« Kaþólskar fjölskyldur á Filippseyjum hittast og lesa biblíunaElín Flygenring skipuð sendiherra Íslands hjá Páfagarði »

01.06.09

  09:36:18, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 317 orð  
Flokkur: Stjórnmálarýni, Þjóðfélagsrýni, Trúin og menningin

Annar í hvítasunnu - sjálfsagður frídagur?

Í dag er annar í hvítasunnu og munu margir eflaust njóta dagsins og frísins því það viðrar vel hér á Suðurlandi. Líklega mun þó ekki vera fjölmennt í messum þó svo upprunalegur tilgangur með þessum helgidegi hafi verið sá að gefa fólki tækifæri til að sækja helgihald. Margir hafa líka eflaust sótt kirkju í gær og þannig uppfyllt messuskyldu sína á þessari kirkjuhátíð.

Þannig er málum háttað með ýmsa fleiri helgidaga hinnar kristnu kirkju svo sem uppstigningardag sem er á fimmtudegi, en þessir dagar eru lögboðnir frídagar svo sem mælt er fyrir um í Lögum um helgidagafrið, nr. 32 frá 14. maí 1997. Yfirlýstur tilgangur þeirra laga er að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar.

Í núverandi skipan mála er það því fyrst og fremst Þjóðkirkjan sem stendur vörð um þessa helgidaga en önnur kristin trúfélög svo sem kaþólska kirkjan njóta góðs af þessari velvild löggjafans. Hugsast getur að ef til aðskilnaðar ríkis og þjóðkirkju komi að staða Þjóðkirkjunnar og hinna kristnu trúfélaga verði veikari hvað varðar þessa helgidaga. Ýmislegt bendir nú þegar til að þróunin verði sú, t.d. kerfisbundin og endurtekin lögbrot gagnvart helgiskyldu föstudagsins langa, einhvers mesta hátíðisdags kristninnar. Ennfremur hefur heyrst í umræðu liðinna ára sú hugmynd að færa uppstigningardag.

Stuðningur við aðskilnað ríkis og kirkju á sér líklega meiri hljómgrunn meðal Alþingismanna nú en áður. Kerfisbundið skróp Alþingismanna í setningarmessu Alþingis er ein vísbending sem styður þá tilgátu. Af augljósum ástæðum liggur stjórnvöldum samt ekki á að ýta aðskilnaðarmálinu úr vör.

No feedback yet