« Fyrrum Þrándheimsbiskup hætti vegna ákæru um barnaníðFöstusöfnunin rennur til Haítí »

31.03.10

  21:27:29, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 209 orð  
Flokkur: Kenning kirkjunnar

Átti Jesús bræður?

Til eru þeir sem segja að svo sé og nefna tilvitnanir í ritningartexta þar sem talað er um bræður Jesú (t.d. Jóh. 7:3 eða 7:10), þrátt fyrir að vitað sé að í ýmsum málum og siðum þjóða tíðkist að kalla frændur bræður. Áðan var ég að horfa á endursýndan sjónvarpsþátt á EWTN frá því á föstunni 1995 þar sem móðir Angelica kom inn á þetta atriði. Hún ræddi um stöðu Maríu móður Jesú við krossinn. Í Jóhannesarguðspjalli 19:26 segir svo frá þegar hann ávarpar hana:

Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Finnst einhverjum trúlegt að ætla út frá þessum texta að Jesús hefði mælt svo fyrir ef hann hefði átt bræður? Ávarpið „kona“ kemur til vegna tengingar við sköpunarsöguna og syndafallið en í 1. Mósebók er talað um konuna sem höggormurinn tælir. Með þessu orðavali er Jesús því ekki að tala niður til móður sinnar heldur að vísa til þess að hún er farvegur endurlausnarinnar og því andhverfa Evu sem varð verkfæri höggormsins. Einhvern veginn svona komst móðir Angelica að orði og er þetta endursögn eftir minni.

10 athugasemdir

Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Svo var sú mikla barnakona, móðir Péturs postula, sem eignaðist þrjú þúsund syni, ef menn kjósa að skilja á þann veg Postulasöguna 2.29, 41.

Vingjarnleg kveðja.

01.04.10 @ 01:53
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Sigurður. Í þessum stað í Postulasögunni virðist mér sem verið sé að tala um hina kristnu bræður, eins og þegar sagt er t.d: „kæru kristnu systkin“ en ekki lífbræður eins og virðist vera í 7. kafla Jóh.
Góð kveðja sömuleiðis.

01.04.10 @ 22:17
Athugasemd from: Halldór Nilsson
Halldór Nilsson

Jesú átti augljóslega sistkyn, oft þegar talað er um bræður í nýjatestamentinu er átt við Kirkjuna í held sinni eða söfnuðinn, en í markús 6:3 og Matteus 13:55-56.
Eftir að lesa þessi vers og nærsamhengi er fráleitt að halda örðu fram en að María og Jósef hafi eignast saman börn eftir að Jesús var kominn í heiminn.

27.04.11 @ 22:20
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Halldór og takk fyrir innlitið. Afsakaðu að það dróst að birta athugasemdina og svara.

Það liggur beinast við að álykta miðað við okkar menningarsvæði og málhefð að þetta sé eins og þú segir en okkar orðanotkun um skyldmenni þarf ekki að vera endanlegur mælikvarði á skyldleika í öðrum menningarsvæðum eða tímabilum. Sjá td. hér:

http://en.wikipedia.org/wiki/Kinship_terminology

03.05.11 @ 19:51
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Halldór, sæll. Ályktanir þínar kunna að virðast eðlilegar, en það er einungis út frá íslenzkri hugsun og málhefð. Í umhverfi Jesú hafði hugtakið ‘bróðir’ víðtækari merkingu en hjá okkur, vísaði allt eins til frænda. Svo er það erfikenning* kirkjunnar, svo langt sem rakið verður, að María hafi ætíð verið hrein mey (lat. semper virgo); því er enn trúað í öllum gömlu kirkjusamfélögunum.

Það er hvergi talað um nein börn Maríu og Jósefs, aðeins Jesúm. Þetta, sem Ragnar talar um hér í pistlinum, um orð Jesú af krossinum til Jóhannesar og móður sinnar, hefur um aldir verið útlagt einmitt eins og gert var í þessum kaþólska sjónvarpsþætti sem hann vitnar þarna til. Ályktun þín: “Eftir að lesa þessi vers og nærsamhengi er fráleitt að halda öðru fram en að María og Jósef hafi eignast saman börn eftir að Jesús var kominn í heiminn,” er því fráleitt augljós; það er ekkert sem knýr okkur til að samþykkja hana, og nærsamhengi frásagna af Jesú ungum getur hvergi um önnur börn í umsjá foreldra hans. (Og ég tala hér um Maríu og Jósef sem foreldra hans, þótt Jósef hafi “aðeins” verið fóstri hans.)

* Erfikenning: fræðsla sem hefur haldizt við og gengið frá kynslóð til kynslóðar. Kenning á hér ekkert skylt við ‘theoríu’, heldur það sem kennt er (lat. doctrina, af docere: kenna, sbr. doctor: kennari, kennimeistari).

