« Ljósið í hjörtum mannanna er eldur guðdómlegrar elsku – Denis karþúsi (1408-1471)„Leyfið börnunum að koma til mín.“ »

18.08.07

  09:20:45, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 5336 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 1

I. UM ARATTA GAN EDEN (URAR(A)TU) EÐA PARADÍSARGARÐINN

Sjá myndir 1. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Þessi kafli hefur verið aukinn og endurbættur bæði hvað varðar texta og myndræna framsetningu.

Í ævafornri súmerskri frásögn sem varðveist hefur á fleygrúnatöflu og er frá því um 2900 f. Kr sem fannst í jörðu er greint frá því að prestkonungurinn Enmerkar í Úruk í Súmer gerði út sendimann til landsins Aratta á Edensléttunni sem Súmerar töldu land hamingjunnar. (Mynd 1. 1) Frásögnin nefnist „Enmerkar og konungur Aratta.“ Sendimanninum var ætlað að ná í gull og eðalsteina (lapis lazuli) til að skreyta hið nýja musteri gyðjunnar Inanna sem Enmerkar var að reisa henni til dýrðar í borginni. Aratta var staðsett hátt upp í Zagrosfjöllunum á vatnaskilum milli Evrópu, Asíu og Austurlanda nær. (Mynd 1. 2) Það er þetta sama landsvæði sem við sjáum að Biblían nefnir Araratland (2K 19. 37) þegar hún víkur að Sanheríb Assýríukonungi og örlögum hans. Vikið verður nánar að þessu síðar (í grein 16) vegna þess að nafn hans tengist þeim stað þar sem örk Nóa hafnaði eftir flóðið mikla, eða á fjallinu Judi Dagh í Kúrdistan sem evrópskir ferðalangar á miðöldum ákváðu illu heilli að kenna við annað fjall mun norðar, það er að segja fjallið Ararat í Armeníu, þvert á ríkjandi arfleifð. Fjallað verður nánar um þetta í grein 16.

Þokkalega greinagóða lýsingu má lesa á fleygrúnatöflunni af ferð sendimannsins. Meðal annars fór hann um sjö hlið, en hlið nefndu fornmenn fjallaskörð. (Mynd 1. 1). Enmerkar prestkonungur var sonur Nimrods, eins afkomenda Nóa – hins „mikla veiðimanns“ (1M 10. 8) sem vikið verður nánar að í grein 12 hér að aftan. Hann tilheyrði þeim hópi afkomenda Nóa sem fylltust reiði og uppreisnarhug gagnvart Guði eftir flóðið mikla. Það er Gyðingurinn og sagnfræðingurinn Jósefus sem greinir okkur frá þessu í riti sínu um Sögu Gyðinga. [1] Þetta leiddi til þess að Súmerar sem tilbeðið höfðu Guð eða El sem nágrannar þeirra í Akkad nefndu Ea (borið fram sem Eja) í rúmlega tvö þúsund ár urðu fjölgyðsistrúnni endanlega að bráð.

Í annarri frásögn frá því á áttundu öld f. Kr. sjáum við að Assýringar nefndu landsvæðið sem kennt er við Aratta nafninu Urartu. Þetta er landsvæðið sem markast af Vanvatni í vestri og Kaspíahafinu í austri (Mynd 1. 4). Þá efndi Saragon II Assýríukonungur til mikillrar herfarar á hendur Urartu og sat um borgina Miyandoab og lagði leið sína um Adji Chaydalinn þar sem íranska borgin Tabriz stendur í dag. Um hana fellur fljótið Adji Chay sem bar annað nafn til forna eða Meidan. Hér er átt við fljótið sem vökvaði Edensgarðinn. Nafnið Meidan þýðir „garður umgirtur múrum,“ það er að segja fjallendinu Bazgush í suðri og Ahat Chay í norðri (Mynd 1. 4). Hið forna Aratta er nú innan írönsku landamæranna (fyrrum Persíu). Sendimaður Enmerkar prestkonungs í Úruk (Erek Biblíunnar) fór fótgangandi í þrjá mánuði allt til þess er hann kom til Sahandfjallsins sem markaði syðri mörk Edenssléttunnar.

