« Um hið andlega brúðkaup Krists og sálarinnarHvernig öðruvísi? »

13.02.06

  10:54:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1522 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Af Tübingenmönnum og fleira

Eitt þeirra þjóðfélagsmeina sem þjakaði evrópskt samfélag síðmiðaldanna var ofvöxtur í þeirri þjóðfélagsstétt sem nefndist „aðalsmenn.“ Yfirleitt voru þeir iðjulausir með öllu og höfðu lítt annað fyrir stafni en að syngja ballöður og gæða sér á vínum og heilsteiktum grísum, milli þess sem þeir fóru um sínar heimasveitir og lömdu á búandkörlum og frömdu húsbrot. Því datt hyggnum landstjórnarmönnum það snjallræði í hug, að senda þá í „krossferð“ til að létta á áþjáninni heima fyrir.

Þannig fór þessi fríða fylking niður í gegnum alla Evrópu allri alþýðu til mikils hrellings og beindu för sinni til Miklagarðs sem á þeim dögum var önnur höfuðborgin í kristnum dómi. Þann 12. apríl 1204 lagði þessi rumpulýður Konstantínópel undir sig og héldu uppteknum hætti sem á heimavangi og „fræknir“ riddarar tortímdu ómetanlegum og fornum menningarverðmætum og fóru ruplandi hendi um helga dóma og lögðu eld í kirkjur. Ekki þarf að taka fram að þessi ferð var farin í óþökk Páfastóls. Öll urðu þessi ótíðindi til að dýpka en djúpið á milli Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar sem þegar var til staðar síðan í upphafi elleftu aldar.

Þrátt fyrir þetta dró aftur saman með kirkjunum. Þegar Konstantínópel féll þann 29. maí 1453 í hendur Mehemed II súltans lá þannig öflugur floti Páfastóls á Bosborussundi og fjölmennar liðsveitir vestanmanna dvöldust innan borgarmúranna. Stefan Zweig hefur skrifað afar fróðlega frásögn í bók einni sem hann tók saman um undarleg atvik í mannkynssögunni eða tilviljanir. Ég las hana sjálfur á þýsku, en ég held svei mér þá að hún hafi verið þýdd og útgefin á íslensku.

Á hverju kvöldi gengu varðmenn kringum borgarmúrana og gættu að því að allar dyr og hlið væru tryggilega lokuð. Sami háttur var hafður á aðfaranótt þess 29. maí, að því undanskildu að gleymst hafði að læsa aftur einni lítilli hurð. Inn um hana komust síðan 20 vaskir sveinar soldánsins. Þegar tíðindin bárust um meðal borgarbúa var „tyrkjafóbían“ svo mikil að borgin féll umyrðalaust. Síðdegis daginn áður hafði verið sungin samkirkjuleg messa þar sem bæði austanmenn og vestanmenn meðtöku hinn mikla leyndardóm. Þetta var síðasta messan sem Austurkirkjan og Vesturkirkjan fögnuðu saman. Nú eru liðin 553 ár frá þessum atburði og enn sem komið er hefur þetta ekki gerst aftur, þrátt fyrir sömu játningu og trú, með örlitlum frávikum þó sem markast af þessum langa aðskilnaði.

Síðasta alvarlega tilraunin til sátta var gerð á kirkjuþinginu í Flórens á árunum 1438-1445, en það kom í beinu framhaldi af kirkjuþinginu í Ferrara. Eftir að hafa kynnt mér öll málsgögn tel ég að það sé ekki síður Vesturkirkjunni að kenna en Austurkirkjunni, að sættir náðust ekki. En nú hyllir aftur undir sættir. Allt frá 1990 hafa kirkjurnar átt í sáttaviðræðum, fyrst undir stjórn Jóhannesar Páls páfa II, blessaðrar minningar, og Basileusar I samkirkjupatríarka í Konstantínópel. Síðan hefur þeim verið haldið áfram með okkar nýja páfa, Benediktusi XVI. Meðal annars baðst Jóhannes Páll páfi fyrirgefningar árið 1994 fyrir öll þau óþurftaverk sem Vesturkirkjan hefur unnið Austurkirkjunni.

