, að svo hafi verið? (Athugið: hebreskan hafði ekki stigbreytingu lýsingaorða; því varð að segja hlutina öðruvísi en gert er í germönskum tungumálum).

Kristinn Ásgrímsson er elskulegur bróðir okkar í hópi Hvítasunnumanna – einn máttarstólpinn í kristnu starfi þeirra og á Omega, sem og í samstarfshópnum góða sem vann að yfirlýsingu trúfélaganna 20 og einstaklinganna 20, sem fjallaði um samkynhneigðramálin og birt var í janúar. – Kristinn, það er rétt, að María Guðsmóðir fyrirgefur ekki syndir, en við höfum aldrei fullyrt það hér og munum ekki gera. Jón og Ragnar hafa svarað 5. atriði þínu, og vitaskuld er hún ekki máttugri Guði Föður – slík hugsun er fjarri okkur trúuðum –, en hitt er rétt, að hún heyrir bænir, rétt eins og spámaðurinn mikli Jeremías gerði skv. Makkabeabók, sem þið mótmælendur margir hverjir viðurkennið því miður ekki sem hluta hinnar Heilögu Ritningar. Að “heyra bænir” merkir þar þó ekki það sama og í tilfelli Guðs. Hún heyrir þær til þess eins að miðla þeim til Guðs og gerast fyrirbiðjandi okkar um leið. Hún er biðjandi, ekki veitandi í þeirri merkingu sem Guð einn getur verið veitandi bænheyrslu og jafnvel kraftaverka.

Hitt viðurkenni ég, að er til í sumum afkimum kaþólsku kirkjunnar (sem er u.þ.b. 1100 milljón manns), að menn gangi OF langt í heiðrun Maríu eða yfirlýsingum um yfirburði hennar. Jafnvel þótt helgust sé allra manna að Guð-Manninum Jesú undanskildum, er hægt að ganga of langt í heiðruninni – gera hana að dýrkun. Kirkjan sem kennistofnun hefur frá alda öðli greint á milli réttmætrar heiðrunar hennar og öfgafullrar (excessífrar), milli doulia og latria.

Guð veri með þér og þínum ævinlega og öðrum góðum lesendum okkar.

