« Panhagían (Hin Alhelga)Um viðræður milli trúar, vísinda og veraldarhyggju (secularism) »

06.02.06

  20:27:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1620 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

ALLAH MEHABA (Guð er kærleikur)

Fyrir fjölmörgum árum stóð ég í bréfaskriftum við afar fjölfróðan jesúítaföður í Alexandríu í Egyptalandi. Nafn hans er Henry Boulad S. J. Jesúítarnir í Alexandríu hafa hvað eftir annað staðið í samræðum (dialog) við íslamska guðfræðinga og þekkja því trúarafstöðu þeirra vel. Þeir hafa rekið menntaskóla í nokkra áratugi í Egyptalandi. Í kristindóminum opinberar Guð sjálfan sig í mennskri mynd, staðreynd sem hljómar eins og argasta guðlast í eyrum íslamskra guðfræðinga. Þeir vara fylgjendur sína við að leggja eyra að slíku guðlasti, þessa lítillækkun á almáttugum Guði. Og múslimar fullyrða engu að síður að Guð sé kærleikur! Þetta er það sem faðir Boulad heyrði með eigin eyrum sheikinn segja við nemendur sína í morgunbænunum. Ég gef honum orðið:

Þetta er það sem ég heyri þennan morgunn á Nílarbökkum með eigin eyrum:

„ALLAH MEHABA“ (Guð er kærleikur).

Mér léttir um hjartaræturnar! Þetta kom óvænt og snerti hjarta mitt! Allt virðist sem sagt benda til þess að okkar múslimsku bræður séu meira en reiðubúnir til að samsinna því og boða að Guð sé kærleikur. En sýnum aðgát! Þegar við stígum þetta fyrsta skref, þá krefst þessi fullyrðing rökrænna viðbragða og við verðum að horfast í augu við afleiðingarnar. Þegar við segjum að Guð sé elska beinir það okkur óhjákvæmilega inn í Þrenningarleyndardóminn. Sú fullyrðing að Guð sé elska og Þrír í Einum er þegar við íhugum þetta nánar ein og sama staðhæfingin. Báðar þessar fullyrðingar eru ein óaðskiljanleg heild. Hvernig má þetta vera?

Faðir Boulad tók dæmi af tveimur mæðrum. Konurnar bjuggu í sama fjölbýlishúsinu og áttu sinn hvorn soninn. Dag einn ákváðu þær að skreppa saman út í búðina á horninu, ekki svo fjarri heimilum þeirra. Þær skyldu drengina sína eina eftir heima vegna þess að þær ætluðu sér ekki að vera lengi í burtu. Þegar þær snéru aftur heim á leið urðu þær þess áskynja, að fjölbýlishúsið stóð í ljósum logum. Slökkviliðið var komið á staðinn og lögreglan heimilaði engum að koma nærri húsinu sem var hulið reykjarkófi.

Hvernig brugðust þessar tvær mæður við? Önnur þeirra hlýddi rödd skynseminnar og boðum lögreglumannanna. Hún gerði sér ljóst að ástandið var vonlaust. Hún hljóp inn í bakgarð hússins og hrópaði til drengsins síns sem leitað hafði skjóls fyrir dökku reykjarkófinu út á svölum. „Farðu og finndu kaðalinn sem er í eldhússkápnum. Flýttu þér, drengur, flýttu þér nú! En drengurinn hennar heyrði ekki hróp hennar vegna hávaðans í mannfjöldanum sem drifið hafði að úr öllum áttum og húsið brann.

Hin móðirin brást við með afar ólíkum hætti. Hún gaf engum varnaðarorðum gaum, hvorki frá lögreglumönnunum né slökkviliðsmönnunum og sinnti þeim engu. Á þessu augnabliki var það einungis drengurinn hennar sem var einhvers staðar þarna inn í reykjarkófinu sem skipti hana einhverju máli. Hún sleit sig lausa úr höndum lögreglumannanna. Eina hugsunin sem komst að hjá henni var drengurinn hennar, skelfingu lostinn og ofurseldur eldhafinu á vald. Hún fór inn í eldhafið og hvarf mannfjöldanum sjónum. HÚN VILDI VERA MEÐ HONUM!

Og faðir Boulad heldur áfram: „Ef mennsk elska bregst við með þessum hætti gegn aðsteðjandi vái, og mörg dæmi eru til um slíkt, hvernig bregst þá Guðdómurinn við? Nákvæmlega eins og síðari móðirin. Hann fórnar öllu og þar með sjálfum sér fyrir ástvini sína. GUÐ ER IMMANÚEL, GUÐ MEÐ OSS, og hann hefur yndi af mannanna börnum (Ok 8. 31). Þetta eru hin ósjálfráðu viðbrögð elsku Guðs þegar hann sér jörðina loga í eldi mannvonsku og haturs óvinar alls lífs sem hann glæðir í hjörtum skynlausra manna.“

Þessi Guð holdgast á jörðu og við sáum hann í mennskri mynd: Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem Sonurinn eini á frá Föðurnum (Jh 1. 14).

