« Hvítklædda konan í Tien-Tsin í Kína árið 1901Hinn algildi sannleikur – kærleiki elskunnar »

26.04.07

  07:21:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 425 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Athugasemdir við skrif Kristins Hauks Guðnasonar sagnfræðings.

Maður nokkur er nefndur Kristinn Haukur Guðnason og er sagnfræðingur að mennt. Hann er ekki alveg ókunnur okkur hér á Kirkjunetinu vegna þess að fyrir nokkrum misserum skrifaði hann hér á vefsíðunni og þá svo stóryrtur og með guðlasti, að lokað var á hann. Hann fór geyst á Moggablogginu í einni hinna ágætu greina Jóns Vals Jenssonar: Giftingartillaga 41 prests gengur gegn kristinni kenningu. Ég ætlaði mér alltaf að svara rangfærslum hans þar, en vannst ekki tími til þess áður en tímamörkin til athugasemda runnu út.

Eitthvað virðist sagnfræði Kristins Hauks Guðnasonar vera á skjön við staðreyndirnar. Með fyrstu krossferðinni á hann væntanlega við þá fjórðu sem farin var 1204 í óþökk páfa og hófst í borginni Zara í Dalmatíu að ósk Feneyjarkaupmangara sem kostuðu hana. Enn í dag má sjá ljósakrónur í gömlum íslenskum kirkjum sem voru ránsfengur frá Konstantínópel og seldar voru um Evrópu þvera og endilanga, enda högnuðust Feneyjarmenn vel á uppátækinu. Veldi þeirra varð reyndar slíkt á Ítalíustígvélinu að þeir lögðu jafnvel Páfavaldið undir sig með hörmulegum afleiðingum fyrir kirkjuna. Í reynd hefur það ávallt leitt til mikils ófarnaðar þegar Páfavaldið hefur verið veikt og hefur fallið í hendur veraldarhyggjumanna.

Ekki vildi ég treysta sagnfræði téðs Kristins vel í öðrum efnu. Rétt er að mikil voðaverk voru framin í Evrópu eftir útkomu Nornahamsins. En þær 60.000 sem talið er að hafa orðið fórnardýr þessara nornaveiða verða harla léttvægar í samanburði við nornaveiðar veraldarhyggjunnar (secularism) á tuttugustu öldinni. Þannig er talið að fórnardýr kommúnismans séu um 200 milljónir (að Kína meðtöldu) og einn milljarður ófæddra barna hefur verið myrtur með köldu blóði á s. l. tveimur áratugum!

Á öllum öldum hafa verið uppi öfgamenn (eða geðvillingar) sem fengið hafa þær grillur í höfðuðið að þeir þjónuðu Kristi best með manndrápum. Okkur er hollt að minnast orða Krists Jesú sjálfs í garðinum sem hann mælti til Símonar Péturs: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla“ (Mt 26. 52).

Ef téður Kristinn Haukur gætir stillingar í orði og æði getur hann svarað þessari athugasemd, ef ekki, þá verður aftur lokað á hann til samræmis við þær siðareglur sem gilda á þessari vefsíðu.

8 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Einn þeirra helztu, sem rannsakað hafa galdrabrennumál á síðustu þremur áratugum eða svo, er danski fræðimaðurinn Gustav Henningsen. Hans mat er, að á þeim fjórum öldum, sem galdraofsóknirnar stóðu yfir, hafi um 50.000 manns verið drepnir í heimi kristninnar – ekki 5 milljónir, eins og ævintýrahöfundurinn Dan Brown heldur fram! Samkvæmt greininni Who Burned the Witches? eftir Söndru Miesel, miðaldafræðing og kaþólskan blaðamann í Indianapolis, er “the best current estimate” (bezta matið nú um stundir) um tímabilið frá 1400 til 1800 um 30.000–50.000 deyddir, og þar var ekki alltaf um galdrabrennur að ræða, því að drápsaðferðirnar voru fleiri. Greinin verður ekki sögð hlífa kaþólsku kirkjunni til að láta mótmælendur koma mun lakar út, því að hreinskilnislega er þar gengizt við sekt kaþólskra manna allt eins og hinna – og að upptökin hafi verið á kaþólskum tíma fyrir siðaskipti, þótt langversta tímabilið hafi verið 17. öldin. En þetta er fróðlegur lestur fyrir ýmsa.

