« Ákall (trúarvers)Rétt og rangt í máli Manúels í Miklagarði »

30.11.06

  10:51:51, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 984 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Stofnfrumurannsóknir og tæknifrjóvgun (IVF)

Áhlaup efnishyggjunnar á stofnfrumur fósturvísa

Nú er byrjað að keyra á stofnfrumumálið, bæði í fjölmiðlum og í athafnasemi manna í heilbrigðisráðuneytinu, sem og þeirra lækna og líffræðinga sem þessu tengjast, til að styðja við frumvarpið sem ætlunin er að renna gegnum þingið. Ein grein er um málið í Mbl. í dag, til að kynna ráðstefnu sem verður kl. 1–6 í dag í Norræna húsinu, og í morgunútvarpi Rúv var viðtal við Svein Magnússon, ráðuneytisstjóra í nefndu ráðuneyti, og Jón Snædal lækni. Nokkuð vel var að því viðtali staðið af hálfu spyrjandans, Kristjáns Sigurjónssonar, fyrir utan það jafnvægisleysi, að þar var einungis rætt við tvo fylgismenn frumvarpsins. Hreinskilnir voru þeir þó í tali sínu (m.a. því, sem ekki er hægt að samþykkja), og athyglisverð atriði komu fram í því viðtali, sem getið verður hér á eftir. En vonlítið mun að treysta því, að fulltrúi Þjóðkirkjunnar í Vísindasiðanefnd standi vörð um hina ævafornu kristnu kenningu, að lífið beri að virða frá upphafi þess .... [1]

Einnig í því efni – auk fráhvarfs margra kennimanna þar frá hinum biblíulega boðskap um samkynja kynmök – blasir við ringulreið og beinlínis vanræksla við að sinna þessu í þeirri kirkju og þar af leiðandi sár vöntun á leiðsögn, þegar dregur að örlagaríkri ákvörðun Alþingis í þessu máli. – Hvers vegna fellur það þá einna helzt í hlut okkar kaþólskra að ræða þetta? Menn hugleiði það.

Í viðtalinu í morgun (rétt fyrir kl. 8) sagði Jón Snædal m.a.:

"... Hvað er fósturvísir, eða hvaða rétt hefur fósturvísir? Eigum við að líta á fósturvísi sem upphaf manneskjunnar, sem hefur sama rétt eins og fullorðin manneskja eða barn? Þetta er hið siðferðilega álitamál náttúrlega. Við höfum náttúrlega komizt nokkuð áleiðis fyrir nokkrum áratugum með umræðunni um fóstureyðingar, þar sem að samfélagið endaði með því að viðurkenna að fóstur fram að ákveðnum tíma hefði kannski ekki sama rétt og ... sem sagt barn, sem er fætt, og leyfir fóstureyðingar í vissum tilvikum."

En þarna koma fram forsendur sem eru jafn-veikar og gljúpt kviksyndi. "Samfélagið" endaði ekkert á því að viðurkenna að fóstur fram að ákveðnum tíma hefði ekki fullan lífsrétt, heldur var það vanrækslusamt Alþingi, sem keyrði í gegn fósturdeyðingarlögin árið 1975 og það í fullkomnu trássi við þjóðarviljann, eins og fram kom í skoðanakönnun einmitt á þeim dögum í Vikunni. Þessi grunnforsenda er því rangt gefin (eins og fleira í viðtalinu), jafnvel þótt ólögin frá 1975 hafi síðan haft sín áhrif til að sveigja fólk (einkum ungt fólk) í þá átt að verða lítt meðvitað um lífsrétt hinna ófæddu.

[Til bráðabirgða: Ég er að vinna að stækkun þessarar greinar –]

-------------------

Ýmislegt hefur verið skrifað um þessi mál hér á Kirkjunetinu, og geta menn t.d. farið í LEIT í dálkinum hér til hægri og fundið niðurstöður, ef spurt er um orðið stofnfrumur eða stofnfrumurannsóknir. Ein nýleg grein mín um málið er þessi: Nýjasta móðgun stjórnvalda við kristindóm og siðferði: gjörnýting fósturvísa.

