« Hún skal merja höfuð þitt Barnabarnabarn þekkts hörundslitaðs þræls, Dred Scotts, berst fyrir réttindum ófæddra barna til að binda enda á fósturdeyðingar »

09.03.07

  10:08:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1608 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd, Fólksfækkunarvandamálið

Átök kærleiksríkrar og kærleikssnauðrar þekkingar

Ef við ættum að skilgreina samtíma okkar með einni setningu, þá getum við sem best gert það með því að segja að hann sé tímaskeið átaka kærleiksríkrar og kærleikssnauðar þekkingar. Sjálfur sagði Drottinn meðan hann dvalið með okkur á jörðu: „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki til að færa frið, heldur sverð“ (Mt 10. 34). Með þessum orðum skírskotaði hann til stríðs kærleikans. Í hinni kristnu opinberun færði hann okkur kærleiksríka þekkingu elskunnar, eða með orðum Jóhannesar guðspjallamanns:

Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent Einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi Son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar (1Jh 4. 7-10).

Á okkar tímum hefur mannkynið aldrei sem fyrr aflað sér mikillar þekkingar. Hún skiptir mannkyninu í tvo hópa: Þá sem játa opinberun kristindómsins sem kærleika Guðs og þá sem gera það ekki.

Margir af mestu böðlum mannkynssögunnar síðustu tvær aldirnar hafa verið „hámenntaðir menn“ en kærleikssnauðir. Þetta gilti bæði um forystumenn marx-lenínismans, yfirmenn útrýmingarbúða Þriðja ríkisins sem boðbera dauðamenningar blindrar auðhyggju og guðsafneitunar veraldarhyggjunnar (secularism). Verkin tala sínu máli: Á s. l. tveimur áratugum hefur þannig einn milljarður ófæddra barna verið myrt köldu blóði í æði fósturdeyðinganna. [1] Það eru hámenntaðir læknar sem standa slíkum ódæðum að baki, verðugir fulltrúar hinnar kærleikssnauðu þekkingar samtímans. Það voru einnig hámenntaðir læknar sem stóðu að baki „mannbótastefnu“ nasismans.

Að mörgu leyti er goðsögnin um Faust goðsögn vísindanna. Faust seldi djöflinum sál sína til að öðlast takmarkalausa þekkingu og völd. Eða með orðum Mathews Fox:

Sú goðsögn hefur verið mótuð að vísindaleg þekking sé óháð siðfræðinni. Þegar vísindamenn selja hernaðarstofnunum, ríkisstjórnum og efnaiðnaðinum vald sitt, þá krefst það ekki doktorsgráðu í siðferði til að komast að þeirri niðurstöðu að þekking sé ekki óháð siðfræðinni. Eins og allt annað vald krefst hún andlegrar ögunar. Það verður að setja hana í samhengi við réttlæti, samúð og gagnkvæmni. Við verðum að skapa þessum ógnarmætti þekkingar mennskra vísinda umgjörð. [2]

Þetta bendir Tómas frá Akvínó okkur einnig á með skírskotun til Biblíunnar:

Í Biblíunni eru nöfn tveggja tignarraða englanna, serafa og hásæta, ekki gefin djöflum vegna þess að þeir skírskota til þess sem getur ekki samræmst dauðasynd, það er að segja hinn brennandi kærleika og nærveru Guðs. En djöflar eru nefndir kerúbar, völd og tignir vegna þess að þessi heiti skírskota til þekkingar og valds sem er bæði fyrir hendi í gæskunni og illskunni.“ [3].

Annars staðar segir hann að þetta sé ástæðan sem búið hafi því að baki að engill syndarinnar [Satan] sé nefndur kerúbi. [4] Hinn fallni verndarkerúbi er sú ímynd sem Ritningin dregur upp fyrir okkur af hinni kærleikssnauðu þekkingu og sjálfur sagðist Drottinn:

„Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi“ (Lk 10. 18-19).

Þetta er kraftur elsku kærleikans eða með orðum Jóhannesar guðspjallamanns sem vikið var að hér að framan: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ Þetta er kjarni guðsafneitunar veraldarhyggjunnar.

Í guðspjalli dagsins í dag (9. mars 2007) greinir Drottinn okkur frá VÍNGARÐI GUÐS (Mt 21. 33-43 og 45-46). Guð hefur falið okkur að rækta þennan víngarð. Við eigum að vera samverkamenn hans, góðir vínyrkjar.

Hugleiðing dagsins sem fylgir með guðspjallatextanum er eftir einn hinna heilögu fornkirkjunnar, Heil. Íreneus frá Lyon (um 130-208), byskup, guðfræðing og píslarvott. Hún er úr riti hans: Gegn villutrú IV 36, 2-3.

