« Um friðarboðskap kristninnar - I. hlutiKristindómurinn hafnar fíkninni ákveðið og alfarið »

30.09.07

  16:42:49, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 782 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Af ummælum erkibiskupsins í Mósambik

Nýleg ummæli erkibiskupsins í Mósambik Francisco Chimoio um að sumar verjur framleiddar í Evrópu séu smitaðar með HIV veirunni hafa valdið hörðum viðbrögðum í Mósambik og þegar bloggarar landsins sáu þessa frétt á mbl.is voru þeir fljótir til athugasemda. Sjá hér: [Tengill] Umræða um afstöðu kaþólsku kirkjunnar til þessara mála hefur verið töluvert í kastljósinu hérlendis frá andláti Jóhannesar Páls II páfa á vordögum 2005. Ljóst er að ef rétt er eftir erkibiskupinum haft og á þessari stundu bendir ekkert til annars þá hefur hann farið langt yfir strikið með þessum ummælum.

Í stuttu máli má segja að afstaða kirkjunnar sé sú að fólk eigi að ástunda skírlífi til hjónabands og halda algera tryggð við makann eftir það. Kaþólska kirkjan bannar einnig notkun tilgerðra getnaðarvarna á þeim forsendum að þær séu hindrun í vegi fullkomins kærleikssambands hjónanna. Þessi afstaða í siðferðismálum hefur sett kirkjuna í nokkuð erfiða aðstöðu á þeim svæðum þar sem HIV sýkingar eru útbreiddar því vitað er að smokkar eru áhrifarík smitvörn séu þeir rétt notaðir. Í fyrra lét Benedikt páfi því undan þrýstingi í þessum efnum og skar úr um það að í hjónabandi þar sem annar aðilinn væri sýktur bæri hinum aðilanum að verja sig sýkingu. Í raun og veru var hann aðeins að staðfesta það sem líklegt er að flestir hafi talið sjálfsagt.

Dæmi eru um að hátt settir áhrifamenn innan kirkjunnar hafi látið ummæli falla sem valdið hafa titringi. Fræg eru t.d. ummæli Trujillo kardínála frá því síðla árs 2003 þegar hann hélt því fram í fréttaþætti BBC að sumir smokkar væru gegndræpir og væru því ekki örugg smitvörn. Þessi ummæli ollu reiði og deilum m.a. hér á Íslandi en deilurnar hljóðnuðu þó árið 2005 þegar í ljós kom að miklar birgðir af smokkum sem dreifa átti í Afríku eða voru komnir í dreifingu reyndust gegndræpir og veittu því falska vörn. Þeir reyndust aftur á móti hafa verið framleiddir í Kína.

Ummæli erkibiskupsins í Mósambík ganga miklu lengra og eru í rauninni óskiljanleg. Þau gera trúlega ekkert annað en kynda undir báli tortryggni og ásakana sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur veikinnar. Ef erkibiskupinn hefur grun um lögbrot af einhverju tagi þá ætti hann að snúa sér til stjórnvalda með sönnunargögn sín ef hann hefur einhver en láta vera að fara með ásakanirnar í fjölmiðla. Í skýrslum Sameinuðu Þjóðanna um alnæmisfaraldurinn í Afríku hefur verið áréttað að sökudólgaleit, hverju nafni sem hún nefnist sé óheppileg og geri ekkert til að vinna gegn útbreiðslu veikinnar. Ummælin gera kannski helst það að draga fram þá staðreynd að örvænting Afríkumanna á þessu sviði er að aukast því erfitt er að stemma stigu við dauðsföllum og útbreiðslu sýkinga. Talsmenn smokkanotkunar ásaka kirkjunnar menn um ábyrgðarleysi og að vinna gegn smokkanotkun og erkibiskupinn í Mósambik hefur fallið í þá gryfju að leita að sökudólgum í röðum smokkaframleiðenda. Sökudólgaleit af þessu tagi er óheppileg ef marka má skýrslu SÞ. Staðreyndin er sú að allir eru að reyna að gera eitthvað til að hjálpa. Kirkjan boðar skírlífi og aðrir tala fyrir smokkanotkun. Báðir aðilar ættu að koma upp úr málefnaskotgröfunum og hætta að gagnrýna hinn aðilann því líklegt er að ráð beggja dugi að einhverju marki. Þessa afstöðu hafa kaþólsku bresku hjálparsamtökin CAFOD sem starfa í Afríku reyndar tekið upp og þau hafa gagnrýnt harða afstöðu sumra kirkjuleiðtoga á þessu sviði.

Spurning er hvort Benedikt páfi láti málið til sín taka og fái erkibiskupinn til að biðjast afsökunar og draga ummælin til baka eða krefjast afsagnar hans. Afsögn væri í þessu tilfelli frekar viðeigandi því allt bendir til að erkibiskupinn hafi með ummælunum gert sig sekan um stórkostleg afglöp og gáleysi í starfi sínu í þágu kirkjunnar. Með þeim hefur hann óbeint varpað rýrð á málstað kirkjunnar og valdið mikilli hneykslan að minnsta kosti hér á landi eins og sést þegar athugasemdirnar við fréttina á mbl.is eru lesnar.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mig langar að koma á framfæri leiðréttingu á því sem sagt er hér í pistlinum um að Benedikt páfi hafi látið undan þrýstingi og skorið úr um það að í hjónabandi þar sem annar aðilinn væri sýktur bæri hinum aðilanum að verja sig sýkingu.

Í kjölfar umræðna á bloggsíðunni http://thorsteinni.blog.is/blog/thorsteinni/entry/400321/ þá fór ég að leita að öruggri heimild fyrir þessu en fann ekki. Svo virðist því sem enginn slíkur úrskurður hafi komið frá Benedikt páfa XVI. Hið rétta er að páfinn hefur veitt heimild til gerðar skýrslu sem snýr að vísindalegri og siðferðilegri notkun verja. Sjá hér:

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1236863

og hér:

http://www.catholicnews.com/data/stories/cns/0602330.htm

Ég bið lesendur velvirðingar á þessari missögn.

31.12.07 @ 10:03
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Gleðilegt ár, kæri vinur minn Ragnar!

Einn kardínálinn (man ekki nafnið) hafði lýst þessu yfir, sem þú segir þarna frá, og er reyndar ekki rétt að kalla það að láta undan þrýstingi, því að þetta leiðir af sjálfu sér af ýmsum grunnreglum kaþólskrar siðfræði, og svo taldi t.d. ég sjálfur löngu áður. – Kem kannski inn á þetta aftur við betra tækifæri, en óska nú þér og öllum þínum farsældar á nýju ári og síaukins styrks í Andanum.

01.01.08 @ 01:48
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Bestu þakkir fyrir þessar upplýsingar Jón og góðar kveðjur sömuleiðis.

02.01.08 @ 06:44