18.05.06 @ 19:57
Kristinn Ásgrímsson

Kæru bræður . Ég vil þakka ykkur einlæg og greinargóð svör. Ég vil samt byrja á að segja að ekki tel ég mig hafa hafnað arfleiðinni, eins og Jón Rafn ýjar að. Ég ætti erfitt að sjá fyrir mér lífið án Krists. Því að : Í honum(Kristi) höfum vér þá líka öðlast arfleiðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns….. Hann er pantur arfleiðar vorrar…..Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði. (Ef. 1.11 – Ef. 1.14. Ef. 3.12) Mótmælandi eða ekki mótmælandi skiptir mig litlu, heldur það að eiga nafn mitt ritað í bók lambsins. Minn grundvöllur er sá sem Páll talar um í Ef. 2.20 . .. Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. Í öðru Pét 3.1-2 minnir Pétur aftur á þennan grundvöll og segir að hann sé nauðsynlegur til að halda hinu hreina hugarfari vakandi.
“Og það geri ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.”
Í dag upplifum við hins vegar að menn segjast vilja heiðra orð Jesú Krists, en komast hins vegar að annarri niðurstöðu en postularnir og spámennirnir. ( sbr afstaða þjóðkirkju til orða Páls og Móse, varðandi kynvillu.)
Þess vegna á ég kæru bræður erfitt með að meðtaka aðra niðurstöðu hjá ykkur varðandi marga meðalgangara, þegar Páll talar um einn:”Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús”. (1.Tim 2.5.)
Jesús sagði einnig við lærisveinana: ..Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, því að sjálfur elskar faðirinn yður…( Jóh 16. 26) Ef Jesús segist ekki biðja í okkar stað eða hafa milligöngu með okkar bænir, hví skyldi þá María eða aðrir eiga að gjöra svo.
Hvergi í biblíunni er okkur kennt að biðja til helgra manna, sem eru látnir. Þvert á móti varar biblían eindregið við öllu sambandi við framliðna. Og við getum ekki beðið til einhvers nema vera í sambandi eða samfélagi við hann. Páll segir að fyrirheit Guðs séu uppfyllt í Kristi…því er játun þeirra í honum. ( 2. Kor 1.20.)
Mín hvatning til ykkar kæru bræður er: Farið ekki lengra en ritað er….
Hvað varðar sáttmálsörkina, þá var lokið eða náðarstóllinn úr gulli, sem hlýtur að tákna Guðdóminn, sáttmálsörkin af akasíuviði gulli lögð að utan og innan, bendir hins vegar á Hann sem gjörðist maður. En lokið eða náðarstóllinn er milli lögmálsins sem kallar á dóm og mín syndarans. Þ.e. sáttarfórnin Jesús Kristur. Samkvæmt Róm. 3.25 er þar mynd af friðþægingarverki Krists. Kól 1. 18. segir okkur að Jesús Kristur er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu, hinn síðasti Adam og hinn annar maður. Hann endar því gamla sáttmálann og byrjar hinn nýja.
Kæru bræður viljum við eiga arfleiðina í Kristi eða í kirkjusögunni?
Ég sé ekki að biblían gefi Maríu þann sess sem þið segið mér að kirkjufeðurnir hafi gert. Ég er samt mjög sammála orðum Ragnars og Jóns Vals að hún hafi verið blessuð af Guði og notið náðar Guðs og sannarlega getum við lært af trú hennar og dyggð.
Að lokum kæri Jón Rafn ekki langar mig að þreyta þig eða ergja, því góðar minningar á ég sem barn um kaþólska prestinn í Stykkishólmi sem gaf okkur strákunum oft sælgæti og var okkur góður.
Megi Guðs blessun fylgja ykkur bræður með þökk fyrir þessa ágætu heimasíðu.

19.05.06 @ 20:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er gott, einlægt og einarðlegt bréf, bræður, og nú er okkar að svara. Sjálfur er ég of þreyttur til þess á þessari stundu, en ég efa ekki, að Jón Rafn og/eða Ragnar munu svara, og sjálfur skal ég koma inn í þessa spennandi orðræðu, þótt síðar verði. En á meðan segi ég: Heilar þakkir, Kristinn, fyrir velviljuð orð þín og viljann til að ræða þá hina heilögu hluti sem hér hafa verið gerðir að umfjöllunarefni. Það er gott að við, þrátt fyrir mismunandi skilning sem við höfum lagt í Ritninguna, erum samt bræður sem ræða fremur en deila um málin og viljum komast að einni og samri og sannri niðurstöðu – þeirri, sem samrýmist því sem er skilningur Heilags Anda í Ritningunum. Megi Hann gefa okkur gott fararleiði til finna þann sannleika óskiptan – og lesendum öllum lifandi trú, von og kærleika.

19.05.06 @ 22:29
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kristinn skrifar:

Þess vegna á ég kæru bræður erfitt með að meðtaka aðra niðurstöðu hjá ykkur varðandi marga meðalgangara, þegar Páll talar um einn:”Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús”. (1.Tim 2.5.)
Jesús sagði einnig við lærisveinana: ..Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, því að sjálfur elskar faðirinn yður…( Jóh 16. 26) Ef Jesús segist ekki biðja í okkar stað eða hafa milligöngu með okkar bænir, hví skyldi þá María eða aðrir eiga að gjöra svo.