Í hebreska texta Biblíunnar er þetta landsvæði nefnt „Gan Eden“ eða Edensgarðurinn. Hins vegar nefndist hann „pairidaeza“ á persnesku og þaðan er nafnið Paradís ættað. Lýsing Biblíunnar kemur vel heima við staðfræði svæðisins. Þar er sagt:

Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám. Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst. Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar. Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland. Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat (1M 2. 1-14).

Enn í dag falla þessar ár eins og til forna þegar hebreski ritarinn færði þessa frásögn í letur en engu að síður hefur vafist fyrir mönnum að finna þessari lýsingu áþreifanlegan stað. Árið 1987 barst breska fornleifafræðingnum David Rohl [2] óvænt í hendur 28 blaðsíðna ritlingur ásamt korti sem bar heitið „The Real Land of Eden.“ Höfundurinn var lítillátur og lítt þekktur málvísindamaður Reginald A. Walker að nafni sem andaðist skömmu síður. Á þessum tíma var Rohl enn við nám í fornleifafræði við University Collage í London og ritlingurinn vakti fremur furðu hans en áhuga og hann lagði hann til hliðar að sinni sakir anna. Í honum greip Walker til aðferða málvísindanna í leit sinni að Eden Biblíunnar.

Tvö fljótanna eru talin vísa til Tígris (Kíddakel) og Efrat en Gíhon og Píson Biblíunnar hefur verið tilefni endalausra deilna. Walker taldi að Gíhon ætti við fljótið Arxes eða Aras og hér væri um nafnbreytingu að ræða sem rekja mætti til komu íslömsku innrásarmannanna á áttundu öld. Áður hafi fljótið verið nefnt Gaiun og allt fram á nítjándu öld nefndu Persar það Jichon-Aras. Fræðimenn á Viktoríutímanum gengu út frá þessu sem augljósri staðreynd eins og sjá má á orðabókum frá þessum tíma og að landsvæði það sem klassískir höfundar til forna nefndu Cossea væri Kús Biblíunnar.
En hvað þá um fjórða fljótið Píson? Hvaða fljót fellur um suðausturhluta Gan Eden (Mynd 1. 3). Eina fljótið er Kez Uzon eða Uizhun sem fellur í Kaspíahafið. Walker taldi að nafnið Uizhun fæli í sér lausnina. Ef fyrsti sérhljóðinn í nafninu eða „U“ er feldur niður höfum við „izhun“ og hér megi sjá hina hefðbundnu breytingu hljóða þar sem „sh“ verður að „s“ eða „z“ og „o“ að „u.“ Í hinum hebreska texta Sköpunarsögunnar hafi „U-ið“ orðið að rödduðu „P“ og íbúarnir á svæðinu hafi þannig varðveitt upphaflega orðið. Þetta gæti virst langsótt skýring en finna má fleiri dæmi um slík sérhljóðaskipti í staðaheitum á svæðinu. Þannig má sjá að hið forna borgarstæði við Urmíavatnið sem nefnt er Pisdeli í dag var áður fyrr nefnt Uishteri en hér má sjá alkunnar hljóðbreytingar þar sem „t“ verður að „d,“ „r“ að „l“ og það sem mestu máli skiptir „U“ verður að „P.“ [3] Í Biblíunni er þetta svæði nefnt Araratland. Hljóðbreytingin þar sem „u“ verður að „a“ eða „e“ er alkunn í hebresku. Þannig er borgin Úruk nefnd Erek og hið forna súmerska borgarnafn Ur-Aratu verður að Ar-Aratu: Borg Aratu (u-ið er eignarfallsending).

Allt varð þetta til að glæða áhuga David Rohls enn frekar á málinu og í þætti sem sýndur hefur verið nokkrum sinnum á „Discvovery Channel“ er greint frá því þegar hann rakti för sendimanns Enmerkar prestkonungs í Úruk til Araratlands. Sjálfur hefur hann farið í margar ferðir til þessa landsvæðis sem sem fjölmörg rök hníga til að sé sjálfur Edengarður Biblíunnar. Þetta kemur vel heim og saman við ummæli Snorra Sturlusonar í Heimskringlu sem taldi ásana vera ættaða frá Tyrklandi og Thor Heyrdal hefur bent á að nafnið Azerbaidjan þýði einmitt land ásanna á azerbaidjönsku enn í dag og Walker taldi Gan Eden einmitt vera í Austur-Azerbaidjanhéraði í Íran (Mynd 1. 7). David Rohl kemst svo að orði:

Þar sem Biblían lýsir staðsetningu garðsins af slíkri nákvæmni og umhverfi hans, hvers vegna eigum við þá ekki að taka þessa lýsingu alvarlega? Ég lít á Biblíuna sem sagnfræðilega heimild rétt eins og rit Herodótusar eða texta ættaða frá Rameses II. Það er fáránlegt að fleygja henni í ruslakörfuna einungis vegna þess að um trúarlegan texta sé að ræða. Ef svona ríkjandi arfleifð lifir úr fortíðinni er afar líklegt að hún eigi sér staðfræðilegt tilvísun.“

Við skulum nú kynna okkur helstu niðurstöður hans nánar eins og hann víkur að þeim í riti sínu „Legend: The Genesis of Civilisation“ [4]. Víkjum fyrst að landinu Havíla þar sem Biblían segir að sóamsteinanna (lapis lazuli) sé að finna, en það voru einmitt þeir sem prestkonungurinn Enmerkar ágirndist svo mjög til að skreyta hið nýja musteri sitt. Áður fyrr töldu fræðimenn að þá hefði einungis verið að finna í Badakshan í Afganistan. En nýlegar rannsóknir íranskra jarðfræðinga hafa leitt í ljós að Anguransvæðið sem áin Píson fellur um er auðugt af „lapis lazuli“ steinum. Ef Kezel Uzan eða Uizhun er í raun og veru áin sem fellur um Havíla Biblíunnar ætti gullið einnig að finnast þar. Ein þveránna sem kemur úr hinu útkulnaða Takht-é Suleiman eldjalli er nefnd Zarrineh Rud sem þýðir Gullfljótið. Sjálft þorpið er nefnt Zarshuyan sem myndað er úr persnesku orðunum „zar“ eða gull og „shuyan“ eða þvottur sem bendir til þess að gull hafi verið unnið úr ánni.

Við skulum nú kanna örlítið nánar landsvæðið Aratta eða Urartu sem liggur í sigdældinni mill Vanvatnsins og Urmíavatnsins og í Adji Chaydalnum nærri írönsku borginni Tabriz. Þegar hefur verið vikið að því að þetta svæði var kallað Meidan eða lokaður garður til forna með skírskotun til fjallanna sem umlykja hann. Í Biblíunni lesum við:

Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað. Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills (1M 2. 8-9).

Adji Chaydalurinn er austan Urmíavatnsins – sjálfs hjarta Arattasvæðisins – og enn í dag er frjósemi jarðvegsins afar mikil. Á forsögulegum tímum var loftslagið enn hlýrra og votviðrasamara og dalurinn klæddur skóglendi hátt upp í fjallshlíðarnar og hann naut skjóls frá fjöllunum og hlýrra vindanna frá Miðjarðarhafinu. Því kemur ekki á óvart að svæðið hafi verið talið „paradís á jörðu.“ Hvað varðar tréð í miðju garðsins sjáum við þá ekki hér hið súmerska kiskjanutré sem varðveitt var í Eridu, elstu borg Súmera þegar þeir leituðu niður á láglendið?

Í Eridu grær skínandi kiskanutré sem gert var á helgum stað. Það ljómar eins og skínandi lapis-lazuli og teygir greinar sínar upp til apsu (djúpsins). [5]

Þetta var tré hins guðdómlega „me“ eða réttlætis, dómsviðurinn, sem varðveittist í hinni hebresku arfleifð sem „meat“ (akasíuviður) og mjötviður norrænnar goðafræði. Það teygði greinar sínar upp til „apsu“ eða djúpsins í skál Shandfjallsins, fjalls hins guðdómlega dómsvalds. Norðan borgarinnar Tabriz rís Kush Dagh (Kúsfjallið) sem liggur á milli Gan Edens og landsins Kús. Walker vék einnig að annarri tilvitnun í Biblíunni þegar Guð varð þess áskynja að Kain hafði myrt Kain bróðir sinn (1M 4. 16).

