« Ritningarlesturinn 5. október 2006Ritningarlesturinn 4. október 2006 »

04.10.06

  07:01:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 815 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Af hverju koma stríð? II

Eitt sinn þegar ég kom tímanlega í messu og kraup frammi fyrir guðslíkamahúsinu til að tilbiðja Jesú og tala við hann sagði hann við mig: Veistu, Jón, að núna, á þessu andartaki, ert þú sá eini í öllu landinu sem ert að tala við mig. Komdu alltaf tímanlega í messu vegna þess að ég er svo einmana! Síðan þá hef ég alltaf komið tímanlega í messu.

Jesús þráir að finna sér hvíldarstað í sem flestum mannshjörtum, já, hann þyrstir eftir því vegna þess að hvergi annars staðar á jörðinni leitar hann sér hvíldar, „á hvergi annars staðar höfði sínu að að halla“ (Mt 18. 19).

Þessi sannindi lærum við í Bænaháskóla Guðsmóðurinnar vegna þess að enginn sköpuð vera hefur búið honum betri hvíldarstað í sínu eigin hjarta en Þeotokos, Guðsmóðirin. Við getum sagt að hún bjóði okkur fram „sérfræðiþekkingu“ í þessum efnum: Auðmýktina!

Af hverju koma stríð? Þau koma vegna þess að menn harðloka hjörtum sínum fyrir Jesú og ljúka þeim þar með upp fyrir Satan. Satan finnur sér einkum húsaskjól í hjörtum þeirra sem telja sig auðuga á þessa heims vísu. Það er þetta sem Drottinn kenndi okkur í freistingum eyðimerkurinnar:

„Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig“ (Mt 4. 9).

Og þetta „allt,“ hagnaðurinn er mikill, og væntanleg hagnaðarvon enn meiri. Því starfa vopnaverksmiðjurnar dag og nótt og þegar einu stríðinu lýkur hefst annað og þannig verður hagnaðurinn enn meiri. Þetta er sökum þess að Satan hefur þessar hrelldu sálir að leiksoppi og glottir við tönn í víti eftir því sem fleiri börn, konur og karlar eru deydd. Hann elskar að drepa og gefur þeim hlutdeild í þessari elsku sinni sem tilbiðja hann. Árangurinn birtist sem DAUÐAMENNING á jörðu! [1]

Því er svo mikilvægt að bera skyn á nærveru Drottins í hjartanu, að hlúa að vexti Jesúbarnsins á beði hjartans. Það er ekki nóg að þekkja Guð. Margir guðfræðingar eru sprenglærðir í þessum efnum, hafa tvöfaldar doktorsgráður í guðfræði og skrifa lærðar bækur sem þeir lesa síðan einkum sjálfir vegna þess að engir aðrir skilja þær. Sama gegnir um þá sem eru „vísir“ á þessa heims mælikvarða. Þeir sérmennta sig í stríðum með löngu háskólanámi og skrifa þykkar bækur um styrjaldir. Síðan eru þær ræddar fram og aftur í fjölmiðlum og allir eru afar „gáfaðir“ og gera „gáfulegar“ athugasemdir. En þessi „speki“ er heimska í augum Guðs.

Nú langar mig að segja ykkur dálítið leyndarmál úr heimi Andans. Það hefur þrátt fyrir þetta allt dregið úr styrjöldum á jörðu síðan 1990. Ástæðan er sú að Guðsmóðirin er byrjuð að blinda Satan með náð loga elsku hins Flekklausa Hjarta síns. Og hvílíkt upplausnarástand ríkir ekki í víti þegar höfðingi þess blindast. Hann æðir um í ofsabræði með öllu ráðþrota og djöflarnir hjúfra sig hvor að öðrum og geta ekkert hafst að vegna þess að húsbóndi þeirra er blindaður.

Þannig gengur Guðsmóðirin fram í hinni guðdómlegu herbúðarskipun hins Nýja sáttmála sem Lifandi sáttmálsörk Guðs. Þannig glæðist friður heilags Sonar hennar á jörðu, friðurinn sem er öllum skilningi æðri. Meðal annarra orða. Ég bætti við athugasemd við pistil minn um Harmagrát Meymóðurinnar í gærkveldi. Þar má sjá ummæli hinna heilögu feðra úr fornkirkjunni um hina lifandi örk Guðs: Þeotokos – Guðsmóðurina. Það er hún sem gefur okkur fyrirheitið:

„Logi náðarinnar sem ég færi þér úr Flekklausu Hjarta mínu verður að berast frá hjarta til hjarta. Þetta er það kraftaverk sem mun blinda Satan. Þetta er logi elsku og einingar og við munum slökkva eld með eldi: Eld hatursins með eldi elskunnar!