Ekki verður betur séð en þessar ritningargreinar stangist á í merkingu. Þ.e. “Einn er meðalgangarinn” og samt segist hann ekki biðja í okkar stað. Ef við tækjum þessa síðari tilteknu setningu bókstaflega þá myndum við heldur ekki ávarpa Jesúm Krist í bænum okkar. Hér hlýtur því að þurfa að túlka merkingu textans í víðari skilningi.

Hvergi í biblíunni er okkur kennt að biðja til helgra manna, sem eru látnir. Þvert á móti varar biblían eindregið við öllu sambandi við framliðna. Og við getum ekki beðið til einhvers nema vera í sambandi eða samfélagi við hann. Páll segir að fyrirheit Guðs séu uppfyllt í Kristi…því er játun þeirra í honum. ( 2. Kor 1.20.)

Við gerum skýran greinarmun á því sem hægt er að kalla ’samband við framliðna’ og heiðrun og bænum til helgra manna. Kirkjan fordæmir sterklega hið fyrra, sjá t.d. pistilinn “Fjölkynngi ber að fordæma” á þessu vefsetri. Hið síðara er hluti af trúarhefð kirkjunnar, sjá t.d. greinina “Um kaþólskar fyrirbænir samkvæmt hinni heilögu arfleifð“, sömuleiðis á vefsetrinu, líka eins og segir í hinni postullegu trúarjátningu: “Ég trúi á Heilagan Anda, heilaga kaþólska kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf. [Leturbr. RGB]”

Þetta með að við getum ekki beðið til einhvers nema vera í samfélagi við hann er hægt að taka undir með því fororði að við erum líka í samfélagi við hina heilögu þó jarðvist þeirra sé á enda. Sjá t.d. frásögna af ummynduninni á fjallinu í Mt. 17,1-3:

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann. [Leturbr. RGB]

Kristinn skrifar:

Kæru bræður viljum við eiga arfleiðina í Kristi eða í kirkjusögunni?
Ég sé ekki að biblían gefi Maríu þann sess sem þið segið mér að kirkjufeðurnir hafi gert.

Skoðum aðeins eftirfarandi tilvitnun til að varpa ljósi á þetta atriði:

Dýrlingarnir skyggja ekki á ímynd Guðs, þeir benda ljóslegar en nokkuð annað á Guð. Hver dýrlingur er endurspeglun og eftirmynd Krists, það er eins og holdtekja Guðs endurnýist í hverjum þeirra á ný af því að í þeim gerist það, sem gerast átti í hverjum manni, að hver þeirra yrði “annar Kristur” (sjá bréf hl. Páls). Heilagleiki er aðeins til Krists vegna. María biður sjálf í lofsöng sínum (Magnificat, Lúk.1, 46-55) “Mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört". En hún heldur áfram: “Héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja". Ættum við að skerast þar úr leik, þvert móti því sem segir í Heilagri ritningu? [1]

Kaþólska kirkjan fyllir þann flokk kynslóða sem María talar þarna um og skorast ekki undan því að kalla hana sæla, sömuleiðis austurkirkjurnar.

[1]. Úr bókinni Vegurinn, sannleikurinn og lífið, höf. F. Krenzer, ísl. þýð. Torfa Ólafssonar. Útg. Kaþ. kirkjan á Íslandi 1981.

20.05.06 @ 14:23
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta var gott svar, Ragnar. Sjálfur vil ég eiga arfleifðina í Kristi, en hafna því ekki að eiga hana líka í kirkjusögunni (en alls ekki á neinn þann hátt, sem skyggt gæti á ljóma Krists), því að kirkjan er líkami Krists samkvæmt postulanum (Efes.1.23, 4.12, 4.16, 5.23, 5.30, Kól.1.18), og eins og ég hef áður bent á, segir Kristur sjálfur í Jóhannesarguðspjalli (14.12): “Sannlega, sannlega segi eg yður: sá, sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem eg gjöri; og hann mun gjöra enn meiri verk en þessi. Því að eg fer til Föðurins.” – Kristur vinnur í gegnum sína trúuðu; náð Heilags Anda getur gert verk þeirra með heilögum ásetningi að sönnum og óaðfinnanlegum verkum. Og það hefur gerzt í hinum heilögu (sem eru ekki eingöngu opinberlega viðurkenndir dýrlingar kirkjunnar; postulinn kallar alla virka, kristna trúmenn ‘hina heilögu’: Róm.1.7, 15.25–26, I.Kor.1.2, 14.33, II.Kor.11, 8.4, Ef.1.1 og víðar). Líf og verk kirkjunnar (sem kristið líf) má kalla lífrænt og lifandi framhald af lífi og verki Jesú Krists. Það felst líka í því, að við séum greinarnar, sem græddar séu á vínviðinn (Jóh.15.1–8).