Ef við fetum í fótspor hans hefur Kain lagt af stað úr Adji Chaydalnum og stefnt til Kaspíahafsins. Þannig liggur leiðin um árfarveg fljótsins og liggur um hátt fjallaskarð milli Gan Eden og Ardabilshéraðsins. Þannig hlýtur landsvæðið Nód að vera einhvers staðar á þessum slóðum.
Norðan Ardabil má finna nokkur þorp sem bera nafnið Nogdi. „I-ið“ í endingu orðsins er arabísk eignarfallsending og þannig þýðir heitið „sá sem tilheyrir“ Nogd eða Noad. Er hér um Nóad Biblíunnar að ræða. Ef við leitum til suðurs frá Ardabil verður þorpið Helabad sem til forna var nefnt Heruabad (Kheruabad). Þorpið virðist hafa verið bústaður Kheruanna og er vel staðsett til að gæta vegarins til Gan Edens. Er hér um tilviljun að ræða þegar Biblían talar um Kerúbanna sem gættu vegarins til Edens með loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré“ (1M 3. 24). Með glæp sínum hafði Kain brotið hið guðdómlega „me“ og verið gerður útlægur úr mennsku samfélagi.

Með DNA rannsóknum hefur verið sýnt fram á að uppruna „einkorns“ (hins villta afbrigðis hveitikorns) megi rekja til þessa landsvæðis. Almennt líta mannfræðingar svo á að það hafi einmitt verið þetta landsvæði sem var uppspretta byltingarinnar miklu á steinöld þegar menn tóku að rækta hveiti og vinna málma. Það er þetta sem Biblían greinir okkur einnig frá: „Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður“ (1M 4. 2). Það var einnig hér sem menn tóku að brenna leirker og málma og það er þetta sem Biblían greinir okkur einnig frá. Um 3000 f. Kr. tók Kúro-Arxes menningin að blómstra (minnumst þess að Arxes er Gíhon Biblíunnar). Það var „Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól“ (1M 4. 22). Allt markaði þetta þróun frá menningu safnara og veiðimanna til þróunar borgarmenningar sem nefnd hefur verið nýsteinaldarbyltingin sem átti sér upptök í Zagrosfjöllunum.

Víkjum nú örlítið nánar að íbúunum á þessu forna landsvæði sem nefndust Adami. Þetta þýðir þeir rauðu, þeir sem eru rauðir sem hefur þó ekkert með húðlitinn að gera. Enn í dag blasir Rauðafjallið við sjónum okkar sem forðum. Menn þurfa einungis að fara á Google Earth og stilla á þrívíddina til að sannfærast um þetta. Fornleifafræðingar hafa þannig fundið ótal ummerki um það á svæðinu að líkamsleyfar íbúanna voru smurðar með rauðum leirnum úr Rauðafjalli á andlátsstundinni. Talið er að þetta skírskoti til sambandsins milli fæðingar og dauða. Barnið kemur blóðugt úr móðurlífi og þannig er maðurinn einnig lagður til hvíldar í hinsta sinni í skauti jarðar eins og hann kom úr móðurkviði. Í fornum heimildum er einnig vikið að því að borgarmúarar Arattaborgar hafi verið rauðlitaðir.

Samkvæmt frásögn Biblíunnar var Adam hinn fyrsti ANDLEGI MAÐUR. Hvaða skilning ber að leggja í þessi orð? Þetta felur ekkert annað í sér en að Heilögum Anda hafi í fyrsta skiptið verið úthellt yfir fólkið sem bjó þarna: Að hér hafi verið um fyrri Hvítasunnuna að ræða. Samkvæmt tímatali Biblíunnar gerðist þessi atburður skömmu fyrir árið 5000 f. Kr. Þetta kemur ágætlega heim og saman við forsögu Súmera. Við vitum hver endalokin urðu. Fólkið braut gróflega gegn boðum Guðs og var gert útlægt úr landi sínu. Þessi sömu ákvæði voru boðuð Hebreunum til forna vegna þess að Guð er ætíð sjálfum sér trúr:

„Varðveitið því setningar mínar og lög og fremjið enga af þessum viðurstyggðum, hvorki innborinn maður né útlendingur, er býr meðal yðar, – því að allar þessar viðurstyggðir hafa landsbúar, er fyrir yður voru, framið, og landið saurgaðist –, svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir yður var“ (3M 18. 26-28).

Synd Adamskynslóðarinnar fólst í því að hafna þeirri fæðu sem Drottinn bauð þeim að eta – brauð lífsins í garðinum. Þetta gerir nútímamaðurinn einnig og ekki verður betur séð en að þær þjóðir sem framið hafa skefjalaus fósturmorð verði upprættar úr löndum sínum, það er að segja að aðrar þjóðir taki lönd þeirra til eigna vegna íbúahrunsins.

