« Kraftaverkið í Hiroshima þann 6. ágúst 1945Kraftur Guðs og bænarinnar »

22.02.06

  15:50:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1180 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Álitsgjafinn (der Besserwisser)

Orðið „besserwisser“ á þýsku skírskotar til þess sem telur sig „vita“ allt betur en allir aðrir. Það þýðir einnig þann sem leitast við að þvinga „þekkingu“ sinni upp á aðra gegn vilja þeirra. Ég finn ekkert annað betra orð yfir þetta á íslensku en álitsgjafi. Samfara þessu vanþroskamerki fylgir einnig annar ágalli sem best er lýst sem athyglissýki, að láta aðra taka eftir sér í tíma og ótíma, bókstaflega að trana sér fram.

Þetta eru hvimleiðir lestir og áberandi fylgikvilli svo kallaðrar kranablaðamennsku þar sem dælan er látin ganga allan liðlangan daginn, án þess að hafa í rauninni nokkuð til málanna að leggja. Því eru álitsgjafarnir vinsælir hjá fjölmiðlum sem leggja sig fram um slíkt af því að þeir eru ávallt tiltækir. Ég verð að ljóstra hér upp dálitlu leyndarmáli sem lýsir þessu vel. Á dagblaði sem ég vann við fyrir fjölmörgum árum og heyrir nú sögunni til, var haldið úti sérstökum dálki um málefni líðandi stundar. Dálkurinn var unninn rétt fyrir útkomu blaðsins og því var tíminn oft knappur og erfitt gat reynst að ná í menn. Þannig hafði blaðið komið sér upp ákveðnum hóp slíkra álitsgjafa. Þetta kom sér vel vegna þess að það skipti ekki nokkru máli um hvað málið snérist: Álitsgjafarnir höfðu vit á öllu og jafnframt skoðun.

Einn slíkur lét ljós sitt skína nýlega í einum af fjölmiðlum landsins. Hann sagði: „Og það vita nú allir að öll reynsla af Guði er ekkert annað en það sama og eiturlyfjasjúklingar upplifa í vímunni. Það er unnt að framkalla slíkt ástand með rafmagnsstraumi á ákveðin svæði í heilanum!“ Þetta fannst mér merkilegt. Ef álitsgjafinn hefði ekki verið svona fullviss í sinni sök, hefði hann ef til vill aflað sér frekari upplýsingar áður en hann úthellti úr viskubrunni sínum yfir þjóðina. Og þar sem þögn er sama og samþykki, langar mig að fjalla örlítið nánar um þetta „álit“ hans.

Með hliðsjón af því sem ég sagði í greininni um „Kraft Guðs og bænina“ er athyglisvert að velta henni fyrir sér sem innstillingu inn á annað orkusvið, í þessu tilviki það sem ég nefndi ofurorkusvið og hl. Páll víkur að sem dynamos (kraftinn). Og rétt er að þetta ofurorkusvið hefur áhrif á svið heilabylgna mannsheilans. Þetta svið fellur undir svið trúarsálfræðinnar og taugalíffræðinnar. Það var Þjóðverjinn Hans Berger sem varð fyrstur til að sýna fram á sambandið milli heilabylgna og breytilegra vitundarsviða (1946), þannig að hér er ekki um neina nýjung að ræða. Hann flokkaði heilabylgjurnar í fjóra flokka sem skírskota til fjögurra vitundarsviða. Þetta varpar einfaldlega ljósi á þá staðreynd, að það er alls ekki svo fágæt að fólk almennt geti nálgast þessi svið:

Betabylgjur, meira en 13 cps (cycles per seconds). Hér er hugsunin virk og einkennist af árvekni. Augun eru opin og athyglin beinist að einhverju sem stendur utan sjálfs athugandans.

Alfabylgjur (8-12 cps). Slökunarástand þegar augun eru líklegast opin og athyglin beinist að athugandanum sjálfum.

Þetabylgjur (4-7 cps). Draumkennt ástand, því sem næst eins og í dáleiðslu.

Deltabylgjur (4 cps eða minna). Djúpur svefn. Viðkomandi er vakandi án þess að gera sér meðvitaða grein fyrir því.

