« Yður ber að fæðast að nýju.„En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, Sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“ »

23.04.06

  05:06:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1094 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Annað opið bréf til Þórðar Sveinssonar, formanns ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði

Þórður, gleðilegt sumar. Sem verandi jafnaðarmaður sjálfur léttir mér að heyra að þú teljir einstaklinginn búa yfir siðferðiskennd. Þetta er það atriði sem hefur ávallt aðskilið lýðræðissinnaða jafnaðarmenn frá sósíalfasismanum. Það er vafalaust óþarft að minna þig á, hversu hörmulegar afleiðingar það hafði í Rússlandi, þegar kommúnistar sviptu þjóðina þeim lýðræðislegu réttindum sem jafnaðarmannastjórn Kerenskis hafði komið á eftir fall keisarastjórnarinnar forðum sem varð til þess að 200 milljónum mannslífa var fórnað undir ógnarstjórn Sovétfasismans. Þetta var sökum þess að jafnaðarmenn sofnuðu á verðinum.

Ég er líka hjartanlega sammála þér þegar þú víkur að mikilvægi þess að huga betur að félagslegri aðstoð við konur. Þetta er einmitt það sem olli straumhvörfum í Bandaríkjunum í umræðunni um fóstureyðingar. Það er heldur ekki rétt eins og svo iðulega er haldið fram hér heima, að umræðan um fóstureyðingar einskorðist við íhaldssama repúblikana. Umræðan gengur langt inn í raðir demókrata.

Fullyrðingar stuðningsmanna fóstureyðinga hefur grundvallast á tveimur lygum. Annar er sá að fóstureyðing feli einungis í sér að „vefjavöndull“ sé fjarlægður úr konunni. Hinn að þær séu öruggar. Staðreyndirnar tala þvert á móti sínu máli og eru studdar fjölda marktækra vísindalegra rannsókna.

Við fóstureyðingu ganga foreldrar í gegnum sorgarferli sem er áþekkt því þegar náinn ættingi andast snögglega. Þúsundir harmi lostinna mæðra og feðra eru þegar tekin að tjá afstöðu sína og andúð á „velgjörðarmönnum“ sínum. Ljóst er nú þegar að það eru ekki hin siðrænu rök gegn fóstureyðingum sem munu uppræta fóstureyðingarstórðiðjuna. Það er réttur konunnar sem þar mun ráða úrslitum. Hér er um dálitla kaldhæðni að ræða, þar sem stuðningsmenn fóstureyðinga hafa einmitt vísað mikið til þessa réttar. Fyrst og fremst felst þetta í því að konum verði ljós sú áhætta sem felst í fóstureyðingum, rétturinn til að hafa um fleiri valkosti að ræða og rétturinn til að höfða mál á hendur fóstureyðingarfyrirtækjum vegna þess að það eina sem þau hugsa um er bankainneignin.

Eins og ég sagði hafa fóstureyðingar á heimsvísu verið réttlættar með tveimur lygum. Víkjum örlítið nánar að fyrra atriðinu, að hér sé einungis um „vefjavöndul“ eða hvern annan ofvöxt í líkama sjálfrar konunnar að ræða, en ekki mannveru eða ófætt barn. Á síðustu tveimur áratugum hafa lífsverndarsinnar einbeitt sér að þessum fyrri lygum. Rannsóknir í Bandaríkjunum leiða í ljós að um 70% þeirra kvenna sem fara í fóstureyðingar telja að þær séu siðferðilega rangt athæfi, eða að minnsta kosti „óæskileg athöfn.“ (hér kemur siðferðiskenndin til málanna). Konurnar fara ekki í fóstureyðingu vegna þess að þær trúi því að hún sé rétt, heldur vegna þess að sökum þrýstings finnst þeim þetta eina leiðin sem þeim standi til boða. Ein af þeim „rangfærslum“ sem felast að baki „valfrelsisins“ felst í því að konunum finnst að ekki standi neitt annað til boða. Þær kjósa ekki fóstureyðingu í ljósi eigin samvisku, heldur þvert á móti í andstöðu við hana.

