« Dauðapilla gegn lífinu – hér á Íslandi?!Barizt um hjónabandið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins »

30.03.09

Andtrúarróttæklingar höfðu hálfan sigur á landsfundi undarlegra 'íhaldsmanna'

Hér var fyrir helgina rætt um róttæka tillögu lausungarhyggjumanna (líberalista) í drögum að ályktun fjölskyldunefndar Sjálfstæðisflokksins. Annað tveggja alvarlegustu atriðanna þar, þ.e.a.s. að svipta presta hjónavígslurétti, var fjarlægt úr tillögunni í meðförum fjölskyldunefndar (á morgunfundi á föstudag), en úrslitin urðu þó ekki endanlega ljós, fyrr en sú meðferð málsins var staðfest af sjálfum landsfundinum.

Áfram er þó keyrt á það, að ein og söm hjúskaparlög skuli lögtekin fyrir bæði homma og lesbíur eins og fyrir venjuleg hjón. Verði þetta einhvern tímann að veruleika á hinu háa Alþingi – þrátt fyrir sáralitla ásækni samkynhneigðra í staðfestingu samvistar (frá árinu 1996) – þá má búast við því, að landsmönnum verði þaðan í frá uppálagt að tala um 'hjónabönd' samkynhneigðra og um slík pör sem hjón. Alltjent myndi það þá komið inn í alla lagabálka, sem snerta hjónabandið, ennfremur í skólabækur o.s.frv.

Enn á ný hafa því hómósexúalistar á Íslandi (þ.e.a.s. fylgismenn ýtrustu réttindakrafna fyrir samkynhneigða) haft áfangasigur í baráttunni fyrir enn fleiri ofréttindum þeirra.

En hér er endanlegur texti þessa hluta ályktunar landsfundar 2009 um fjölskyldumál:

Málefni samkynhneigðra

Sjálfstæðisflokkurinn vill að hjúskaparlögum verði breytt þannig að á Íslandi gildi einungis ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða. Áfram skal tryggt að trúfélög hafi sjálfdæmi um það hvers konar sambúðarform tveggja einstaklinga hljóti blessun innan vébanda þeirra.

8 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Verða meðlimir trúfélaga ekki að sætta sig við hvernig ríkisvaldið kýs að líta á, skilgreina og nefna það samlagsform sem hjónabandið er? Þarna er fyrst og fremst verið að ákveða hvernig gengið skuli frá borgaralegri og lagalegri hlið málanna. Hvað ríkisvaldið eða aðrir kjósa að kalla þetta er svo aftur álitamál. Kristnir þurfa t.d. að sætta sig við að talað er um borgaralega fermingu og nafngjafir eru almennt kallaðar skírnir, líka þegar gæludýrum eru gefin nöfn.

Við skulum þakka fyrir Jón á meðan ríkisvaldið hlutast ekki til með beinum hætti um málefni kristnu trúfélaganna á þeim forsendum að starfsemi þeirra stefni allsherjarreglu í voða. Dæmin eru mýmörg erlendis frá um slíka ágengni og hvað er það sem hindrar slíkt ofríki hér? Ekkert nema venjur, hefðir og heilbrigð skynsemi. Sjáðu t.d. hvernig ríkisvaldið hefur gengið fram í þjóðlendukröfunum. Hví ætti það að sýna trúfélögum meiri linkind en landeigendum ef hið pólitíska veður breytist til hins verra, en eins og allir vita geta veðrabrigði stundum orðið snögg.

30.03.09 @ 20:32
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, hví ætti ríkið að sýna trúfélögum meiri linkind en landeigendum? Einna helzt af siðferðilegum ástæðum, sem og vegna beinna lagaskyldna þar um [*], en í 3. lagi vegna aðhalds og andstöðu frá fólkinu í samfélaginu. Svo má ennfremur benda á, að offorsi ríkisvaldsins gagnvart landeigendum hafa þeir síðarnefndu reynt að verjast með því að fara dómstólaleiðina, og í réttarríkinu hefur það í sumum tilvikum fært landeigendum sigur gegn ranglátri ásælni fjármálaráðuneytisins, þannig að við megum ekki gefa okkur, að það geti farið að viðgangast hér til lengdar, að yfirgangssömu ríkisvaldi takist að eigin geðþótta að fótumtroða eignarréttinn eða beita menn og stofnanir óréttmætri ágengni og rangsleitni.

