« Ó Hjarta, elskuríkara öllu öðru – Heil. Geirþrúður frá Helfta (1256-1301)Tólfpostulakenningin sem hluti hinnar heilögu arfleifðar erfikenningar kirkjunnar »

20.05.08

  07:27:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 335 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

Bæn hl. Thérèse af Jesúbarninu (1873-1897), karmelnunnu og kirkjufræðara.

„Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra.“

Jesús . . .! Hversu mikil er ekki auðmýkt þín, ó guðlegur Konungur dýrðarinnar, með því að gefast öllum prestum þínum án þess að gera mun á þeim sem elska þig og þeim – sem æ! – eru hálfvolgir eða kaldir í þjónustu þinni. Þú kemur niður af himnum þegar þeir ákalla þig. Ó Ástmögur minn, hversu „hógvær og lítillátur af hjarta“ (Mt 11. 29) virðist þú ekki vera undir hulu litlu og hvítu hostíunnar. Þú hefðir ekki getað auðmýkt þig meira til að kenna mér auðmýkt. Með sama hætti og sem svar við elsku þinni þrái ég að systur mínar skipi mér ætíð til sætis á lægsta staðnum til að sannfæra mig um að þessi staður er sannarlega minn . . .

Ég veit, ó Guð minn, að þú lægir hrokafulla sál en veitir þeim eilífa dýrð sem auðmýkja sig. Því þrái ég að skipa lægsta sætið og öðlast hlutdeild í auðmýkt þinni til að eiga „samleið með þér“ (Jh 13. 8) í konungsríki himnanna.

En, Drottinn, þú þekkir veikleika minn. Á hverjum morgni einset ég mér að leggja rækt við aumýktina, en að kveldi geri ég mér ljóst að enn hef ég framið fjölmargar yfirsjónir vegna hroka míns. Þegar ég sé þetta hneigist ég til vonleysis. Engu að síður geri ég mér ljóst að vonleysið er einnig ummerki hroka! Ó Guð minn! Það sem ég vil gera er að setja alla von mína á þig einan. Þú megnar allt og lát þér því þóknast að glæða í sál minni þá dyggð sem ég leita að. Og til þess að öðlast þessa náð í takmarkalausri miskunn þinni mun ég endurtaka stöðugt: „Ó Jesú, lítillátur og auðmjúkur af hjarta: Gæddu hjarta mitt mildi og auðmýkt þíns eigin hjarta!“

No feedback yet