Þetta þýðir ekki, að kirkjusagan sem slík eða kirkjan sem stofnun hafi skilað okkur óflekkaðri arfleifð. Kristur var syndlaus, kirkjan ekki. Engu að síður hefur ljós hans lýst í gegnum hana margfaldlega, og er það að vonum, því að þannig ber lærisveinum hans að vera (Mt.5.16).

20.05.06 @ 16:29
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég þakka þér líka Ragnar að tala um heiðrun hinna heilögu eða að auðsýna þeim lotningu og virðingu. Orðið latreia (tilbeiðsla) á grísku táknar þá vegsemd og sem sýna ber Guði einum.

Orðið douleia er það sem haft er um heiðrun hinna heilögu á grísku. Þannig er Mariu auðsýnd hyperdouleia eða sérstaklega mikil heiðrun vegna þess að hún er fremst allra skapaðra vera.

Ég minnst þess vel sjálfur hversu mikla áherslu Frehen heitin biskup lagði á þetta. Ég skil heldur ekki hvað lofgjörð og vegsemd hinna heilögu við hið himneska hásæti sem hl. Jóhannes lýsir í 4. kafla Opinberunarbókarinnar vefst fyrir mótmælendum.

Það er Heilagur Andi sem bókstaflega afléttir af okkur takmörkum tímanlegrar tilveru, þannig að í honum getum við hvenær sem er tekið sjálf þátt í hinni himnesku tilbeiðslu vegna þess að Heilagur Andi fyllir allt í öllu og er eins og bróðir Eysteinn segir svo réttilega „senn verandi úti og inni, uppi og niðri og þar í miðju.“ Hl. Ágústínus sagði einhvers staðar að í Kristi stöndum við á jörðu, en erum jafnframt á himnum og skírskotar að sjálfsögðu til Heilags Anda.

Vafalaust má rekja afstöðu mótmælenda að hluta til þess að þeir höfnuðu einnig hugtakinu „hin sigrandi kirkja á himnum.“

Hl. Silúan sagði: „ Engin getur þekkt það í eigin mætti hvað guðdómleg elska er, án þess að njóta uppfræðslu Heilags Anda. En í kirkjunni okkar lærum við að þekkja elsku Guðs í Heilögum Anda og þess vegna tölum við um hana.
Drottinn er góður og miskunnsamur, en við gætum ekki sagt neitt um þessa elsku nema það sem ritningin greinir okkur frá, án þess að Heilagur Andi uppfræði okkur.
Við getum einungis tjáð okkur um eitthvað að svo miklu leyti sem við höfum kynnst náð Heilags Anda.
Hinir heilögu tala um það sem þeir hafa í raun og veru séð og vita, þeir tala ekki um það sem þeir sjá ekki (sjá Kol 2. 18).
Hinir heilögu segja ekkert sem komið er frá þeim sjálfum.
Hin guðdómlega innblásna ritning er „hið áreiðanlega orð“ (2 P 1. 19) og „nytsöm til uppfræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti“ (2 Tm 3. 16-17). En sú þekking sem við öðlumst um Guð í ritningunni getur ekki orðið eins fullkomin og við æskjum, nema því aðeins að Drottinn uppfræði okkur sjálfur í Heilögum Anda.“

Þannig kynnumst við tilbeiðslunni við hið himneska altari í Heilögum Anda og í Heilögum Anda sjá hinir heilögu okkur á jörðinni í Heilögum Anda og bera fram áköll sín í þessum sama Anda.