LAM YALED WA LAM YOULAD (holdlega getinn, en ekki gjörður)

Íslömsku guðfræðingarnir fyllast bókstaflega hryllingi þegar þeir heyra þessi orð hljóma á arabísku. Og þeir hrópa til fylgjenda sinna: Er unnt að lítilsvirða Guð með viðurstyggilegri hætti? Er nokkuð viðbjóðslegra en að halda því fram, að Guð hafi nef, munn og eyru eins og við? Varist hina kristnu: Þetta eru villutrúarhundar og guðlastarar af verstu tegund. Gyðingarnir brugðust við með sama hætti og létu Rómverjana krossfesta þennan Guð.

Við sjáum hér tvö og gjörólík guðshugtök. Annars vegar er það vissulega almáttugur og háleitur Guð. En þetta er grimmlyndur guð og auðsýnir börnum sínum mikið miskunnarleysi. Hann krefst þess að limir séu stýfðir eða afhöggnir þegar börnum hans verður eitthvað á. Hann krefst þess að konur séu grýttar fyrir hórdómsbrot eins og alheimurinn sá gerast á íþróttavelli í Kabúl fyrir tveimur árum. Þetta er fjarlægur guð sem þolir börnum sínum ekki þá vansæmd, að gerðar séu af honum myndir. Alltaf þegar þessi guð hefur birst í kristindóminum hefur slóð hans verið mörkuð tortímingu og dauða, bálköstum og líkhaugum. Faðir Boulad sagði: „Ég vildi frekar vera aþeisti en trúa á slíkan Guð!“

Hins vegar er það Jesúbarnið í grashálmi jötunnar sem óx upp hjá þeim Maríu og Jósef í lágreistum heimkynnum þeirra. Sem lék sér að leikföngunum sem Jósef smíðaði fyrir hann og óx að visku og vexti sem holdlegur maður þar til við sáum dýrð hans birtast á Taborfjalli. Þetta er Guð sem elskar mennina.

En varúð, kristnir menn! Hann er jafnframt HEILAGUR GUÐ sem elskar iðrandi syndara, en hatar syndina. Þannig sér hl. Jóhannes hann í Opinberunarbókinni þar sem heilagleikinn ber allt annað ofurliði: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur! (Opb 4. 8). Heilagur Andi hefur ritað þann sannleika á hjartaspjöld okkar, að við séum lifandi helgidómur hans. En það var einnig þessi sami Guð sem gekk um musterið: Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru þar að selja og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli“ (Mt 21. 12).

Þetta er KRISTUR REIÐINNAR í heilagleika sínum andspænis syndinni. Þannig opinberaði María Guðsmóður okkur hann í La Saliette árið 1846, hágrátandi: „Ef lýður minn mun ekki breyta um afstöðu, mun armleggur Sonar míns ljósta hann. Hann er máttugur og svo þungur að ég megna ekki lengur að halda aftur af honum. Hversu lengi verð ég að þjást ykkar vegna! Ef Sonur minn á ekki að snúa baki við ykkur verð ég að ákalla hann í sífellu og þið eruð sinnulaus með öllu.“ Hér erum við komin að djúpstæðum keyndardómi um hlutverk kirkjunnar og hinna heilögu, fyrirbæn fyrirstöðunnar sem opinberuð var þegar á tímum Gamla testamentisins: Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið móti mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði (Esk 22. 30). Það er þetta sem hin stríðandi kirkja á jörðu gerir í sérhverri messu sem sungin er á jörðu ásamt Guðsmóðurinni og hinni sigrandi kirkju himnanna.

Síðan kemur þriðji guðinn, afsprengi draumsýna póstmódernískrar endurskoðunarguðfræði. Þetta er ofurfrjálslyndur guð, eins konar krataforingi. Honum finnst ekkert athugavert við það að hómósexualistar kvænist, sumstaðar er hann jafnvel byrjaður að boða fylgjendum sínum fjölkvæni. Frjálslyndi hans og umburðarlyndi er slíkt, að það kæmi ekki á óvart að hann tæki jafnvel upp á því að hvetja einmana konur til að bindast hundum sínum órjúfandi tryggðarböndum. Þennan guð kallar heilög Ritning skurðgoð: Eins og þau verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta (Sl 115. 8).

Það er ELSKA GUÐS sem gerir kristindóminn einstæðan á meðal allra trúarbragða jarðarinnar og opinberar okkur kjarna Þrenningarleyndardómsins. Guð er kærleikur: Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum, heldur að hann elskaði oss og sendi Son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar (1 Jh 4. 10). Hvað er innsta eðli kærleikans? Kærleikurinn er opinberun þeirrar takmarkalausu elsku sem Guð ber í brjósti til mannanna:

ELSKAN ER SAMFÉLAG.
ELSKAN ER SJÁLFSFÓRN.
ELSKAN ER AÐ AFNEITA
SJÁLFUM SÉR FYRIR HINN!

