« Benedikt páfi: jákvæð boðun um fjölskyldugildiTilkynning vegna Kastljósþáttar »

18.08.06

  20:06:13, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 157 orð  
Flokkur: Ljóð og kvæði / Poetry, Siðferði og samfélag

Af aldarinnar vondum anda

Enn er mín von, að við aldrei rötum
auðsins í fótspor þýja.
Vegvilltir enda á villugötum,
vondslegt athæfi drýgja;
kveða: “Öll orð þín hörð vér hötum,"
hræddir því sannleik flýja;
klæðast þó gjarnan keisarans fötum,
kenna svo háttu nýja:

"Allt, sem er hreint, vér brátt því breytum,
beygjum í valdsins þágu.
Meðan vér oss í skarti skreytum,
skríði í fleti lágu
uppgjafadygð úr döprum sveitum –
daðri í sýndarfrelsi ...
Mettist vor frygð af fagurleitum
fljóðum í píslar-helsi!"

Borð meðan svigna undan auði,
æran er föl fyrir mútu.
Litlu fær breytt hinn lági og snauði
lífsins á þjóðarskútu.
Ófæddum býðst þar eymd og dauði,
enginn sem réttinn styður ...
Drottinn, sem þekkir sína sauði,
sannlega hafnar yður!

– – – – – – – – – – – –
© Jón Valur Jensson, ágúst 2006.

8 athugasemdir

Steingrímur Valgarðsson

Vitið þið til þess að það sé einhver stjórnmálamaður á Íslandi sem talar gegn syndinni. Nefnum sem dæmi, talar gegn fóstureyðingum. Er einhver þarna úti sem þorir að segja það sem aðrir eru að hugsa.

18.08.06 @ 22:35
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Nei, enginn! Ferill Halldórs Ásgrímssonar var reyndar slíkur að hann hóf feril sinn með því að berjast ákaft fyrir fósturdeyðingarfrumvarpinu 1975 og lauk ferlinum með lögum um samkynhneigða 2006! Líklega bíður svo eftirmanns hans að samþykkja lög um stofnfrumurannsóknir á deyddum ungabörnum.

Menn undrast hina dræmu kosningaþátttöku í sumar. Ástæðan er sú að fjölmargt kristið fólk sat heima. Hvaða tilgangur felst því að baki að kjósa fólk tll landsstjórnar sem hefur glatað öllum áttum?

Þett er eins og Jón Valur segir í ljóðinu hér að ofan: „Allt, sem er hreint, vér brátt því breytum, beygjum í valdsins þágu.“ Vald hvers? Höfðingja þessa heims – Antíkrists!

19.08.06 @ 05:55
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það er lýðræðisleg skylda að kjósa og gegn anda trúfræðsluritsins að hunsa kosningar því það getur grafið undan lýðræðinu. Réttara væri að mæta á kjörstað og skila auðu, sem væri rökréttur kostur ef enginn stjórnmálaflokkur styddi lengur kristin viðhorf í raun. Líklega verður það valkostur margra í næstu kosningum því gleymum ekki að vændisfrumvarpið er á leiðinni líka, frumvarp sem heimilar bæði kaup og sölu á vændi. Það verður þó að segjast eins og er að þingmenn úr röðum Samfylkingar og Vinstri-grænna hafa haldið uppi andmælum gegn því. Einnig má minna á að dagana fyrir bæði stríðin í Afghanistan og Írak voru Vinstri grænir á nákvæmlega sömu línu og Vatíkanið - þ.e. algerlega og eindregið á móti hernaðaraðgerðum.

Stjórnmálamönnunum er þó vorkunn. Eðli þeirra má að hluta til líkja við eðli vindhanans og ef fólkið í landinu viðrar ekki kristnar skoðanir þá eru litlar líkur á að stjórnmálin sveigist inn á þá línu.