20.05.06 @ 19:04
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hljóðskrá með upptöku bænarinnar er að finna hér: [Tengill]

20.05.06 @ 21:47
Kristinn Ásgrímsson

Kæru bræður. Ég hef ekki haft tíma að skrifa undanfarið, en ég sé að það er annar skilningur á ritningunni hjá ykkur þegar að þessu kemur.
Ragnar sá mótsögn í 1. Tim og Jóh 16 og það sýnir mér bara hvað hugsunin er ólík. Það sem ég vildi sagt hafa, var að Jesús sem okkar eini meðalgangari var að segja okkur að við hefðum beinan aðgang að föðurnum í Hans Nafni. Jóh. 16.26. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður……sem sagt beinn aðgangur til föðurins í Jesú nafni, og það tekur ekkert frá því að við getum einnig talað við Jesú og Heilagan anda sem er með okkur í stað Krists. Tjaldbúðin sýnir okkur svo vel þessa leið: Altarið, mynd upp á fórn Krists og síðan eirkerið þar sem við þvoum hendur og fætur á göngunni með honum (Jesús höfðar til þess í Jóh 13.10), síðan liggur leiðin inn í hið heilaga, þar sem við eigum samfélag um brauð lífsins í ljósi Hans og síðan hið allra heilaga. En þegar Jesús segir : Á þeim degi, þá höfðar hann til þess tíma að fortjaldið er ekki lengur til staðar. Hinn nýi vegur (Hebr. 10.19 ) er nú opinn. En við komum samt aðeins fyrir “Hans nafn” fram fyrir föðurinn.
Hann er sú fórn sem kom í staðinn fyrir allar hinar fórnirnar. Hebr. 9 og 10. Þannig að einn er meðalgangarinn milli Guðs og manna. Jesús og Páll eru sammála. 1Tím.2.5
Jú ég get séð það sem Jón Rafn kallar hina sigrandi kirkju í Opinberunarbókinni, öldungana sem falla fram og það blessar mig, ég sé líka þær sálir sem hrópuðu til Drottins undir altarinu….Opinb 6.10-12, en þeim var sagt að hvílast þar til samþjónar þeirra fylltu töluna.
Það sem ég er að reyna að segja er að ég sé ekki kirkjuna á himnum sem okkar meðalgangara, jú eg sé að þeir hrópa til föðurins okkar vegna (Opinb.6.10), en að við séum í bænasamfélagi við hina heilögu, það hafið þið ekki sýnt fram á úr heilagri ritningu.
Ég óska ykkur Guðs blessunar og þakka fróðlegt efni, sem oft hefur verið mér til fróðleiks og uppbyggingar.

25.05.06 @ 11:48
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þessi hugsun er kannski ekki svo ólík, heldur er frekar um mismunandi túlkunaráherslur að ræða. Kirkjan og því sem við nefnum meðalgöngu hinna heilögu er ekki hægt að líkja við hlutverk Krists, jafnvel þó orðið ‘meðalgangari’ sé notað um hann líka. Lykillinn að því að skilja þetta er líklega ‘hinn leyndardómsfulli líkami Krists’. Hl. Páll skrifar t.d. í 1, Kor, 10, 14-17:

14Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina. 15Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi. 16Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? 17Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.

og í 1, Kor 12, 12-26:

12Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. 13Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.

14Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir. 15Ef fóturinn segði: “Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til,” þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður. 16Og ef eyrað segði: “Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til,” þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð. 17Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin? 18En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist. 19Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn? 20En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.