Á ævafornu súmersku sívalningsinnsigli má sjá karl og konu sitja andspænis hvort öðru og á milli þeirra tré. Við fætur konunnar má sjá höggorminn. Sagan af Adam og Evu hefur því verið vel kunn í Súmer. Og vissulega var þetta landsvæði frjósamur aldingarður til forna sem naut góðs af vestanvindunum frá Miðjarðarhafinu þarna inn á milli Zagrosfjallanna. Hvert fór Adamifólkið þegar það var gert útlægt frá Aratta? Enn í dag tökum við svo til orða þegar okkur gengur allt í haginn að við séum í sjöunda himni sem skírskotar til hliðanna eða fjallaskarðanna sjö sem vikið var að hér að framan og Adamskynslóðinni var vísað frá.

Hér erum við komin á slóð árfeðra Biblíunnar hinna fornu prestkonunga Adamskynslóðarinnar sem vikið er að í Sköpunarsögunni. Á fleygrúnatöflu sem varðveitt er í Asmoleamsafninu í Oxford og ættuð er frá súmersku borginni Kish og rituð var um 2000 f. Kr. má lesa eftirfarandi orð:

Lína (1) Konungstjórn sem kom af himni ofan.
Og næstu tvær línurnar hljóða:
Lína (2): Í Eridu hófst konungsstjórn.?- (3): Í Eridu var Alulim konungur.

Nafn Alulim, hins fyrsta konungs skírskotar þannig til Adami (Adams) Biblíunnar og samkvæmt súmeskri hefð var Eridu fyrsta og elsta borg landsins. Það sem við verðum sífellt að hafa í huga þegar við lesum fornar frásagnir er að nafn konunga og aldur skírskotar til valdaskeiðs ákveðinnar konungsættar (Þannig skírskotar hinn hái aldur einstakra prestkonunga í Biblíunni til valdaskeiðs viðkomandi konungsættar, en ekki til einstaklings.
Eftir að hafa talið upp nöfn hinna fyrstu forsögulegu konunga má lesa áfram:

Lína (39): Flóðið kom.?- (40): Eftir að flóðinu lauk.?- (41): Konungsstjórn sem kom af himni ofan.?- (42): Í Kish var konungur.

Þessi forna leirtafla greinir okkur þannig frá flóðinu mikla sem Sir Leonard Woolley fann svo greinileg ummerki um og samkvæmt súmerskum frásögnum kom það af hafi [6]. Hinn forni skrifari markar þessi miklu þáttaskil með því að draga línu á milli hinna forsögulegu konunga og þeirra sem settust síðar að völdum. Allt virðist benda til þess að konungar frá Úr hafi haldið um stjórnvölinn í Súmer fyrir flóðið mikla, alls tíu konungsættir eins og Biblían greinir frá. D. J. Wiseman birtir þýðingu á leirtöflu í verki sínu „Illustrations from the Biblical Archeology“ sem er ættuð frá Babýlon og kennd við Berosus prest. Þar er Alulim, fyrsti konungurinn nefndur Alôrus. Á töflunni hér að neðan eru hin súmersku nöfn sem varðveist hafa á svo nefndum konungslista frá Larsa sýnd innan sviga Konungslistinn lítur þannig út í samanburði við Biblíuna:

1. Adam, Alôrus (Alulim).
2. Set, Alaparos (Ala(l)-gar.
3. Enos, Amêlôn (En-me-en-luanna).
4. Kainan, Ammenôn (En-me-en-galanna).
5. Mahalaleel, Megalâros (Dumuzi).
6. Jared, Daônos (En-Sib-zianna).
7. Enok, Euedôrachon (En-me-en-duranna).
8. Metúsala, Amempsino (? du-du)
9. Lamek, Otiartes. (?)
10. Nói, Xisûthros. (?).