En víkjum nú sögunni til Þýskalands þar sem Lúter fékk opinberun í kirkjuturninum að eigin sögn um nýja kirkjuskipan. Óánægjan var megn í Þýskalandi á þessum árum í garð rómversk kaþólsku kirkjunnar, við verðum að hafa í huga að þetta var fyrir gagnsiðbótina (counter-reformation) innan hennar. Brátt söfnuðust hæfileikaríkustu menn til fylgis við Lúter undir dyggri leiðsögn Tübingenprófessoranna, manna líkt og Melanchtons, Jonas, Brenz, Agricola og Jorgensen. Þetta var eins konar samfylking gegn heilagri arfleifð kirkjunnar.

Þegar útséð var að nokkrar sættir tækjust á milli mótmælendanna og rómversk kaþólsku kirkjunnar hófu þeir fyrr nefndu brátt bréfaskriftir við Patríarkann í Konstantínópel í von um stuðning úr þeirri átt. Hann var Jeremías II (1536-1595) sem tekið hafði við af Metrophanes III sem varð að víkja úr embætti vegna háværra mótmæla innan grísku kirkjunnar, þar sem hann þótti vera of vilhallur Róm.

Þannig var erkidjákninn Demetrios Mysos sendur til Wittenberg 1558 til að kanna nánar kenningar mótmælendanna og þýðing á Augsburgarjáningunni lá þegar fyrir á grísku. Síðan áttu sér stað vinsamleg bréfaskifti sem lauk endanlega í júní 1581 þar sem ágreiningur mótmælenda og Rétttrúnaðarkirkjunnar lá fyrir á borðinu. Hann snérist um eftirfarandi atriði:

a. Hina heilögu arfleifð.
b. Trúarjátninguna (filioque). [1]
c. Frjálsan vilja mannsins.
d. Ráðsályktun Guðs.
e. Réttlætinguna.
f. Fjölda sakramentanna (undirstrikun mín).
g. Framkvæmd skírnarinnar.
h. Um umbreytinguna í Efkaristíunni.
i. Um kennivald kirkjunnar.
j. Um lotningu, hátíðir, ákall til hinna heilögu og íkonur [2] þeirra og helgra menja.
k. Föstur og kirkjulega arfleifð og siði.

Hér er vissulega farið hratt yfir sögum í umfjölluninni um þetta merkilega mál. Ég beini athygli minni einungis að sakramentunum sjö á þessum vettvangi, sérstaklega hjónabandssakramentinu, jafn mikið og athyglin hefur beinst að því í sambandi við hugsanlega „vígslu“ samkynhneigðra innan mótmælendakirkjunnar. Þannig rauf rússneska Rétttrúnaðarkirkjan tengsl sín við sænsku Þjóðkirkjuna eftir að hún samþykkti blessunarathöfn yfir samkynhneigðum. „Frjálslyndur“ biskup innan rússnesku Réttrúnaðarkirkjunnar í Niznij Novgorod hugðist vígja samkynhneigðan mann til prests sumarið 2004 og mótmælaaldan varð slík, að horfið var skjótlega frá því. Margir snéru baki við Anglíkanakirkjunni í Englandi þegar hún samþykkti vígslu samkynhneigðra presta, þar á meðal næst æðsti maður hennar, Michael Harper, sem nú er orþodoxabiskup í Camebridge. Þegar Biskupakirkjan í New Hampshire vígði samkynheigðan mann til biskups rufu fjölmargar aðrar Biskupakirkjur víða um heim allt samband við hana.

Það er grunur minn að það muni gerast víðar. Vafalaust mun fjölmennasti hópurinn og sá sem vex hraðast innan mótmælendakirkjunnar, Hvítasunnumenn, standa frammi fyrir slíkri ákvörðun fyrr eða síðar, ef þessi háttur verður upp tekinn, það er að segja „vigsla“ samkynhneigðra sem um „hjónavíglsu“ sé að ræða. Vonandi verða það ekki örlög þeirrar ágætu stofnunar, Þjóðkirkjunnar, að falla sökum fámenns og háværs kröfuhóps samkynhneigðra líkt og Mikligarður féll sökum 20 manna úr liðsveit soldánsins, eða láta undan þrýstingi pólitísks valds eins og Páfastóll forðum í „filioque-deilunni.“ Það væri miður vegna þess að hún er kjölfesta kristindómsins í landinu.