21Augað getur ekki sagt við höndina: “Ég þarfnast þín ekki!” né heldur höfuðið við fæturna: “Ég þarfnast ykkar ekki!” 22Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi. 23Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi. 24Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd, 25til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum. 26Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.

Sjáum svo hvað hann segir í 1, Kor, 15, 40-41:

40Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað. 41Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.

Í Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar segir:

947. (790) “Þar sem allir trúendur mynda einn líkama er gæðum hvers og eins miðlað til hinna.… Við eigum þess vegna að trúa því að til sé í kirkjunni skipting á gæðum. En mikilvægasti limurinn [á líkamanum] er Kristur þar sem hann er höfuðið.… Því er auðlegðum Krists miðlað til allra limanna fyrir sakramentin.” [Lk. 7,26] [Hl. Tómas Aquinas, Symb. 10] “Þar sem kirkjunni er stýrt af einum og hinum sama Anda er það af nauðsyn að öll þau gæði sem hún hefur meðtekið verða að sameiginlegum sjóði.” [Sbr. Mt 11:13-14.][Roman Cathecism I, 10,24]

954. ([Með vísan í greinar] 771, 1031, 1023 [í trúfræðsluritinu]) Þrenns konar eðli kirkjunnar. “Þegar Drottinn kemur í dýrð og allir englar hans með honum, verður dauðinn ekki lengur og allir hlutir verða undirgefnir honum. En nú á dögum eru sumir af lærisveinum hans pílagrímar á jörðu. Aðrir hafa dáið og fá hreinsun sína, meðan enn aðrir eruð í dýrð og hugleiða “í fullu ljósi einan og þríeinan Guð, nákvæmlega eins og hann er””: [Sbr. Lk 1:15-19; Mt 2:11.] [Lumen gentium; cf. Mt. 25:31; I Kor 15:26-27; Council of Florence (1439): Denzinger-Schönmetzer, Enchiridon Symbolorum (1965)] En á ýmsum stigum og með mismunandi hætti eiga allir hlut í sama kærleikanum gagnvart Guði og náunganum og við syngjum öll Guði okkar hinn eina dýrðarsálm. Því að allir sem tilheyra Kristi og hafa móttekið Anda hans mynda eina kirkju og halda fast saman í Kristi. [Sbr. Lk 2:14.] [Lumen gentium 49, cf. Ef. 4:16]

955. “Þannig er einingin sem vegfarendur [í heiminum] hafa við bræðurna sem sofnaðir eru í friði Krists á engan hátt rofin. Þvert á móti, samkvæmt stöðugri trú kirkjunnar, hefur þessi eining eflst með því að þeir skiptast á andlegum gæðum hver við annan.” [Sbr. Jh 19:25-27. ][Lumen gentium 49]


956. (1370, 2683) Árnaður dýrlinganna. “Þar sem þeir eru í nánari einingu við Krist sem búa á himnum, festa þeir alla kirkjuna æ betur í heilagleika.… Þeir biðja okkur stöðugt árnaðar hjá Föðurnum þar sem þeir bjóða fram þá verðleika er þeir öðluðust á jörðu fyrir tilverknað hins eina meðalgöngumanns milli Guðs og manna, Krist Jesúm.… Bróðurleg umhyggja þeirra er breyskleika okkar mikil hjálp.” [P 1:14.] [Lumen gentium 49, I Tím 2:5]. „Grátið eigi! Ég mun koma ykkur að meira gagni eftir dauða minn og vera ykkur þá meiri hjálp en meðan ég lifði.“ [Sbr. Jh 6:27, 51, 62-63.][Hl. Dóminík deyjandi við bræður sína]. „Himnaríki mínu vil ég verja í það að gera gott á jörðu.“ [Sbr. Jh 3:5-8.][Hl. Terese af Lisieux]

