« Quo vadis – hvert ætlarðu?En Gyðingar margir týndu þá því ljósi »

14.03.06

  16:39:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 655 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Að þjóna er að ríkja með Kristi

Heilagt guðspjall Jesú Krists þann 15. mars er úr Matteusarguðspjalli 20. 17-28

Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá: „Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa.“ Þá kom til hans móðir þeirra Sebedeussona með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar. Hann spyr hana: „Hvað viltu?“ Hún segir: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús svarar: „Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?“ Þeir segja við hann: „Það getum við.“ Hann segir við þá: „Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af Föður mínum.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við bræðurna tvo. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“

Hugleiðing: Hver eða hvað á að vega þyngst í lífi okkar? Eigingjarn metnaður knýr okkur áfram á undan öðrum. Jeremía spámaður kvartaði við Guð þegar aðrir hugðust koma honum fyrir kattarnef. Í stað þess að fyllast gremju bað hann fyrir óvinum sínum. Þegar tveir af lærisveinunum vildu verða öðrum fremri gerði Jesús hið óhugsanlega! Hann sagði þeim að vegurinn til dýrðarinnar væri í gegnum þjáningar krossins. Hann lagði áherslu á að þeir legðu líf sitt í sölurnar fyrir aðra. Allt sem ekki er þrungið sjálfsfórn er eigingjörn þjónusta. Jesús greip til sterkra orða til að tjá hvaða fórn hann ætti við. Lærisveinar hans yrðu að bergja á hans eiginn kaleik ef þeir gætu vænst þess að ríkja með honum í konungsríki himnanna.

Kaleikur sá sem hann hafði í huga var afar beiskur og fól í sér krossfestingu. Hvaða kaleik hefur Drottinn fyrirbúið okkur? Fyrir suma lærisveina hans felur þessi kaleikur í sér líkamlegar þjáningar og jafnvel sársaukafullt píslarvætti. En fyrir aðra felur hann í sér hina löngu pílagrímsgöngu hins kristna lífs með öllum sínum daglegu fórnum, vonbrigðum, áföllum, baráttu og freistingum. Lærisveinn Krists verður að vera reiðubúinn til að leggja líf sitt í sölurnar í píslarvætti hins daglega lífs með sínum litlu eða stóru fórnum. Einn hinna fornu kirkjufeðra dróg kenningar Jesú saman með svofelldum orðum: AÐ ÞJÓNA ER AÐ RÍKJA MEÐ KRISTI. Við öðlumst hlutdeild í ríki Guðs með því að fórna lífi okkar í þjónustunni við hvert annað í dýpstu auðmýkt. Ert þú reiðubúin(n) til að leggja lífið í sölurnar fyrir aðra með sama hætti og Jesús?

No feedback yet