Ég vísa til greinar hér á vefsetrinu: Hvað er kaþólskt hjónaband? og þeirra athugasemda sem greininni fylgja.

[1]. Hvað áhrærir „filioque“ þá gera kirkjusagnfræðingar í dag sér ljóst, að það var franska konungsvaldið sem beitti Páfastól pólitískum þrýstingi til að breyta trúarjátningunni með þessum hætti, þeirri sömu sem samþykkt var á samkirkjuþinginu í Efesus 379 og endanlega 381. Á þessu tímaskeiði stóð Páfastóll ekki nægilega styrkum fótum til að verjast þessum óbilgjörnu kröfum fransks konungsvalds og smáprinsa. Í reynd var Páfastóll aldrei fyllilega sáttur við þetta innskotsorð og hélt afstöðu sinni til streitu þar til svo var komið, að sambandið milli Vesturkirkjunnar og Austurkirkjunnar rofnaði fyrir fullt og allt. Árið 809 lét Leó páfi III þannig rita trúarjátninguna án filioque á gröf hl. Pétur á grísku og latínu. Það var svo ekki fyrr en 1014 sem Henry II keisari kom því til leiðar að filoque varð skotið inn í trúarjátninguna. Á þessum tíma stóð Páfastóll höllum fæti og þarfnaðist stuðning keisarans. Þetta var í fyrsta skiptið sem orðið var haft um hönd í messunni í Róm.

[2]. Menn mega ekki erfa það við mig þó að ég skrifi orðið í kvenkyni. Bæði er að orðið er í kvenkyni á grísku sem orðin ímynd og mynd á íslensku. Og reyndin er einnig sú að leyndardómur íkonunar er sá sami og gerðist „í konu,“ ég á við Panhagíunni. Auk þess er orðið miklu þjálla í öllum samsetningum eins og íkonuskrifari eða íkonubrjótar. Í mínum huga er karlkynsorðið íkonn auk þess kalt og fráhrindandi.13 athugasemdir

Jón Valur Jensson

Þakka þér, Jón, fyrir greinina. En rangt er það, að rússneska Rétttrúnaðarkirkjan hafi rofið “tengsl sín við sænsku Þjóðkirkjuna eftir að hún samþykkti slíka vígsluathöfn,” þ.e. hjónavígslu samkynhneigðra. Sænska kirkjan hefur ekki gengið svo langt. En hún er farin að blessa sambönd samkynhneigðra, og það getur rússneska Rétttrúnaðarkirkjan alls ekki samþykkt, ekki frekar en kaþólska kirkjan. Það, sem Guð hefur lýst viðurstyggð (3.Mós.18.22), það athæfi sem útilokar menn frá Guðsríki (I.Kor.6.9-10), þ.e.a.s. ef þeir iðrast ekki né þiggja fyrirgefningu Guðs – sem þeir þó geta fyrir kraft Guðs (I.Kor.6.11), það má enginn prestur blessa. Rússneska kirkjan fylgir þessu eftir af þvílíkri sjálfssamkvæmni, að hún hefur rofið sambandið við sænsku kirkjuna. – Vill íslenzka Þjóðkirkjan lenda í því sama?

13.02.06 @ 21:29
Jón Valur Jensson

“Biskupakirkjan klofnaði einnig þegar Englendingar samþykktu vígslu samkynhneigðs biskups …” – En ég man ekki til, að það hafi gerzt á Englandi. Hins vegar var virkur hommi vígður biskup í new hampshire í Bandaríkjunum, og þá sögðu margar afrískar o.fl. kirkjur í anglíkanska heimssamfélaginu sig úr tengslum við þá biskupakirkju.

13.02.06 @ 21:32
Jón Valur Jensson

Kaþólskir og orþódoxir guðfræðingar gera sér grein fyrir því, að báðar kirkjurnar geta haft rétt fyrir sér um Filioque-trúarkenninguna (sem er þá ekki skilin á sama hátt í báðum tilfellum). Meira um það seinna.