6 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, bróðir, fyrir þessa kröftugu grein þína. Ég var að lesa hana alla núna og sá að ég hafði farið á mis við mikið. Og gott hjá þér að koma með balanzinn inn í þetta líka: að Guð er ekki aðeins KÆRLEIKUR (og munum að kærleikurinn verður oft að segja nei!), heldur líka HEILAGUR. Það vita t.d. kalvínistarnir kenningartrúu betur hinum rómantísku nýguðfræðingum og póstmódernískum, norrænum upplausnarguðfræðingum.

02.03.06 @ 23:08
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég verð nú að segja að þó svo að þessi rök gætu mögulega stutt þá hugmynd að guð myndi taka á sig mannsmynd, þá myndi hún í mesta lagi styðja það að guð hafi fleiri en eina birtingamynd (kallað módalismi ef ég man rétt), en ekki að þetta séu aðskildar persónur. Hvað segið þið um það?

En mikið hef ég gaman af þessum lýsingum ykkar á upplausnarguðfræðingum. Skrýtið að þeir skuli ekki sjá ástæðu til þess að verja guðfræðina sína á þessari síðu.

ps. “En sínum aðgát!” þarna á líklega að vera ý.

03.03.06 @ 02:15
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Jæja, Hjalti! Fyrst þú þekkir til Sabellíanismans (modalismans) hlýtur þú einnig að vita að kristindómurinn er opinberun:

Og engillinn sagði við hana: „Heilagur Andi mun koma yfir þig og kraftur hins Hæsta (Faðirinn) mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, Sonur Guðs (Lk 1. 35).

Þakka þér fyrir „ý-ið,“ það er hins vegar hárrétt athugasemd hjá þér.

03.03.06 @ 20:56
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hvað áhrærir upplausnarguðfræðina eða ofurfrjálslyndiskristindóminn, þá stendur þetta fólk á svo veikum grunni kenningarfræðilega að það forðast að mæta lútersk evangelískum eða kaþólskum guðfræðingum í opinni umræðu. Því hentar því betur að gefa út yfirlýsingar sínar í einræðum (monology) eða vart svaraverðum blaðagreinum, þar sem guðfræðingum fellur ekki að fletta niður um fólk í áheyrn alþjóðar sökum kristilegrar vorkunnlátsemi.

03.03.06 @ 21:29
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Ertu ósammála því að rökin í pistlinum réttlæti ekki þá persónuskiptingu sem einkennir þrenningarkenninguna, heldur í mesta lagi módalisma?

Hvað varðar upplausnarguðfræðingana, þá finnst mér það leiðinlegasta við hræðslu þeirra við umræður að maður veit eiginlega aldrei hverju í ósköpunum þeir trúa, ólíkt t.d. kaþólikkum og hvítasunnumönnum.

04.03.06 @ 01:26
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

(Sevilla, 28. ágúst 1575)

Innblásin þekking um Þrenninguna

Eftir að ég hafði meðtekið altarissakramentið á hátíð heilags Ágústínusar varð mér ljóst – ég veit ekki með hvaða hætti – og sá næstum því (þrátt fyrir að þetta gerðist í skilningnum og gengi hratt fyrir sig) að þrjár persónur hinnar blessuðu Þrenningar sem eru inngreiptar í sálu mína, eru eitt. Með einstaklega undarlegri myndlíkingu og afar tæru ljósi var mér gefinn skilningur á þessu, með einhverju sem er afar frábrugðið því að aðhyllast þessi sannindi í trú. Afleiðingin varð sú að ég get ekki leitt hugann að einni hinna guðdómlegu persóna, nema að hugsa um þær allar þrjár samtímis. Þannig var ég að hugleiða það í dag í ljósi þessarar nánu einingar, hvernig það var hugsanlegt að Sonurinn einn íklæddist mennsku holdi. Þá gaf Drottinn mér að skilja hvernig persónurnar eru aðgreindar, þrátt fyrir að þær séu eitt. Þessi stórmerki knýja sálina að nýju til að þrá að losna frá líkamanum sem er henni til hindrunar til að geta notið slíks. Þrátt fyrir að hið lítilsiglda eðli okkar virðist ekki hafa verið skapað til að skilja neitt sem lýtur að persónunum, öðlast sálin ósegjanlegri meiri ávinning sökum þessa skilnings – án þess að vita hvernig – og þrátt fyrir að hann vari einungis eitt andartak, heldur en með margra ára íhugun.

Hl. Teresa frá Avíla

05.03.06 @ 17:26