En hér er ekki aðeins um það að tefla, hvort ríkisvaldið virði (1) réttindi kirkna og trúfélaga eða (2) formlega helgisiði þeirra, heldur er einnig um það að ræða, að (3) stjórnvöld hafi vit og sýni lit á því að virða og taka tillit til þess, sem fólkið sjálft kýs að halda í af tilfinningalega dýrmætum siðvenjum sínum, þ.e. við hátíðlega athöfn í kirkju, þar sem hjónaefni heita hvort öðru eiginorði, og að lokum er einnig um það princípmál að ræða, að (4) ríkið eigi ekki að fara út í neinar slíkar grundvallarbreytingar, sem það hafi ekki leitað lýðræðislegs umboðs til. Þau stjórnvöld yrðu óþokkasæl, sem keyrðu í einþykkni á slík valdboðin umskipti um einn af merkustu áföngunum í lífi venjulegs fólks.

Þetta nægir vonandi til að svara þér, kæri Ragnar

[*] Þrátt fyrir allt tal sumra um nauðsyn þess að “aðskilja ríki og [Þjóð]kirkju” er í reynd fyrir hendi mjög eindreginn aðskilnaður þar á milli í mörgum atriðum, jafnvel mun fleiri en t.d. um 1950. Það er nú lögfest með skýrum hætti, að Þjóðkirkjan á að fá að hafa sín innri mál í friði, þ.e.a.s. sína helgisiði, sakramenti, agamál, trúar- og siðferðiskenningu, eins og fram kemur í 1., 2., 5., 6., 10.–12. og 20. gr. laga um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem áskilja henni þetta frelsi. Eðlilegt er – m.a. út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ákvæði hennar um frelsi til trúariðkunar – að ætlast til hliðstæðrar tillitssemi af ríkisvaldsins hálfu við aðrar kirkjur og trúarsöfnuði.

30.03.09 @ 21:02
Athugasemd from: snorri í betel
snorri í betel

Margt má nefna til að sýna fram á hve undarleg breyting var samþykkt hjá Sjálfstæðismönnum.
1. Íslenskri tungu var breytt. Orðin hjón/hjónaband hafar verið í notkun um vígt samband karls og konu. En nú er ný-gildi tekið inní þennan skilning.
2. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið sig málsvara kristinna gilda. Vinstri flokkarnir hafa setið einir að niðurrifi þeirra. Nú má spyrja, er vinstrisveifla í Sjálfstæðisflokknum eða afkristnun?
3. Undanfari hruns allra ríkja í veraldarsögunni var siðferðishrun. Nú er fjármálakerfið hrunið og siðferðishrun ásamt gegnisfellingu á merkingu íslenskra orða.
4. Fram að þessu hafa allar réttarbætur fyrir samkynhneigt fólk ekki skilað þeim því sem ætlast var til. Aðeins hafa marktækar breytingar komið niður á “Biblíuþýðingunni", “hegningarlögjöfinni gegn meiðandi orðalagi um samkynhneigða” og nú til að kirkjan missi frelsi sitt til að boða föllnum heimi að menn skuli taka framförum í daglegri breytni og kristilegu hugarfari.

Ætli Sjálstæðismenn séu meðvitaðir um áhrif þessara breytinga? Hvað ætli megi segja komandi kynslóðum um ávöxt lífsmátans?
Kær kveðja
snorri í betel

31.03.09 @ 20:59
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Verandi kaþólskur á ég dálítið erfitt með að skilja afstöðu þína minn kæri Jón Valur. Í gamla daga þegar freulein Walthinger (stúlka sem ég vann með hjá Süddeutche Zeitung) ákvað að gifta sig, fóru þau hjónaefnin fyrst til borgarfógeta og uppfylltu skilyrði ríkisvaldsins, en viku síðar fór hið raunverulega hjónaband fram í kaþólskri kirkju.

Ég tel að þetta séu óhjákvæmilega vandamál kirkjudeilda sem hafna hjónabandinu sem sakramenti. Mér skilst að þessi regla hafi verið í gildi í Þýskalandi og Frakklandi áratugum saman. Borgaralegt hjónaband er ekki gilt í okkar kirkju, eins og þú veist sjálfur.

