« Af hverju biðja kaþólskir fyrir látnum?Hvers vegna játa kaþólskir syndir sínar fyrir presti? »

24.07.12

  08:36:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 415 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Af hverju biðja kaþólskir til skurðgoða (styttur, myndir t.d.)? eða dýrlinga?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

6. Af hverju biðja kaþólskir til skurðgoða (styttur, myndir t.d.)? eða dýrlinga?

Enginn kaþólskur biður styttu ásjár (líkt og heiðingjar gera). Fyrir kaþólskum eru styttur eða helgimyndir aðeins hjálpartæki til einbeitingar í bæn og áminning um að biðja og heiðra þá sem ímyndin táknar.

Til samanburðar má benda á að ef rétt er að heiðra einstaklinga, sem eiga heiður skilið á jörðu niðri líkt og opinberar hetjur jarðnesks samfélags, svo sem stjórnmála- og siðbótamenn, sem við reisum styttur af í heiðursskyni, þá er e.t.v. ekki síður ástæða til að heiðra þá einstaklinga, sem með heiðvirðu lífi sínu, höfðu í jarðnesku lífi sínu helgað krafta sína Guði með réttlætis- og kærleiksverkum. (1Pt 2:17, sjá einnig Rm 12:10; Heb 12:22-24) Kaþólsk kirkja kennir að slíkir helgir menn megi, vegna kærleiksríkra lifnaðarhátta á jörðu niðri, teljast örugglega á himnum og eru því úrskurðaðir sem svokallaðir dýrlingar öðrum til fyrirmyndar. (Heb 11; 2Kor 3:18).

Á svipaðan hátt og Jesú Kristur, hin heilaga guðs móðir og dýrlingar eru heiðruð með afsteypum (styttum ?) og myndum, heiðra menn einnig og minnast fjölskyldumeðlima með myndum á heimilum sínum. Dýrlingar, sem með vissu hafa verið úrskurðaðir hólpnir, eru þannig hollvinir Guðs á himnum og samverkamenn okkar á jörðu niðri. Þeim var frá upphafi sköpunarverksins aldrei ætlað hlutleysi né afskiptaleysi af jarðneskum málefnum. (Op 6:10; sjá einnig Sálm 35:17). Hlutskipti þeirra á himnum er ekkert frábrugðið hlutskipti þeirra á jörðu niðri --að þjóna Guði og láta gott af sér leiða, eins og hl Teresa hafði á orði og lesa má í dagbókum hennar að æðsta ósk hennar sé að fá að þjóna mönnum líkt og englar á jörðu niðri um alla eilífð.

Eins og Heilög ritning staðfestir mega jarðarbúar telja dýrlinga meðal hollvina sinna á himnum og leita stuðnings þeirra í bænum sínum til Guðs. Í yfirfærðri merkingu hins jarðneska lífs, má líkja málamiðlun og fyrirbænum vina á himnum við málamiðlun jarðneskra vina, sem einnig bregðast við til hjálpar á ögurstundu með bænum og samhjálp. Í heilagri ritningu er dýrlingum lýst sem slíkum „fjölda votta” sem rétt sé að gefa gaum að til eftirbreytni og láta af allri synd (Heb 12:1).

Rétt er einnig að minna á að orðið skurðgoðadýrkun, sem Jóhannes postuli varar við, vísar í Biblíunni til skurðgoða af heiðnum goðum og á því ekki við afsteypur (styttur?) af heilögum né táknmyndir, sem þegar í frumkristni skreyttu katakómburnar í Róm m.a. af heilagri Guðs Móður Maríu. (1Jh 5:21).

Philumena

5 athugasemdir

Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson  
Sigurður Ragnarsson

Takk fyrir greinina. Miklu skiptir að skýra þessa hluti vel út, því að dapurlegar útleggingar á heiðrun helgra manna eru síður en svo liðin tíð (http://tru.is/svor/2005/11/hvert_er_alit_kirkjunnar_a_dyrlingadyrkun). Vingjarnleg kveðja.

24.07.12 @ 15:44
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Sigurður.
Já, Philumenu sé þökk fyrir hennar framlag á formi skrifa um þessi mál. Þeim er hér með komið á framfæri.

Ég þakka þér sömuleiðis fyrir innlitið og athugasemdina og tek undir þetta, það skiptir máli að útskýra þessi atriði vel. Ekki er nokkur vafi á því að dyggðir dýrlinga og fórnfýsi hafa verið mörgum eftirkomendum innblástur og hvatning til góðra verka og dýpri skilnings á sannindum trúarinnar.

30.07.12 @ 07:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er sorglegt að sjá þennan lútherska prest í Keflavík taka sér heldur betur freklegt túlkunar- og dómsvald yfir orðum Eysteins munks.

30.07.12 @ 18:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Jón. Já það má víða finna dæmi um misskilning á heiðrun helgra manna og fleiru því sem snertir kaþólskuna.

Það er því hlutverk kaþólskra að koma réttum skilningi á framfæri og leiðrétta misskilning en það er einmitt tilgangur pistilshöfundarins. Þess vegna eru pistlar Philumenu einmitt bæði þarfir og tímabærir.

31.07.12 @ 08:24
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mig langar að bæta við að faðir Róbert Bradshaw sagði einmitt um heiðrun helgra manna og sérstaklega Maríu Guðsmóður að henni mætti líkja við ægifagurt málverk. Málarinn stæði hjá því og að kemur ókunnugur maður.

Sá ókunnugi fer að skoða málverkið og verður afar hrifinn. Hann hrósar málverkinu og lofar og prísar sem mest hann má.

Er hann að gera lítið úr málaranum (skaparanum/Guði) með lofi sínu um málverkið? Nei, ég trúi ekki að neinn taki undir það.

Er hann að tilbiðja málverkið með því að lofa handverk og sköpun meistarans (skaparans/Guðs)? Nei, alls ekki.

Er líklegt að málarinn fyrtist við hinn ókunnuga og telji að hann sýni málverkinu óverðskuldaða athygli. Nei það er fjarstæða því málarinn (skaparinn/Guð) hlýtur að hafa gert málverkið jafn fagurt og glæsilegt og það er með það í huga að fólk gæti notið þess.

31.07.12 @ 08:33