Víkjum að síðari lygunum: Öryggi fóstureyðinga. Hið andhverfa er þvert á móti raunin: Fóstureyðingar eru varhugaverðar. Meira en eitt hundrað alvarlegir fylgikvillar hafa verið raktir til fóstureyðinga sem rekja má til ólíkra þátta. Svo að einungis sé minnst á fátt eitt felst þetta í aukinni tíðni á brjóstakrabbameini, ófrjósemi, vandkvæðum á því að bindast síðari börnum tilfinningaböndum og alvarlegri röskun á kynlífi. Einnig má minnast á lifrarkrabbamein, hjálegsfóstur, sjálfsmorðsviðleitni og samskiptavandamál. Þetta síðast nefnda atriði hefur lamandi áhrif á konuna og gerir henni erfitt að umgangast ættingja, vini og jafnvel vinnufélaga. Allt hefur þetta orðið til þess að sýna fram á að „öryggi fóstureyðinga“ sé öfugmæli.

Þannig hefur almenningur í Bandaríkjunum smám saman vaknað til meðvitundar um það að fóstureyðingar séu ósættanlegur valkostur. Fólk trúði því lengi vel að sætta mætti sig við að deyða ófædd börn ef slíkt fæli í sér hjálp konunni til handa. Þegar þessir lygar lágu fyrir leiddi það til viðhorfsbreytingar hjá þeim „Jóni og Gunnu á götunni.“ EF FÓSTUREYÐINGAR VALDA KONUNNI SVONA MIKLUM ÞJÁNINGUM, HVERS VEGNA ERU ÞÆR ÞÁ FRAMKVÆMDAR Í SVO MIKLUM MÆLI? Ætli beinasta svarið felist ekki því að þannig velti ríkisvaldið af sér félagslegri ábyrgð sinni gagnvart velferð kvenna?

Þetta hefur orðið þess valdandi að viðhorfið til fóstureyðingarstóriðjunnar er orðið afar neikvætt eins og sjá má á skoðanakönnunum. Hér erum við komin að kjarna málsins sem allir sannir jafnaðarmenn ættu að bera fyrir brjósti: AÐ VERNDA BÆÐI KONUNA OG BARNIÐ. Höfum ávallt í huga að jafnaðarmönnum hefur auðnast að byggja upp mestu réttarríkin og velferðarríkin á jörðu: Hér á ég við Norðurlöndin og Þýskalandi. Norðurlöndin fimm nota krossfánann sem þjóðartákn. Höfum í huga að fjölmargir þeirra sem lögðu jafnaðarmannahreyfingunni lið í upphafi tuttugustu aldar komu úr kristinni kirkju, fólk sem hreifst af orðum Gamla testamentisins: „HANN REKUR RÉTTAR MUNAÐARLEYSINGJANS OG EKKJUNNAR OG ELSKAR ÚTLENDINGINN, SVO AÐ HANN GEFUR HONUM FÆÐI OG KLÆÐI“ (5 M 10. 18). Af þessum sökum er ég sjálfur jafnaðarmaður.

Ég bendi þér að lokum á eftirfarandi greinar máli mínu til stuðnings í skráarsafni mínu um Fóstureyðingar og vernd:

Fóstureyðingar hafa geðræn vandamál í för með sér
Níu rök gegn fóstureyðingum
Tíu svör til stjórnmálamanna sem styðja fóstureyðingar

7 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég fer þess vinsamlegast á leit við aðra meðlimi að blanda sér ekki inn í þessa umræðu. Ég fer þess á leit við Þórð að hann svari þessu bréfi undanbrgaðalaust því að hér er miklu meira mál á ferðinni en þetta eilífa stagl um samkynhneigð eina og sér, það er að segja grundvallarafstöðuna til MANNHELGIINNAR.

23.04.06 @ 05:20
Þórður Sveinsson

Grundvallarafstaða mín til mannhelginnar er mjög einföld: Allir eiga rétt til lífs og þann rétt á að verja eins og framast er kostur. Í umræðu um fóstureyðingar má ekki gleyma því að konan nýtur mannhelgi. Rétt hennar til lífs og heilbrigðis ber að verja eins og kostur er. Þegar kona hefur orðið þunguð eftir nauðgun brýtur það gegn mannhelgi hennar að neyða hana til að ganga með fóstur. Og í ýmsum tilvikum öðrum er það svo að meðganga og síðar fæðing getur haft mjög ill áhrif á velferð konunnar og lífi hennar kann jafnvel að vera stofnað í hættu. Þegar svo ber undir ber að virða mannhelgi konunnar umfram rétt fósturs sem enn er ekki orðið að persónu með filfinningar. Ef þetta grundvallarviðmið er ekki virt getur niðurstaðan orðið fáránleg, svo sem ef 14 ára stúlka er neydd til að fæða barn þó svo vitað sé að fæðingin muni verða hennar bani.