13.02.06 @ 21:36
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, þakka þér ábendingarnar, Jón. Læt ábendingar þínar standa hér, en leiðrétti þetta í textanum. Hvað áhrærir filioque er aðalatriðið það, að með þessum var brotið í bága við niðurstöður samkirkjuþinganna, bæði í Efesus og Konstantínópel. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að rétt eins og deilan við íkonubrjótana leiddi í ljós nauðsyn þess að styrkja sjálfstæði Páfastóls gegn veraldlegu valdi (Leó keisara III), þá undirstrikar filoque-deilan hversu slæmar afleiðingar það getur haft, ef látið er undan slíkum þrýstingi.

Í reynd má segja að sama vandamálið blasi við Þjóðkirkjunni í dag, nú þegar hið veraldlega vald setur hana „í pressu“ til að lúta vilja sínum. Rétt?

13.02.06 @ 22:27
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hvað áhrærir rök þín um samkvæmni Rétttrúnaðarkirkjunnar hef ég einnig heyrt þessa nákvæmlega sömu afstöðu tjáða í okkar eigin kirkju: Það sem er vanheilagt er ekki unnt að blessa. Við sjáum dæmi um þetta í Gamla sáttmálanum þegar þeir Nadab og Abahú báru fram annarlegan eld fyrir Drottin. En eldpönnur þeirra sem vígðar höfðu verið og helgaðar Drottni voru notaðar til að klæða altari brennifórnanna (syndafórnanna). Þetta var gert Ísraelsmönnum til eilífrar áminningar um óhlýðni þeirra. Það sem Drottinn hefur helgað verður ekki vanhelgað (hjónaband karls og konu). Lög Drottins eru ávallt sjálfum sér samkvæm. Þeir sem hafna sakramentunum sjö segja við Drottin: „En herra, vér viljum aðeins tvær (þrjár) körfur“ (sjá Mt 8. 21).

13.02.06 @ 22:30
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Annað atriði er það sem ég hef mikið velt fyrir mér, nafni, og langar að bera undir þig. Við vitum báðir að Thübingenmennirnir lögðu ofuráherslu á sola scriptura (ritninguna eina). Þeir höfnuðu því alfarið að lesa heilaga Ritningu í ljósi arfleifðarinnar. En nú er kjarni hinnar heilögu arfleifðar sá, að Heilagur Andi lifir í kirkjunni, í sakramentum hennar og þeim helgisiðum og sálmum sem hann hefur fært okkur í hendur til að koma til móts við mennskan takmarkanleika okkar. Þannig getum við ekki lesið heilaga Ritningu af „skilningi,“ nema sem guðdómlegan lestur (lectio divina) ásamt bæn og þakkargjörð. Eru það ekki afleiðingar þessarar afstöðu Thübingenmannanna sem blasa við sjónum í dag? Nú eru fjölmargir mótmælendur teknir að lesa Ritninguna sem hvert annað dagblað eða „félagsvísindi.“ Þannig hafna þeir mörgum af grundvallaratriðunum í boðskap hennar, eins og hvað áhrærir hjónabandi karls og konu samkvæmt guðlegri fyrirhugun og túlka hana í ljósi félagsvísinda samtímans. Og ég heyrði með eigin eyrum að séra Jónína Bolladóttir (kona séra Bjarna Karlssonar) taldi það sér til tekna að vera kallaður „helgisiðafræðilegur hryðjuverkamaður.“ Leiðir þetta einfaldlega ekki til þess að þetta fólk geri inntak kristindómsins að merkingarleysu? Nú er þróunin í þessa átt komin svo langt, að það tekur undir afstöðu guðleysingjanna um að ákveðnir kaflar heilagrar Ritningar séu „hatursáróður.“ Á þetta ekki eftir að ganga af mótmælendakirkjunni dauðri, ef kirkjuleg yfirvöld hennar hafa enga stjórn á þessu fólki? Hvað finnst þér, nafni? Kirkjan var, er og verður qahal, ecclesia, samfélag hinna aðskildu sem á enga hlutdeild í anda höfðingja þessa heims. Sem sagt: Ha hagia ekklesia kaþolike (ecclesia sanctam catholicam). Allt leggur þetta áherslu á mikilvægi dyggðar hlýðni við kirkjuleg yfirvöld og mikilvægi biskupavaldsins sem hl. Ignatíus frá Antíokkíu lagið svo ríka áherslu á þegar á annarri öld. Þessa charisma stjórnunarvaldsins.

