« Dellufrétt um nýjar dauðasyndir flýgur um heimsbyggðinaUm helgimyndir »

03.03.08

  19:53:26, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1033 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Af hverju gefur Guð okkur ekki Mercedes Benz?

Flestir kannast við lagið fræga með Janis Joplin þar sem Guð er beðinn um að gefa glæsibíl af Mercedes Benz gerð, litasjónvarp og fleira skemmtilegt. Hægt er að fylgjast með flutningi hennar á laginu á þessum YouTube tengli hér. En af hverju gefur Guð okkur sem biðjum ekki Mercedes Benz eða bara uppfyllir allar óskir okkar eins og skilja mætti af Jóhannesarguðspjalli 14. kafla, versunum 13-14?

Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni það mun ég gera svo að faðirinn vegsamist í syninum. Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni mun ég gera það.

Gagnrýnendur trúarinnar hafa t.d. notað þessi vers til að undirstrika þá lítt ígrunduðu skoðun sína að ekkert sé að marka Jesú Krist af því að hann standi einmitt ekki við þessi orð. En það er mistúlkun. Guð gefur þeim ekki steina sem biður um brauð en það kann að vera að hann gefi þeim brauð sem biður um steina. En þeim sem biður um steina gefur hann varla steina því hæpið er að slíkar gjafir vegsami hann í Jesú Kristi. En mannlegur skilningur er takmarkaður á því hvað eru steinar og hvað er brauð eins og Mercedes Benz bænin undirstrikar. Þó Janis Joplin hafi beðið um Mercedes Benz þá er ekki sjálfgefið að hún hafi þarfnast slíkrar gjafar mest af öllu.

En Merceds Benz bænina má enn framlengja og spyrja af hverju algóður Guð leyfi þjáningu og dauða. Hvernig ætti algóður Guð að geta leyft slíkt? Látum vera þó við fáum ekki Mercedes Benz ef við værum örugg með að meiða okkur aldrei og geta lifað í sæluríki Guðs að eilífu á jörðinni.

Skoðum svar Jóns Vals Jenssonar við líkri spurningu [1]

Í 4. lagi (hafandi í huga orðtækið góða: "Guð leyfir ekki allt sem hann lofar"): Þegar Guð hindrar ekki, að slys eigi sér stað, að einn stingi annan svöðusári, að einn smiti annan, að ákvarðanir okkar og líferni hafi sínar náttúrlegu afleiðingar, sumar hverjar alls ekki góðar, þá er það m.a. af því, að hann ætlar okkur sjálfum að bæta þar úr, nota skynsemi okkar og mannlega umhyggju til að lækna sárin og þróa aðferðir til að lækna sjúkdóma og annað sem uppáfellur líf okkar og heilsu. Ef hann gripi sífellt inn í til að afstýra öllum slysum eða náttúrlegum ófarnaði, myndum við vera harla skilningsvana verur í veröld sem full væri af daglegum furðuverkum og hefðum í raun aldrei komizt neitt áfram í tækniþróun vegna ærins skilningsleysis á náttúrulögmálin. Frummaðurinn hefði ekki lært að varast eldinn, því að hann hefði aldrei meitt sig á honum og aldrei fengið að láta fingur brenna í honum, af því að Guð hefði alltaf á óskiljanlegan hátt svipt fingrinum í burtu – eða gætt hann einhvers konar járneðli! Þeir, sem ætlast til fullkominnar veraldar Guðs, án þjáningar, eru líka að ætlast til þess, að við höfum helzt ekki tilfinningar (sem segja okkur t.d. til um, að við megum ekki misbjóða veikum fæti okkar með áframhaldandi göngu) eða að við lifum í meiri furðuveröld en Lísa í Undralandi - og verðum aldrei fullveðja skynsemisverur!

Við búum í heimi sem er í stöðugri þróun. Við sjáum þróunina ekki fyrir en ætla má að Guð geri það. Kraftaverk Jesú Krists eru því ekki 'reddingar' eða viðgerðir á gangverki sem farið hefur úr skorðum heldur vísbendingar um hvar áskoranir felast fyrir manninn. Þau benda til þess að á þeim sviðum geti maðurinn einfaldlega gert betur og hann eigi að gera betur. En ég hef kannski ekki enn svarað spurningunni beint. Af hverju gefur Guð okkur ekki Mercedes Benz? Af hverju býr hann okkur ekki fullkominn heim fullan allsnægta, þæginda og áhyggjuleysis? Af hverju býr hann ekki þeim sem trúa slíkan heim til að aðrir geti sannfærst? Svarið er að hann hefur sett sér takmörk og ætlar manninum æðra hlutverk en það að lifa í áhyggjulausri og átakalausri tilveru og í fullvissu um hinstu rök. Af því hlýtur að þurfa að draga þá ályktun að dauðinn er ekki það versta sem geti komið fyrir manninn og efnisleg gæði séu ekki þau æðstu sem hægt sé að njóta. Í hinum þrem freistingum Krists í eyðimörkinni sjáum við berlega þessi takmörk sem Guð setur sér. En hver eru hin æðstu gæði? Þau sjáum við til dæmis í Fjallræðunni, sæluboðunum, kærleiksboðorðinu, gullnu reglunni og fyrirgefningunni. Markmið mannsins á jörðinni er ekki efnisleg gæði í sjálfum sér, þ.e. hvorki Mercedes Benz né Porsche eða hvaða bílar, litasjónvörp eða skemmtanir sem hægt er að hugsa sér heldur siðferðilegur vöxtur og vitsmunalegur þroski í þessum heimi og eilíf tilvera í nærveru Guðs í hinum næsta heimi. Stutta svarið við spurningunni af hverju Guð gefur okkur ekki Mercedes Benz er því það að Guð hefur ætlað okkur annað og betra hlutskipti. Hann ætlar manninum að taka til hendinni og byggja upp guðsríki á jörð þar sem hamingja og réttlæti á að vera hið jarðneska hlutskipti allra, þar sem vitsmunum mannsins er markvisst beint í þá átt að gera tilveruna öruggari og betri, en þó ekki heimur án áskorana og hvatningar til enn meiri þroska og tækifæra til að gera enn betur.

Þó þetta sé sagt skal þó tekið fram að hinsta markmið Kristninnar felst ekki í þessum heimi því samkvæmt henni eru örlög hans nú þegar ráðin og er hún að því leyti alveg í samhljómi við spádóma vísindanna.

[1] http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/447868/

No feedback yet