« Ritningarlesturinn 4. október 2006Ritningarlesturinn 3. október 2006 »

03.10.06

  08:06:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 722 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Af hverju koma stríð? I.

Af hverju koma stríð? Það er Jakob postuli sem gefur okkur svar við þessari spurningu: „Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar? Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki. Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa“ (Jk 4. 1-3).

Jakob postuli vissi um hvað hann var að tala vegna þess að hann var með Drottni í Samaríu þegar Jesús ávítaði þá, eins og Ísak sýrlendingur víkur að í hugleiðingu dagsins (3 okt.). En síðan varð mikil breyting á honum „eftir að hann hafði öðlast þá náðargjöf að smakka á elsku Guðs.“ Undursamleg er Kristselskan vegna þess að hún gerir okkur kleift að elska alla menn, líka óvini okkar.

Eitt sinn sagði gömul vinkona mín og mikill vinur Drottins í Bandaríkjunum við mig að fyrra bragði: „Ég er gift holdlegum kristnum manni.“ Þá skildi ég ekki fyllilega við hvað hún átti, en nú geri ég það. Maður hennar var einungis nafnkristinn og bar ekki skyn á Drottinn í hjarta sínu og þekkti því ekki til Kristselskunnar. Jakob postuli kallar slíka hina ótrúu:

Þér ótrúu , vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði. Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs. Eða haldið þér að Ritningin fari með hégóma, sem segir: „Þráir Guð ekki með afbrýði Andann, sem hann gaf bústað í oss?“ En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir Ritningin: „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð“ (Jk 4. 4-6).

Undursamleg er hún Kristselskan, maðurinn hættir að vera dramblátur og játar syndir sínar í auðmýkt fyrir Drottni og í elsku miskunnsemi sinnar gefur hann manninum Kristselskuna. Þá líða öll stríð undir lok, fyrst í mannshjartanu, og síðan hið ytra. Þetta er sökum þess að þá verður Kristsfriðurinn ríkjandi í mannhjörtunum, friður sem er öllum skilningi æðri.

Þetta er boðskapur Guðsmóðurinnar líka: „Logi náðarinnar sem ég færi þér úr Flekklausu Hjarta mínu verður að berast frá hjarta til hjarta. Þetta er það kraftaverk sem mun blinda Satan. Þetta er logi elsku og einingar og við munum slökkva eld með eldi: Eld hatursins með eldi elskunnar! Mér áskotnaðist þessi náð hjá himneskum Föður okkar sökum sára Sonar míns.“ Og sjálf segir hún að logi elskunnar SÉ SJÁLFUR JESÚS og hann er sterkari en sá sem er í heiminum.

Því bað Drottinn okkur að biðja á þennan veg:

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér,
blessuð sért þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthell náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastundu vorri. [1]

Hvernig mun þetta gerast? Við sjáum forgildi þessa í hinum Gamla sáttmála. Í Herbúðarskipuninni var Örkin staðsett í miðju hennar. Umhverfis hana gengu ættkvíslirnar tólf, forgildi kirkjunnar, postulanna tólf. Sem Hin fyrsta lifandi sáttmálsörk hins Nýja sáttmála gengur Guðsmóðurin í miðju hinnar guðdómlegu herbúðarskipunar. Og þessi guðdómlega herbúðarskipun gekk undir vernd fjórverutáknsins, þess sama og er í skjaldarmerki Íslendinga. Þetta er ekki stríð við mennskt hold:

„Því að baráttan, sem við vér eigum í er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þess myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum“ (Ef 6. 12).

Hvað áhrærir varnarmál Íslendinga sérstaklega, þá þarfnast þeir fyrst og fremst verndar gagnvart sér sjálfum sökum skorts á elsku í garð afkvæma sinna. Á hverju ári falla 1000 börn fyrir sverði fóstureyðinganna. Það eru heimsdrottnar myrkursins sem blása mönnum slíkum illskuverkum í brjóst.

[1]. http://www.tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/sosh_page%20copy.html
[2]. http://www.tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/meditation_14.html

No feedback yet