« 24 kaþólskir trúboðar féllu fyrir árásarmönnum árið 2006Fjölhyggjan og islam - stjórnarskrárnar og sharia »

23.03.07

  22:05:01, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 471 orð  
Flokkur: Trúin og menningin

Af bergnumdu fólki - mennska, ómennska og tröllskapur

Af íslenskum þjóðsögum eru tröllasögurnar líklega litnar mestu hornauga af þeim sem lesa þær sér til gagns og gamans í dag og helgast það líklega af áhrifum frá skynsemishyggju. Þó verið geti að enn örli á huldufólks og draugatrú hjá landanum þá má líklega gefa sér að þeir séu fáir meðal núlifandi íslendinga sem leggja nokkurn trúnað á tröllasögurnar eða líta svo á að þær hafi neitt annað að bjóða en í mesta lagi góða kvöldsögu fyrir börnin.

Í þeim má þó oft sjá þegar betur er að gáð angurværð gagnvart ómennsku tröllanna og jafnvel ákveðinn boðskap um það í hverju mennska felist og þá jafnframt í hverju tröllskapur eða ómennska felist. Þetta sést vel í minninu um að menn séu ærðir og tældir til fylgilags við tröllin með teygingum og öðrum tröllskap. Þetta sést t.d. í þjóðsögunni „Truntum, runtum og tröllin mín í klettunum“ sem finna má í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, III. bindi bls. 247. Þar segir frá tveim bræðrum úr Skagafirði sem fóru fjallveg suður á land til vertíðarstarfa. Með þeim í för var ungur piltur Eiríkur nokkur úr Víðidal. Þetta var efnilegur piltur og þá átján vetra. Leggja þeir af stað og upp á Tvídægru og æja svo um kvöldið. Skemmst er frá því að segja að um nóttina hverfur Eiríkur og finnst hann hvergi um morguninn þrátt fyrir að menn frá Hvítársíðu leiti lengi og allt austur í jökla. Er þá hætt leitinni og þótti mönnum víst að óvættur hefði grandað Eiríki.

Að vertíðarlokum ríða þeir bræður norður. Liggur þá leið þeirra með hömrum nokkrum. Þar sjá þeir mann og þykjast þekkja Eirík, heilsa honum og spyrja hvurnig honum líði; er hann fátalaður um það. Síðan spyrja þeir á hvurn hann trúi. Hann svarar: „Á heilaga þrenning.“ Skilur nú með þeim.

Um haustið fara þeir sama veg og sjá enn Eirík; er þá orðinn hár og gildur. Þeir frétta hann [um] trúna. Segir hann þá dauft: „Ég trúi á guð.“ Ekki tala þeir fleira. Vorið eftir sjá þeir hann enn og er hann hinn tröllslegasti og blár að yfirlit; spyrja nú sem fyr, en hann svarar með mikilli og dimmri rödd: „Ég trúi á truntum runtum og tröllin mín í klettunum.“ Ekki urðu þeir bræður framar hans varir þó um heiðina færi. Og endar so sagan.

Varla þarf að hafa fleiri orð um það í hverju mennskan felst í þessari sögu. Ætla má að þessi boðskapur hafi farið framhjá býsna mörgum.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, hún hefur sinn lærdóm þessi saga. Og hvar er nú komið skírri, kristinni trú margra? Hve margra trú hefur útvatnazt, og hve drjúgt dugir það þeim, sem þeir halda eftir?

23.03.07 @ 22:18
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, tröllin voru mesti óþurftarlýður og þjóðþrifaverk var það hjá honum Guðmundi okkar góða að koma þeim með blessunum og fyrirbænum einum saman út í ystu úteyjar og útsker. Tröllaliðið var vinnuhart með afbrigðum, þau trúðu á mátt sinn og megin framar öllu, rændu fólki og þrælkuðu það (mansal), teygðu það og toguðu og höfðu það með sér í björgin svo það varð bergnumið og blátt, gleymdi uppruna sínum og menningu og varð tröllslegt ásýndum.

Einnig eru til sagnir um að tröllin hafi reynt að tæla menn til fylgilags við sig en það mun hafa gengið upp og ofan. Og ekki má gleyma jólaófétinu henni Grýlu, ókrýndri drottningu tröllanna sem stal fátæku börnunum, drap þau og át.

23.03.07 @ 23:00