Það er ekki fyrr en í listanum yfir 1. konungsættina í Úr eftir flóðið (um 3100-2930 f.Kr) sem unnt er að festa hendur á ákveðnum tímasetningum sem staðfestar hafa verið með fornleifauppgreftri. Þar birtast fyrstu konungarnir undir nöfnunum Mes-an-ni-padda og A-an-ni-padda á súmersku. En það eru einkum eitt nafn sem vekur athygli á þessum lista, það er að segja Nói. Í súmerskri goðsögn er hann nefndur Uta-Napishtim, kærleiksríkur maður sem bjó í Shuruppak miðsvæðis í Súmer. Guðirnir hafa fyllst bræði í garð mannanna og ákveða að tortíma þeim. Það er þá sem guðinn Enki ljóstrar upp þessu mikla leyndarmáli, en óttast að tjá það með beinum hætti og kemur því að kofa nokkrum og hvískrar við kofavegginn, í stað þess að tala við sjálfan eigandann:

Reyrkofi, reyrkofi, veggur, ó veggur,?ó reyrkofi, hlýð á, ó veggur, skildu.

Enn í dag segjum við að veggirnir hafi eyru! Að ráði guðsins smíðar Uta-Napishtim sér mikið skip, líkt og örk Nóa:

Allt sem ég átti bar ég í hana, alla uppskeru lífs míns. Ég lét alla fjölskyldu mína og ættingja stíga um borð.

Síðan opnuðust flóðgáttir himins og mikið stormviðri geisaði. Að sjö dögum liðnum kyrrðist hafið:

Sem hafði hamast líkt og her. Hafið kyrrðist, stormviðrið leið hjá, flóðið hætti. Ég sá hafið og það var þögult. Og allt mannkynið var orðið að leir! Ég sá heiminn sem eitt úthaf. Í tólf mina fjarlægð sá ég eyju rísa. Skipið kom að Nitsirfjalli. Á Nitsirfjalli hvíldi skipið og haggaðist ekki úr stað.

Annað nafn er einnig áhugavert í þessu samhengi, eða sjöunda nafnið á listanum: En-me-en-duranna. Í annarri goðsögn er þessi sami konungur nefndur Etana og réði fyrir ríkjum í Súmer í árdaga á þeim tímum sem eiginlegrar þróunar í átt til ríkisheildar tók að gæta, eða um 4000 f. Kr. Á fleygrúnatöflum er vikið að honum sem þeim sem „kom á röð og reglu“ í landinu og iðulega er hann nefndur „Hirðirinn.“ Hann virðist því hafa gegnt leiðandi hlutverki í því að sameina hin dreifðu samfélög Súmera í eina ríkisheild. Augljóst er að þessi viðleitni hans aflaði honum mikillar frægðar og það er jafnvel vikið að honum sem þeim „sem numinn var upp til himna.“ Það er afar freistandi að ætla að hér sé sjálfur Enok spámaður og prestkonungur á ferðinni, þrátt fyrir að ekki sé unnt að slá slíku föstu. En hliðstæðurnar eru sláandi, svo að ekki sé kveðið sterkara að orði, því að það var einmitt Enok sem „Guð nam burt upp“ (1M 5. 24).

Í riti sínu „The Sumerians“ víkur Sir Leonard Woolley svofelldum orðum að uppruna og útliti Súmera:

„Af líkamlegu útliti þeirra má sjá, að þeir voru Indóevrópumenn, ekki ólíkir Aröbum nútímans . . . Sú staðreynd að súmerskir guðir eru ávallt sýndir standa á fjöllum bendir til þess að þetta fólk hafi komið úr fjallendi (Aratta?). Sú staðreynd að fyrstu byggingar þess eru gerðar með hliðsjón af timburhúsum bendir til hins sama vegna þess að slíkt er einungis unnt að rekja til þéttvaxinna skóga fjallendis.“ [7]

Sir Arthur Keith hefur vakið athygli á skyldleika þeirra við Móhenjo-Daró menninguna í Indusdalnum: „Enn er unnt að rekja hið forna súmerska svipmót austur á bóginn meðal íbúa Afganistans og Balukistans, all til Indusdalsins – í allt að 1500 mílna fjarlægð frá Mesópótamíu“ [8] Fjölmargt er sameiginlegt með þessum tveimur fornu menningarsamfélögum sem ekki er einungis unnt að rekja til viðskiptatengsla, þó að ekki sé heldur unnt að tala um fullkomna hliðstæðu. Nær sanni er að tala um að þessar tvær menningarheildir eigi uppruna sinn að rekja til sameiginlegrar uppsprettu. Það sem er athyglisvert í þessu sambandi er sú staðreynd, hversu vel þetta kemur heim og saman við frásögn Biblíunnar:

„Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í Austurlöndum, að þeir fundu láglendi Sínar (Súmer) og settust þar að. Og þeir sögðu hver við annan: „Gott og vel, vér skulum hnoða tígulsteina og herða í eldi” (1M 11. 1, 2).