Samkvæmt þessu álít ég fóstureyðingar ekki óásættanlegar sem valkost heldur nauðsynlegt úrræði til að beita við sérstakar aðstæður.

24.04.06 @ 22:55
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Svar Þórðar kemur mér ekki á óvart. Honum til hægðarauka setti ég tengingu á þrjár greinar sem hann hefur bersýnilega engan áhuga á að kynna sér. Hann hafnar jafnframt þeim rökum að fóstureyðingar eru skaðlegar konum og brot á mannhelgi þeirra. Þórður er eins og hann lýsir því sjálfur „rétthugsandi maður,“ það er að segja tileinkar sér „rétthugsun“ þá sem er ríkjandi nú um stundir á Íslandi. Allt finnst mér þetta bera vott um sorglegt hugarfar hjá ungum manni. Meira hef ég ekki um þetta að segja og opna málið til umræðu.

Lokaorðin „sérstakar kringumstæður“ minna mig óhuggulega á „sosialische indikationen“ hinna tólf myrku ára nasistasstjórnar Hitlers.

25.04.06 @ 06:08
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svar Þórðar virkaði ekki jafn-neikvætt á mig, nafni. Hann væri vissulega með þeim íhaldssömustu í þessu efni hér á landi, ef hann samþykkti aðeins “erfiðustu tilfellin” (’the hard cases’). Hann talar í þessu sambandi um 1) “rétt [konunnar] til lífs og heilbrigðis,” sem verja bæri; 2) um þungun eftir nauðgun; 3) og svo ýmis tilvik önnur þar sem “meðganga og síðar fæðing getur haft mjög ill áhrif á velferð konunnar og lífi hennar kann jafnvel að vera stofnað í hættu. Þegar svo ber undir ber að virða mannhelgi konunnar umfram rétt fósturs …” segir hann og tekur dæmi: “Ef þetta grundvallarviðmið er ekki virt getur niðurstaðan orðið fáránleg, svo sem ef 14 ára stúlka er neydd til að fæða barn þó svo vitað sé að fæðingin muni verða hennar bani.”

Í þessu ljósi skoða ég lokasetningu hans sem er í beinu framhaldi (sbr. sérstaklega tvö fyrstu orð hans þar): “Samkvæmt þessu álít ég fóstureyðingar ekki óásættanlegar sem valkost heldur nauðsynlegt úrræði til að beita við sérstakar aðstæður.”

Jafnvel þótt við samþykkjum ekki siðmæti fósturdeyðingar þrátt fyrir nauðgun og álítum jafnvel, að þrátt fyrir lífshættu móður sé slík aðgerð aðeins heimil sem óbein fósturdeyðing, þ.e. sem aðgerð, sem miðar ekki að því að drepa fóstrið, heldur að legnámi, þegar legið er krabbameinshaldið, eða að fjarlægingu eggjastokks, þegar um utanlegsfóstur er að ræða, eða öðrum ámóta tilvikum (þar sem fóstrið á sér líka enga lífsvon vegna þessara ólífvænlegu aðstæðna), þá verðum við samt að viðurkenna, Jón, að ef þetta eru einu tilvikin, sem gestur okkar Þórður Sveinsson samþykkir sem lögmæta ástæðu fóstureyðingar (ég nota hans hugtak), þá verður hann að teljast “íhaldsmaður” meðal allra hinna ‘líberölu’ stjórnmálamanna þessa lands, hvað þetta varðar. Hann myndi þá standa gegn öllum þorra fósturdeyðinga, trúlega yfir 98% þeirra. (Athugum, að í a.m.k. 15–20 ár hefur engin slík aðgerð farið fram frá 1975 vegna ‘refsiástæðna’, þ.e. nauðgunar eða sifjaspella, og fósturdeyðing vegna beinnar lífshættu móður er sárasjaldgæf, varla slík tilfelli hér á landi nema þá helzt vegna utanlegsfósturs. En Þórður talar að vísu (undir nr. 1) ekki aðeins um líf móður, heldur líka “heilbrigði” hennar, og það víkkar eitthvað út þessi tilfelli. En NB talar hann ekki um “fósturskaðaástæður” eða litningagalla sem lögmæta ástæðu fósturdeyðingar; og sé það rétt skilið hjá mér, er hann einn þeim málsvörum ófæddra barna, sem lengst og næstlengst ganga.)

