« Ritningarlesturinn 3. september 2006Ritningarlesturinn 2. september 2006 »

02.09.06

  09:00:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 633 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Að taka þátt í hjálpræðisverki kirkjunnar fullir ákafa með hliðsjón af þörfum tímans.

Sú hugleiðing sem fylgir ritningarlestri dagsins í dag (2. september) gæti sem best verið einkunnarorð kirkju.nets, það er að segja greinar 31-33 úr Lumen Gentium.
Frá upphafi hefur hjálpræðisboðskapur kirkjunnar verið þessi:

Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa“ (Lk 24. 45-48).

Hér þarf engu að breyta, úr að draga eða við að bæta. Frá upphafi hefur kirkjan boðað að kynlíf fólks af sama kyni sé synd. Þetta er bæði til samræmis við boðskap heil. Ritninga og erfikenninguna eins og sjá má í Didache og í skrifum Barnabusar. Og orð sjálfs Krists eru einnig ljós í þessu sambandi:

Þér hafið heyrt sagt, að sagt var: ‚Þú skalt ekki drýgja hór.‘ En ég segi yður: Hver sem horfir á konu með girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu“ (Mt 5. 28).

Þessi orð mælti Drottinn í fjallræðunni sem við getum sagt að sé stjórnarskrá ríkis hans á jörðinni. Þau eiga við um okkur öll, einnig samkynhneigða. Og hann bætti við:

Verið þér því fullkomnir, eins og Faðir yðar himneskur er fullkominn (Mt 5. 48).

Þetta er vissulega háleitt takmark og öllum um megn: „Án mín getið þér alls ekkert gjört“ (Jh 15. 5). Það er Kristur sem kemur þessu til leiðar í mannssálunum í kristsgjörningu sálarinnar. Hún grundvallast á hlýðni við boðorð hans.

Hér eru kirkjan og veraldarhyggjan (secularism) á öndverðu meiði: Ósættanlegar andhverfur. Veraldarhyggjan boðar anarkisma í siðrænum efnum vegna þess að hún hafnar leiðsögn kirkjunnar með öllu, ekki einungis hvað áhræri kynlíf fólks af sama kyni, heldur einnig hvað áhrærir fósturdeyðingar og þar með stofnfrumurannsóknir úr deyddum börnum.

Í dag er gjarnan vitnað í skoðanakannanir og í afstæðishyggju sinni hefur veraldarhyggjan gert þær að gildisviðmiðun á sannleikanum: Eftir því sem fleiri af þegnum þjóðfélagsins samþykkja eitthvað, því meira nálgumst við sannleikann, hinn afstæða sannleika veraldarhyggjunnar.

Þetta er í reynd afar sérstæð afstaða fyrir veraldarhyggjuna. Við skulum taka dæmi af Þriðja ríki Hitlers. Einungis 2 milljónir manna af 60 milljónum börðust gegn ógnarstjórn nasismans. Samkvæmt þessari afstöðu höfðu þeir á röngu að standa.

Engu að síður voru það þessar 2 milljónir sem bandamenn fólu uppbyggingu Þýskalands eftir hrun Þriðja ríkisins í lok heimstyrjaldarinnar. Það hefur ekkert með sannleikann að gera hvort 70, 80 eða 90 af hundraði einhverrar þjóðar samþykki stefnu stjórnvalda með þögninni. Síst af öllum út frá kristnu sjónarmiði. Fyrir kristnum einstaklingum er það Jesús Kristur einn sem er „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jh 14. 6).

Hins vegar ber það manneðlinu hryggilegt vitni að stór hluti almennings skuli láta teyma sig áfram eins og viljalaus verkfæri. Þetta á ekki síður við um þjóna kirkjunnar. Iðulega hef ég leitt að því hugann – einkum meðan ég bjó í Þýskalandi – hver þróun mála hefði orðið ef kaþólskir og lúterskir prestar hefðu talað af einurð gegn ógnarstjórninni. Ef til vill hefði það opnað augu einhverra.

Sama gegnir um Ísland nútímans. Þjóðkirkjan hefur valið þögnina, tjáir sig ekki. Ef til vill óttast þjónar hennar að ríkisvaldið svipti þá launum sínum ef þeir opna munninn. Ég veit það ekki, en þetta er mikið hryggðarefni, einkum sökum þess að Drottinn er VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Við hrun Sovétríkjanna voru líklega um 18 milljónir manna í sovéska kommúnistaflokknum. Ef þetta fólk hefði haft fullan aðgang að frjálsri og óheftri öflun upplýsinga, úrvinnslu þeirra í formi umræðna og íhugunar þá hefði kannski eitthvað annað orðið ofan á hjá þeim. Eitthvað sem við myndum sjálfsagt kalla þekkingu. En þeirra vandi var að hluta til sá að fjölmiðlar viku lítið frá línu stjórnvalda og því hlýtur oft að hafa verið valið hvaða upplýsingar fólkið fékk og hverjar ekki. Jafnframt þessu hefur líklega verið haldið fram einsýnni túlkun á staðreyndum í mörgum tilfellum.

Ég man t.d. eftir útvarpi Moskvu (Radio Moscow) eða rússneska áróðursútvarpinu eins og það var kallað hér. Á árunum upp úr 1980 keypti ég stuttbylgjutæki og hlustaði stundum á þá Moskvumenn. Ég hlustaði líka á Rödd Ameríku (Voice of America) sem var svar BNA. Einnig BBC og Vatíkanútvarpið. Mér fundust BBC og Vatíkanútvarpið áberandi best þegar kom að fréttunum. Það var ekki mikið um augljósar missagnir milli t.d. Radio Moscow og Voice of America en túlkunin og áherslurnar voru oft býsna mismunandi.

