« Jesús og börninVekjumst vér nú af óræktarsvefni »

10.03.06

  07:31:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1236 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Auknar fóstureyðingar á börnum með Down einkenni

MINNEAPOLIS, Minnesota, 9. mars, 2006 (Zenit.org).- Fjölmargir foreldrar bíða árum saman eftir að fá að taka börn með Down einkenni í fóstur, samkvæmt nýlegri frétt frá Associated Press.

Hvers vegna er biðlistinn eftir börnum með sérþarfir svo langur, sem iðulega gengur erfiðlegar að aðlaga fjölskyldunni? Ástæðuna mætti ef til vill rekja til þess, að vaxandi tilhneigingar gætir til að eyða fóstrum með Down einkennum.

Elizabeth Schiltz sem er prófessor við lagadeild University of St. Thomas og meðrithöfundur að „The Cost of Choice: Women Evaluate the Impact of Abortion“ (Encounter Books) greindi Zenith frá því, að fóstureyðing á börnum með Down einkenni væri nú ekki einungis réttlætt, heldur væri slíkt beinlínis orðin skylda.

Schiltz hefur einnig greint frá sinni eigin reynslu þegar henni var tjáð við mæðraskoðun, að verðandi sonur hennar bæri einkenni Down sjúkdómsins.

S: Hvers vegna telur þú að það sé orðið þjóðfélagslega réttlætanlegt að deyða barn með Down einkenni?

Schiltz: Sökum þess að illu heilli hefur þjóðfélagið samþykkt að eyða öllum börnum sem uppfylla ekki væntingar foreldranna af ýmsum ástæðum, eins og vaxandi fjöldi fóstureyðinga eftir kynjavali gefur til kynna.

Down einkennin eru fötlun sem auðvelt er að greina með forskoðun. Það er ekki einungis að margir líti svo á að það sé réttlætanlegt að kona sem verður að horfist í augu við þetta láti eyða fóstrinu, heldur ganga sumir enn lengra og segja að henni beri skylda til þess.

S: Nýlega greindi Associated Press frá því að margar fjölskyldur kjósi nú að ættleiða börn með Down einkenni og verði stundum að bíða árum saman. Hvað finnst þér um þetta?

Schiltz: Ég er alsæl yfir því að loks hafi þetta vakið athygli stóru fréttastofanna. Tímarit og spjallsíður stuðningsfólks barna með Down einkenni hafa rætt um þetta árum saman. Í reynd þekki ég konu sem rekur ættleiðingastofu í Huminska´s Anioly, sem sérhæfir sig í því að ætlleiða börn af pólskum munaðarleysingjahælum til Bandaríkjanna.

Þegar henni bárust spurnir að Bandaríska biðlistanum eftir börnum með Down einkenni fyrir nokkrum árum, tók hún að halda sérstök námskeið fyrir börn á pólskum munaðarleysingjahælum með Down einkenni.

S: Hvernig brást þú sjálf við þegar forskoðun leiddi í ljós að barn þitt væri með Down einkennin?

Schiltz: Ég tel að viðbrögð mín þegar mér bárust þessi tíðindi í hendur hvað áhrærir son minn séu dæmigerð. Læknirinn minn vissi jafnframt, að í mínu tilviki kæmi fóstureyðing ekki til greina. Þrátt fyrir þetta var fjölmargt í sambandi við þetta mál dæmigert.

Í fyrsta lagi er það sú ofuráhersla sem lögð er á það að taka ákvörðunina eins skjótt og unnt er vegna þess að allt kerfið miðast við að framkvæma fóstureyðinguna eins fljótt og unnt sé þar sem það er „öruggara.“ Þrýstingurinn að taka skjóta ákvörðum eykur ekki einungis áhættuna fyrir barnið, heldur tel ég að það komi oft í veg fyrir að foreldrarnir velti fyrir sér öðrum valkostum en fóstureyðingu.

Í öðru lagi sló það mig hversu litlar jákvæðar upplýsingar læknarnir og ráðgjafarnir höfðu í höndunum fyrir mig um líf barna með Down einkenni. Þrátt fyrir að læknirinn minn styddi ákvörðun mína, gátu hvorki hún eða ráðgjafinn gefið mér neinar haldbærar upplýsingar um líf barna með Down einkenni.

Í þriðja lagi, og það þrátt fyrir að ég sé lífsverndarsinni og hafi varið öllu mínu lífi til að elska vangefinn bróðir minn, þá var niðurstaðan mér sem martröð. Dögum saman hikaði ég við að leggja hendurnar á kviðinn. Ég upplifði þetta líkt og einhver bláókunnugur hefði flutt inn og þetta hræddi mig. Vikum saman fannst mér eins og ég hefði glatað sjálfsmynd minni.

