« Bresk rannsókn leiðir í ljós að ófædd börn finna tilMenningargervingurinn er hin raunverulega hætta »

05.04.06

  13:09:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 729 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Áður en Abraham fæddist, er ég.“

Guðspjall Jesú Krists þann 6, apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 8. 51-59

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.“ Þá sögðu Gyðingar við hann: „Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“ Jesús svaraði: „Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.“ Nú sögðu Gyðingar við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!“ Jesús sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég.“ Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.

Hugleiðing
„Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir“ (Heb 13. 8). Í viðræðum sínum við Gyðingana orðaði Jesú þetta á annan hátt: „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ Svona kemst enginn maður að orði um sjálfan sig, heldur einungis sá Guð sem varð maður. Þyrstir þig eftir að læra að þekkja Guð, að þekkja hann persónulega og að njóta elsku hans og speki? Þetta er einungis unnt með því að Faðir okkar vegsami okkur eins og Jesú. Orðið að vegsama einhver þýðir það sama og að gera einhvern dýrlegan. Þegar við gerum Jesú dýrlegan, gerum við það Föður hans til dýrðar.

Einhvert elsta varðveitta afbrigði Dýrðarbænar kirkjunnar hljóðar svo: „Dýrð sé Föðurnum í Syninum fyrir Heilagan Anda.“ Og í Efesusbréfi sínu kemst Páll postuli svo að orði: „Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun TIL VEGSEMDAR DÝRÐ HANS OG NÁÐ, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni“ (Ef 1. 4-6). Það er einn hinna heilögu Austurkirkjunnar, hinn mikli býsanski guðfræðingur, Símon nýguðfræðingur, sem leiðir okkur fyrir sjónir hvernig við getum vegsamað dýrð náðar hans:

Við skulum íhuga og fræðast um það hvernig við getum gert Guð dýrlegan. Eina leiðin til að gera hann dýrlegan er með þeirri dýrð sem Sonurinn gerði hann dýrlegan. En með því sem Sonurinn gerði Föðurinn dýrlegan gerði Faðirinn Soninn dýrlegan. Við skulum því leitast við að gera það sem Sonurinn gerði til að gera okkar himneska Föður dýrlegan, eins og honum þóknaðist að kalla sjálfan sig, og vegsamast sjálfir af honum í dýrð Sonarins „sem“ Sonurinn „hafði hjá honum, áður en heimurinn varð til“ (Jh 17. 5). Þetta er krossinn – að deyja heiminum, að líða þjáningar, freistingar og aðrar píslir Krists. Með því að bera þennan kross af fullkomnu þolgæði öðlumst við hlutdeild í píslum Krists og gerum þannig Guð Föður dýrlegan sem synir hans í náðinni sem samarfar Krists

.

Það er í Heilögum Anda sem við gerum Föðurinn dýrlegan í Syninum eins og hann sagði okkur í kveðjuorðum sínum áður en hann hvarf frá jörðinni: „En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur HJÁLPARINN ekki til yðar“ (Jh 16. 7). Og hann bætti við orðum sínum til áherslu: „En þegar hann kemur, Andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann“ (Jh 16. 13).

No feedback yet