Eitt af því sem vakið hefur fornleifafræðingum furðu er sú staðreynd, að súmersk list stendur á hástigi um 3800 f. Kr., en síðan er um beinar afturfarir að ræða. Hvað Súmera varðar, þá birtast greinileg einkenni eingyðistrúar meðal þeirra í „Augnamusterinu“ í Brak sem stóð í Haburdalnum sem er tæpum 1500 kílómetrum norðar en borgin Úrúk. Það musteri sem fornleifafræðingar hafa rannsakað var reist um 3600 f. Kr. á rústum eldri mustera og ber öll ummerki síðari súmerskra mustera. Það sem er hvað athyglisverðast við gerð musterisins er sú staðreynd, að meginskipið er krosslaga. Auk sjálfs meginskipsins má sjá hliðarherbergi til helgiþjónustu, sem síðar meir birtist sem „hliðarkapellur“ í gotneskum kirkjum, auk geymsluherbergja. En það er sjálft altarið sem dregur að sér sértaka athygli, en það stóð í vesturenda meginskipsins. Brún innlögð með gulli og blálituðum steinum (lapis lazuli) prýddi efri brún þess. Í riti sínu „Early Mesoptomia and Iran“ birtir M. E. L. Mallowan [9] mynd af endurgerð þess, en þar voru svo nefndar „augnahelgimyndir“ áberandi sem fundist hafa á öðrum stöðum þar sem Súmerar höfðu sest að á þessum tíma, eins og í Mari, Lagash og Úr. Þetta voru lítil líkneski útskorin úr beini með tveimur áberandi augum.

Vart er unnt að komast hjá því í þessu sambandi að minnast orða 5. Mósebókar:

„Stöðugt hvíla augu Drottins Guðs þíns yfir því [landinu] frá ársbyrjun til ársloka“ (5M 11.12)

Sú mynd sem blasir við sjónum okkar í musterinu í Brak er fyrsti áþreifanlegi votturinn um hina rótgrónu eingyðistrú sem hafði skotið rótum í Súmer á fjórða árþúsindinu f. Kr. Einu fórnirnar sem bornar voru þarna fram voru ávaxtafórnir og blóm.

Sú guðsímynd sem blasir við sjónum á altarinu leiðir okkur jafnhliða fyrir sjónir „ûr“ eða ljósið. Þetta ljós streymir sem sólargeislar frá himni ofan, guðsímynd sem verður að nýju fyrir okkur rúmum 500 árum síðar í mynd „ben-ben“ í musterum Fornegypta, pýramída sem táknaði þetta sama ljósflæði af himnum ofan og sjá mátti í hinu heilaga musteranna og birtist enn að nýju í hinu kunna sólartákni Eknatons faraós. Nánar verður vikið að þessu síðar, en samkvæmt súmerskum arfsögnum átti En-me-en-duranna (Enok?) að hafa farið í austurveg og ævafornar kínverskar munnmælasagnir greina frá Nóaflóðinu og Kínverjar reystu sér pýramýda til forna rétt eins og Súmerar og Egyptar.

Alls staðar þar sem fornleifafræðingar hafa rannsakað mannvistarleifar frá þessum fyrstu tímum búsetu Súmera í Mesópótamíu má finna „augnamyndirnar“ sem augljóslega voru fórnargjafir. Ljóst er að mikil helgi hefur hvílt á þessum táknum, eins og best má sjá í musterinu í Brak. Ummerki um fjögur eldri hof má finna undir rústum þess hofs sem fornleifafræðingar hafa rannsakað. Þegar það er af einhverjum ástæðum yfirgefið, þá er gengið frá þessum helgitáknum með varfærnislegum hætti í rústum þess og grunnur þess síðan fylltur með múrsteinum: Helgi myndanna var slík að þær eru réttmæt eign guðdómsins og því heilagar. Þetta er hliðstæða þess sem við sjáum síðar meðal Ísraelsmanna þegar brennifórnaraltarið í tjaldbúð hins Gamla sáttmála var klætt að utan með eirplötum sem gerðar voru úr eldpönnum Kóra og fylgismanna hans sem gerðu uppreisn gegn lögmálsákvæðunum. Eldpönnurnar höfðu verið helgaðar til þjónustu við Drottinn og voru því heilagar.

