« Ritningarlesturinn 26. ágúst 2006Ritningarlesturinn 25. ágúst 2006 »

25.08.06

  07:44:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 625 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Að nærast á Orði Drottins – ruminare

Í hugleiðingunni sem fylgir með ritningarlestri dagsins í dag – þann 25. ágúst – minnir systir Teresa Benedikta okkur á mikilvægi þess að nærast á orði Guðs í sífellu. Á fyrri hluta miðalda greip kirkjan til latneska orðsins ruminare til að lýsa slíkri íhugun orðsins. Í dag lifir þetta sagnorð enn í ensku sögninni „ruminate,“ að velta einhverju fyrir sér og kryfja til mergjar. Latneska sögnin ruminare þýðir bókstaflega að tyggja eða melta. Sálin nærist bókstaflega á orði Guðs eins og fæðu sinni og næringu. Allir gefa sér tíma til að næra líkamann daglega, að öðrum kosti deyr hann. Hið sama gegnir um sálina: Ef hún er ekki nærð deyr hún. Allir gefa sér einnig tíma til að anda, að öðrum kosti deyr líkaminn. Bænin er andardráttur Heilags Anda í sálinni og ef hún gefur sér ekki tíma til að anda í Guði deyr hún: Kafnar í brækju óhlýðninnar við boðorð Guðs!

Þrjár frumdyggðir alls trúarlífs eru þannig hlýðnin, auðmýktin og fátæktin. Þegar sálin lifir í auðmýkt hlýðninnar lærist henni skjótt að Guð er hin einu sönnu auðæfi hennar og því verður hún snauð gagnvart freistingum þessa heims, eins og Drottinn uppfræðir okkur um í freistingum sínum í eyðimörkinni: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig“ (Mt 4. 7). Þannig var Drottinn lítillátur og af hjartans auðmýkt sinni var fæða hans að gera vilja Guðs Föður á jörðu af fullkominni hlýðni allt til dauða á krossi.

Þegar einhver sál tekur að nærast í auðlegð Guðs á orði hans ljúkast auðæfi konungsríkis himnanna upp fyrir henni. Þau birtast í sálinni í mynd dyggðanna, en orðið dyggð er dregið af sögninni dugur, að vera dugandi hermaður Krists. Á öllum tímum hefur risið upp fólk í kirkjunni sem telur sig hafa öðlast miklar opinberanir og sýnir frá Guði. Hinn algildi mælikvarði til að dæma slíkt eru dyggðirnar. Ef þessi ummerki dyggðanna sjást ekki í slíkum sálum er reynsla þeirra ekki sönn heldur ávextir Satans þegar hann bregður sér í ljósengilslíkið til að villa um fyrir sálunum.

Rómversk kaþólskir og Orþódoxar lifa í hinni heilögu arfleifð sem þeir þekkja til hlítar. Hvítasunnumenn þekkja hins vegar ekki til hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar þar sem þeir koma úr mótmælendakirkjunni. En þegar verk þeirra og dyggðir eru metnar á mælikvarða hlýðninnar sjáum við að þær hafa borið góðan ávöxt sannrar guðrækni. Þetta sannast á Íslandi í dag vegna þess að þeir hvika ekki frá sannleikanum í baráttunni við sundlunaranda samtíðarinnar. Þetta er sökum þess að „lögmálið býr í hjörtum þeirra“ (Sl 40. 11). „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum ver sjá auglitis til auglits“ (1Kor 13. 12).

Ávextir hlýðninnar birtast með jafn ljósum hætti í Kína sem á Íslandi vegna þess að „hjörtum mannanna eru söm í Súdan og Grímsnesinu.“ Þegar kristin sál nærist á Orði Guðs er hún eins og fræið í frjósamri mold sem sígur sífellt til sín næringu úr jarðveginum og verður að stórviði í víngarði Drottins, eins og hann benti okkur á í dæmisögunni af mustarðskorninu.

4 athugasemdir

Steingrímur  Valgarðsson

Hver er arfleifð Rómverska Kaþólika og Orþódoxa?
Kv Steini

25.08.06 @ 21:42
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Læt nafna minn um að svara því (hann hefur skrifað langa röð greina undir yfirskriftinni Hin heilaga arfleifð), en þakka honum fyrir vekjandi texta og sterkan – og Steina fyrir virka og góða þátttöku í vefriti þessu.

25.08.06 @ 22:28
Athugasemd from: Kristinn H. Guðnason
Kristinn H. Guðnason

“Hver er arfleifð Rómverska Kaþólika og Orþódoxa? “

svar: 2000 ár af óhamingju fólks í Evrópu og Ameríku.

25.08.06 @ 23:18
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Svar til Kristins: Sitt hvorum augum lítur hver á silfrið. Vafalaust mun tuttugustu aldarinnar og fyrri hluta þeirrar 21. verða minnst sem þeirra blóðugustu og grimmilegustu í mannkynssögunni. Fræðimenn telja að kommúnistar hafi komið fyrir 60 milljónum manna í Sovétríkjunum, kínversk yfirvöld allt að 200 milljónum og nasistar 40 milljónum. Fríhyggjan hefur komið fyrir – ég segi og skrifa – einum milljarði ófæddra barna á tveimur áratugum.

Gott að Kristinn (sem ekki rís undir nafni sínu) skuli telja þetta mestu hamingjutíma í sögu mannkynsins.

Svar til Steina. Ég hef skrifað heilt skráarsafn hvað áhrærir hina heilögu arfleifð og ætla mér því ekki að endurtaka það allt hér.

Ef þú hefur nennu til getur þú kynnt þér þau skrif. En að útskýra slíkt fyrir mótmælendum er líkt og að útskýra Alhelga Þrenningu fyrir íslömskum fundamentalista.

Skrif mín eru fyrst og fremst ætluð kaþólsku fólki til umhugsunar. Þessi vefur er kaþólskur og það er nóg af fólki á góðum launum (karla og konur) sem boða mótmælendatrú á Íslandi.

26.08.06 @ 07:25