« Ritningarlesturinn 7. nóvember 2006Polaroidbörn »

06.11.06

  11:05:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 790 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Afstaða Marteins Lúters til Maríu Guðsmóður

Sökum tilmæla birti ég hér afstöðu Lúters til Maríu Guðsmóður í sérstakri grein. Þetta er lokakaflinn í 6. kaflanum um Hina þrjá myrku daga.

Við það fólk sem tilheyrir lútersk evangelísku kirkjunni á Íslandi og les þessa umfjöllun vil ég einungis segja þetta: Margir trúbræðra ykkar og systra eru orðin miklu lúterskari en sjálfur Marteinn Lúter var nokkru sinni. Við skulum nú rifja upp nokkur ummæla hans um Maríu Guðsmóður. Lúter sagði meðal annars þetta:

„Hún er full náðar og réttilega sögð vera að öllu leyti án syndar . . . Náð Guðs fyllir hana allri gæsku og eyðir allri illsku úr henni . . . Guð er með henni sem felur í sér að allt sem hún gerði eða á eftir að gera er guðdómlegt og áhrif Guðs í henni. Auk þess vakti Guð yfir henni og verndaði hana gegn öllu sem gat unnið henni tjón.“ [1]

Á öðrum stað í predikunum sínum kemst hann svo að orði: „Hún er ekki einungis með réttu móðir mannsins, heldur einnig Guðsmóðir . . . það er ótvírætt að María er móðir hins raunverulega og sanna Guðs.“ [2]

Lúter sagði: „Menn hafa krýnt hana með allri dýrð hennar með því að segja: Guðsmóðir. Enginn getur sagt neitt háleitara um hana, jafnvel þó hann hefði eins margar tungur og laufin eru á trjánum.“ [3]

Í hinum 95 greinum sínum hafnar Lúter öllu guðlasti gegn Meyjunni og telur að sá sem fari um hana niðrandi orðum ætti að biðjast fyrirgefningar.“ [4] Í ritskýringum sínum við Lofsöng (Magnificat) Maríu byrjar Lúter og endar með ákalli til Maríu!“ [5]

Það sem er ef til vill athyglisverðast er áletrun sú sem er á gröf hans í Wittenbergkirkjunni, á sömu dyrunum og Lúter negldi upp hinar 95. mótmælagreinar á. Það var myndhöggvarinn Peter Vischer sem skreytti þeir með áletrun þar sem lesa má meðal annars þessi orð: Ad summum Regina thronum defertur in altum: Angelicis praelata choris, cui festus et ipse Filius occurrens Matrem super aethera ponit." [6]

Þeir sem eru orðnir lúterskari en sjálfur Marteinn Lúter halda því jafnframt fram að rómversk kaþólska kirkjan geri sig seka að miklum öfgum með því að heiðra Maríu Guðsmóður. Þeim til áminningar bendi ég á að Austurkirkjan heiðarar Guðsmóðurina ekki síður, eins og kirkjan hefur reyndar öll gert frá upphafi.

Iðulega leysir ákallið til Guðsmóðurinnar Jesúbænina af hólmi í tíðagjörð Austurkirkjunnar í klaustrunum: Panhagia Theotokos, sozon hymas : Alhelga Guðsmóðir, bjarga okkur! [7]

Eftirfarandi bæn úr Helgisiðum Jóhannesar Chrysostomosar (messubókinni) undirstrikar þessa afstöðu Austurkirkjunnar enn frekar:

ÁKALL TIL ÞEOTOKOS

Alhelga mey og Guðsmóðir, ljós minnar myrku sálar, von mín og vernd, skjól mitt, huggun og yndi. Ég þakka þér fyrir að hafa gert mig, alls óverðugan, þess umkominn að meðtaka heilagan Líkama og dýrmætt Blóð Sonar þíns. Þú sem barst hið sanna Ljós, upplýstu andlegt auga sálar minnar. Þú sem veittir uppsprettu eilífs lífs líf, veittu mér sem er dauður í syndum mínum líf. Þú sem ert hin náðarríka Móðir almiskunnsams Guðs, miskunna þú mér og glæddu með mér samúð iðrandi hjarta og auðmjúkt hugarfar. Leystu hugsanir mínar undan ánauðaroki þeirra. Ger þú mig þess umkominn allt til hinstu stundar, að njóta í flekkleysi hinna guðdómlegu Leyndardóma [Evkaristíunnar] líkama mínum og sálu til græðslu. Veit mér tár iðrunar og eftirsjár svo að ég megni að heiðra þig og vegsama sérhvern dag lífs míns, sökum þess að þú ert blessuð og dýrleg um aldir alda. Amen.

[1]. Luther's Works, American edition, vol. 43, p. 40 , ed. H. Lehmann, Fortress, 1968.
[2]. Sermon on John 14. 16: Luther's Works (St. Louis, ed. Jaroslav, Pelican, Concordia. vol. 24. p.
107)
[3]. Úr Ritskýringunum við Lofsöng Maríu.
[4]. J. Cole, "Was Luther a Devotee of Mary?" in Marian Studies 1970, p. 116.
[5]. David F. Wright, Chosen by God: Mary in Evangelical Perspecive (London: Marshall
Pickering, 1989, p. 178).
[6]. Ref: P. Stravinskas in Faith Camp; Reason, Spring, 1994, p. 8.
[7]. Ákveðinn fjöldi Jesúbæna eða Maríubæna leysir hina hefðbundnu tíðagjörð af hólmi til samræmis við ákveðnar reglur. Prestur, munkur eða nunna endurtekur þannig Maríubænina 100 sinnum á hnútabandinu.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jón, þakka þér kærlega þessa grein og fyrir elju þína alla.