Við getum nefnt það orkusvið sem er virkt í kristinni íhugun „spannungskraft.“ Þegar Guð snertir við hinu meðvitaða sviði sálarinnar dregst hún óhjákvæmilega inn á dýpra vitundarsvið sem nálgast kjarna verundar hennar. Þetta er hræringin í bæninni: Yfirskilvitleiki Guðs dregur sálina til raunnándar sinnar í kjarna verundardjúps hennar. Þannig framkvæmir Guð það sem býr honum í huga, að ummynda manninn til sinnar eigin veru: „Ég mun draga alla til mín (Jh 12. 32), ALLAR ÞÆR SÁLIR SEM STREYTAST EKKI Á MÓTI.

Og mælingar leiða þá staðreynd í ljós, að sönn kristin djúpbæn fer fram á sviði alfabylgna og betabylgna. Áhrif hennar hefjast með hægum alfabylgjum sem þróast yfir í djúpar betabylgjur sem geta orðið 60 cps. Athyglin beinist að einhverju sem stendur utan sjálfs athugandans í kærleiksríkri árvekni. Hér er ekki um neins konar draumleiðslu að ræða. [1]

Í kristinni helgunarguðfræði er djúp kristin bæn nefnd mótunarskeið sálarinnar. Til að varpa betur ljósi á þetta skulum við enn grípa til taugalífsfræðinnar. Við fæðingu býr heili barns yfir 100 milljörðum taugafruma. Taugaendarnir mynda tengsl eða eins konar samskiptanet í heilanum. Það er afar fátæklegt strax eftir fæðinguna, en síðan tekur það að þroskast mjög hratt og nær hámarks þéttleika í sex ára gömlu barni.

Brátt þynnist það aftur vegna alls kyns aukatenginga sem heilinn hefur enga þörf fyrir. Síðar tekur þetta samskiptanet heilans að þéttast að nýju þegar einstaklingurinn tekur að glíma við ný viðfangsefni og þekkingu.

Við skulum nú yfirfæra þessa þekkingu á þróun bænalífsins. Í sínu fyrra lífi meðan sálin einbeitti allri sinni athygli og árvekni að hinu ytra aðlöguðust allar taugatengingarnar að þessu takmarki. En þegar lögð er rækt við bænina tekur heilinn að mynda sér nýtt samskiptanet sem miðast við hinar innri þarfir mannsandans. Þannig öðlast heilinn stöðugt meiri næmleika gagnvart nærveru Guðs. Þessi mótun (formation) gerir manninum kleift að skynja ný vitundarsvið með því sem nefnt er hin andlegu skynfæri í dulúðarguðfræðinni. Maðurinn verður sínæmari gagnvart Guði þar til hann skynjar hinn yfirskilvitlega heim ljóss, elsku, fegurðar og sannleika.

Sá sem sannreynir ekki slíkt er eins og blindur eða heyrnarlaus maður. Það er erfitt að útskýra öll hin undurfögru hljómbrigði í tónverkum Beethovens fyrir heyrnarlausum manni, jafn erfitt og að lýsa leiki ljóss og skugga í málverkum Rembrants fyrir blindum manni.

Hvað varðar svo álitsgjafana, þá má líkja þeim við flóðhesta. Þeir eru „dagfarslega prúðir“ en tryllast ef farið er inn á helgunarsvæði þeirra. Þetta getur reynst torvelt hvað áhrærir álitsgjafana, því að eins og ég sagði hér að ofan, þá hafa þeir vit á öllu. Þannig halda þeir að þeir geti troðið 2000 ára arfleifð kristindómsins í svaðið með einni yfirlýsingu sem grundvölluð er á fáfræði.

[1]. Mælingar voru þannig framkvæmdar á sjáendunum í Medjugorje þann 24.-25. mars 1984 og endurteknar 9.-10. júní, 6.-7. október og 28.-29. desember sama árs undir stjórn próf. Henri Joyeux frá Háskólanum í Montpellier í Frakklandi.

15 athugasemdir

Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Og hver er þessi nafnlausi álitsgjafi eiginlega?