Með orðinu við á hún bæði við okkur sem opnum hjörtu okkar fyrir heilögum Syni hennar og að sjálfsögðu hann sjálfan vegna þess að hún segir að HANN SÉ LOGI ELSKUNNAR. Þannig starfar Guðsmóðirin eins og ávallt í kirkju sinni sem Vegvísan – Hoidigitria: HORFIÐ TIL HANS.

[1]. Í fjölmiðlum heyrði ég fyrir skömmu að þeir fjármunir sem varið er í Íraksstríðið á 3 dögum næmu hærri upphæð en öll framlög alþjóðasamfélagsins til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á einu ári.

6 athugasemdir

Athugasemd from: Ásgeir Ásgeirsson
Ásgeir Ásgeirsson

Það hefur þrátt fyrir þetta allt dregið úr styrjöldum á jörðu síðan 1990. Ástæðan er sú að Guðsmóðirin er byrjuð að blinda Satan með náð loga elsku hins Flekklausa Hjarta síns.

Hvaða rök hefur þú fyrir þessari miklu fullyrðingu?

06.10.06 @ 10:28
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Samkvæmt rannsóknum þeirra Monty Marshalls við Center for Global Policy við George Mason University og Ted Gurr við University of Maryland, þá hefur dregið úr tíðni styrjalda síðan 1991.

Sjá:

http://www.tnr.com/doc.mhtml?i=20050530&s=easterbrook053005

Og sjálf skýrsla Marshalls ásamt línuritum og niðurstöðum:

http://members.aol.com/cspmgm/conflict.htm

Samkvæmt niðurstöðum Marshalls hefur dregið úr styrjaldarátökum sem nemur um 60% síðan 1990 eftir hrun Sovétríkjanna sálugu. Í Fatíma sagði Guðsmóðirin fyrir um ósigur nasismans og hrun kommúnismans í Rússlandi. Það var árið 1984 sem boðskapurinn um loga elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu var þýddur úr ungversku og gefinn út á þýsku, ítölsku og ensku.

06.10.06 @ 11:31
Athugasemd from: Ásgeir Ásgeirsson
Ásgeir Ásgeirsson

Ég var að biðja um rök fyrir þeirri fullyrðingu þinni að ástæðan fyrir fækkun vopnaðra átaka sé þessi sem þú nefnir, það er að guðsmóðirin sé byrjuð að blinda satan með loga hins flekklausa hjarta.

Þetta hefðir þú átt að sjá af síðasta innleggi mínu enda sá hluti tilvitnunarinnar feitletraður.

Rök takk!

10.10.06 @ 10:13
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Jafnvel englarnir og hinir heilögu á himnum undrast hverju Guðsmóðirin hefur komið til leiðar síðan 1990.

Komdu með rök á móti sem sýna að styrjaldarátök hafi aukist um 60% en ekki dregið úr þeim síðan 1990. Ef skýrsla Marshalls uppfyllir ekki kröfur þínar um rök, þá verður þú að leita raka í rökþrota vantrú.

10.10.06 @ 10:37
Athugasemd from: Ásgeir Ásgeirsson
Ásgeir Ásgeirsson

Það er rétt að vopnuðum átökum hefur fækkað eftir 1990. Það hef ég ekki dregið í efa. Ég bið hins vegar um rök fyrir því að það komi “guðsmóður", “satan", “logum hins flekklausa hjarta", og nú “englum guðsmóðurinnar” einhvern hlut við! Slíkar röksemdir hef ég enn ekki fengið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um!!

Ég er ágætlega lesinn í alþjóðastjórnmálum en hef ekki heyrt þessar kenningar þínar fyrr. Þess vegna bið ég um ítarleg rök máli þínu til stuðnings, enda setur þú hér fram kenningar sem ganga þvert gegn viðteknum skilningi á alþjóðamálum eftir lok Kalda stríðsins.

10.10.06 @ 11:23
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er gott Ásgeir að við séum alltént sammála um að dregið hafi úr styrjaldarátökum síðan árið 1990, þrátt fyrir að okkur greini á um orsakirnar. En ég stend við þau orð mín sem ég skrifaði hér að framan: „Þeir sérmennta sig í stríðum með löngu háskólanámi og skrifa þykkar bækur um styrjaldir. Síðan eru þær ræddar fram og aftur í fjölmiðlum og allir eru afar „gáfaðir“ og gera „gáfulegar“ athugasemdir. En þessi „speki“ er heimska í augum Guðs.“ Vafalaust taka margir slíkri yfirlýsingu sem móðgun, einkum ef þeir eru menntaðir stjórnmálafræðingar af skiljanlegum ástæðum.