14.02.06 @ 09:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég er bara svo upptekinn, Jón minn. En sola scriptura (’Ritningin ein’ eða ‘með Ritningunni einni saman’) er bæði kaþólsk og ekki kaþólsk afstaða (útlegg það betur síðar).

15.02.06 @ 16:41
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í þessu sambandi má benda á málþing um “Inntak og eðli hjónabandsins” sem Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum ásamt Guðfræðistofnun Háskólans standa fyrir á föstudaginn kemur 17. febr. í hátíðarsal HÍ frá kl. 13.30-16. Mbl. greindi frá þessu í dag (15.2.2006 á bls. 37). Málþingið ber yfirskriftina: “Hjónabandið - fyrir hverja?” Í fréttinni af málþinginu segir Kristín Ástgeirsdóttir sem er forstöðumaður RIKK m.a.: “Tilefni málþingsins er sú mikla umræða sem hefur átt sér stað að undanförnu um hjónabandið og réttindi samkynhneigðra í þeim efnum. Sú umræða vekur upp margar spurningar um hjónabandið, eðli þess og inntak, og þá staðreynd að hjónabandið hefur breyst mikið í tímans rás…Þó verður ekki einblínt á samkynhneigða og hjónabönd á málfundinum, heldur viljum við skoða fyribærið hjónaband í víðara samhengi, fræðilega og sögulega og átta okkur á þeim rökum sem beitt er í umræðunni. Því er t.d. mikið haldið fram að hjónabandið sé rammi utan um ást karls og konu, en það eru þó ekki nema 150-200 ár síðan að fór almennt að tíðkast í Evrópu að fólk fengi sjálft að velja sér maka. Áður voru hjónabönd fyrst og fremst hagsmunatengd og sáu foreldrar um að velja og samþykkja makann; og þannig er það enn í stórum hluta heimsins [..] því er hjónabandið eins og það birtist í umræðunni í dag í raun nýtt og vestrænt fyrirbæri sem er jafnvel enn í þróun.” Kristín nefnir í fréttinni skrif fræðimanna (Cott) sem segja að hjónabandið sé fyrst og fremst félagsleg stofnun, (og Bourdieu) að það sé stofnun sem ætti hvað drýgstan þátt í að vihalda veldi karla yfir konum. Á mælendaskránni eru dr. Sólveig Anna Bóasdóttir guðfræðingur, dr. Már Jónsson sagnfræðingur, dr. Sigurður Árni Þórðarson prestur, Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur og doktorsnemi og Gyða Margrét Pétursdóttir doktorsnemi í félags- og kynjafræði.

15.02.06 @ 21:47
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í Mars fer af stað námskeið hjá Endurmenntunarstofnun sem ber heitið “Samkynhneigð/ir og samfélag". Námskeiðið er fyrir Kennara í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, heilbrigðisstéttum - Opið þeim sem áhuga hafa. Kennarar eru Harpa Njáls félagsfræðingur M.A., Sara Dögg Jónsdóttir grunnskólakennari, dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur, og dr. Sólveig Anna Bóasdóttir guðfræðingur og siðfræðingur. Í námskeiðslýsingunni segir m.a.:

Þá verður rætt um hvernig samkynhneigð horfir við kristinni trú og kristinni siðfræði. Hvernig má skilja neikvæð orð Biblíunnar um kynmök fólks af sama kyni, hvað veit Biblían um samkynhneigð eins og við skiljum hana í dag og hver er vandi kristins manns varðandi samkynhneigð? Fjallað verður um hvernig þróunarsálfræðin og aðrar fræðigreinar útskýra litróf kynhneigðar. Hugtökin kynhneigðarhroki (e. homophobia), gagnkynhneigðarhroki (e. heterosexism) og félagsleg brennimerking (e. stigma) verða skýrð og þau heimfærð á þroskaskeið unglings og hættur unglingsáranna.

15.02.06 @ 22:01
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Æ Ragnar minn. Ég held að þessar stelpur þarna upp í Háskóla ættu að fara að líta upp úr fræðikenningunum sínum og horfa á raunveruleikann. Eru þá ástarljóðin sem Fornegyptarnir ortu fyrir 3500 árum byggð á misskilningi?

