« Barátta (ljóð)Fordæmdi Jesús vopnaburð? »

19.09.06

  21:00:30, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 436 orð  
Flokkur: Miðaldasaga og kirkjan, Trúarljóðaþýðingar JVJ

Boëthius (480–524): vers úr ritinu Huggun heimspekinnar

Allt mannkyn á jörðu á sér að uppruna einn og hinn sama,
því einn er hann faðir alls, og öllum hann leiðsögn veitir.
Hann sólinni gaf sína geisla og gullin hornin á tunglið
og menn til að uppfylla jörðu––og eins á himininn stjörnur!
Hér lukti´hann í líkömum anda sótta háum af himni.
Af göfugri grein er því sprottin gervöll hin dauðlega hersing.
Hví stærið þér yður af áum og ætt? Ef skoðið þér höfund
og upptök lífs yðar, Guð, er ættlaus ei neinn, en ef hneigizt
í löstum að auvirðileik, þér eigið ætterni svíkið!

––––––––––––––––––––––––––––
Anicius Manlius Severinus Boethius (um 480–524), kristinn fræðimaður af rómverskum senatoraættum, oft nefndur “síðasti Rómverjinn og fyrsti skólaspekingurinn”, var ræðismaður í Róm og hirðmaður Þjóðreks mikla Austgotakonungs (þess sem fornsögur okkar kalla Þiðrik af Bern). Eftir úrvalsmenntun í Róm lagði hann lengi stund á vísindi í Aþenu, varð gagnmenntaður í öllum bókfræðum fornaldar og skrifaði mörg rit. Hann var ekki kominn langt áleiðis með þá fyrirætlun sína að þýða gervöll verk Aristotelesar o.fl. á latínu, þegar hann, þá orðinn æðsti ráðherra, var rægður fyrir konungi, varpað í dýflissu, píndur og tekinn af lífi. Rit hans Um huggun heimspekinnar, sem hann vann að í fangavistinni, varð ein áhrifamesta bók miðalda og t.d. þýdd á ensku af Elfráði konungi ríka (Alfred the Great) á 9. öld og nánast á hverri kynslóð síðan, t.d. af Chaucer á 14. öld og Elísabetu drottningu á 16. öld. Ritið er að mestu í óbundnu máli, en mörg ljóðanna 39 eru afar stílfögur og sögð eins og hinzti hljómur af nánum tengslum við klassískan skáldskap fornaldar (Aths. JVJ).

Áður birt í Merki krossins, 1. hefti 2004, undir fyrirsögninni Consolationis Philosophiæ libri tertii metrum sextum (sjötta kvæði þriðju bókar Huggunar heimspekinnar). Merki krossins er gefið út af kaþólsku kirkjunni á Íslandi. – Hér á eftir fer frumtextinn af versinu:

Omne hominum genus …

Omne hominum genus in terris simili surgit ab ortu.
Unus enim rerum pater est, unus cuncta ministrat.
Ille dedit Phoebo radios, dedit et cornua lunae,
Ille homines etiam terris dedit ut sidera caelo,
Hic clausit membris animos celsa sede petitos.
Mortales igitur cunctos edit nobile germen.
Quid genus et proavos strepitis? Si primordia vestra
Auctoremque deum spectes, nullus degener exstat,
Ni vitiis peiora fovens proprium deserat ortum.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software