Þess vegna spyr ég hann líka: Var þetta rétt túlkun hjá mér, Þórður, eða samþykkirðu félagslegar ástæður líka og hverjar þá? Hafnirðu þeim alfarið, held ég sé kominn tími til fyrir okkur Jón Rafn að fagna þér sem einum skýrasta lífsverndarstefnumanni þessa lands og bjóða þig velkominn sem málsvara hinna ófæddu.

25.04.06 @ 07:48
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta er hárrétt hjá þér nafni og ég hef enga ástæðu til að halda annað en að hann sé góður og réttsýnn maður. Það sem fór í pirrurnar á mér er þessi útbreidda afstaða, að fóstureyðingar séu konunni til góðs. Samkvæmt áreiðanlegum rannsóknum eru þær stórvarhugaverðar, staðreynd sem haldið er leyndri fyrir konum í bæklingi kvennasviðs Landsspítalans.

25.04.06 @ 08:12
Þórður Sveinsson

Komið þið sælir og afsakið hvað ég svara ykkur seint – hef haft nóg að gera.

Spurningin er sem sagt þessi: Samþykki ég félagslegar aðstæður sem ástæður fóstureyðinga og hverjar þá?

Því er til að svara að ef kona hefur til dæmis orðið fyrir einhvers konar áfalli, sem gerir henni ókleift að ala upp barn, eða á við alvarleg heilsufarsvandamál að stríða, sem hafa sömu afleiðingar í för með sér, tel ég fóstureyðingu eiga að vera heimila. Þetta telur Landlæknisembættið vera félagslegar aðstæður, en segja má að ef til vill væri nær lagi að kalla þær heilsufarslegar. Það ber þó að hafa í huga að þær tengjast ekki meðgöngunni sem slíkri.

En sem sagt: Aðrar félagslegar aðstæður, til dæmis að lítið samband sé við barnsföður, finnst mér ekki eiga að koma til greina sem ástæða fóstureyðingar, enda tel ég að beita megi félagslegum úrræðum til að tryggja hag móður og barna. Í vissum tilvikum kann þó að koma til greina að gera undantekningu, svo sem ef um ræðir einstæða móður sem fyrir á mikinn fjölda barna. Þá kann það að vera svo að henni sé í raun ókleift að ala upp eitt barnið enn og mér finnst einhvern veginn ótækt að skikka konu til að fæða barn til þess eins að láta það strax frá sér. Og sama finnst mér gilda þegar barnung stúlka verður þunguð. Er hægt að leggja það á hana að verða að móður þó svo að hún hafi ef til vill alls ekki þroska til?

Annars er ég á því að beita eigi öllum leiðum til að koma í veg fyrir svona aðstæður. Þar skipta verulegu máli getnaðarvarnir og ábyrgt kynlíf. Því lengra sem gengið er í þeim efnum, þeim mun betra.

28.04.06 @ 14:33
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sæll, Þórður. Ég hafði vissan grun um, að þú vildir ekki hafa þetta eins þröngt og við Jón Rafn vorum búnir að ræða sem hugsanlega stefnu þína í þessu máli (sem fæli í sér, að þú værir á móti kannski 98% fósturdeyðinga á Íslandi). Samt mætti ætla skv. ofangreindu, að þú sért andvígur a.m.k. 75–85% fósturdeyðinga hérlendis. Megum við þá vænta þess, að senn heyrist hátt og snjallt mótmælahróp þitt á hinum pólitíska vettvangi, þar sem þú lýsir yfir eindreginni, skeleggri andstöðu þinni við mikinn meirihluta þessara gegndarlausu og kaldrifjuðu fósturdeyðinga? Eða a.m.k. að þú farir senn að vinna aðra á þitt band í kannski hljóðlátari pólitískri vinnu sem hafi að markmiði afnám verulegs meirihluta fósturdeyðinga?

28.04.06 @ 16:00