Litlir verndargripir sem sem fundist hafa við Brak af ýmsum dýrum leiða í ljós listilegt handbragð í steinskurði ekki síður en myndir af skrímsli sem talið er tjá eyðingarmátt náttúrunnar, hefð sem síðar átti að verða ríkjandi í öllum súmerskum listiðnaði. Stytta af lambi sem fannst í Al’Ubaid lýsir handbragði sem er svo listilegt, að sambærilega hluti er ekki unnt að finna fyrr en 3000 árum síðar meðal Grikkja! Sama má segja um styttu af konu frá Khafaja ekki síður en af mannshöfði frá Úrúk frá því um 3300 f. Kr. sem er vafalaust augljósasta dæmið um það hversu hátt listiðnaðurinn reis á þessu tímaskeiði.

Megininntak eða kjarni lífsafstöðu Súmera var „me“ eða hið guðdómlega réttlæti eða lífslögmál sem birtist ekki síður með áþreifanlegum hætti í Fornegyptalandi í sem „maa.“ Það er hér sem við festum svo að segja hendur á hinni dýrmætu arfleifð Adamskynslóðarinnar sem var samofin vexti og viðgangi mennsks samfélags. Í Súmer var þetta réttlæti rakið til An, hins eina og sanna guðs, en höfuðmiðstöð tilbeiðslu hans var í borginni Úrúk (sem nefnd er Erek í Biblíunni). An var alla tíð tilbeðinn í Súmer en hvarf smám saman í skuggann fyrir guðinum Enlil, þannig að hans var vart getið í síðari tíma goðsögnum þar sem Enlil hafði að mestu yfirtekið hlutverk hans. Síðar mun ég víkja nánar að þessu og hvernig Súmerarnir báru eingyðistrúna með sér til Egyptalands um 3200 f. Kr. og hvernig hún hvarf síðan í skuggann þegar musterisvald prestastéttar fjölgyðistrúarinnar náði undirtökunum í báðum löndunum.

[1]. Jóefus segir orðrétt: „Nú var það Nimrod sem hvatti þá áfram til að rísa þannig upp gegn Guði og ögra honum . . . fyrir að hafa tortímt forfeðrum þeirra! Saga Gyðinga 4. 2.
[2]. Rohl er sérfræðingur í sögu Fornegypta. Hann er prófessor við University Collage London og einn af sérfróðustu Egyptalandsfræðingum Breta í dag og heiðursmeðlimur í Sussex Egyptology Society og ritstjóri tímaritsins Journal of the Ancient Chronology Forum. Sem stendur er hann Co-Field Director of the Eastern Dessert Survey í Egyptalandi. Hann er einnig höfundur nokkurra rita sem vakið hafa mikla athygli, meðal annars A Test of Time: The Bible – from Myth to History (1995), Legend: The Genesis of Civilisation (1998) og From Eden to Exile: The Epic History of the People of the Bible (2002) þar sem hann varpar einstæðu ljósi á marga einstaklinga í Gamla Testamentinu.
[3]. R. A. Walker, bls. 8.
[4]. Bls. 65-74.
[5]. Mircae Eliade, Patterns in Comperative Religion, bls. 271-272.
[6]. Það var árið 1929 sem Leonard Woolley fann 3.5 metra þykkt setlag um flóð í Úr. Undir laginu voru ummerki um byggð frá svonefndu síð-Ubaid skeiði um 3100 f. Kr. Ofan við lagið voru hinar frægu konungagrafir frá tímum 3. konungsættarinnar (um 2600-2400 f. Kr.). Uppgröftur við Kish sem er norðar leiddi í ljós tvö setlög eftir flóð, það fyrra frá svo kölluðu Jemdet Nasr skeiði um 3100 og ofan þess menjar frá tímum 1. konungsættarinnar (um 2900), hið síðara frá sama tíma og hjá Woolley. Vikið verður nánar að flóði Biblíunnar í grein 16 hér að aftan.
[7]. Bls. 6-7.?[8]. Al Ubaid, bls. 216.?[9]. Early Mesopotamia and Iran, bls. 47.
[8]. Al Ubaid, bls. 216.?[9]. Early Mesopotamia and Iran, bls. 47.

No feedback yet