15.02.06 @ 22:33
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Mig langar að útskýra mál mitt ötlítið nánar. Góður kennari kenndi mér reglu sem reynst hefur mér sjálfum afar vel: Leitaðu alltaf í frumheimildirnar. Að öðrum kosti villistu í umsagnaskógi annarra sem er heil fræðigrein út af fyrir sig.“ Lestu þannig Biblíuna sjálfur svo að þú lítir ekki á hana með annarra manna gleraugum. Lestu kirkjufeðurna sjálfur til að gera þér grein fyrir því hvað þeir eru að segja. Lestu Platón sjálfur, en ekki þær þúsundir bóka sem útskýra hvað hann á við.

Fyrir nokkrum árum sá ég kínverska mynd um ást stúlku upp í Mansjúríu. Þegar foreldrarnir sáu hversu heitt hún elskaði piltinn sinn, ákváðu þau að gifta hana ekki ljóta fulltrúa kommúnistaflokksins í þorpinu. Og hvað gerðu Tevje og frú í Fiðalaranum á þakinu. Ekki giftu þau stúlkuna ljóta, gamla og ríka slátranum, eða hvað, þrátt fyrir gjaforðið?

Hvað varðar þessa afstæðishyggjumenn, þá hófst afvegaleiðsla þeirra með því að tilbiðja gyðju mennta sem guð sinn í frönsku byltingunni og lýstu því yfir að Guð væri dauður. Það er eins og þetta fólk gangi inn í stóran sal þar sem allir æpa og þar tekur það að æpa sjálft.

Og hvernig sem þetta fólk hamast við að telja öðrum trú um að heimurinn hafi byrjað að vera til fyrir 200 árum, þá er það einfaldlega staðreynd, að bæði Egyptar og Súmerar ortu ástarljóð, rétt eins og Kínverjar fyrir 4000 árum. Samkvæmt boðskapi þessara stelpna eru Ljóðaljóðin merkingarleysa, eða hvað?

Að lokum þetta: Það hefur forðað mér sjálfum frá margri ljótri villu að lesa Septuagintatexta Gamla testamentisins og Nýja testamentið á grískunni, samanber orðið arsenokoitai, að leggjast í beð annars karlmanns (3 M 18. 22). Það er nú svo að Septuagintatextinn er sá besti sem við höfum aðgang að eins og Dauðahafshandritin leiða í ljós. Hins vegar hafa Rabbínarnir verið að hræra í hebreska textanum frá því á annarri öld til að afsanna, að Kristur hafi verið Messía. Samverski textinn slapp við slíka hreinsum (enda villitrúarmenn að mati Rabbínanna). Hann er í samhljóðan við Septuagintatextann. Sem sagt: Alltaf furmheimildirnar.

16.02.06 @ 07:47
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta var nú fínn póstur hjá þér, nafni minn. Páll postuli byggði líka mjög mikið á Septuagintu (LXX, Sjötíumannaþýðingunni), þegar hann vitnaði í Gamla testamentið. Og orð hans arsenokoites (flt.: arsenokoitai) kemur beinustu leið úr LXX-textanum á 3.Mós.18.22, þ.e.a.s. ekki orðið sem slíkt, því að það virðist Páll sjálfur hafa myndað, heldur orðstofnarnir, arsen (karlmaður) og koite (= rúm, rekkja, jafnvel í yfirfærðri merkingu: samræði og ósiðlegt samræði), sem standa þarna í LXX. Meira um það annars staðar seinna, enda er ég á hraðferð hér um svæðið.