Ég hafði aldrei sett mér sjálfa mig fyrir sjónir sem móður fatlaðs barns, Ég hafði alltaf litið á sjálfa mig sem móður „fullkomins“ barns. Ég vissi ekki hvernig ég gæti haldið áfram að lifa því lífi sem ég hafði skipulagt fyrirfram.

En smám saman tók ég að elska þennan „bláókunnuga“ gest jafn mikið og mína gömlu sýn af því sem ég ætlaði mér að verða. Ég tók að gera mér grein fyrir því í stigvaxandi mæli að mitt gamla sjálf var þarna einnig til staðar, það yrði einungis að læra eitthvað nýtt.

Persónulega er ég glöð vegna þess að mér auðnaðist að ganga í gegnum þessa martröð, áður en barn mitt fæddist. En það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, hversu hörmuleg tíðindi þetta eru fyrir alla foreldra.

S: Hvernig er fólk með Down einkenni mikilvægt og gegnir sérstöku hlutverki í samfélaginu?

Schiltz: Í bók sinni „The Child Who Never Grew“ greinir Pearl S, Buck sem bæði vann til Pulitzer og Nópelsverðlaunanna frá vangefinni dóttur sinni: „Með þessum hryggilega hætti sem ég varð að horfast í augu við, lærðist mér að bera virðingu fyrir sérhverjum mannshuga.“

Það var barnið mitt sem kenndi mér að skilja með svo ljósum hætti að allir eru á sama báti í mennsku lifi sínu og að allir hafa sama rétt til lífs. Ekki ber að líta á neinn sem minni sem mannveru. Allir og einn verða að skipa sinn sess og tryggja ber öryggi þeirra í heiminum.

Þetta hefði ég aldrei lært nema með þessum hætti. Ég hefði svo sem getað lifað í árásarhvöt eigin umburðarleysis gagnvart þeim sem standa höllum fæti. Barnið mitt kenndi mér að verða að manni.

Auk þess að uppfræða mig um mannkærleika, þá held ég að sonur minn hafi einnig kennt mér dálítið um Guðdóminn. Ég tel að þegar ég elska einhvern, þá segi það mér dálítið um það, hvaða elsku Guð ber í brjósti til okkar.

Rétt eins og ég elska son minn, elskar Guð okkur og elska hans grundvallast ekki á gáfnafari okkur, árangri eða því sem þjóðfélagið skilgreinir sem „framapot.“

Fólk með Down einkenni ber einkenni sjúkdómsins á andlitum sínum. Það er sýnileg áminning um að ímynd Guðs endurspeglast í mannkyninu meðal alls kyns fólks sem er misjafnlega greint. Það væri að gera þjóðfélagið fátækara að svipta það jafn ágætum kennurum, bæði hvað áhrærir mannkynið og Guðdóminn.

ZE06030922/JRJ

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þessi frásögn lífsverndarsinnans frú Schiltz finnst mér afar athyglisverð. Ég minnist þess þegar ég hlustaði á frásögn Róberts Arnfinnssonar leikara fyrir fjölmörgum árum í kvöldþætti Jónasar á Ruv 1. Þau hjónin eignuðust dreng með Down einkennin. Í fyrstu gengu þau í gegnum sama sorgarferlið og frú Schiltz. En smám saman eftir því sem drengurinn þroskaðist tóku mannkostir hans að koma í ljós. Þau hjónin umgengust mikið börn og unglinga með Down einkennin, og eins og Róbert lýsti því sjálfur, þá blés það nýrri von í brjóst hans um framtíð mannkynsins.

Einlægni þessa fólks og hjartahreinleiki auk stöðugrar glaðværðar og elskulegheita í allri umgengni var allt annað en hann sá í fari margra þeirra sem teljast „heilbrigðir“ að hætti heimskra manna (manna þessa heims). Ég er hjartanlega sammála honum eftir kynni mín af fólki með Down einkennin. Í mínum huga er það verðugir fulltrúar Drottins okkar á jörðu og ég efast ekki um að það fjölmenni í ríki hans á himnum.

10.03.06 @ 10:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er falleg frásögn og sterk, nafni minn, og væri vert að vísað væri á þessa vefgrein á ýmsum vefsetrum, t.d. Barnalands og Íslenskrar ættleiðingar. Hafðu heilar þakkir fyrir dugnað þinn við málsvörn hinna ófæddu og annarra minni máttar.

10.03.06 @ 16:06