« Hátíðarmessa til heiðurs Maríu meyjar frá GuadalupeBænarefni páfa í desember 2006 »

02.12.06

  17:59:13, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 669 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Hjálparstarf, Jólafasta (aðventa)

Aðventusöfnun Caritas Ísland - reikningsnúmer

Caritas Ísland sem er hjálparstofnun kaþólsku kirkjunnar efndi nýverið til tónleika í Kristskirkju þar sem landskunnir listamenn komu fram og gáfu vinnu sína. Allur ágóði af tónleikunum mun renna til Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins. Sigríður Ingvarsdóttir formaður Caritas skrifaði grein í Morgunblaðið föstudaginn 17. nóvember sl. þar sem hún sagði m.a.:

NÚ ÞEGAR líða tekur að aðventunni er ágætt að staldra við og íhuga stöðuna mitt í velsældinni sem er ofarlega á baugi. Fram hefur komið í nýlegri könnun sem gerð var í Bretlandi að þessi nágrannaþjóð okkar eyðir milljörðum punda í munaðarvörur og gjafir fyrir jólin sem enginn þarf á að halda og flestir mundu án vera. Markaðskannanir eru að vísu engin guðspjöll en það má vel draga ályktanir af slíkum upplýsingum. Enginn vafi er á því að margir hlaupa eftir áróðri fagurgalans og sækja í hunangið og umhverfið stendur á öndinni yfir því að missa nú ekki af neinu. Hér er ekki verið að gagnrýna þann fallega sið kristins fólks að færa vinum og ættingjum gjafir og halda gleðileg jól. Velmegun hefur sjaldan verið meiri og því ber að fagna. Lífið er stutt og það er full ástæða til að gera sér dagamun þegar ástæða er til. Ef ekki um aðventu og jól, þá hvenær?
Enn hvað sem því líður og hvað sem líður þeim könnunum sem sýna að við erum þjóða ánægðust með okkar kjör eigum við talsvert í land að því marki að nota kristindóminn til að ýta undir mannlega reisn. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna hjálparþurfendur sem við getum lagt lið. Við lesum fréttir af því að á sl. ári leituðu yfir tvö þúsund fjölskyldur á náðir hjálparstofnana. Mörg börn eiga að erfitt uppdráttar, ekki síst börn sem glíma við alls konar fötlun. Við skulum muna að fagnaðarerindið birtist mannkyninu í litlu barni. Oft eru jólin líka kölluð hátíð barnanna.[1]

Óhætt er að taka undir þessi orð Sigríðar og minnast í þessu sambandi hinnar fornu merkingar orðsins 'jólafasta'. Hin forna hefð kaþólsku kirkjunnar lítur á þennan tíma, ásamt föstutímanum fyrir páska sem sérstakan náðartíma sem nýta á til að ástunda sjálfsafneitun ásamt stuðningi við þá sem minna mega sín. Það fé sem sparast við föstuna á að verja til góðra málefna. Á aðventunni 2005 skrifaði Jóhannes biskup Gijsen í Kaþólska kirkjublaðið og hvatti fólk til að hugleiða með sjálfu sér „hvort við látum orð Guðs leiða okkur til þeirra“, „eða hvort við reynum aðeins að notfæra okkur hin ytri og efnislegu skilyrði til að geta haldið vel heppnaða jólahátíð. Ef við látum við hið síðartalda sitja, mun jólafriðurinn vera eins og sápukúla og hverfa áður en varir. En ef við tökum afstöðu með orði Guðs og temjum okkur nýtt líferni þá mun hinn sanni friður geta streymt inn í hjörtu okkar.“[2]

Á heimasíðu kaþólska biskupsdæmisins [3] er að finna upplýsingar um reikningsnúmer Caritas hjálparsamtakanna. Leggja má inn í banka 0513, hb. 14, reikn. 202500, kt. 591289 1369.

--
[1] „Caritas styrkir fötluð börn með tónleikum.“ Morgunblaðið Föstudaginn 17. nóvember, 2006 - Aðsent efni. http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1114709
[2] Aðventuboðskapur biskupsins er prentaður í heild í Kaþólska kirkjublaðinu, nr. 12. 2005 bls. 2. Samantekt á honum er að finna hér á vefsetrinu í greininni: „Jólafriðurinn beinist ekki að hinu ytra“ http://www.kirkju.net/index.php/ragnar/2005/11/28/p125
[3] http://www.vortex.is/catholica/

No feedback yet