02.09.06 @ 10:41
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er til merkilegt orð í grísku, orðið „monoeides,“ sem er dálítið erfitt að þýða á íslensku, en merkingin er engu að síður einsýni, að horfa til ákveðinnar grundvallarreglu sem ófrákvíkjanlegri staðreynd. En það má einnig líta á það sem sjálfhverfu.

Tökum dæmi af orðinu feminisma sem hefur þróast í sinni neikvæðustu og öfgafyllstu mynd meðal kvenna á Vesturlöndum. Hann er gott dæmi um „monoeides.“ Hann hefur orðið að trú allflestra kvenna í dag.

Hann má rekja beint til kenninga Friedrichs Engels, er sem sagt óaðskiljanlegur þáttur marxisma og þeirrar mannfyrirlitningar og mannhaturs sem er svo einkennandi fyrir þessa stefnu þar sem hún nær að festa rótum.

Engel boðaði að konan væri „þræll“ þess samfélagsmynsturs sem rekja mátti til auðhyggjunnar. Hún yrði að varpa þessu oki af sér með því að gera kynlífsbyltingu og varpa af sér oki fjölskyldubandanna.

Þetta var sú hugmyndafræði sem Margaret Sanger, frumkvöðull Planned Parenthood gerði að sinni og óaðskiljanlegur þáttur þessa voru fósturdeyðingarnar.

Fósturdeyðingar voru þannig hvergi jafn útbreiddar eins og í Sovétríkjunum sálugu og þeim löndum sem féllu undir áhrifasvæði þeirra.

Það sem er athyglisverðast við þessa stefnu er að hún heltók einnig konur þær sem tilheyra lýðræðissinnaðri jafnaðarmennsku og íhaldsstefnunni.

Sindri Guðjónsson skrifaði á www.ihald.is um fósturdeyðingar og Steingrímur Valgarðsson vék að hér nýverið á kirkju.net. Greinin er afar vel samin og yfirveguð þar sem Sindri rekur ástæður þess hversvegna hann er andvígur fósturdeyðingum. Ég hef lesið grein hans gaumgæfilega og þar leggur hann fram grundvallarafstöðu lýðræðissinna og hvers vegna þeir væru andvígir fósturdeyðingum.

Áhrif þau sem hún hafði á konur sem aðhyllast íhaldsstefnuna má líkja við fjaðrafok. Þessar konur geistust fram á fjölmörgum bloggsíðum og úthelltu úr skálum reiði sinnar yfir Sindra, iðulega með slíku orðbragði að ekki er eftir hafandi.

Ég verð að játa hreinskilningslega að mér er gjörsamlega hulið hvernig ungar íhaldsskonur geta tileinkað sér marxíska afstöðu í þessum efnum (feminismanum) þar sem hún stangast gjörsamlega á við kjarna íhaldsstefnunnar.

Svo virðist sem þessar konur séu allsendis fáfróðar um hinn jákvæða feminisma sem grundvallast á virðingu fyrir allri mannhelgi. Jákvæður feminismi felst í öflugri mæðravernd og hjálp til að gera konum sem auðveldast að eignast börn og ala þau upp með aðstoð ríkisins.

Margoft hefur komið fram að konur vilja ekki gangast undir fósturdeyðingar, heldur er þeim bókstaflega þrýst út í þær af her vinstrisinnaðs félagsfræðingastóðs sem hefur tileinkað sér monoeides marxismans í þessu sambandi.

Grein Sindra Guðjónssonar má sjá á:
http://www.ihald.is/roller/comments/ihald/Weblog/fostureydingar

Hún er skrifuð í mars 2005 og er í reynd svo vel skrifuð að Magnús ætti að hafa hana á Lífsverndarvefnum.

Ég held að þessar ungu íhaldskonur ættu að vakna upp af svefni marxismans og kanna sín fræði betur. Að lokum vil ég leggja áherslu á að orðið „monoeides“ felur alls ekki í sér neikvæða merkingu. Það sem máli skiptir er að horfa í rétta átt. Þannig horfir sannkristinn maður stöðugt til Krists og vegur allt og metur í hans ljósi, með sama hætti og ungar íhaldskonur ættu fremur að horfa til þeirrar mannhelgi sem lýðræðið hefur fóstruð sem óaðskiljanlegan hluta hugmyndafræði sinnar. Annars er mikið vá á ferðum.

Í þjóðfélögum þar sem fjölmiðlavaldið hefur heillast af lægstu hvötum manneðlisins verður einstaklingurinn að vera stöðugt á varðbergi. Því miður er Ísland nútímans lifandi dæmi um hina neikvæðu merkingu að baki orðsins „monoeides.“ Þannig erum við tilneydd að leita til erlendra fjölmiðla til að halda óbrenglaðri dómgreind í þessu moldviðri guðsafneitunar og allra göfugustu gildanna sem mannsandinn hefur alið af sér.

02.09.06 @ 12:48
Sindri Guðjónsson

Ég þakka góð orð í garð greinar minnar.

Hvar finn ég ummæli Steingríms Valgarðssonar?

“Sindri Guðjónsson skrifaði á www.ihald.is um fósturdeyðingar og Steingrímur Valgarðsson vék að hér nýverið á kirkju.net.”

12.09.06 @ 20:07
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Athugasemdina má sjá á:

Tengill

í fjórðu athugasemd að neðan.

16.09.06 @ 15:16