« Tveir fréttamolar af AsianewsTalsmaður hjálparsamtaka segir fátæk lönd ekki ráða við áhrif hlýnunar »

06.03.07

  04:09:17, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 324 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Fastan

Af formælingum og dauðatáknum

Ungur vinur minn sagði við mig um daginn: „Íslensku krakkarnir í skólanum mínum blóta svo mikið. Þau nota ljót orð sem byrja á h, a og d. Af hverju hætta þau þessu ekki? Mér líður illa í skólanum þegar ég heyri þetta.“ Þessi ungi vinur minn sem hefur alið allan sinn aldur í kaþólsku kirkjunni er af erlendu bergi brotinn og honum hefur verið kennt að það sé ekki góð hegðun að blóta og formæla.

Mér varð í fyrstu svars vant en sagði svo að sumir tryðu ekki á tilvist illra afla og því þætti þeim það sjálfsögð íslenska að krydda tal sitt með þessum orðum. Þeir sæju að líkindum ekki neina sérstaka ástæðu til þess að takmarka þessa orðanotkun sína né koma í veg fyrir að börnin hefðu þetta eftir þeim.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég horfði á tilstandið í kringum öskudaginn. Löngu áður en hann rann upp höfðu sölupésar með myndum af alls kyns grímum og búningum borist inn á heimilin. Margir þessara búninga voru nokkuð frumlegir og skemmtilegir en því miður voru ýmis tákn dauða og hryllings áberandi. Skuggalegir menn með ljái, böðlar, beinagrindur og vampýrur glottu sigri hrósandi á annarri hverri mynd. Líklega er að þessi tíska sé ekki afsprengi hugmyndafátæktar einnar saman heldur sé hún undir áhrifum frá halloween hefðinni bandarísku. Vitað er að hlutverkaleikur styrkir þá hegðun sem lærist í leiknum og því er ástæða til að staldra aðeins við í þessu sambandi. Er sjálfsagt að láta óátalið að börn lifi sig inn í hugsanagang Drakúla eða mannsins með ljáinn þar sem hlutverkið gengur út á hrylling og bókstaflega það að eins dauði sé annars brauð?

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Blót er óþrif í munni og sorglegt að heyra svona munnsöfnuð hjá börnum. Margir bölva þó til að hnykkja á um mál sitt, nánast í stað lýsingarorða. Sjálfur var ég háður þessum ósið ungur, en vandi mig af honum með því að sekta mig um 10 krónur fyrir hvert blótsyrði, sem slapp út fyrir mínar varir. Þetta var eftir að ég hafði snúizt til kristinnar trúar 22ja ára. Mitt sjálfkjörna sektarfé fór í safnaðarbaukinn í Kristskirkju. Og viti menn: þetta virkaði fullkomlega!

06.03.07 @ 18:17
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Er það frekar langsótt að halda að börn lifi sig inn í hugsanagang Drakúla og mannsins með ljáinn þó þeim finnist spennandi að klæðast grímubúningum á Öskudegi?

08.03.07 @ 00:28
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, ég tel nú vera frekar langsótt að spennan ein vegna grímubúninganna almennt séð framkalli slíkan hugsanagang. Margir búninganna eru hugmyndaríkir og lausir við tákn dauða og óhugnaðar. En sá sá hlutverkaleikur sem fylgir hryllingsbúningunum gæti verið eitthvað sem foreldrum þætti vert að skoða eða jafnvel að hafa skoðun á - hver veit nema foreldrar fari að verða meira meðvitaðir um það sem börnin þeirra taka sér fyrir hendur?

Sjálfalafyrirkomulagið sem gekk stundum svo vel hjá síðustu kynslóð er ef til vill ekki jafn heppilegt í dag þegar börnin eru orðin meiri þátttakendur í neyslusamfélaginu en áður var og eiga auðveldara með að nálgast t.d. sætindi eða hverja aðra neysluvöru sem hægt er að neyta gagnrýnislaust og jafnvel í óhófi.

08.03.07 @ 17:43