En ég minni þig á að þú ert hér inni á kaþólsku vefsvæði sem fyrst og fremst er skrifað fyrir kaþólskt fólk. Allar opinberanir og sýnir eru ekki ex cathedra [1] að dómi páfastóls, það er að segja fela ekki í sér trúarskyldur eins og sjálfar trúarsetningarnar (dogma). Hinum trúuðu er í sjálfvald sett hvort þeir trúi opinberunum eða ekki. Þetta þýðir þó ekki að kirkjan rannsaki ekki slík fyrirbrigði og kveði upp úrskurð um sannleiksgildi þeirra og flestar eru dæmdar ómerkar. Kröfurnar sem kirkjan setur er að ekkert í inntaki þeirra stangist á við hina heilögu arfleifð (að Ritningunni meðtalinni) eða trúarsetningarnar. Ein slík opinberun er opinberun Guðsmóðurinnar í Fatíma árið 1917 sem tæplega 80.000 manns urðu vitni að og greint var ítarlega frá í dagblöðum á sínum tíma.

Þar sagði Guðsmóðirin fyrir um ógnir nasismans og kommúnismans og jafnframt hrun þessara helstefna. Og satt best að segja biðum við sem á sjöunda áratugnum fréttum að því að Sovétríkin myndu líða undir lok að 72 árum liðnum frá og með árinu 1917 dálítið spennt eftir því hvort þetta myndi rætast, sem það og gerði. Þetta átti sérstaklega við um okkur sem bárum daglega á okkur bænakort Jóhannesar Páls páfa II fyrir Rússlandi með mynd af íkonu Guðsmóðurinnar frá Kazan sem vel á minnst var varðveitt í kirkjunni í Fatíma þar til patríarkanum af Moskvu var afhent hún á s. l. ári sem var eitt síðasta embættisverk Jóhannesar Páls páfa áður en hann andaðist.

En vafalaust lætur þetta allt eins og hver önnur ólíkindi í eyrum mótmælenda, einkum þegar það svo bætist við að þeir eru póst-módernískir veraldarhyggjumenn. Minna þarf til að æra óstöðugan.

Sama má segja um boðskap Guðsmóðurinnar til Erzsebet Szanto um náð loga elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu. Hann hefur verið rannsakaður ítarlega af kirkjulegum yfirvöldum í Ungverjalandi og verið samþykktur, það er að segja að heimilt er að útbreiða hann innan kirkjunnar, þrátt fyrir að hið Heilaga Sæti hafi ekki samþykkt hann ennþá sem er ofur eðlilegt, slík rannsókn getur staðið yfir áratugum saman.

Í sem fæstum orðum er kjarni hans þessi: Logi elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu mun upplýsa heiminn eftir að unninn hefur verið sigur á Satan þegar hann hefur verið blindaður. Þessi logi er sjálfur Jesús. Uppljómun heimsins í loga elskunnar er koma aldar Heilags Anda, brúðguma Guðsmóðurinnar. Núna þessa áratugina er Guðsmóðirin að safna saman sálum sem eru reiðubúnar að bera fram fórnir til að hraða því að sigurinn yfir Satan verði unninn og fyrirheitið um eina hjörð og einn Hirði nái fram að ganga á jörðu með ósegjanlegum og undursamlegum hætti.

Skrif mín eru því hvatning til kaþólsks fólks á Íslandi um að vera trúfast og þolgott í bænalífinu. Sjálfur trúi ég því að blindun Satans sé þegar hafin.

Ég lýk orðum mínum svo með hvatningu trúarheimspekingsins og prófessorsins Peter Kreefts:

Ákallið Maríu, hina síðari Evu, konuna sem sigraði höggorminn sem tældi hina fyrri Evu (1 M 3. 15). Hún vann sigur á þessum höggormi fyrir tvö þúsund árum (sjá Opb 12) og að nýju í Mexíkó árið 1531, og enn að nýju í Þýskalandi árið 1945 og aftur í Rússlandi árið 1989. Þennan sigur getur hún fullkomnað að nýju meðal þjóða sem guðræknir múslimar kalla „hinn mikla Satan,“ í menningu sem úthellir blóði milljóna saklausra barna árlega í gráðugan munn Móloks. Það er einungis Drottning englanna og himneskar hersveitir hennar sem megna að sigra þennan engil illskunnar og umbreyta menningu okkar úr „dauðamenningu“ í lífsmenningu ljóss og elsku.

Umræðunni er svo lokið af minni hálfu með þessari athugasemd.

[1]. Einn kaþólskra vina minna benti mér á mistök í þessu sambandi. Orðið „ekki“ féll niður hjá mér af handvömm. Allar sýnir og opinberanir eru „ekki ex cathedra,“ það er að segja fela ekki í sér að þær séu skuldbindandi fyrir alla kristna menn. Engu að síður samþykkir Páfastóll áreiðanleika ákveðinna opinberana þegar þær stangast ekki á hina heilögu arfleifð og trúarsetningarnar. Það er misskilningur hjá Ásgeiri þegar hann segir að ég sé að leggja fram kenningu í þessu sambandi. Ég er að greina frá opinberun sem samþykkt hefur verið að kirkjulegum yfirvöldum. Sannleikann að baki þessara orða lesum við í 46. Davíðssálminum:

„Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi“ (v. 10).

10.10.06 @ 15:23