23.02.06 @ 16:34
Birgir Baldursson

http://www.vantru.is/2003/09/08/00.49/

Er þessi tilvitnun í álitsgjafa:

„Og það vita nú allir að öll reynsla af Guði er ekkert annað en það sama og eiturlyfjasjúklingar upplifa í vímunni. Það er unnt að framkalla slíkt ástand með rafmagnsstraumi á ákveðin svæði í heilanum!“

…tilvitnun í mig? Hvaðan hefurðu hana?

23.02.06 @ 16:36
Birgir Baldursson

Ef þú ert að vitna í orð mín í þættinum Ísland í bítið frá 10. janúar, þá eru þetta þau:

„Trúarlegar upplifanir, eða sem sagt það að upplifa guðdóminn, eða sem sagt einhverja æðri nánd, svo maður orði þetta nú svolítið rétt, það að upplifa æðri nánd, það er hægt að kalla það fram með rafsegulstraumi. Honum er beint að annað hvort vinstra eða hægra gagnaugablaði, ég man nú ekki hvort gagnaugablaðið það er. Og þessi rafsegulstraumur kallar fram þessa guðlegu nánd, sem menn skynja og það sama gerir ákveðin heilaskemmd í þessum sömu gagnaugablöðum heilans. Það myndast í þetta dökkir blettir og þetta er í rauninni ekkert annað en heilaskemmd. Þessi heilaskemmd kallar fram þetta tiltekna flog, þetta gagnaugablaðsflog.“

Hér er ekkert minnst á eiturlyfjasjúklinga og hvergi segi ég „Og það vita nú allir…“ Mér finnst ábyrgðarlaust af þér að skálda upp orð og leggja þau mönnum í munn, undir þeim formerkjum að tilgreina ekki hver þetta hefur sagt.

23.02.06 @ 18:00
Birgir Baldursson

Og svo vil ég í lokin benda á að ég er ekki slíkur álitsgjafi sem þú skilgreinir hér að ofan. Ég geri mér ekki far um að hafa vit á öllum sköpuðum hlutum. Ég mæti ekki í fjölmiðla til að úttala mig um pólitík, stríð, byggingarlist, meðferð geðsjúkra eða öldrunarmál.

Það vill hins vegar svo til að ég geri mér far um að afla þekkingar á öllu sem snertir átrúnað og kukl (boðun hindurvitna) og í ljósi þeirrar þekkingar tel ég mér stætt á því að mæta fram fyrir alþjóð og spjalla um þau mál. Ertu á öðru máli? Mega bara guðfræðingar krukka í þann málaflokk fyrir opnum tjöldum?

23.02.06 @ 18:09
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Svar til Birgis:
Fyrst þetta: Sem meðlimur í Karmelítareglunni ver ég ávallt fyrstu stundum dagsins í bæn, íhugun og fyrirbænir. Ég opna ekki fyrir útvarpið (Ruv 1) fyrr en kl. 10 á morgnana, og þá einungis til að hlusta á nýjustu fréttir af innlendum vettvangi sem yfirleitt tekur ekki nema þrjár til fimm mínútur. Ég hef aldrei hlustað á þáttinn Ísland í bítið.

Þau ummæli sem ég heyrði voru vafalaust tilvitnun í eftirfarandi ummæli þín: „Trúarlegar upplifanir, eða sem sagt það að upplifa guðdóminn, eða sem sagt einhverja æðri nánd, svo maður orði þetta nú svolítið rétt, það að upplifa æðri nánd, það er hægt að kalla það fram með rafsegulstraumi.“ Þau mátti heyra á Talstöðinni þar sem vitnað var til þessara orða í sambandi við umræður um vímuefni síðdegis, líklega eftir kl. 4. Þetta hefur líklegast verið einhvern tíma fyrir 15. janúar s.l. vegna þess að það var þá sem ég skrúaði endanlega fyrir Talstöðina. Ástæðurnar eru þær sem koma fram í grein minni „Skaflahlíðarfárið.“
Að öðru leyti hlusta ég nær eingöngu á fréttir frá BBC World, þýsku sjónvarpsstöðvunum og DRK 1.

