« „Ljósið kemur langt og mjótt“ - Fyrirlestur í LandakotiÞrír kaþólskir menn teknir af lífi í Indónesíu »

08.10.06

  09:30:29, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 591 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Almannaútvarpinu á að dreifa

Þorsteinn Pálsson skrifaði leiðara í Fréttablaðið síðasta föstudag þar sem hann fjallaði um nýlegt Ríkisútvarpsfrumvarp [1]. Þar segir hann m.a.:

Ríkisútvarpið verður að stærstum hluta í samkeppnisrekstri við einkarekin fjölmiðlafyrirtæki á sviði almannaþjónustu. Engin skynsamleg rök eru þar af leiðandi fyrir því að undanskilja handhafa hlutabréfs ríkisins frá almennum kröfum um dreifð eignarráð að fjölmiðlafyrirtækjum.

Hér hittir Þorsteinn naglann á höfuðið. Hið opinbera á að dreifa aðild sinni að almannaútvarpi og styrkja dugmikla einstaklinga sem hafa meiri vilja og metnað til að standa við útvarpslög en núverandi Ríkisútvarp.

Minni hætta er á að dreift almannaútvarp verði málpípa ríkjandi stjórnvalda á hverjum tíma heldur en eitt miðstýrt Ríkisútvarp. Það sýnir sig að tengsl öflugs ríkisfjölmiðils við stjórnvöld eru óheppileg. Um vilja og getu Ríkisvaldsins til þessarar ásælni þarf enginn að efast. Þeir vilja jafnvel seilast enn lengra en í Ríkisútvarpið. Þorsteinn segir:

Þá sætir furðu að ríkisstjórnin skuli ekki hafa hlustað á þá gagnrýni sem fram kom í umræðum síðastliðið vor á áform hennar um að setja ritstjórnarstefnu einstakra fjölmiðla undir vald stéttarfélaga og opinberrar eftirlitsnefndar.

.
Dæmin sem sýna að RÚV í núverandi formi er um megn að uppfylla hlutverk sitt hrannast því miður upp. Benda má t.d. á greinarnar: Undarlegur fréttaflutningur fréttastofu Sjónvarps (RÚV) , Þegar komið er af fjöllum - hugleiðing um RÚV - Sjónvarp , og RÚV -Sjónvarp fer yfir velsæmismörkin hér á þessu vefsetri.

Menn hafa löngum litið til Bretlands og hins góða álits sem BBC hefur búið við í því landi til að rökstyðja núverandi Ríkisútvarp. Það álit er nú mikið að breytast hjá ýmsum hópum þar í landi í ljósi nýlegra atburða. Fyrir þrem árum birtist t.d. umdeildur Panorama þáttur í BBC þar sem gefið var í skyn að Jóhannes Páll II. páfi bæri ábyrgð á milljóna dauðsfalla vegna alæmis. Þessi hégilja flaug eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Nokkrir aðilar hérlendis básúnuðu þetta út og notuðu tækifærið þegar andlát páfans bar að snemma á síðasta ári til að koma þessu á framfæri. Sjá t.d. greinina Var Jóhannes Páll II. páfi valdur að dauða milljóna?. Nú er sagan frá 2003 að endurtaka sig í Bretlandi. Nýlega birtist t.d. í Panorama þátturinn: 'Sex Crimes and the Vatican' þar sem ráðist var harkalega á Benedikt páfa XVI. Um efnisatriði þáttarins og viðbrögð yfirmanna kaþólsku kirkjunnar þar í landi má lesa hér og hér.

Allt ber þetta að sama brunni. Ríkisvald á ekki að standa að útgáfu öflugs fjölmiðils nema í formi dreifðrar eignaraðildar í þeim tilgangi að þjóna almannahagsmunum og menningarmálum. Sú hætta að ríkisvaldið eða gæðingar þess veitist að þjóðfélagshópum eða einstaklingum í gegnum fjölmiðilinn í skjóli pólitískrar rétthugsunar, eða noti miðilinn einfaldlega sem málpípu er allt of mikil til að vera ásættanleg.

[1] Tímaskekkja http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20061006/SKODANIR04/110060084/1003/THRJU

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mikið hefur borið á þessu máli nú á fyrstu dögum þingsins, sjá t.d. 1. umræðu um Ríkisútvarpið ohf: [Tengill]

Greinilegt er þegar skimað er yfir ræðurnar að engin sátt er um þetta nýja frumvarp á Alþingi. Annars vegar takast á stjórnarandstaðan sem virðist vilja óbreytt rekstrarform RÚV og svo stjórnarliðar sem styðja frumvarpið. Deilt er um nánast allar hliðar málsins, um þingsköp við umræðuna, fjárhagsgrundvöll RÚV, hlutdeild á auglýsingamarkaði, eftirlaunamál, mannaráðningar og síðast en ekki síst rekstrarfyrirkomulag. Hér eru örstuttar tilvitnanir:

Magnús Þór Hafsteinsson:

Ég hef alvarlegar athugasemdir við það hvernig stjórn þessa félags, ef af verður miðað við þetta frumvarp, verður skipuð. Ræðumenn sem hafa talað á undan mér hafa einnig bent á þetta. Ég tel að það sé ekki heillavænlegt að skipa fimm manna stjórn og jafnmarga til vara sem verða í raun og veru ekkert annað en pólitískir útsendarar sem eiga síðan að deila og drottna yfir Ríkisútvarpinu og það verði hægt að skipta þeim aðilum út á hverju ári ef mönnum sýnist svo. Mér finnst þetta ekki vera mjög gæfuleg stjórnarmyndun fyrir svona fyrirtæki. Að sjálfsögðu mun fyrirtækið þá um leið verða undir járnhæl ráðandi meiri hluta á Alþingi hverju sinni. Ég er ekki viss um að það sé mjög sniðugt.