01.04.09 @ 16:29
Athugasemd from: Matthías Matthíasson
Matthías Matthíasson

Hvað mynduð þið segja ágætu herramenn ef hér á landi yrðu sett Sharialög?
Það truflar mig ekkert sérstakleaga mikið að þið skulið vera í ykkar ágætu trúfélögum og jafnvel að þið hafið áhuga á því að boða þá trú sem þið aðhyllist. En einhverstaðar hlýtur að verða að setja mörk.
Þið eruð í raun að kalla eftir Sharialögum kristinna á Íslandi. Það er einmitt hefð fyrir því í hinum kristna heimi að ólíkir hópar geta lifað saman í sátt og samlyndi. Það er því sorglegt að þið séuð talsmenn þess að halda hópum í samfélaginu réttindalausum (eða réttindalitlum) einungis vegna þess að þið í bókstafstrúarvímunni viljið steypa öllum í sama mót.
Ég studdi þá ágætu tillögu í fjölskyldunefnd að halda vígslurétti hjá trúfélögum og ég studdi einnig þá breytingu að vígslumönnum væri fjálst að veita þá þjónustu sem samviska þeirra býður þeim. Ég fékk meira að segja fólk mér kunnugt til að greiða atkvæði á þennan veg í fjölskyldunefnd. Þetta gerði ég í góðri sátt við hinn ágæta Sr. Gunnar í Digranesprestakalli. En kæru kristnu samlandar.. hættið að eyða orku í fólk sem kemur ykkur ekkert við. Samkynhneigð er ekki smitandi… hún virðist ekki hafa mikið áhrif á líf þess fólks sem þið umgangist heldur einungis á líf þeirra sem eru samkynhneigðir og ættingja þeirra..
Það eru svolítið hallærisleg rök í málinu Jón Valur að halda því annarsvegar fram að aukin og sjálfsögð réttindi til handa samkynhneigðum raski alsherjarreglu á Íslandi og hinsvegar að segja að sambúð og hjúskapur samkynhneigðra skipti í rauninni engu máli af því að svo fáir séu í staðfestri samvist.
Finndu þér annað áhugamál kæri vinur.. Leyfðu okkur sem samkynhneigð erum að njóta þess ágæta lífs sem við lifum í góðri sátt við (nánast) alla.
Ég er sjálfur ekki kristinnar trúar heldur búddisti. Það er því ekki sjálfsagt eða eðlilegt að ég þurfi að hafa minni réttindi einungis til þess að þú eigir í betra sambandi við guð þinn. Ekki láta trú þína stjórnast af aðstæðum mínum kæri vinur.. ég læt ekki aðstæður mínar stjórnast af þinni trú :)

10.04.09 @ 15:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Segðu mér, Matthías Matthíasson, hvernig dettur þér í hug að líkja kristnu siðferði við sjaríalög múslima (raunar aðeins sumra múslima, ekki annarra)? Er ekki allt í lagi með þína rökhugsun? Hefurðu séð hér hvatt til handarhöggs fyrir þjófnað eða dauðarefsingar fyrir kynlíf fyrir hjónaband?

Þú segir: “Það er því sorglegt að þið séuð talsmenn þess að halda hópum í samfélaginu réttindalausum (eða réttindalitlum),” en þetta stenzt ekki; samkynhneigðir hafa allan rétt eins og aðrir til lífs, ferðafrelsis, atvinnu, tjáningarfrelsis og æruverndrar, sem og borgaraleg réttindi til réttlátrar dómstólameðferðar, séu þeir ásakaðir um eitthvað. Hvergi skilur neitt milli þeirra og annarra í þessu efni.

Vegna kröfu þeirra um réttindi til samlífis og að láta hjúskaparlög gilda um það og jafnvel að fá að framkvæma hjónavígslu þeirra í kristinni kirkju, þá er þess fyrst að geta, að þarna er um ólíka hluti að ræða eða (að kalla má) þrjú þrep samlífishátta. Í 1. lagi hefur hér hvergi verið lagt til, að frelsi þeirra verði tálmað til samlífis, hvað þá að frelsissviptingu eða líkamlegum refsingum verði beitt í anda sjaríalaga til að koma í veg fyrir slíkt samlífi.

Í 2. lagi er svo hjónabandsspursmálið og í 3. lagi hvort slíkt hjónaband geti heitið kristið eða megi fara fram á vegum prests og í kirkju. Svarið við 3. atriðinu er eindregið nei, þar sem samræði fólks af sama kyni er andstætt siðakenningu Nýja testamentisins. Því getur hjónavígsla slíkra aðila ekki farið fram með kristnum hætti, það væri eins og sjálfsmótsögn. Þar fyrir utan er kveðið á um kristið hjónaband í báðum meginhlutum Biblíunnar; Jesús endurtekur orð Gamla testamentisins um það og kveður skýrt á um, að hjónabandið sé fyrir einn karl og eina konu. Kristin kirkja á að njóta þess frelsis að fá að byggja sína kenningu og sína helgisiði á orðum Krists og postula hans, ekki á neinni tízkustefnu síðari alda. Það krefst trúmennsku og einurðar af kirkjunni, af hverju kirkjusamfélagi og af trúuðum einstaklingum.

“Sigurbjörn blessaður [Einarsson] komst oft vel að orði, og hann sagði eitt sinn réttilega að kirkjan mætti ekki giftast sinni samtíð því þá lenti hún í ekkjustandi í næstu kynslóð …” (sr. Úlfar Guðmundsson í viðtali, Kirkjuritið, 2. hefti 2008, s. 28, lbr. hér). Þetta á hér vel við í þessu samhengi, kirkjan á ekki að giftast tíðarandanum, heldur varðveita trúnað sinn við Drottin sinn í orði hans.

Um 2. atriðið þyrfti sérstaka umfjöllun hér, og hún birtist hér bráðlega.

Þá eru hér fleiri atriði í máli þínu, Matthías, sem vert væri að gera athugasemdir við, en ég læt nægja í bili að nefna þessa gefnu forsendu þína: að við hér á Kirkjunetinu teljum samkynhneigð “smitandi". Þetta á eflaust að hjálpa til að gera sjónarmið okkar hlægileg, en forsendan er raunar ekki okkar. Eins er um aðra forsendu þína: að við Kirkjunetsmenn viljum “steypa öllum í sama mót.” Þetta er tilbúningur frá þér og hefur ekkert að segja í fyrrgreindu deilumáli okkar.

29.09.09 @ 18:14
Athugasemd from: Helga  
Helga

Getur ekki verið að orð Sigurðbjörns sé hægt að túlka á marga vegu?
Að giftast sinni samtíð? Hvernig var samtíðin þegar hann mælir þessi orð?
Ef við mennirnir höfum misst þann tilgang sem knýr okkur til lífvilja þá kemur leiði og einhverstaðr stendur að það leiði til óhóflegs munaðar, leti, græðgi, kæruleysis og hórlífs.
Gat ekki verið að Sigurbjörn hafi verið að sporna við því að kirkjan líkti eftir því sem væri að gerast í okkar heimi? Að kirkjan mætti ekki ganga að eiga samfélag við eins spilltu samfélagi eins og viðgengst í dag hjá ráðamönnum heimsins?
Ég get ekki séð neitt samhengi á milli samkynhneigðar og orð Séra Sigurbjörns heitins.
Eitt boðorð eigum við, það er að elska náungann eins og sjálfa okkur.

03.06.11 @ 21:59
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Alveg rétt hjá þér, Helga, þessi orð herra Sigurbjörns heitins hafa víðtækari skírskotun en til þessara tilteknu mála, sem um var rætt hér í pistlinum. Hins vegar var hann í athyglisverðu viðtali í Bjarma, málgagni Kristniboðssambandsins, þar sem hann vék að þessum málum, og þar var alveg ljóst, að hann fylgdi alls ekki þeirri stefnu, sem Karl sonur hans og Þjóðkirkjan hafa gagnvart þessu máli, enda var ekki við því að búast. Þjóðkirkjan er þar ekki aðeins utan við meginstraum allra kristinna kirkna mestalla kirkjusöguna, heldur í beinni mótsögn við Heilaga Ritningu, þ.m.t. Nýja testamentið, sem og kirkjufeður forna og t.d. hið forna rit Didache (Kenningu postulanna tólf, um 100 e.Kr.).

Já, við eigum það boðorð að elska náungann eins og sjálf okkur, þó að það sé ekki eina boðorðið. Okkur ber þannig að elska samkynhneigða líka, bregðast þeim t.d. ekki, þegar þeir eru í nauðum staddir. Engum leyfist þó að brjóta önnur boðorð til að uppfylla þetta boðorð, enda gengur það gegn tvíþætta kærleiksboðorðinu að brjóta gegn vilja Guðs.

11.06.11 @ 13:39
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software