Rétt eins og gildir um svo marga aðra hef ég fyrir löngu fengið mig fullsaddan af innlendum fréttaþjónustum sem yfirleitt stunda þýðingarvinnu á fréttum frá Reuter (amerískum, enskum) sem er afar þröngur „vinkill,“ svo að ekki sé kveðið sterkara að orði og þar sem lítils eða einskis sjálfstæðis gætir.

Vafalaust má rekja þetta til fámennis á fréttastofum og landlægrar „naflaskoðunar“ þar sem drjúgur hluti umfjöllunar snýsts um starfsmennina sjálfa, nema í þeim tilvikum sem strákarnir (eigum við frekar að segja frekjudollurnar) á íþróttadeildinni yfirtaka ekki dagskrárefnið, líkt og við höfum séð að undanförnu á „yfirgengilegum“ fréttaflutningi frá Tórínó.

Hvað áhrærir rannsóknirnar í Medjugorje, voru þar ekki guðfræðingar á ferðinni. Forgöngumaður þeirra var prófessor Henri Joyeux frá háskólanum í Montpellier í Frakklandi (Directeur du Laboratoire de nutrition et cancérologie). Samhöfundur hans að viðkomandi verki var Abbé René Laurentin, prófessor við University of Dayton, USA.

Í Medjugorje voru framkvæmdar marghliða rannsóknir, svo sem taka heilalínurit (electro-encéphalogramme), hjartalínurit (electrocardiogramme), augnmælingar (mouvements oculaires) og sársaukaskyn sjáendanna mælt. Ef þú hefur áhuga á þessum niðurstöðum getur þú nálgast þær í sjálfu ritinu. Sjá tilvitnun hér að ofan. Mér er einnig kunnugt um að bókin var í það minnsta þýdd á ensku, þýsku og ítölsku. Vona að þetta svari spurningum þínum.

Ég er hjartanlega sammála þér, Birgir, hvað áhrærir baráttuna gegn alls kyns kukli. Hún er bráðnauðsynleg. En að sjálfsögðu undanskil ég þar heilaga kirkju.

Pace Tecum, JRJ.

24.02.06 @ 07:58
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Þú ert eitthvað að ruglast á greinum. Ekkert hefur verið minnst á Medjugorje í þessari grein.

En mig langar að vita hvers vegna þú telur þessa yfirlýsingu ónefnda álitsgjafans vera grundvallaða á fáfræði:

“Það er unnt að framkalla slíkt ástand með rafmagnsstraumi á ákveðin svæði í heilanum!“”

24.02.06 @ 14:46
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég taldi augljóst að ég væri að vitna til þess ofurorkusviðs sem vikið var að í undanfarandi grein: Kraftur Guðs og bænin. Eins og sjá má þar, á það ekkert skylt hvorki við raforku eða kjarnorku. Og eins og Lipinski bendir á, mátti rekja það til föstu og bæna.

Ég er voðalega hræddur um að rafmagnsguðfræði ykkar félaganna myndi leiða til skjótrar örorku og alvarlegra geðrænna kvilla, líkt og maniac depression, sem að hluta til má rekja til truflana á starfsemi heilabylgna.

Ég get fullvissað þig um það Hjalti, að hér er um allt annað orkusvið að ræða. Meðlimir í íhugunarreglum eiga undantekningarlaust langt nám að baki, bæði í guðfræði og einhverri annarri sérgrein, gjarnan tengdri taugalíffræði, sálarfræði eða lífeðlisfræði.

Þannig er Henry Boulad S. J. sem ég minnist á í greininni „Allah Mehaba“ taugalíffræðingur frá Háskólanum í Chicago auk guðfræðinámsins. Ein systranna í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði er einmitt ramagnsverkfræðingur.

Í reynd er það krafa til inngöngu í íhugunarreglur í dag að fólk hafi lokið sérnámi, ef því snýst hugur á því sex ára tímabili sem líður milli inngöngu og lokaheitis. Það er afar sjaldgæft í reynd vegna þess að fólk sem gengur þessa braut í kirkjunni hefur undantekningarlaust fengið sterka köllun.