Þess ber að geta, að nefndar tölur spanna einungis yfir drepna ‘galdrafólkið’, ekki aðra. Á galdraofsóknatímanum voru ekki eingöngu meintir galdamenn ofsóttir, heldur einnig (um tíma og trúlega staðbundið) þeir, sem neituðu að trúa á tilvist norna, en Sprenger og Kraemer, höfundar Nornahamarsins, héldu því fram, að slík afneitun væri trúvilla, þótt andstætt álit, komið úr 9. aldar handriti, Canon Episcopi, hefði náð inn í kirkjulagasafnið, sem sé, að trú á nornir, sem flygju að næturlagi, væri trúvilla, af því að í reynd væru engar nornir til. Mér er ekki ljóst, hvort tölurnar 30–50.000 innifeli þá, sem “féllu” í áminnzta “trúvillu” að mati Sprengers og Kraemers, þ.e.a.s. ef menn voru þá einhvers staðar dæmdir til dauða fyrir þá afstöðu sína.

30.04.07 @ 07:18
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hið sama gildir um Rannsóknarréttinn á Spáni. Því hefur verið haldið fram að hann hafi dæmt tugþúsundir manna til dauða (Torquemada), sumir andstæðingar kirkjunnar segja allt að 250.000-280.000 manns. Spænskir sagnfræðinar hafa bent á að þessi tala hlaupi einhversstaðar á 220 til 280 dauðadómum. Þetta þýðir ekki að ég sé að réttlæta slíkt, en sannleikurinn er sá að hér lét kirkjan undan yfirgangssemi veraldlegra yfirvalda í mörgum tilvikum (vegna Mára og Gyðinga) og réttarfar lénsveldisins og konungsvaldsins var grimmt, eins og við Íslendingar komumst sjálfir að raun um.

Engu að síður blasir við sjónum að „góðhjartaðir“ sýslumenn gerðu iðulega allt sem í þeirra valdi stóð til að tefja fyrir málum með því að vísa þeim hvað eftir annað úr héraði til þings vegna málsgalla. Þannig var unnt að draga málin á langinn og í sumum tilvikum var „þeim seka“ forðað frá dómi.

30.04.07 @ 07:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þó var hlutfall okkar Íslendinga í galdrabrennum á 17. öld mjög hátt meðal Evrópuþjóða, miðað við mannfjölda.

30.04.07 @ 11:52
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Kristinn Haukur reyndi að svara hér en allt kom fyrir ekki.

E-ð bogið við þetta.

02.05.07 @ 21:10
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hann á að geta það. Reynið annars úr þinni tölvu.

02.05.07 @ 23:24
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það þarf líkast til að kippa IP tölunni hans af bannlista. Það má senda hana í tölvupósti á vefstjori@kirkju.net.

03.05.07 @ 05:12
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég fann IP töluna sem hann kom frá áður og kippti henni af bannlistanum. Nú ætti þetta allt að vera opið ef hann er að koma frá sömu tölunni og þá.

03.05.07 @ 14:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Takk fyrir þetta, Ragnar. Ég vissi ekki, að neinn íslenzkur væri á bannlista, aðeins þeir erlendu aðilar (hálf-nafnlausir), sem hafa verið að senda hingað ruslpóst með einhverjum undarlegum, óskiljanlegum orðarunum, en slíkar sendingar hafa komið hingað inn á Kirkjunetið í slurkum af og til um eða upp undir eitt ár eða svo.

03.05.07 @ 23:16