Þessi síðasta klausa þín er góð, við eigum eftir að skrifa fróðleiksgrein um það, hvar réttasta kanóninn af GT er að finna – þ.e. hvaða regluritasafn er marktækast, Massóretatextinn endanlegi (MT) í höndum Gyðinga (frá því um 800 e.Kr., minnir mig), eins og margir mótmælendatrúarmenn virðast álíta (þrátt fyrir að þar hafi verið beitt andkristnum gagnrýnendaskærum rabbínanna eftir daga Krists), eða sambland af þeim hebreska texta og ekki síður Septuagintu og samverskum og sýrlenzkum þýðingum úr fornöld, auk Dauðahafshandritanna ómetanlegu. Þar að auki fylgja þeir ákvörðunum Gyðinga eftir daga Krists (þegar kristna frumkirkjan var þó kominn með kenningarlega úrskurðarvaldið) um það að hafna devtero-kanónisku ritunum, þeim sem lútherskir kalla aprokrýf rit GT (þó eru Þjóðkirkjan og Hið ísl. Biblíufélag alltaf að taka framförum í því efni). – En nefndir prótestantar eru með ófrumlegri hlýðni sinni við rabbíana orðnir ný tegund af ‘Judaizers’ – sem er enska orðið um þá, sem vildu óspart fylgja gyðinglegum venjum í frumkirkjunni, einkum með umskurn heiðin-kristinna (þeirra sem tóku kristna trú úr röðum heiðingja) og með því matarbanni Gyðinga sem samrýmist ekki fyrirmælum Krists, Drottins okkar, í Mark.7.19.

Salut, señor Jón, og gangi þér vel með nafna okkar frá Krossi.

16.02.06 @ 08:23
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Án þess að fara út í of „tæknilegar“ umræður bendi ég einungis á eina einfalda aðferðafræði (mehodology): Tökum ártölin úr Septuagintunni og samversku Biblíunni annars vegar, og hins vegar úr hebreska textanum. Þá blasir við sjónum að ártölin í LXX og þeirri samversku eru samhljóða, en í hebreska textanum eru þau allt önnur. Það var faðir Terstroet sem benti mér á þetta, enda „krítískur textafræðingur.“
Hins vegar benti hann mér einnig á þá staðreynd, að íslenska þýðingin á Nýja tetsamentinu (1981) væri mjög góð. Hann notaði einkunnargjöfina 16/16. Íslenski textinn stóð í 14/16, sá hollenski í 12/16, sá franski í 11/16, en sá enski einungis í í 5/16. Hér átti hann við Jerúsalemþýðinguna. Jafn furðulegt og það hljómar, þá var enski textinn af JER. þýddur eftir þeim franska, ekki frumtextanum. Hroðaleg ákvörðun! Hvað varðar kenningar háskólastelpnanna um ástina, er þetta einungis átakanlegt!

Sammála þér hvað áhrærir „júdíseringu“ prótestantanna á textanum. En mér sýnist að í þýðingu séra Haraldar Nielssonar á Gamla testamentinu hafi hann stuðst við Septuagintuna, enda í kanón kirkjunnar. Ég tek undir með Gunnari í Krossinum: Það verður mikil eftirsjá af þýðingu hans á Jesaja sem er á gullfallegri íslensku. En það er víst hebreski textinn sem kemur í stað þess gríska í væntanlegri útgáfu. Eflaust finnst þeim „fínna“ að þýða eftir honum í „júdíseringunni.“

Mín reynsla er sú að íslenskan og grískan eru á svo svipuðu þróunarstigi málfræðilega, að auðvelt er að þýða úr grísku yfir á íslensku. Tökum einungis lýsingarorðin og atviksorðin sem dæmi. Í íslensku og grísku höfum við úr allt upp í 40 orðum að moða yfir ákveðin geðbrigði, í ensku kannske 5-7. Þannig gefst það mér best að snúa beint yfir í grískuna því að satt best að segja er latínan (og afsprengi hennar enskan) hálfgildings steypihrærirvél í tærum hugtökum. Tökum eitt dæmi: Theamata eða ásæi, sem á latínu er þýtt sem contemplatio, afar torskilið orð sem krefst langra útskýringa.

Þetta þýðir þó ekki að latínan eigi sér ekki sínar góðu hliðar. Þannig er sögnin ruminare í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún var notuð yfir íhugun á hámiðöldunum. Hún þýðir að tyggja, melta eða sjúga til sín næringu. Þetta lýsir afar vel hvernig íhuga skal heilagar Ritningar. Þegar sálin kyrrist dvelur hún eins og fræið í frjósamri mold og sígur til sín næringu Orðsins, bókstaflega meltir það. Einn hinna heilögu feðra sagði: „Þannig er hollt að íhuga (ruminare) Orðið sem vörn gegn djöflunum.“

16.02.06 @ 09:06