Víngarður Guðs

Guð sáði í víngarð mannkynsins þegar hann myndaði Adam og útvaldi árfeðurna. Síðan fól hann garðinn vínyrkjum á hendur með því að innleiða lögmál Móse. Hann hlóð garð umhverfis hann, það er að segja veitti þeim ákveðna leiðsögn með hliðsjón af helgiþjónustu þeirra. Hann reisti turn, það er að segja útvaldi Jerúsalem. Hann gróf fyrir vínþröng, það er að segja fyrirbjó miðlun Anda spásagna. Þannig sendi hann spámenn fyrir herleiðinguna til Babýlon og eftir hana jafnvel aðra og það í ríkari mæli en áður til að hyggja að uppskerunni með því að segja við þá (Gyðingana): „Svo segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og gjörðir, þá mun ég láta yður búa á þessum stað“ (Jer 7. 3) og: „Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi. Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu“ (Sak 7. 19); „Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra!“ (Jes 1. 16).

Þegar spámennirnir boðuðu þennan sannleika leituðu þeir uppskeru réttlætisins. Loks sendi hann þessum vantrúarmönnum Son sinn, Drottinn okkar Jesú Krist sem illgjörðarmennirnir vörpuðu út úr víngarðinum eftir að hafa drepið hann. Þá snéri Drottinn Guð baki við víngarðinum (fjarlægði garðinn umhverfis hann og opnaði hann fyrir öllum heiminum) og fól hann öðrum vínyrkjum á hendur sem báru ávöxt í fyllingu tímans og þeir reistu víða fagra turna í honum. Hin sýnilega kirkja er [núna] alls staðar og alls staðar er grafið fyrir vínþröngum vegna þess að þeir sem meðtaka Andann eru alls staðar . . .

Því sagði Drottinn við lærisveina sína að þeir ættu að gera okkur að góðum verkamönnum: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum“ (Lk 21. 34-36).

Veraldarhyggjan er arftaki illvirkja víngarðsins sem deyddu Soninn, „refirnir, yrðlingarnir, sem skemma víngarðana, því að víngarðar vorir standa í blóma" (Ll 2. 15). Nýjasta afrek þeirra var að koma í veg fyrir það hjá Sameinuðu þjóðunum að samþykkt yrði yfirlýsing sem fordæmdi miskunnarlaust dráp á meybörnum sem iðkað er í miklum mæli í Kína og á Indlandi. Talið er að 100 milljónir meybarna hafi þegar verið deydd með þessum hætti.

Hvaða þjóðir voru það sem stóðu með áframhaldi á þessum ódæðisverkum? Það voru að sjálfsögðu Indland, Kína, Kanada og Bandaríkin með dyggri aðstoð ESB landanna (Sendinefnd Bandaríkjanna er nú í höndum demókrata). Engu að síður fylgir háfgildings afsökum með stuðningi ESB ríkjanna. Talsmaður bandalagsins komst svo að orði að fulltrúarnir gerðu sér ljóst að nokkur Evrópuríkjanna styddu ályktun um að fordæma deyðingu á fóstrum meybarna, en engu að síður styddu þeir ekki fordæminguna. Fróðlegt væri að vita afstöðu femínista á Íslandi sem eru í herleiðingu marx-lenínskrar hugmyndafræði frú Margaret Sanger. Styðja konur á Íslandi virkilega að kynsystur þeirra í framandi löndum séu miskunnarlaust deyddar fram yfir drengi?

Suðurkórea er eitt þeirra landa sem horfast verður í augu við ógvænlega röskun á fólksfjöldapýramídanum og er eina landið sem auðnast hefur að snúa þessari þróun við. Það gerðu Kóreumenn með miklu þjóðarátaki sem heitir „Elskið dætur ykkar,“ þrátt fyrir að vera eitt þeirra landa þar sem íbúarnir vilja fremur eignast syni. Að sjálfsögðu stóðu þeir ekki gegn því að deyðing meybarna væri fordæmd. ELSKUM DÆTUR OKKAR, ELSKUM SYNI OKKAR, ELSKUM ÖLL BÖRN OKKAR, LÍKA ÞAU ÓFÆDDU. ÞÁ RÆKTUM VIÐ VÍNGARÐ OKKAR VEL.

[1]. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli fólks á bók Pauls Jalsevac, „Glæpurinn gegn mannkyninu – Kynþáttahyggjan og markviss fækkun jarðarbúa“ sem finna má á Vefrit Karmels.
[2]. „The Physics of Angeles Where Sience and Spirit Meet,“ bls, 132.
[3]. „Summa theologiae,“ 1, q. 63, a. 9.
[4]. Ibid, 1, q. 63, a. 7.

No feedback yet