« Af hverju tilbiðja kaþólskir Maríu Mey?Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til? »

13.07.12

  09:51:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1397 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Af hverju tilbiðja kaþólskir brauð?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

3. Af hverju tilbiðja kaþólskir brauð?

Brauðið sem kaþólskir tilbiðja í heilagri Messu er, eftir gjörbreytingu, ekki lengur í eðli sínu brauð. Fyrir kraft Guðs og framburð sömu orða, sem Jesús sjálfur mælti við síðustu kvöldmáltíðina, hefur presturinn, sem staðgengill Krists á jörðu, verið kallaður til sömu starfa og postularnir tólf.

Eitt meginhlutverk kaþólskra presta felst í því að bera fram einu og sömu krossfórnina, þar sem Kristur endurfórnar sínum himneska Föður krossdauða sínum í óblóðugri fórn, á sama hátt og Kristur sjálfur við síðustu kvöldmáltíðina er Hann gaf fyrirheit um Hið Allrahelgasta Altarissakramenti og gjörbreytti brauðinu og víninu í líkama sinn og blóð og mælti: „Takið og etið; þetta er minn líkami, sem (nú á þessu augnabliki) fyrir yður og fyrir marga verður útgefinn (fórnað).” Síðan tók Hann kaleikinn, blessaði hann, gaf postulum sínum og mælti: „Drekkið hér af allir; því þetta er mitt blóð, blóð hins nýja sáttmála, sem (nú á þessu augnabliki) verður úthelt fyrir yður og marga til fyrirgefningar syndanna. – Gjörið þetta í mína minningu.”

Heilög messufórn er þannig ein og sama fórn og krossfórnin, því að bæði fyrr og nú og allt til enda veraldar er það Kristur, sem fórnar og er fórnað. En aðferðin er ekki hin sama. Kristur dó í raun og veru á krossinum; en hann deyr ekki í heilagri messu, heldur endurfórnar hann þar okkar vegna sínum himneska Föður krossdauða sínum á undursamlegan hátt. Með athöfn prestsins fórnar Kristur sjálfum sér himneskum Föður sínum í myndum brauðs og víns. Kristur dó í raun og veru á krossinum, en Hann deyr ekki í heilagri Messu, heldur endurnýjar Hann þar, okkar vegna, krossdauða sinn á óblóðugan hátt og biður söfnuðinn að minnast þess: „Gjörið þetta í mína minningu." segir Hann (sjá Mt 26:26-29; Lk 22:19-21).

Til frekari áhersluauka og áminningar um það kraftaverk gjörbreytingar sem á sér stað í kaþólskri Messu, og hefur átt sér stað allt frá Síðustu kvöldmáltíðinni, áréttaði Jesús: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig sem mig etur.“Jh 6:53-58).

Enn fremur gaf Hann Gyðingum hið sama fyrirheit er Hann á götum úti boðaði gjörbreytingu brauðs og víns í hold sitt og blóð og sagði: „Það brauð, sem ég mun gefa yður, er mitt hold, heiminum til lífs.” (6:51-52) Mörgum lærisveinum Hans og öðrum áheyrendum þótti þetta þung ræða og kurr varð meðal þeirra, og margir spurðu sömu spurningar og að ofan greinir „Hvernig getur Hann gefið oss hold sitt að eta?” Eða, eins og spurt er í dag, „af hverju tilbiðja kaþólskir brauð?” Líkt og í dag, og andstætt trú Abrahams, áttu áheyrendur Jesú erfitt með teygja trú sína út fyrir mannlegan skilning og því hurfu margir lærisveinar og Gyðingar frá, en þeir deildu sín á milli vegna þessa boðskapar Krists og voru ekki lengur með honum (Jh 6:66; 6:52).

Þessi kurr meðal trúaðra og vantrúaðra gaf tilefni til að Kristur spurði lærisveina sína hvort þeir ætluðu einnig að yfirgefa Hann. Pétur, sem kjörinn hafði verið fyrirliði postulanna, varð fyrir svörum og mælti: „Herra til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs." (Jh 6:68-70).

Þessi orð eilífs lífs, sem á dögum Krists ollu slíkum kurr að margir lærisveina Hans yfirgáfu Hann eru fyrirheit Hans um brauð lífsins, Hið gjörbreytta brauð í líkama Hans og blóði fyrirheitið, sem Hann bauð heiminum til lífs við sama tækifæri, er Hann mælti: „það brauð, sem ég mun gefa yður, er mitt hold heiminum til lífs.” Og til frekari áréttingar um þá andlegu lífgjöf, sem felst í hinu gjörbreytta brauði og víni áréttaði Hann: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið ekki blóð Hans, hafið þér ekki lífið í yður. Sá, sem etur mitt hold og drekkur mitt blóð, hefur eilíft líf og ég mun uppvekja hann á efsta degi; því að hold mitt er sannarlega fæða og blóð mitt sannarlega drykkur.” (Jóh. 6.52-56) Þessi orð Krists gáfu tilefni til að margir yfirgáfu Hann á Hans tíma og gera enn í dag.

