« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 15Nýr Reykjavíkurbiskup skipaður »

02.11.07

  10:45:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 661 orð  
Flokkur: Bænalífið

Allra sálna messa

Í dag er Allra sálna messa og í því tilefni birti ég hér hugleiðinguna með ritningarlestri dagsins sem er Mattesus 25. 31-46.

Heil. Kýprían (um 200-258), byskup í Karþagó og píslarvottur,
Umfjöllun um dauðann, Patrologia latina 4, 596 og áfr.:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi“ (Jh 11. 25)

„Við ættum ekki að gráta vegna þeirra bræðra okkar sem raust Drottins hefur kallað úr þessum heimi sökum þess að við vitum að þeir eru ekki glataðir heldur sporgöngumenn okkar: Þeir hafa yfirgefið okkur líkt og ferðamenn eða sæfarendur á undan okkur. Við ættum fremur að öfunda þá en að úthella tárum vegna þeirra og eigum ekki að íklæðast svörtum klæðum þegar þeir eru íklæddir hvítum kyrtlum í upphæðum. Við skulum ekki gefa heiðingjunum tækifæri til að álasa okkur með réttu þegar við syrgjum þá sem við fullyrðum að lifi hjá Guði, rétt eins og þeir hafi verið upprættir og séu glataðir. Við bregðumst von okkar og trú ef það sem við boðum virðist vera blekkingar og ósannindi. Það er tilgangslaust að andmæla með hugrekki og afneita sannleika orða okkar síðan í verki.

Þegar við deyjum göngum við í gegnum dauða til ódauðleika og við getum ekki höndlað lífið eilífa nema með því að hverfa úr þessum heimi. Þetta eru ekki endalok heldur umbreyting. Þegar við höfum lokið tímanlegri ferð okkar göngum við inn í eilífðina. Hver myndi ekki hraða ferð sinni til slíkra gæða? Hver þráir ekki að umbreytast og ummyndast til veru Krists?

Himininn er heimaland okkar . . . Þarna væntir mikill fjöldi ástvina komu okkar, stór hópur foreldra og systkina þrá komu okkar . . . Við skulum hraða ferð okkar til þeirra og þrá heilshugar að fá að dvelja skjótt meðal þeirra og Krists.“

Í áframhaldi af þessu vil ég áminna fólk um boð kirkjunnar um að biðja sérstaklega fyrir látnum ástvinum sínum og vinum í nóvembermánuði. Reyndar er þetta trúarskylda sem við eigum að uppfylla alla daga ársins vegna þess að fæst okkar eru svo heilög að við verðum ekki að dvelja í hreinsunareldinum í skemmri eða lengri tíma.

Ég vek því athygli á þessari Maríubæn og hin sæla Mey hefur sagt að ein slík bæn leysi 16 sálir úr hreinsunareldinum:

Heil sért þú María full náðar,
Drottinn er með þér
Blessuð sérrt þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þins Jesús!
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir okkur syndugum mönnum,
og sérstaklega fyrir sálunum í hreinsunareldinum,
að þær megi sjá hið eilífa ljós.
Heilaga María Guðsmóðir,
úthell loga elsku þíns Flekklausa hjarta
yfir Ísland og alla heimsbyggðina,
nú og á dauðastund vorri! Amen.

Hvað varðar hina daglegu ritningarlestra og hugleiðingar hinna heilögu kirkjunnar hafa þeir nú verið sendir út í eitt og hálft ár. Fjölmennasti hópurinn sem þegið hefur þessa þjónustu eru lúterskir prestar og Hvítasunnumenn. Hins vegar virðast kaþólskir almennt hafa mikilvægari hnöppum að hneppa en að lesa Orð Drottins daglega. Þetta eru ritningarlestrar frá Bræðralagi kristinna trúarkenninga sem starfað hefur frá árinu 1572 og orðið hafa fjölmörgum sálum til ósegjanlegrar blessunar

Ef þið viljið fá þá senda heim daglega er nægilegt að tjá ósk ykkar hvað þetta áhrærir með því að senda mér línu ásamt tölvufangi: jonrafn@simnet.is

Ég minni jafnframt á hvatningu Jóhnnesar Páls páfa II blessaðrar minningar um að kaþólskir noti tölvutæknina til hins ítrasta til að útbreiða Orð Drottins.

No feedback yet