03.06.11 @ 23:26
Athugasemd from: Halldór Nilsson
Halldór Nilsson

Matteus 1:25 “Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS. ” Bendir til að þau hjónin María og Jósef hafi sofið saman eftir að Jesús fæddist og þar sem ég efast um að aðgengi að getnaðarvörnum hafi verið gott þá eru góðar líkur á að þau hafi eignast börn saman. Það er fjarska ólíklegt að ætla að hjón lifi saman án þess að stunda kynlíf. Efast um að mannlegar hvatir hafi tekið verulegum breytingum gegnum árin né að menning hafi veruleg áhrif á mannsins eðli.

25.10.11 @ 20:16
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Halldór.

Já, þetta orðalag í nútímaþýðingu biblíunnar virðist renna stoðum undir það sem þú segir, en hér er þetta aftur spurning um þýðingu og orðalag. Í eldri biblíuþýðingu stendur: “og hann kenndi hennar ekki, unz hún hafði alið son, og hann kallaði nafn hans JESÚS. (1923). Þýðingin byggir á gríska orðinu ‘heos’ sem hefur verið þýtt sem ‘þangað til’ eða ‘fyrr en’. Spurningin hér er um hvorn möguleikann þýðandinn vill nota.

Enskar biblíuþýðingar sýna þennan áherslumun glöggt: “He had no relations with her at any time before she bore a son” (New American Bible); “He had not known her when she bore a son” (Knox). ” og “though he had nod had intercourse with her, she gave birth to a son; and he named him Jesus.” (The Jerusalem Bible).

Þetta með að eitthvað gerist ekki ‘þangað til’ annar atburður verður þýðir ekki endilega að það gerist eftir atburðinn. Það er nútímalegri túlkun á ‘þangað til’.

Í Biblíunni merkti ‘þangað til’ að eitthvað hafi ekki gerst fyrir ákveðinn atburð. Það gefur ekki endilega til kynna að það hafi gerst eftir atburðinn sem er nútímaleg sýn á orðalagið. Ef þessi nútímalegi lesmáti er heimfærður upp á Biblíuna fást ýmsar óvenjulegar túlkanir.

Í 2 Sam. 6,23 er t.d. talað um Míkal dóttur Sáls sem var barnlaus til æviloka. Augljóslega eignaðist hún ekki börn eftir dauðann. Í 5 Mós 34,6 er talað um greftrun Móse og sagt að enginn viti ‘enn þann dag í dag’ hvar gröf hans er. En við vitum að enginn hefur vitað um staðinn frá því sá dagur leið.

Heimild: http://www.catholic.com/tracts/brethren-of-the-lord

Já, það er rétt að ólíklegt er að ætla hjónum að þau lifi saman án þess að stunda kynlíf, en í þessu sambandi megum við ekki gleyma að Jósef og María voru engin venjuleg hjón.

Í Biblíulegu samhengi sjáum við hvernig syndin kemur inn í heiminn. Eva lætur tælast af freistingum höggormsins og syndafallið fylgir í kjölfarið og þar með erfðasynd mannkynsins.

Til að snúa við áhrifum erfðasyndarinnar þarf því konu til að mynda farveg hjálpræðisins inn í heiminn. Sú kona þarf að vera hrein af erfðasynd og skv. kenningu kaþólsku kirkjunnar er María ‘getin án syndar’ eða ‘hinn flekklausi getnaður’. Jesús Kristur sem er sannur Guð og sannur maður tekur sér því bólfestu í henni sem fullkomnum stað hreinleika.

Fjölskylda Jesú, Maríu og Jósefs er gjarnan nefnd ‘hin heilaga fjölskylda’ og er ekki að efa að samband móður og sonar hefur verið afar náið eins og augljóst er ef saga kristninnar er skoðuð.
Það er því ekki fráleitt að gera sér í hugarlund að það fjölskyldulíf hafi verið óvenjulegt, sérstakt og óviðjafnanlegt að öllu leyti, en það rennir stoðum undir það sjónarmið að nútímaleg viðhorf um ástundun kynlífs eigi ekki við í því sambandi.

12.11.11 @ 18:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þú gerir rétt í svörum þínum hér, Ragnar. Ég minni á hliðstætt orðalag í Sálmi 110.1, sem endurtekið er í Hebreabréfinu, 1.13: “En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, unz ég geri óvini þína að fótskör þinni?” Það merkir EKKI, að Sonurinn muni ekki sitja til hægri handar Föðurnum eftir það. Eins er það með Maríu: Hún var hrein mey allt til fæðingar Jesú (og full ástæða til að ítreka það sérstaklega), en líka eftir fæðinguna.

Erfikenningin (ekki theoría, heldur miðluð þekking) er líka með það á hreinu, að María átti ekki önnur börn. Hún er fljótt kölluð semper virgo, ævinlega mey.

21.11.11 @ 04:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessi orð (þar til eða unz) eiga sér uppruna í semítísku orðalagi og hugsun; þar er margt til að vara sig á í þýðingum og auðvelt að villast, enda hafa ýmsir villukennendur gert það.

21.11.11 @ 04:37
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar Jón.

23.11.11 @ 19:53