« Líkamleg lækning og andlegHinir hjartahreinu taka á móti fagnaðarerindinu »

12.04.08

  20:27:32, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 1003 orð  
Flokkur: Kraftaverk gerast

Að játast Guði

Systir Briege McKenna segir frá eftirfarandi atviki í bók hennar, Kraftaverk gerast:

Fyrir nokkrum árum kom faðir lítillar níu ára stúlku að hitta mig. Hann var örvilnaður. Einkabarn þeirra hjóna var að deyja úr hvítblæði. Hann hafði heyrt að ég hefði verið notuð sem verkfæri Drottins til að gefa fólki með hvítblæði lækningu, sérstaklega börnum.

Hann sagði í örvæntingu sinni, "Ég hef reynt allt en ekkert hefur virkað. Ég reyndi jafnvel Jesú en hann virkaði ekki heldur, svo að nú er það undir þér komið."

Ég svaraði, "Ef þú gleymir að ég vinn aðeins fyrir Jesú, ………

……… að ég er aðeins verkfæri hans, þá verður þú aftur fyrir miklum vonbrigðum."

Ég fór á spítalann með honum og vonaði að ég gæti að minnsta kosti huggað hann. Á spítalanum lá litla stúlkan og þjáðist mikið og var að deyja. Þegar ég kraup niður og tók um hönd litla barnsins fann ég að mér voru send skilaboð, "Ég þarf ekki lækningu en pabbi minn þarf hana. Ég er sátt við að fara."

Ég ákvað að ég yrði að tala við föðurinn vegna þess að hann var að reyna að þvinga mig til að segja sér að dóttir hans yrði læknuð. Það var það sem hann vildi heyra. Ef systir Briege segði það myndi honum líða vel.

Þegar ég kraup við rúmið langaði mig að geta sagt, "Hún verður læknuð eins og þú vilt." En þá væri ég að setjast í sæti Guðs. Ég væri að koma mér í stöðu þar sem ég leyfði meðaumkuninni að tala fyrir mig. Meðaumkun er alls góðs makleg en hún má ekki fá það hlutverk að tala fyrir munn Guðs.

Ég fór með föðurinn úr stofunni og inn í biðstofu þar sem ég talaði við hann og konu hans. Ég tók um hendur þeirra og sagði, "Ég vildi að ég gæti sagt við ykkur að Mary verði læknuð eins og þið viljið, en ég veit ekki hvernig hún verður læknuð. En ég veit að Jesús mun ekki valda ykkur vonbrigðum vegna þess að hann elskar ykkur og hann elskar Mary litlu miklu meir en nokkur annar. Hann mun gefa ykkur þann styrk sem þið þurfið og hann mun lækna Mary eins og hann veit best."

Foreldrarnir gátu ekki samþykkt það sem ég var að segja. Þau voru í miklu uppnámi. Þegar ég yfirgaf spítalann, vildi ég geta læknað Mary, en skildi að ég gat það ekki. Þessi skilningur, að ég get ekki gert það sem ég vil gera, sýnir að ég er aðeins verkfæri og hef enga stjórn á því hvað Guð gerir.

Fólk hegðar sér oft eins og maður geti stjórnað Guði og látið hann gera það sem maður vill að hann geri. Ef maður segi réttu hlutina eða hafi nógu mikla trú, þá hljóti Guð að virka. En í gegn um þessa reynslu hefur Guð kennt mér að hann breytir sér ekki til að þóknast okkur. En þegar við biðjum, breytum við samkvæmt vilja Guðs.

Þegar við skiljum þetta, getum tekið við því að lenda í erfiðum kringumstæðum vegna þess að Guð gefur styrkinn, náðina og yfirsýnina. Hann sýnir okkur vilja sinn skírar.

Um það bil þremur dögum eftir heimsókn mína á spítalann hringdu foreldrarnir og sögðu mér að Mary litla hefði dáið. Ég hugsaði strax, "Ég ætti að fara og hitta þau. Þau hljóta að vera mjög sorgmædd."

Ég man alltaf þegar ég sá fallegu, litlu stúlkuna í kistunni á útfararstofunni og foreldrarnir stóðu hjá. Faðirinn kom til mín, faðmaði mig og sagði, "Systir Briege, ég vil þakka þér." Hann snéri sér við, teygði handlegginn í áttina að litlu stúlkunni sinni og sagði, "Ég skil nú að lækning þýðir ekki að fá vilja mínum framgengt, heldur að fá styrkinn og náðina til að segja já við aðferð Guðs. Ég skil nú að Mary litla var ekki mín. Hún var gefin mér til að fóstra, elska og hugsa um, en hún var Drottins - og hver er ég að segja Guði fyrir verkum?"

