« FerðabænJesús, læknaðu mig ef þú vilt! »

21.04.08

  19:55:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 385 orð  
Flokkur: Vegurinn, sannleikurinn og lífið

Að taka afstöðu

Kafli úr bókinni VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ sem er trúfræðslurit um kaþólska trú (1981).

(3. k.)

"……… Eigi einhver von á mikilvægum skilaboðum, gerir hann allt sem í hans valdi stendur til þess að þau skilaboð fari ekki framhjá honum. Sé það nú hinn óendanlegi Guð, sem er að tala við þann sem hann hefur skapað, þá getur hinum skapaða ekki staðið á sama um hvort það er Guð sem talar eða ekki, eða hvað hann er að segja. Sá möguleiki, þótt ekki væri annað, að Guð gæti hafa beðið fyrir einhver skilaboð til okkar, hlýtur að knýja okkur til þess að kanna það mál og spyrjast fyrir um, hvort hann hafi í raun og veru látið einhversstaðar til sín heyra.

En þegar Guð talar, svo að ekki verður um villst, þá verður maðurinn að bregðast öðruvísi við en hann gerir að jafnaði. Þá er hann sá, sem talað er til, og þá verður hann að hlusta og taka afstöðu samkvæmt því sem talað er til hans. Hann getur lokað augum sínum og eyrum fyrir ræðu Guðs og athöfnum hans og hann getur líka hlustað og horft. En það sem Guð segir, er aldrei án skuldbindingar, og þessvegna hefur maðurinn ekki heimild til að svara því sem honum sýnist. Annaðhvort trúir hann því sem Guð segir eða hann verður sekur við hann (og þá er auðvitað gengið út frá því að hann viti eitthvað um þær staðreyndir sem felast í opinberun Guðs). Guð talar ekki til mannsins nema hann hafi eitthvað mikilvægt að segja honum, og þessvegna er það á valdi mannsins að nota tækifærið til þess að kynnast því sem mestu máli skiptir fyrir hann, um hann sjálfan og veröldina hans, eða fleygja þessu tækifæri frá sér. Enda þótt margir, sem "fyrir utan standa", líti svo á að lífið verði auðveldara ef maðurinn hafi enga trú, þá getur hver raunverulega trúaður maður borið vitni um að hann finni í trú sinni sanna gleði og hún geri líf sitt auðugra en það ella hefði verið. ………"

No feedback yet