« Ritningarlesturinn 12. september 2006Ritningarlesturinn 11. september 2006 »

11.09.06

  09:08:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 847 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Ásýnd jarðarinnar er mörkuð syndinni á okkar tímum

Í spádómsriti Esekíels spámanns lesum við einhver leyndardómsfyllstu orðin í allri ritningunni: „Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið gegn móti mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði, en ég fann engan. Þá úthellti ég reiði minni yfir þá, gjöreyddi þeim með eldi gremi minnar, ég lét athæfi þeirra þeim í koll koma, – segir Drottinn Guð (Esk 22. 30-31). Því reisir Drottinn fyrirbiðjendur á jörðu til að vaka yfir múrum Jerúsalem: „Þeir skulu aldrei þegja, hvorki um daga né nætur“ (Jes 62. 6).

Af þessum sökum leitast fyrirbænareglur eins og Litlu bræðurnir og systurnar af hinu Alhelga hjarta Jesú við að senda fyrirbiðjendur inn á mestu átakasvæðin í heiminum og þangað sem syndin hefur markað hvað dýpst spor: Inn í örbirgð fátækrahverfa milljónaborga þriðja heimsins. Þannig rísa ljóssúlur fyrirbænarinnar upp úr myrkrinu og snerta við hjarta Guðs og verða að farvegi náðar og miskunnar.

Heil. Serafím frá Sarov sagði eitt sinn að „heimsdrottnar myrkursins“ (Ef 6. 12) væru svo illskeyttir að þeir myndu tortíma jörðinni á einu andartaki, ef náð Guðs skipaði sér ekki í skarðið landinu til varnar. Stundum virðast þessi öfl ná yfirhöndinni þegar þau ná fótfestu í mannshjörtunum. Þetta gerðist í Sarov þar sem heil. Serafím varði mestum hluta ævi sinnar í Sarovklaustrinu. Hinn fagri Sarovskógur var hogginn upp og seldur til útlanda og kirkjunum og klaustrunum breytt í útrýmingarbúðir ógnarstjórnarinnar. Það voru ekki einungis prestar og nunnur sem voru limlest þarna og aflífuð. Hin fyrrum friðsama járnbrautarstöð í Sarov sem þjónaði friðsömu landbúnaðarhéraði varð að viðkomustað hundruða þúsunda nafnlausra karla og kvenna sem stimpluð voru „óvinir alþýðunnar“ og þar með svipt öllum mannréttindum og báru beinin á þessum stað þar sem Guði hafði áður verið sungið lof.

Allt gerðist þetta sökum þess að menn sofnuðu á verðinum og uggðu ekki að sér, fremur enn að skynja aðsteðjandi vá. Hér á ég við rússnesku dúmuna og jafnaðarmannastjórn Kerenskíjs. Mikil og dökk óveðursský hafa nú safnast á lofti undir gunnfána guðsafneitunar og veraldarhyggju sem „setur sig á móti Guði“ (1Þ 2. 1) og sjálf ásjóna jarðarinnar mörkuð synd græðginnar og hömlulausar eftirsóknar eftir gæðum jarðar. Í fljótu bragði má ætla að þessi öfl muni fara með sigur af hólmi, en þá skulum við hafa í huga þann hildarleik sem háður var í Póllandi. Þar ætluðu öfl guðsafneitunarinnar að reisa fyrstu guðlausu borgina í heiminum – Novij Sad – án allra kirkna, tilbeiðslu og helgrar þjónustu við Guð.

Af einhverjum ókunnum ástæðum stóð ein lóð í miðborginni auð og hinar ýmsu stjórnardeildir alræðisvaldsins gátu ekki komið sér saman um hver hreppa skyldi hnossið. Einn morguninn stóð þar lítill trékross sem öryggislögreglan fjarlægði samstundis. Þannig endurtók sama sagan sig í sífellu uns mannfjöldinn sem safnaðist umhverfis krossinn var orðinn svo mikill að ógnarstjórninni féllust hendur. Sumir úr þessum hóp urðu síðar að forystumönnum í Samstöðu (Soldidarnos) sem markaði upphaf hruns eins mesta hernaðarveldis mannkynssögunnar.

Hin blessaða Mey hafði sagt alla þessa atburðarás fyrir í Fatíma árið 1917. 72 ár liðu þar til Sovétríkin sálugu hurfu af yfirborði jarðar árið 1989. 72 árum áður birtist hin blessaða Mey í La Saliette og sagði:

Ef þjóð mín hverfur ekki frá athæfi sínu, verð ég tilneydd að láta armlegg Sonar míns falla. Hann er svo máttugur að ég megna ekki lengur að halda aftur af honum. Hversu lengi verð ég að þjást sökum ykkar! Ég vil ekki að Sonur minn snúi við ykkur baki. Ég er knúin til að ákalla hann í sífellu og þið hirðið ekkert um þetta.

Við skulum því taka undir fyrirbænir Guðsmóðurinnar og biðja Heilagan Anda að endurnýja ásjónu jarðarinnar sem nú er afskræmd af svöðusárum syndarinnar. Minnumst orða heilagrar Ritningar:

Ef Drottinn byggir ekki húsið,
erfiða smiðirnir til ónýtis.
Ef Drottinn verndar ekki borgina,
vakir vörðurinn til einskis (Sl 127 1).

Það er þetta sem heil. Kýpríanos áminnir okkur um í hugleiðingu sinni um Ritningarlestur dagsins í dag (11. september): „Í gæsku sinni stjórnar hann og viðheldur sköpunarverkinu með Orði sínu. . . Þannig er því forðað frá því að verða að fórnardýri sjálfs sín sem væri hlutskipti þess ef Orðið vekti ekki yfir því, það er að segja tortímingunni.“

No feedback yet