Af þessu ástæðum tel ég yfirlýsingu Birgis með öllu marklausa. Vona að ég hafi svarað þér skilmerkilega.

Pace Tecum. JRJ

24.02.06 @ 16:07
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Jón Rafn:

Ég sé ekkert í þessu innleggi sem hrekur þá fullyrðingu að hægt sé að framkalla trúarlegar upplifanir með því að beina einhvers konar rafsegulsstraumi eða hvað sem það er að ákveðnu svæði heilans.

En hvað varðar þetta sérstaka orkusvið sem þú telur að Lipinski hafi mælt og megi rekja “til föstu og bæna", þá langar mig að vita hvort reynt hefur verið að endurtaka þessar mælingar. Fá til dæmis einvherja Karmelíta til þess að biðja og fasta. Hefur það verið reynt?

24.02.06 @ 16:20
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í tvö þúsund ár já. Hvað varðar rafmagnsguðfræðina og truflandi áhrif rafmagns á heilastarfsemina, er þetta einmitt ástæða þess að fjölmargir nota farsíma af fyllstu varúð. Öll helgunarguðfræði kirkjunnar snýst um þetta dynamos. Ef þú leggur það ómak á þig að nálgast umrædda bók getur þú aflað þér frekari upplýsinga um endurtekningar á slíkum mælingum í Bandaríkjunum. Yfirleitt mælist það með áþreifanlegum hætti meðan messur eru sungnar þegar það rís til muna.

24.02.06 @ 16:26
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það var ekki oft sem Drottinn opinberaði kraft máttar síns á jörðu. En við sjáum þetta þó á nokkrum stöðum í guðspjöllunum þar sem áhrifum slíkrar opinberunar er lýst. Þannig opinberaði Jesú dýrðarmátt sinn þegar Júdas kom ásamt hermönnum og þjónum æðstu prestanna til að handtaka hann. Þegar Jesú sá þá nálgast sagði hann við þá:

„Ég er hann.“ HOPUÐU ÞEIR ÞÁ Á HÆL OG FÉLLU TIL JARÐAR (Jh 18. 6).

Við sjáum þetta endurtaka sig aftur á Fjalli ummyndunarinnar:

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall. að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós . . . Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, FÉLLU ÞEIR FRAM Á ÁSJÓNUR SÍNAR og hræddust mjög (Mt 17. 1-6).

Þetta eru sömu áhrifin og í opinberunarkapellunni í Medjugorje. Þeir sem voru til staðar, yfirleitt 60-80 manns, féllu til jarðar.

24.02.06 @ 16:36
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í raun hef ég ekki neitt meira að segja: Leitið og þér munuð finna. En gaman þætti mér að heyra ykkur félagana kommentera á greinina um Hiroshima.

24.02.06 @ 16:50
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég hef enn ekki séð þig koma með rök gegn tengslum áreitis á gagnaugablaðið og trúarlegra upplifana.

En það væri gaman að fræðast meira um þessar mælingar, þó svo að ég nenni ekki að kaupa þessa bók. Voru rannsóknirnar til dæmis tvíblindar?

En ég skal koma með athugasemd við Hiroshima-greinina.

24.02.06 @ 17:00
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er nú svo, rafmagnsguðfræðingur, það er nú svo.
Sum fjöll bera þrjú nöfn, eftir því hvaðan á þau er horft.