ATHUGASEMDIR NEÐANMÁLS:

[1] Þetta skrifaði ég ekki út í bláinn, heldur þekkjandi til 'frjálslyndra' viðhorfa fulltrúa Þjóðkirkjunnar í Vísindasiðanefnd til þessara mála. Það er annars merkilegt, hvernig sú meinta lúthersk-evangelíska kirkja reisir sér hurðarás um öxl með því að koma ofur-'frjálslyndum' inn í sem flestar áhrifastöður í málefnum, sem varða siðferðismál 21. aldar, og hafa þetta fólk þar á launaskrám við að vinna gegn hefðbundnum, kristnum siðferðisviðhorfum, hvort sem það er í samkynhneigðramálum (þar sem þessu 'frjálslyndis'-fólki hefur verið raðað á jötuna til að dómínera á ráðstefnum og í ýmsum lykil-nefndum – og hafa sterk áhrif á aðrar nefndir) eða í þessum lífsspursmálum. – Það kom mér því, út frá vitneskju minni af þessu ástandi, alls ekki á óvart að heyra prófessor Vilhjálm Árnason lýsa því á hinni fróðlegu ráðstefnu í Norræna húsinu í dag, að í Vísindasiðanefnd hafi það ekki verið fulltrúi Þjóðkirkjunnar, Sólveig Anna Bóasdóttir, sem þar hafi reynzt vera fulltrúi 'íhaldssamra' sjónarmiða um að fara varlega í stofnfrumumálum, heldur hefði það hlutverk fallið honum sjálfum í skaut! Er hann þó, sá ágæti maður, enginn fulltrúi kristinna né trúarlegra viðhorfa sem slíkra, þegar um þessi mál er rætt, heldur ígrundaðra siðferðislegra sjónarmiða og raka (hann er prófessor í heimspekilegri siðfræði við Háskóla Íslands), og ber ég mikla virðingu fyrir nálgun hans á málefnið og faglegum tökum hans í umfjöllun um það, þótt ég geti vissulega ekki verið sammála öllum rökum hans né áherzlum (né t.d. ýmsu sem kom fram hjá honum í viðtalinu í 'Speglinum' í Rúv að kveldi þessa sama fimmtudags 30. nóv.). En hitt var greinilegt af erindum á ráðstefnunni (fleiri en einungis Vilhjálms) og stuttu spjalli mínu við hann eftir ráðstefnuna, að með rökstuddum varnaðarorðum sínum hefur hann haft ýmis farsæl áhrif á það, að niðurstaða tillagna nefndarinnar varð þó ekki enn róttækari en raunin varð. – Slík voru hins vegar ekki áhrifin af setu fulltrúa Þjóðkirkjunnar í nefndinni ....

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Miklar umræður eru um frumvarp heilbrigðisráðherra um stofnfrumur og tilraunir á þeim á Moggablogginu í gær og í dag, bæði á minni bloggsíðu og vef hinna nýju Kristnu stjórnmálasamtaka. Sjá þennan smápistil minn og vísanir (tengla) sem þar (og í nýrri aths. minni þar) er að finna.

13.03.07 @ 16:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Enn hef ég verið að bæta við efni á Moggablogg mitt um þetta “frumvarp um tilraunir á fósturvísum,” eins og ég er (skiljanlega) farinn að kalla það. Þar er ég nú með glænýja grein um efnið.

15.03.07 @ 15:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér er nýr smápistill um málið, en þar miðla ég uppl. um hvernig það gekk fyrir sig, að stofnfrumumálið var stöðvað á þingi – að sinni. Ég tek ofan fyrir þingmönnum Frjálslynda flokksins og biskupi Íslands. Heiður þeim sem heiður ber.

23.03.07 @ 20:19
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software