Krafan um að trúa út fyrir mannleg skynsemismörk, að trúa óskilyrt, er jafngild í dag meðal kristinna manna og hún var á dögum postulanna og því snúa kaþólskir ekki baki við þessum boðskapi Krists varðandi gjörbreytingu efnis í hold Hans og blóð, heldur beinist staðföst trú þeirra að Altari Guðs í heilagri Messu að þeir megi meðtaka hina guðdómlegu helgandi og styrkjandi náð, hinn sanna líkama og blóð Jesú Krists, í Hinu Allrahelgasta Altarissakramenti. Allt frá dögum postulanna til vorra daga, hefur heilög messufórn verið fram borin í kaþólskri kirkju.

Staðfestingu á þessari staðreynd og þessum skilningi kaþólskra kennimanna á orðum Krists við Síðustu kvöldmáltíðina má sannreyna í ritum kirkjufeðranna, sem uppi voru frá 1.-5. öld. Þar á meðal er Irenæus biskup hinn helgi (dáinn árið 202), en hann ritar: „Kenning Jesú færði oss nýja fórn; kirkjan fékk hana í arf eftir postulana og ber hún hana fram um alla jörðina.“ Cyrillus hinn helgi í Jerúsalem (dáinn árið 386) kemst réttilega að orði, er hann segir: „Fyrst Jesús segir sjálfur: ´þetta er líkami minn,´ hver getur þá efast um, að það sé satt? Og fyrst hann segir skýrt og skorinort ´Þetta er mitt blóð’ hver getur þá efast og haldið, að þetta sé ef til vill ekki blóð hans? Hann breytti forðum vatni í vín, hví skyldum vér þá ekki trúa orðum hans, er hann segir, að nú ætli hann að breyta víni í blóð sitt?”

Sömu skoðun hafa hinir kirkjufeðurnir og gjörvöll kaþólska kirkjan hefur frá fyrstu tímum trúað þessari skíru kenningu Jesú Krists um návist hans í Hinu Allra Helgasta Sakramenti. Hver sá, sem ekki trúir þessu, er því ekki hluti af þeirri kaþólsku frumkirkju sem Kristur stofnaði. (Kirkjuþingið í Trident) Þessi sama Messufórn hefur haldist óbreytt frá því á dögum Krists og postulanna, á meðan helgi hennar og hátíðleiki hefur í aldanna rás skrýðst æ fegurri lof-, þakkar-, friðþægingar- og bænargjöfum. Án Messunnar, hins lifandi brauðs, eins og Kristur nefnir sjálfan sig í Heilagri ritningu, væri heimurinn löngu liðinn undir lok.

Þegar í Gamla Testamentinu boðar Guð heilaga Messufórn með orðum Malakíasar spámanns: „Frá upprás allt til sólarlags mun nafn mitt mikið verða meðal þjóðanna, og allsstaðar er fórnað nafni mínu til heiðurs og hrein matfórn framreidd.“ (Mal 1:11). Fórn Malakíasar er fyrirmynd heilagrar messufórnar. Aðeins í heilagri messufórn rætist spádómurinn: "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks." (Sálm. 109) Hl. Páll postuli minnir enn fremur á að heilagleiki altaris kristinna manna, sé svo mikill að Gyðingar, sem afneitað hafa Kristi sem sínum Messías, hafi ekki leyfi til þess að neyta af því. Eða eins og segir í Heilagri ritningu: „Vér höfum altari (fórnarborð) og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna ekki leyfi til þess að eta af því“. (Heb 12:10)

Einnig áminnir hl. Páll að séu menn ekki í náðarástandi, þá megi þeir ekki meðtaka líkama og blóð Jesú Krists í Hinu Allra Helgasta Altarissakramenti, því „Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óvirðulega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.“ (1 Kor 11:27-30) Varla þarf að árétta að enginn, sem etur venjulega brauðsneið etur sér til fordæmingar. (Sjá einnig Rm 11:25 ff. varðandi trúarsamskipti Gyðinga og kristinna manna).

Náðaráhrif heilags Altarissakramentis:
1. Það eykur hið yfirnáttúrulega líf í sál okkar;
2. Það hreinsar oss frá smásyndum og verndar okkur frá stórsyndum;
3. Það dregur úr illum tilhneigingum hjá okkur og veitir okkur löngun og þrek til að lifa guðrækilegu lífi;
4. Það er okkur trygging dýrlegrar upprisu og sælu í himnaríki.
Kristur segir: „Sá sem etur mitt hold og drekkur mitt blóð, sá er í mér og ég í honum.” (Jóh 6.57) „Sá sem etur hold mitt hefur eilíft líf og ég mun uppvekja hann á efsta degi.” (Jóh. 6.55)

Philumena

No feedback yet