« Elskið óvini yðar"Þú ert Guð, sem sér." »

15.12.06

  22:47:59, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 688 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

Altarissakramentið

Þetta er hið mesta allra sakramentanna. Í því meðtökum við raunverulegan lifandi líkama og blóð Krists.

Við síðustu kvöldmáltíðina breytti Jesús brauði og vini í líkama sinn og blóð. Hann gaf postulunum tólf vald þetta, og það vald skyldi frá þeim ganga til eftirkomandi biskupa og presta innan kaþólsku kirkjunnar.

Í hverri kaþólskri messu er brauðinu og víninu breytt í líkama og blóð Krists. Það gerist við gjörbreytinguna þegar presturinn mælir þessi orð Krists: "Þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt."

Heilagt altarissakramenti er stærsta gjöf Guðs til mannanna. Hún er hin raunveruleg fæða sálinni til handa. Þegar við meðtökum þessa fæðu nær maðurinn æðsta stigi samfélagsins við Guð, því æðsta sem hann nær á þessari jörð.

Jesús sagði: "Sannlega, sannlega segi ég yður: ef þér etið ekki hold mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég mun uppvekja hann á efsta degi, því að hold mitt er sönn fæða og blóð mitt sannur drykkur." (Jóh. 6:53-55).

Hvað öðlast sál okkar í heilagri bergingu? Í henni sameinumst við Guði náið og innilega, hún eflir líf Krists í sál okkar, hún styrkir okkur í baráttunni gegn freistingum og syndum, hún þurrkar út smáar syndir okkar, hún fegrar sálina, hún eykur ást okkar til Guðs, hún innblæs okkur aukinni virðingu fyrir öllum mönnum.

Við verðum að gera okkur ljósa grein fyrir því að við erum í þann mund að meðtaka hinn guðlega gest í sál okkar. Því verðum við að reyna að halda sálum okkar hreinum og helgum. Það væri alrangt af manni eða konu með stórsynd á samviskunni að meðtaka heilagt altarissakramenti. Það væri helgispjöll. Hann eða hún verður fyrst að skrifta.

Sá er hyggst meðtaka heilagt altarissakramenti ætti að undirbúa sig með hugleiðslu og bænum. Það er ekki leyfilegt að eta eða drykka a.m.k. eina klst. fyrir bergingu. Undanþegið er vatn og lyf.

Aðeins kaþólskir mega meðtaka sakramentið í kaþólskri messu.

Kaþólskir sem eiga við veikindi að stríða og liggja rúmfastir heima eða á sjúkrahúsi í lengri eða skemmri tíma geta gert boð eftir presti sem fúslega færir þeim sakramentið.

Í hverri kaþólskri kirkju er varðveitt fagurlega skreytt skrín og því valin verðugur sess. Í því eru hostíur heilags altarissakramentis. Þetta skrín er nefnt guðslíkamahús, af því að þar er dvalarstaður Jesú Krists.

Jafnvel þó hann sé almáttugur Guð og konungur alheimsins, sýnir hann það lítillæti að dveljast mitt á meðal okkar. Það er ástæða þess að kaþólska kirkjan er öllum opin á daginn einnig þeim sem ekki eru kaþólskir. Því getur hver og einn komið inn og kropið á kné fyrir konungi konunganna og talað hljóðlega við hann um gleði sína, sorgir og þrár. Sumir koma og sitja hljóðir, einungis til að fá að vera í návist hans og þakka honum fyrir kærleik hans allra helgasta hjarta.

Við hlið guðslíkamahúsins logar ljós á lampa dag og nótt til að minna okkur hóglátlega á nærveru hans. Ljósið minnir okkur einnig á þegar Kristur bauð gjörvöllu mannkyni: "Komið til mín allir þér er þunga og erfiði eruð hlaðnir og ég mun veita yður hvíld."

Guðslíkamahúsið er hið lifandi hjarta sérhverrar kirkju okkar." (Páll Páfi VI).

Er það nokkur furða þó þetta sakramenti hafi verið nefnt: Leyndardómur trúarinnar, brauð englanna, hið helgasta af öllu helgu, kraftaverk allra kraftaverka, yndi sálarinnar, trygging eilífrar endurlausnar?

(Grein eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993))

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er bæði falleg grein og sönn, gott yfirlit um grundvallaratriði og góð áminning um ýmislegt sem gæta þarf að, einkum varðandi undirbúning altarisgöngunnar (og þar tjóir ekki að taka með sér ófyrirgefnar stórsyndir, enda dæmir Páll postuli það hart). Endirinn er virðingarfullur og fagur.

16.12.06 @ 00:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér er við að bæta, að það gott að vera minntur hér á kristna boðun þess góða manns séra Róberts Bradshaw. Ég þekkti hann persónulega og ber virðingu fyrir hugsjón hans, andlegu fjöri og trúareldmóði, sem bar hann hingað norður í höf og allt austur til Rússlands í störfum hans fyrir Krist og Guðsríkið. Blessuð sé minning hans.

16.12.06 @ 10:50
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já ég tek undir með þér Jón. Þessi látlausi stíll er í anda föður Róberts og einnig hvernig hann með nokkrum orðum kemur öflugum boðskap á framfæri. Það er sannarlega verðugt að minnast þessa eldhuga sem á fáum árum byggði upp Maríukirkjusókn í Breiðholti.

16.12.06 @ 10:59