957. (1173) Samfélag við dýrlingana. “Ekki minnumst við heilagra á himnum einungis fyrir það að við getum fylgt fordæmi þeirra, heldur er það frekar að þessi ræktarsemi við bróðurkærleikann megi styrkja einingu allrar kirkjunnar í Andanum. Nákvæmlega á sama hátt og samfélagið meðal vegferðarmanna okkar á jörðu færir okkur nær Kristi, þannig verður samfélag okkar við dýrlinginna til að sameina okkur Kristi, þaðan sem öll náð og allt líf Guðs lýðs kemur, frá uppsprettu hans og höfði”: [Sbr. Jh 4:10, 14, 23-24.] [Lumen gentium 50, cf. Ef. 4:1-6]. „Það er hann, Sonur Guðs, sem við tilbiðjum; en píslarvottunum, sem lærisveinum og eftirbreytendum Krists, gefum við elsku okkar fyrir óviðjafnanlega trúrækni þeirra við konung sinn og kennara. Megi það verða Guðs vilji að við fáum einnig hlutdeild í samfélagi þeirra og lærisveinahópi.“ [Sbr. Jh 7:37-39.] [Martyrium Polycarpi 17: Apostolic Fathers II/3, 396]

958. (1371, 1032, 1689) Samfélag við hina látnu. “Með því að gera sér að fullu grein fyrir þessu samfélagi alls hins leyndardómsfulla líkama Jesú Krists, hefur kirkjan, í sínum meðlimum, sem eru pílagrímar, alveg frá fyrstu dögum kristinnar trúar, heiðrað af mikilli virðingu minningu þeirra sem látnir eru; og þar sem “það er góð og gagnleg hugsun að biðja fyrir framliðnum, svo að þeir hreinsist af syndum sínum” ber hún fram fyrirbænir sínar fyrir þá.” [Sbr. Lk 11:13.] [Lumen gentium 50; cf. 2. Makk 12:45]. Bæn okkar fyrir þeim er ekki einungis þeim til hjálpar heldur gerir hún einnig virkan árnað þeirra fyrir okkur.

959. (1027) Í hinni einu fjölskyldu Guðs. “Því að ef við höldum áfram að elska hvert annað og sameinumst við að lofsyngja hina alheilögu þrenningu - allir okkar sem erum synir Guðs og mynda eina fjölskyldu í Kristi - þá verðum við trú hinni dýpstu köllun kirkjunnar.” [Sbr. Mt 10:19-20.][Lumen gentium 51; cf. Heb. 3:6]

Ég leitaði í þessu sambandi bara í Rómverjabréfinu og Fyrsta Korintubréfi. Vera má að fleiri tilvitnanir sé hægt að finna í hinum bréfunum.

Tilvitnanir úr Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar. [Tengill]
Tölur innan sviga tákna aðrar greinar í Trúfræðsluritinu. Leturbreytingar RGB.

27.05.06 @ 17:20
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég tók eftir því áðan þegar ég var að fara yfir tilvitnanirnar þarna að þær voru ekki réttar og strikaði vísanirnar á þær út. Þær voru teknar úr bráðabirgðaútgáfu Trúfræðsluritsins á netinu og eru því ekki prófarkalesnar. Ég verð að fara yfir ensku útgáfu Trúfræðsluritsins til að finna réttu textana þarna. Bið afsökunar á þessu en ég finn vonandi tíma til að fara yfir þetta fljótlega.

28.05.06 @ 22:16
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Nú er ég búinn að fara yfir tilvitnanirnar og lagfæra m.t.t. ensku útgáfunnar. Þær eru vonandi réttar núna, en þetta er þó óyfirfarið ennþá. Trúfræðsluritið leggur höfuðáherslu á að samfélag heilagra vísi fyrst og fremst til Altarissakramentisins, Evkaristíunnar sem bæði stendur fyrir og kemur í kring einingu hinna trúuðu sem saman mynda líkama Krists.

31.05.06 @ 20:56