Það eru ekki nema um 10 dagar síðan einn áberandi Þjóðkirkjuklerkur átaldi kaþólsku kirkjuna í mín eyru fyrir að tala um að María Guðsmóðir hafi verið óflekkuð (þ.e. frá því að hún var getin). Ég er viss um, að þrátt fyrir að sá prestur hafi verið einlægur KFUM-ari á árum áður og gnesiolútherskur (hreinlútherskur) í áherzlum sínum í guðfræðideild, þá sé hann nú fjarri þeirri hugsun að viðurkenna syndleysi hennar (enda undir áhrifum líberalvillunnar). Þess vegna hæfir honum vel að hlýða á orð síns gamla meistara, Lúthers: „Hún er full náðar og réttilega sögð vera að öllu leyti án syndar,” eins og fram kemur hér ofar. „Að öllu leyti án syndar” eru svo fortakslaus orð, að þau innifela þá sennilega líka: án upprunasyndarinnar (’erfðasyndar’). En sé sú merkingin, er viðblasandi, að Lúther hefur talið getnað hennar óflekkaðan af upprunasyndinni. Það er þannig viðurkenning á okkar kaþólsku trúarsetningu: conceptio immaculata.

Já, Lúther var sanntrúaðri að mörgu leyti en líberalistarnir í ‘lútherskri’ kirkju samtíðar okkar. Dr. Einar Sigurbjörnsson prófessor átti m.a.s. til að benda á það í trúfræðifyrirlestrum sínum, að Lúther hafi verið ‘mariologiskur maxímalisti’, þ.e.a.s. að í Maríufræðum sínum hafi Lúther gefið Guðsmóðurinni hinn mesta mögulegan heiður, andstætt ‘mariologiskum mínímalistum’, sem efuðust um eða drógu úr heiðri hennar og vegsemd.

Farir þú, Jón, að tillögu minni með að sníða þennan kafla þinn frá þessari vefgrein, er ágætt að enda hana með tilvísun til hinnar (nýju) sérgreinar, ‘Afstaða Marteins Lúters til Maríu Guðsmóður’. Og þakka þér aftur.

06.11.06 @ 13:56
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Gagnrýnisorð þessa gamla skólabróður míns á flekkleysiskenningu kaþólsku kirkjunnar duttu reyndar upp úr honum, þegar ég sagði eitthvað á þá leið, að ég undraðist að hann gæti samþykkt blessun Þjóðkirkjunnar á samlífi samkynhneigðra, þvert á móti því sem Biblían segði. Og hann svaraði því svona (efnislega rétt, kannski ekki orðrétt; greip þarna líka til enska orðsins immaculate: flekklaus): “Ja, er það ekki í lagi, alveg eins og þið kaþólskir talið um immaculate páfa!” – “Páfa?” sagði ég, “þeir eru ekkert taldir flekklausir.” – “Nei, ég meina Maríu,” kvað hann þá. – Hann lítur sem sé svo á, að eins og kaþólskir boði eitthvað and-biblíulegt (að hans mati), þannig megi lútherskir gera það líka! En nú versnar í því hjá Sveinka, þegar í ljós kemur, að sjálfur kennifaðirinn Lúther var sammála okkur kaþólikkunum um flekkleysi heilagrar Guðsmóður.

06.11.06 @ 13:59
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Grafskrift Lúthers er líka stórmerkileg heimild.

06.11.06 @ 14:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég hef ætíð dáðst að guðfræðilegri skarpskyggni John Duns Scotus (1266-1308) um hin gagnvirku eða framvirku og afturvirku áhrif friðþægingar Krists: Að máttur blóðs friðþægingarinnar hafi upprætt áhrif erfðasyndarinnar á hina blessuðu Mey.

Kenning Tómasar frá Akvínó er ekki siður fögur þegar hann talar um að í upphafi sköpunarinnar hafi allir englarnir snúið sér til Guðs í lofgjörð í fyrstu viðbrögðum sínum.

En síðan hafi sumir þeirra orðið herpingi stærliltæisins að bráð og fallið af himnum niður í víti (og Drottinn segir að hann hafi séð Satan falla eins og stjörnu af himnum).

En María hafi brugðist við eins og hinir heilögu englar Guðs og snúið sér til hans af ástúð í öðrum viðbrögðunum.

Synd hvað mörgum sést yfir þá staðreynd að Tómas var ekki einungis frábær rökfræðingur og heimspekingur, heldur einhver mesti djúphyggjumaður kirkjunnar fyrr og síðar.

Þetta sést best á kenningu hans um hreyfingu engla sem gerði Niels Bohr orðlausan svo að hann sagði: „Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það hafi verið guðfræðingur sem uppgötvaði lögmál skammtafræðinnar fyrir 700 árum!“ Samkvæmt skólaspekinni flokkast slíkt undir frumlæga þekkingu, en ekki a prioriori ályktun.

06.11.06 @ 14:32