19.08.06 @ 06:24
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sammála þér Ragnar. Sjálfur mætti ég á kjörstað og kaus núna, en mun skila auðu í alþingiskosningunum næsta vor. Sagði ekki Davíð Oddsson sjálfur að guðlaus kapítalismi (og þar með auðnulaus frjálshyggja) væri ekki hætishótinu betri en guðlaus kommúnismi. Kannske markar þetta straumskilin í íslenskum stjórnmálum hedonistanna í dag: Með eða móti vændi. Það er hálfpartinn hart aðgöngu fyrir vonglaða fjáraflamenn og fjárfesta að þurfa að skreppa til útlanda til að kaupa sér kynþjónustu kvenna.

EN MEÐAL ANNARRA ORÐA. HVERNIG LOKA ÉG Á UMRÆÐU?

19.08.06 @ 09:53
Athugasemd from: Kristinn H. Guðnason
Kristinn H. Guðnason

“Nei, enginn! Ferill Halldórs Ásgrímssonar var reyndar slíkur að hann hóf feril sinn með því að berjast ákaft fyrir fósturdeyðingarfrumvarpinu 1975 og lauk ferlinum með lögum um samkynhneigða 2006! “

Enda er Halldór Ásgrímsson einn af bestu stjórnmálamönnum Íslands.

25.08.06 @ 23:21
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Gott kvæði hjá þér, Jón Valur, og mikill sannleikur þar.

Mér kom i hug eftir lesturinn, að það er svo margt í þessum heimi, sem sýnir mér að það er svo stutt orðið í endurkomu Drottins Jesú, þótt við vitum ekki daginn né stundina. En sé það skoðað í ljósi orðsins, þá er það orðið nokkuð ljóst að við erum, allavega hér á Íslandi, farin að búa í Sódómu að vissu leyti. Og hvað sagði ekki Drottinn: “Eins var og á dögum Lots…Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.” Lúk 17,28-30.

Páll postuli, fylltur heilögum anda og eftir það að hafa talað við Drottinn augliti til auglitis, skrifar Tímóteusi um endatímann og varar hann við. Hann skrifar: “Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!” 2. Tím 3,1-5.

Það er sjáanlegt hér, að Páll er að tala um kirkjuna fyrst og fremst. Og hvað sjáum við ekki þar: “Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afmeita krafti hennar.” Og hvernig ber að varast þessa menn: “Snú þér burt frá slíkum! Eru þessi orð Páls ekki eins og töluð inn í okkar tíma. Ég dreg það ekki einu sinni í efa.

Og svo er það peningagræðgin, sem er að tröllríða okkar þjóðfélagi, og launa ójöfnuðurinn, að verða alveg ótrúlegur. Þar sem hinn fátæki hefur um 90.000 á mánuði en hinn ríki allt upp í rúmar 20.000.000 á mánuði.

Bæði Jesús og Páll töluðu í gegn veraldlegri ofgnógt og hvöttu okkur til þess að elska náungann eins og okkur sjálfa. Jesús sagði við lærisveina sína: “Safnið yður ekki fjársjóði á jörðu…Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera” Matt 6,19-21. Pál bætir um betur og segir: “Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja. En þeir sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.” 1. Tím 6,8-10.

Svo mörg voru þau orð Páls. Þetta sýnir mér, að við sem trúum á Jesú þurfum að þekkja orð hans og vaka yfir því, til að falla ekki í freistni svo að við förum að elska þennan fallna heim og þá allt sem í honum er. Enda sagði Drottinn sjálfur: “Vakið!”

Í kærleika,
Janus Hafsteinn.

26.08.06 @ 22:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þetta kjarngóða innlegg, Janus Hafsteinn.

26.08.06 @ 22:57
Athugasemd from: Alexander Jóhönnuson
Alexander Jóhönnuson

langar nú aðeins að tjá mig um flest þessara málefna sem ég hef lesið hér. Hef nefnilega frá ýmsu að segja þar sem aðrir geta ekki þrætt fyrir. Kemur í ljós fái ég að tjá mig.

27.08.06 @ 19:13
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software