"En," sagði hann, "ég vil segja þér að fyrir tveimur dögum gat ég ekki samþykkt þetta. Klukkustund áður en hún dó, gat ég ekki samþykkt þetta. Nú skil ég að Guð gefur okkur ekki styrk vegna einhvers sem kemur fyrir okkur eftir mánuð eða tvær vikur. Hann gefur okkur styrkinn á því andartaki sem við þurfum á honum að halda. Ég vildi bara þakka þér. Mary var læknuð og færð til himna, en ég, pabbi hennar, var skilinn eftir til að segja frá því hversu fagur máttur Drottins er og að hann svari bænunum."

Það sem faðirinn sagði, segir okkur um hvað lækning snýst. Lækning er að játast Guði. Þegar við, sem börn Drottins, getum játast honum, verðum við aldrei særð. Drottinn gerir aldrei neitt sem særir okkur. Hann er Guð kærleikans. Við særum okkur sjálf þegar drögum okkur í hlé og afneitum honum.

Mér er ljóst að það sem mér er ætlað í þessu lækningastarfi er að hjálpa fólki, í öllum stéttum og á öllum aldri, að játast Guði, alveg eins og ég verð að játast honum í mínu daglega lífi.

http://www.sisterbriege.com/

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta er fögur frásögn. Það er nákvæmlega svona sem Guð hefur leitt mér afstöðu kínverskar stjórnvalda fyrir sjónir. Orð heilags Páls koma í hugann:

Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar. Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri. Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar (Rm 1. 19-20).

Guð er að framkvæma ráðsályktun sína í Kína, einmitt núna, já, á þessari stundu. Milljónir kristinna manna hafa úthellt blóði sínu fyrir sannleika krossins: Liðið píslarvætti!

Fórnir þeirra eru ekki til einskis, heldur Guði til dýrðar! Tíbetar þjóna Guði eins og þeir þekkja hann af verkum hans í sköpuninni. En kommúnisminn er og verður helstefna.

Hann hefur hvergi þróast til góðs heldur skilið eftir sig tortímingu og dauða. Hann getur ekki þróast til góðs vegna þess að ljósið á ekkert sameiginlegt með myrkrinu.

Þótt stjórnmálafræðingar þessa heims trúi því enn sumir að kommúnisminn geti þróast, þá gera allar þjóðir í Austurlöndum fjær sér ljóst að hann er helstefna tortímingar og dauða!!!

Guð er að vinna stórkostlegt verk í Kína og mín spá er sú að í náinni framtíð nái mesta vakning mannkynssögunnar fram að ganga þegar Guð græðir kínversku þjóðina, rétt eins og föðurinn í frásögninni hér að ofan.

„Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum. En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum“ (1Kor 13. 9-10).

Biðjum fyrir Tíbet og Kína! Lifi frjálst Tíbet!

13.04.08 @ 00:46
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það sem faðirinn sagði, segir okkur um hvað lækning snýst. Lækning er að játast Guði. Þegar við, sem börn Drottins, getum játast honum, verðum við aldrei særð. Drottinn gerir aldrei neitt sem særir okkur. Hann er Guð kærleikans. Við særum okkur sjálf þegar drögum okkur í hlé og afneitum honum.

Þetta eru athyglisverð orð og þau sýna mikinn og djúpan skilning á Guði. Mér finnst þau sýna að ekki beri að líta svo á að kraftaverk séu tilneydd inngrip Guðs inn í gallað gangverk heimsins eins og einföld sýn á hann heldur stundum fram heldur vísbending um áskorun og þá áskorun í tvennum skilningi, þ.e. í fyrsta lagi persónulegri og einstaklingsbundinni áskorun um að játast Guði, þ.e. að taka lækningu hugarfarsins, “verði þinn vilji". Ég held líka að í kraftaverkum sem og öllum þeim erfiðleikum sem Guð heimilar að gerist felist um leið vísbendingar um áskorun fyrir mannkynið hvar það geti gert betur, í þessu tilfelli lagt sig betur fram og lagt áherslu á að finna lækningar við hvítblæði - eða hvað?

13.04.08 @ 09:09