« Hvers vegna játa kaþólskir syndir sínar fyrir presti?Af hverju tilbiðja kaþólskir brauð? »

14.07.12

  15:38:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 307 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Af hverju tilbiðja kaþólskir Maríu Mey?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

4. Af hverju tilbiðja kaþólskir Maríu Mey?

Kaþólskir tilbiðja ekki Maríu Mey, heldur tigna hana sem móður Guðs, Sonarins Jesú Krists. Að tigna og að tilbiðja eru tvö ólík hugtök sem markast af því sem þau vísa til. Að tilbiðja vísar til Guðs almáttugs skapara himins og jarðar, að tilbiðja mannveru væri því brot á fyrsta boðorðinu „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.” Að tigna er að heiðra manneskju, sem á ekkert skylt við að tilbiðja Guð Almáttugan, Skapara okkar.

Kaþólskir trúa því að María sé sérsköpun Guðs – „full náðar,” eins og hún er tilnefnd í Heilagri ritningu, þ.e.a.s. án syndar, enda bíður hennar hið stórfenglega hlutverk að fæða af sér, Son Guðs, fyrir tilstilli Heilags Anda. Líkt og aðrir menn skapaðir af Guði var María undirorpin náð Guðs eins og segir í Heilagri ritningu: „Önd mín miklar Drottin, og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.“ (Lk 1:47)

Náð Drottins firrti Maríu allri synd strax í móðurkviði og greiddi þannig götu hennar til fyrirhugaðs móðurhlutverks og eilífs lífs á himnum. Sú staðreynd að Guð íklæddist holdi manna (Jh 1:1, 14) gefur til kynna að Guð ætlar mönnum að samverka með Kristi, og stefna þannig að eigin sáluhjálp í „ugg og ótta“ eins og hl. Páll áréttar. Í þessu ferli öllu, sem hefst með fæðingu frelsarans, gegnir María lykilhlutverki, þessvegna tigna kaþólskir Maríu Mey.

María var Mey allt til dauða. Engir jarðarbúar geta státað af að vera afkomendur Heilagrar Guðsmóður, því Jesús átti hvorki systur né bræður. Bræður og systur Jesú Krists, sem vitnað er til í Biblíunni, voru blóðskyldmenni, en á þeim tíma tíðkaðist að kalla alla bræður og systur sem voru blóðskyld eins og hefð er enn fyrir meðal ættbálka í Afríku.

Philumena

No feedback yet