24.02.06 @ 17:13
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heilir og sælir herramenn.
Afsakið að ég blanda mér í orðræðu ykkar, en mér finnst hún athyglisverð og ég get ekki stillt mig um að gera örstutta athugasemd. Ég sé að Birgir skrifar nokkuð fróðlegt innlegg um örvun gagnaugablaðs heilans með rafsegulstraumi sem framkalli upplifun æðri nándar og Hjalti óskar í framhaldi af því eftir rökum gegn tengslum áreitis á gagnaugablað og trúarlegra upplifana. Þetta er athyglisvert, en ég sé samt ekki tilganginn með því að reyna að koma með rök gegn þessum fróðleik. Hví ekki einfaldlega að gera því skóna að vel hafi verið staðið að tilraununum og þetta séu vísindaleg sannindi eins og þau gerast best þangað til annað kemur í ljós? Mér finnst samt að þessar niðurstöður veki upp fleiri spurningar en þær svara. Í þessu sambandi hlýtur að skipta máli hvernig “upplifun æðri nándar” er skilgreind, því í vísindum þarf að skilgreina öll hugtök. Í öðru lagi hlýtur að skipta máli hvort um trúað fólk, vantrúað eða guðsafneitara var að ræða. Þ.e.a.s. hæpið er að hinir vantrúuðu eða afneitararnir hafi verið dómbærir á neina samsömun við trúarlega upplifun.

Þetta orðalag “upplifun æðri nándar” er frekar óvenjulegt og virðist lýsa mikilli og djúpri trúarlegri reynslu, allt að því eins konar leiðsluástandi, sem er líklega frekar sjaldgæft meðal trúaðs fólks í hversdagsbænum sínum, en kemur þó vísast fyrir í ritum mikilla andans manna og kvenna. Það hlýtur semsagt að vera athugunarefni hvort “rafsegulnándin” sé nákvæmlega eins og hin “trúarlega nánd", (sé hún til staðar hljóta hinir vantrúðu að spyrja). Það hlýtur að vera samsvörun milli þessara tveggja skilgreininga sem kallar á það að við segjum að þetta tvennt sé “eins", en það aftur kallar á að “trúarleg nánd” sé skilgreind á einhvern hátt og margir hljóta að spyrja sig hvernig í ósköpunum hægt er að formbinda í skilgreiningar einhverja innri skoðun. Sálarfræðin reyndi það framan af síðustu öld en lenti við það í mestu kreppu (svokölluð Introspection sem í dag er afskrifuð sem gervivísindi). Það hlýtur því að vera um einhverja náttúruvísindalega og mælanlega skilgreiningu um að ræða sem gerir að verkum að trúarlega nándin er “eins". Þið Birgir og Hjalti getið eflaust frætt okkur betur um þetta.

Í síðasta lagi hlýtur að vera athugunarefni hvað það er sem framkallar þetta sama ástand þegar rafsegulstraumurinn er ekki til staðar? Hugleiðum það aðeins. Ef um heilaskemmdir er að ræða eins og Birgir ýjar að hlýtur þá ekki að þurfa að finna nokkuð marga einstaklinga með nákvæmlega sömu skemmd í heilanum og sem upplifa þessa miklu trúarlegu nánd, án þess að fá rafsegulstuð, til að renna stoðum undir að skemmdirnar séu orsökin? Hafa þeir fundist? Ég spyr af því ég veit það ekki. En þó við gefum okkur að þessir einstaklingar fyndust þá er samt ekkert sannað með því, það má vera að það sé líklegt en sönnun er samt ekki til staðar því að við höfum enga tryggingu fyrir því að á morgun finnist ekki jafn stór hópur fólks sem upplifir þessa trúarlegu nánd, án þess að vera með heilaskemmdina.

Bestu kveðjur,
RGB.

24.02.06 @ 19:27
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það sem málið snýst hér um er sá skilningur sem þeir Birgir og Hjalti telja búa að baki þeirri reynslu sem þeir telja að sé að „upplifa Guðdóminn.“ Vafalaust má framkvæma einhverjar skynrænar ertingar með því að beina rafstraumi að gagnaugablöðum heilans. En slíkt hefur ekkert með Guð að gera.

Slíkra skynrænna ertinga gætir í upphafi bænalífsins og eru taldar afar óheppilegar, það sem Jóhannes af Krossi nefnir „deleite sensual“ eða skynræna fullnægju eða gleðitilfinningu. Hún tilheyrir sviði byrjendanna og hverfur í nótt skynhrifanna. Í helgunarguðfræðinni er þannig talað um vegina þrjá: Veg hreinsunar, veg uppljómunar og veg sameiningar. Skynrænar tilfinningar teljast til vegar hreinsunarinnar.

Í dulúðarguðfræðinni (og hér tala ég út frá kaþólsku sjónarmiði, þar sem mótmælendur glutruðu þessum skilningi hinnar heilögu arfleifðar niður við siðaskiptin) er vegur bænarinnar og þróun samofin sakramentunum, með sérstakri áherslu á efkaristíuna. Og mótmælendur afneituðu jafnframt raunnánd Krists í efkaristíunni.

Þannig erum við að tala um allt annan hlut þegar talað er um „að upplifa Guðdóminn“ og helgunarguðfræðin er einmitt reynsluguðfræði, en ekki fræðilegar skilgreiningar hinnar sundurgreinandi guðfræði. Hún er samofin sjálfri arfleifðinni, bæn, íhugun, lectio divina, andlegri leiðsögn reynds leiðbeinanda, skriftum o. sv. fr.

Það sem gerir rannsóknirnar á sjáöndunum í Medjugorje svo athyglisverðar er að þær leiða í ljós, að á nákvæmlega því andartaki sem sjáendurnir sjá Guðsmóðurina nema augu þeirra staðar eins og sjá má á augnmælingunum (electro-oculogrammes). Sjáendurnir voru fimm og þannig voru gerðar nákvæmar mælingar á þeim öllum fyrir hrifin (pre) meðan á þeim stóð (pendant) og eftir þau (post extase). Þær leiða í ljós að við töku hjartalínuritanna (electrocardiogrammes) eykst hjartasláttur þeirra allra í 135-145 hjartaslög á mínútu á sama andartaki. Þær leiða í ljós að á sama andartaki verða betabylgjur heilans á heilalínuritunum (electro-encépahlogrammes) hraðar betabylgjur allt að 60 cps sem bera vott um fyllstu árvekni (attentive). Fyrir og eftir hrifin fylgja þær ætíð sama ferli hjá öllum fimm sjáendunum. Mælingarnar á húðnæmninni leiða hið sama í ljós að á nákvæmlega sama andartakinu og hrifin verða dýpst er húð þeirra með öllu ónæm fyrir nálastungum og öðrum ertingum.

Mælingarnar voru endurteknar hvað eftir annað frá því í maí fram í lok octóber 1985 og niðurstöðurnar voru ávallt samhljóða. Frönsku vísindamennirnir undir stjórn Henri Joyeux voru sex að tölu auk aðstoðarmanna. Þær eru stórmerkar í augum þeirra sem vita um hvað málið snýst.

Hvað áhrærir rafmagnsguðfræði þeirra Birgis og Hjalta, þá endurtek ég það sem ég sagði hér að ofan: „Ég er voðalega hræddur um að rafmagnsguðfræði ykkar félaganna myndi leiða til skjótrar örorku og alvarlegra geðrænna kvilla, líkt og maniac depression, sem að hluta til má rekja til truflana á starfsemi heilabylgna.“

Ef þeir félagar hafa hins vegar trú á þessari aðferðarfræði sinni og geta sýnt mér fram á að 25 árum liðnum, að þeir séu orðnir að ljúfum, elskuríkum, auðmjúkum og lítillátum lærisveinum Drottins Jesú Krists, þá yrði ég að viðurkenna, að hér sé um helgandi áhrif náðarinnar að ræða. Ég tel hins vegar engar líkur á slíku vegna þess að þeir hrærast í því sem hl. Páll kallar „mennskar hugsmíðar“ um Guð, sem er ekkert annað en náttúrleg viðleitni holdsins til að gera sér eigin ranghugmyndir um Guð og hefur ekkert með sanna helgunarguðfræði að gera sem er guðsgjörningin (þeosis, deification). Amen.

Hvað varðar trúað fólk hins vegar vek ég athygli þess á fjölmörgum ritum um helgunarguðfræði á íslensku á VEFRIT KARMELS. Ég geri ekki ráð fyrir því að fylgismenn rafmagnsguðfræðinnar hafi nokkra nennu á því að kynna sér slíkt efni, enda óþarft: Þeir eiga sinn RAFMAGNSGUÐ! Hann er ekki Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, það get ég fullvissað þá um.

25.02.06 @ 06:42