[Tengill]

Björgvin G. Sigurðsson:

Að sjálfsögðu eru einnig mörg önnur atriði mjög vafasöm, sérstaklega í pólitísku ljósi. Til dæmis, eins og hér hefur verið nefnt, hvernig standa eigi að kjöri í stjórn Ríkisútvarpsins og sá pólitíski járnhæll sem þannig er verið að setja yfir stofnunina. Kosið er í hana árlega og þessi beina tenging með sitjandi meiri hluta á Alþingi hverju sinni, árlegt kverkatak Alþingis á stofnuninni, er algerlega óþolandi.

En auðvitað er meginmálið, ásamt fjármögnun og rekstrarformi sem er hlutverk Ríkisútvarpsins til framtíðar, endurskilgreining á almannaútvarpi og þá pólitísk tilraun til að endurmóta og endurskilgreina hlutverk og markmið Ríkisútvarpsins þannig að það standi undir nafni sem almannaútvarp og sé ekki meira og minna notað til að dreifa og miðla til okkar erlendu og oft ódýru afþreyingarefni, skemmtiþáttum og þeirri sjónvarpsdagskrá sem er að finna á hinum íslensku sjónvarpsstöðvunum í mjög miklum mæli.

[Tengill]

Steingrímur J. Sigfússon:

Það á að kjósa fimm manna pólitíska stjórn hér á Alþingi þannig að það verða þá þrír frá meiri hlutanum sem ráða. Þessir þrír erindrekar stjórnarflokkanna eða meiri hlutans á hverjum tíma eiga að ráða eitt stykki útvarpsstjóra sem fær nánast alræðisvald í stofnuninni. Hann, eins og segir í 10. gr., er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ohf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. Hann er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. Það þarf ekki frekar vitnanna við. Einn maður ræður allri dagskrárgerð og ræður eða rekur alla starfsmenn.

Þetta er því eins langt frá öllu sem talist getur dreifræði, talist getur lýðræði, svo maður tali nú ekki um starfsmannalýðræði, og nokkuð getur verið. Það er eiginlega dálítið merkilegt ef ekki er hrollur í einhverjum fleirum en okkur stjórnarandstæðingum yfir því sem þarna á að fara að gera.

[Tengill]

Allt ber þetta að sama brunni. Ríkisvald á ekki að eiga fjölmiðla og ég hallast að því að það eigi heldur ekki að eiga hlut í fjölmiðlum. Það er komið svo ótrúlega langt út fyrir hlutverk sitt með beinni íhlutun af því tagi. Nær væri að verja fjármagni til að styrkja og styðja framtak einkaaðila og greiða t.d. fyrir hverja útsenda mínútu af íslensku menningarefni. Hægt væri að verðleggja mínúturnar mismunandi, greiða t.d. mest fyrir leikið efni og tónlistarflutning en minna fyrir spjall. Því gætu fylgt ákveðnar kvaðir, svo sem að þannig styrktu efni bæri að skila til miðlægrar efnisveitu sem ríkið sæi um að reka. Þessi efnisveita gæti allt eins verið deild í Landsbókasafni.

Þessi efnisveita gæti haft til varðveislu allan núverandi efnisbanka RÚV og miðlað honum til einkastöðvanna svo þær hefðu allar jafnan aðgang að þessum dýrmæta menningararfi, sem að sjálfsögðu á að vera eign þjóðarinnar áfram.

22.10.06 @ 08:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Ragnar, þetta innlegg þitt til viðbótar við greinina – og að koma hér á framfæri ágætum yfirlitsupplýsingum í þessu mikilvæga máli. Sjálfur tel ég, í örstuttu máli sagt, að þess hafi óverulega gætt, að Útvarpið hafi verið (mis)notað í þágu núvernadi stjórnvalda, en það sama hygg ég ekki hægt að fullyrða um Sjónvarpið – maður sér oft allt aðrar áherzlur þar. Þegar þú í lok greinar þinnar talar um hættuna á því, að “ríkisvaldið eða gæðingar þess …. noti miðilinn einfaldlega sem málpípu,” þá hygg ég þess lítt hafa gætt með Fréttastofu Rúvsins, þar sem vinstrimenn og ‘vinstrilíberalar’ eru ríkjandi – miklu frekar Fréttastofu Sjónvarps. En svo má ekki gleymast annar möguleiki, sem ég hef veitt mikla eftirtekt, þegar ég hjef fylgzt með fréttum Ríkisútvarpsins, þ.e. að enn annar hópur “noti miðilinn einfaldlega sem málpípu,” og sá hópur er starfsliðið á Fréttastofu Rúv. Hefur þessa gætt í margs konar fréttum, bæði fordómafullum gagnvart kristnum mönnum, einkum í Bandaríkjunum, einnig kaþólsku kirkjunni og siðakenningu hennar, í lífsverndarmálum o.fl., en ekki síður í pólitískum efnum, þ.m.t. alþjóðamálum, s.s. um Írak og Ísrael. And-ísraelski andinn er afskaplega sterkur á Fréttastofunni, einkum hjá vissum fréttamanni sem hefur haft þar aðstöðu til að flytja þar hlutdrægar fréttir í u.þ.b. tvo áratugi og tekizt að snúa Íslendingum upp til hópa til andstöðu við Ísrael vegna ástandsins þar og á herteknu svæðunum. Er sá fréttaflutningur örugglega sá óbalanceraðasti í Rúvinu á seinni tímum, bæði að magni til (miðað við miklu meiri og mannskæðari átök annars staðar í heiminum) og í einhæfum áherzlum sínum, þar sem jafnan er “haldið með” andstæðingum Ísraels.

22.10.06 @ 10:33