« Skálholtsferð 16. nóvember vegna 463. ártíðar Jóns biskups og sona hansDoktorsrit um Jón biskup Arason »

30.10.13

Af refsingum fyrr og síðar

11282531 1589495121310922 376275531 o

Miðaldir eiga meiri' en flestir hyggja

málsbót og rómversk kirkjan af þar ber. [Frh. neðar]

Refsingum hélt við aga*: Enginn hér

aftöku sætti, fljóð sem kaus að liggja.

Eins þótt menn spilltu annars konu, tryggja

áttu þau Guðslög hverjum það, sem ber

framast að hlýða': á frelsarans orðum byggja:

"Far þú, án dóms, en brjót ei meira' af þér!"**

 

Svo gekk það til á Íslands Rómar-öldum:

engum var drekkt né höggvinn legorðssekur.

Lútherskra beið það grimmra guðfræðinga***

grálynda**** "speki" að sýna opnum tjöldum:

Drekkingarhyl–––og víst á taugar tekur

trúrof***** að þylja' upp slíkra vesalinga!

28–30x13

* Sbr. skriftaboð Þorláks biskups helga (pr. í Ísl. fornbréfasafni I, 240 o.áfr.). Vitnað hefur höf. þessarar veffærslu til þeirra hér (sjá nmgr. [2]).

** Sjá Jóhannesarguðspjall, 8.10–11, viðræðu Jesú við hórseku konuna (framhjáhaldskonuna) sem fræðimennirnir og Farísearnir vildu láta grýta (en áður hafði hann sagt við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana"): "Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? En hún sagði: Enginn, herra. Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."

*** Þ.e.a.s. lútherskra guðfræðinga við Hafnarháskóla, sem höfðu áhrif mikil á refsilöggjöfina í Danmörku og hér á landi og íhaldssamir þar ótrúlega lengi. Sjá doktorsritgerð Más Jónssonar sagnfræðings, Blóðskömm á Íslandi 1270–1870, Rv. 1993. Ennfremur hafði Guðbrandur biskup, margfaldur forfaðir okkar flestra, sýnt mikla hörku í þessum málum á 16. öld, lagzt eindregið með því að afnema kirkjufrið (og var það gert 1587). "Hann hafði tileinkað sér hugmyndir áköfustu guðfræðinga í Norður-Evrópu um að allt sem Guð bannaði [þ.e. í legorðsmálum, innskot JVJ] væri dauðasök ..." (rit Más, s. 122), og notkun hans á 18. kafla 3. Mósebókar  var "gáleysisleg, því að þar er ekki orð um aftökur" (ibid.). "Líflát blóðskammara [þeirra sem framið höfðu frændsemisspell, óleyfileg kynmök náinna skyldmenna] var Guðbrandi réttlætismál og hann barðist gegn viðleitni veraldlegra ráðamanna til að gefa þeim líf. Má vera að hann hafi orðið fyrir áhrifum frá lærimeisturum sínum í Kaupmannahöfn, en þar var hann við nám um það bil sem verið var að setja dauðarefsingu fyrir blóðskömm í íslensk lög, meðal annars fyrir tilstilli Níelsar Hemmingsen og annarra guðfræðinga. Skoðun sinni hélt hann til æviloka [1627] ..." (rit Más, s. 118-19). Ennfremur áttu veraldlegir ráðamenn Íslendinga langtum virkari hlut að þessu máli – og setningu Stóradóms – heldur en ýmsir þjóðernissinnaðir 20. aldar fræðimenn okkar höfðu viljað vera láta (sjá sama rit Más, bls. 100 o.áfr., einkum bls. 102–107).

**** "Grálynda" kalla ég þessi dauðaspeki þeirra og vil þar berlega minna á orð skáldsins mikla, Goethe: "Grau, teurer Freund, ist alle Theorie // Und grün des Lebens goldner Baum." – Já, var það ekki svo, að "allt hafði annan róm // áður í páfadóm: // kærleikur manna milli, // margt gekk þá vel með snilli," eins og Bjarni Jónsson Borgfirðingaskáld (1546–1626) kvað, og lífstré miðaldakirkjunnar grænna og gjöfulla en síðar varð?

***** Trúrof kallar höfundur (JVJ) það hér, að kristnir menn þverbrytu gegn orðum Jesú í Jóh. 8.11 og kölluðu smánarlegan dauðdaga yfir allt að eitt hundrað Íslendinga á tímum Stóradóms (1564–1838). Sjá um þau mál m.a. nefnt rit dr. Más; ritgerð Davíðs Björgvinssonar: 'Stóridómur', í Lúther og íslenskt þjóðlíf, Rvík, Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, og bækur Páls Sigurðssonar lagaprófessors.

Viðauki 10.1. 2019: Sjá einnig rit Más Jónssonar: Dulsmál 1600-1900. Fjórtán dómar og skrá. Reykjavík 2000, og grein hans á Vísindavefnum 2016: Hversu mörgum konum var drekkt í Drekkingarhyl og fyrir hvað?

 

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Magnað ljóð og fróðlegar skýringar!

30.10.13 @ 05:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakkir, Ragnar!

PS. Hef bætt ýmsu við athugasemdirnar, síðast með viðauka við aths.*** rétt áðan, í hádeginu 31. okt.

30.10.13 @ 10:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Með Stóradómi hófust dauðadómar í stórum stíl um kynferðismál, þótt hægt hafi farið framan af: tvær persónur voru dæmdar til dauða í þessum sökum á Alþingi 1563–95 (þ.e. 1573, í sama málinu). En á 17. öld er refsigleðin komin í algleyming, t.d. greina Alþingisbækur og annálar frá 18 líflátum fyrir þessi brot á Alþingi á einum saman árunum 1641–1650, þar af níu fyrir skírlífisbrot, átta fyrir sifjaspell og einu fyrir hórdóm.* Þessir dauðadómar voru, eins og fram er komið, byltingarkennd breyting frá kaþólskri tíð.

Þetta, m.a., höfðu Íslendingar upp úr siðaskiptunum, en jafnframt, að sjúkraþjónusta klaustranna lagðist af með öllu.

** Sjá Davíð Þór Björgvinsson: ‘Stóridómur’, í Lúther og íslenskt þjóðlíf, Rvík, Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, bls. 133; nánar í ritgerð eftir Þorgeir Kjartansson: ‘Stóridómur. Nokkur orð um siðferðishugsjónir Páls Stígssonar’, í Sögnum 1982, s. 2–12.

06.11.13 @ 11:30
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogging software