« Löngu liðnir atburðir eru að gerast afturGalli og synd er ekki það sama. »

23.02.07

  22:31:37, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 120 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Að fara með bæn daglega um að fóstureyðingum linni

Lífsverndarfólk getur skipt sköpum með bænum sínum og fórnfýsi, því lífsverndarbaráttan er fyrst og fremst andleg barátta gegn öflum hins illa.
Við getum ekki hunsað þá staðreynd að um 900 fóstureyðingar eru framkvæmdar á hverju ári á íslandi.
Sum af þessum deyddu börnum gætu hafa orðið nágrannar okkar eða vinir barna okkar.
Kannski framtíðar tengdasonur eða tengdadóttir.
Að segja ekki neitt og gera ekki neitt andspænis slíku óréttlæti gangvart deyddum börnum, er nokkurs konar þáttaka með fóstureyðingum.
Vilt þú gera eitthvað?
Að minnsta kosti fara með bæn daglega um að fóstureyðingum linni á Íslandi.

10 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það verður að gera eitthvað. Það er t.d. ótækt að ekki skuli vera fleiri félagsleg úrræði í boði fyrir ungar mæður sem hugleiða fósturdeyðingu. Stuðningsmenn frjáls vals ættu ekki bara að styðja slík úrræði heldur líka berjast fyrir þeim. Ef þeir gera það ekki þá grafa þeir undan trúverðugleika sínum.

Eða hvernig ætti að vera hægt að samþykkja að félagsleg vandamál séu „leyst“ með læknisaðgerðum án þess að boðið sé upp á félagsleg hliðarúrræði til að velja um? Hafi það verið illskiljanlegt árið 1975 þá er það enn óskiljanlegra í dag þegar ríkisvaldið hefur úr meiri fjármunum að spila. Ef raunhæf félagsleg úrræði eru ekki til staðar þá er heldur varla um neitt frjálst val að ræða.

Andstæðingar fósturdeyðinga eru stundum stimplaðir öfgamenn af sleggjudómurum. En hverjar eru öfgarnar í þessu máli? Svari því hver fyrir sig.

24.02.07 @ 12:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ekkert siðað þjóðfélag getur veitt einum hópi þegna sinna rétt til að svipta annan hóp lífi. En því miður er þetta hin svarta hlið femínismans sem frú Margaret Sanger tók í arf frá Karli Marx og er í miklu dálæti hjá DAUAMENNINGU VERLADARHYGGJUNNAR bæði til vinstri og hægri hjá nútímakonum. Getum við ekki sagt að þetta sé „útrás“ vofu kommúnismans, blindrar auðhyggju guðsafneitunar og vegvilltra tæknikrata?

Ég vísa á bók Pauls Jalsevac á Vefrit Karmels:

GLÆPURINN GEGN MANNKYNINU

24.02.07 @ 12:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fyrir þessa þörfu áminningu, séra Denis. HÉR, til dæmis, eru nokkrar bænir fyrir hinum ófæddu og mæðrum þeirra.

Ég tek líka undir ýmislegt í innleggi þínu, Ragnar. En mörg félagsleg úrræði eru til hér á landi, sem bíða þeirra, sem vilja fæða barn sitt:

1) fæðingarorlof,

2) stórkostlega niðurgreiddir leikskólar (og niðurgreiðslur vegna dagmæðragæzlu),

3) nánast ókeypis skólaganga,

4) barnabætur, sem hækkuðu frá síðustu áramótum, og ríkistryggt meðlag fyrir einstætt, forsjárhafandi foreldri,

5) mæðravernd og ungbarnaeftirlit og almenn heilsugæzla, sem kostar lítið sem ekkert fyrir þá sem nota þessa þjónustu,

6) mömmumorgnar í ýmsum húsakynnum Þjóðkirkjunnar,

7) neyðarhjálp á vegum Félagsþjónustu Reykjavíkur, félagsmálayfirvalda annarra sveitarfélaga, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar o.fl. sérhæfðra aðila, einnig ódýr föt hjá Góða hirðinum og Hjálpræðishernum og ókeypis föt og matvæli hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni,

8) húsaleigubætur, sem skipta miklu máli,

9) félagslegt húsnæði á vegum Félags einstæðra foreldra, stúdentagarða, iðnnemagarða, borgarinnar, Öryrkjabandalagsins o.fl. aðila,

10) félagsleg stoð og andlegur sem efnislegur styrkur ættingja, í formi barnagæzlu, húsnæðishjálpar, peningastyrks eða lána, iðulega ókeypis matar o.m.fl.

Þannig er nú ástandið í landi okkar, Ragnar, og þótt við séum helzti vön því til að taka alltaf eftir þessu, þá myndi fólk í fjölda annarra landa ekki telja þessi orð þín eiga hér vel við: “Ef raunhæf félagsleg úrræði eru ekki til staðar þá er heldur varla um neitt frjálst val að ræða.” – Sem betur fer eiga þessi orð illa við um okkar góða land.

Hjálpum þunguðum konum til að sjá glætuna, sjá ljósið, gleðina og vonina. Það eru ótal sóknar- og varnarfæri fyrir konur, sem vilja berjast fyrir sig og barn sitt. Stöppum í þær stálinu, stöndum líka með þeim, ef þær leita hjálpar. Móðir og barn er t.d. hjálparstofnun, sem verður, nær dagar koma, endurnýjuð til nýs og meira starfs, ekki sízt í þágu þeirra kvenna sem ganga með barn undir belti.

24.02.07 @ 21:58
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Drottinn Guð, vak þú yfir sérhverju barni, fæddu sem ófæddu.
Gef þú öllum foreldrum styrk til að standa saman í gagnkvæmum kærleika, í hlýðni við vilja þinn. Amen.

24.02.07 @ 22:03
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hafðu þökk fyrir þessar ábendingar um félagslegu úrræðin Jón.

Vissulega eru leikskólarnir niðurgreiddir en fyrir einstæða móður eru þeir örugglega í einhverjum tilfellum of dýrir. Það getur sömuleiðis tekið lengri tíma að fá pláss á leikskóla en tíminn sem fæðingarorlofið veitir. Verðið á leikskólaplássinu er líka mismunandi milli sveitarfélaga. Barnabæturnar eru of lágar og meðlagið er of lágt. Almenna heilsugæslan hefur smátt og smátt verið að verða dýrari. Komugjöld og fleira telur ef ferðirnar verða margar. Húsaleigubæturnar eru sömuleiðis of lágar til að skipta neinu verulegu máli. Menntunarúrræðum fyrir einstæðar mæður er þó líklega að fjölga.

Hinn mikla fjölda fósturdeyðinga er erfitt að skilja nema horfa á hann í þessu ljósi.

24.02.07 @ 23:33
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sæll aftur. Heildarkostnaður vegna hvers barns á leikskóla er yfir 90.000 kr. á mánuði. Þess vegna talaði ég um “stórkostlega niðurgreidda leikskóla,” enda efast ég um, að nokkurs staðar borgi fólk 30.000 kr. eða meira á hvert barn í leikskóla; og svo koma systkinaafslættir og lægri gjöld til einstæðra foreldra og stúdenta inn í þetta líka.

Þakka þér aðra umræðu þarna, en þetta verður ekki raunhæf umræða til fulls nema með því að skoða alla tekju- og útgjaldapósta.

Nei, Ragnar, ég sé hinn mikla fjölda fósturdeyðinga EKKI “í þessu ljósi” þínu. Horfðu frekar á þrýstinginn, sem stúlkur eru beittar af foreldrum, barnsfeðrum og jafnvel vinkonum – og konur af tíðarandanum og eigin áætlunum – og á áhrif vanþekkingarinnar á fóstrinu meðal foreldra þess svo margra. Horfum aftur til upphafs þessarar vefgreinar.

Góða Drottins helgi.

24.02.07 @ 23:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sorgleg umræða fer fram á þessari síðu um fósturdeyðingar (og páfinn skammaður). En hér er ljós í myrkrinu, Moggafrétt frá í dag: Páfi hvetur kaþólikka til að berjast gegn fóstureyðingum. Hún er reyndar svo stutt, að vert er að taka hana hér upp alla:

Benedikt XVI. páfi hvatti í dag kaþólikka til þess að berjast án nokkurra undantekninga gegn árásum á rétt manna til lífs og nefndi þar fóstureyðingar og arfbótastefnu. Páfinn hitti gesti á ráðstefnu vísindamanna og guðfræðinga í Páfagarði í dag.

Páfinn talaði umbúðalaust og hvatti kaþólikka til að bregðast harkalega við „árásum á rétt manna til lífs um allan heim” sem hefðu færst í aukana og fjölgað og tekið á sig nýjar birtingarmyndir. Páfi minntist á aukinn þrýsting á stjórnvöld í Rómönsku Ameríku að leyfa fóstureyðingar og fóstureyðingatöflur, varaði við því að reynt væri að stýra fólksfjölda í kaþólskum löndum og „nýrri bylgju arfbótastefnu í nafni velferðar einstaklingsins.”

25.02.07 @ 00:00
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta mál hefur marga fleti og þú hefur rétt fyrir þér með þínar ábendingar. En erfitt þó að sjá að þessi atriði sem ég nefndi skipti litlu sem engu máli við ákvarðanaferli móður.

25.02.07 @ 08:10
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sem raunverulegar, þungbærar ástæður skipta þessi atriði ekki miklu máli að mínu mati, því að aðstæður hér á landi eru í raun afar góðar. En sem vissar afsakanir eða “réttlæting” skipta þessi atriði, sem þú taldir upp, Ragnar, máli: konur hafa gjarnan verið hræddar með því, að allt yrði svo erfitt, ef þær fæði barnið, því sé “betra", jafnvel nauðsynlegt, að farga því (eða “þessu", því að “þetta er svo sem ekki neitt neitt,” er þeim jafnvel sagt af þeim, sem þrýsta á).

En erfiðleikarnir eru til þess að yfirvinna þá, og til þess eru aðstæður í raun afar góðar hjá okkur og margar ungu konurnar sem hafa jafnvel í mun meiri fátækt en meðaltalið gengið þar á undan með fögru fordæmi og verið verðlaunaðar með yndislegu barni. Það er enn eins og því var lýst af lækni (um 1975-80), að það er miklu fremur stúlka í háskólanámi af vel efnuðu fólki, sem fer í fóstur(d)eyðingu, en fátækari fiskvinnslustúlkan úti á landi sem fæðir sitt barn – getur það og gerir það með glæsibrag.

Heilsufarsáhættan fyrir konuna sjálfa ætti að vera stór þáttur í því að fæla hana frá fósturdeyðingu, en einnig það atriði hafa þeir, sem atvinnugrein þessari tengjast, reynt að láta líta út sem smávægilegt og óraunhæft, alveg eins og þeir óvirða hitt: að taka tillit til eða bera virðingu fyrir lífsgildi og mennsku hins smáa fósturs. Guð komi hér með náð og fylli heiminn þekkingu sinni, veki upp þá, sem hjálpað geta, því að ekki get ég það.

25.02.07 @ 09:13
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Jú, auðvitað er þetta rétt hjá þér Jón. En hræddur er ég um að einhverjir sem ekki hafa hafa vel grundvallaða lífssýn láti nægja að miða breytni sína við lögin. Þ.e. miði gjörðir sínar ekki við grundvallarafstöðu heldur frekar það sem heimilt er í lögum. Í þannig tilfellum verður heimild í lögum að ákveðnum ‘gæðastimpli’ eða viðmiði sem hefur mótandi áhrif. Og jafnvel þó fólk taki grundvallarafstöðu gegn fósturdeyðingum má reikna með því að til séu einstaklingar sem gangi gegn þeirri lífssýn undir þrýstingi eða bara álagi.

Undir þeim kringumstæðum má gera ráð fyrir því að hagkvæmnissjónarmið ýmis konar vegi mun þyngra í ákvarðanaferlinu heldur en þau myndu gera að vel íhuguðu máli og við kjöraðstæður.

Ef ‘frjálst val’ á að vera frjálst og á að vera val þá þarf meira til en orðin tóm. Því verður vart á móti mælt að miðað við aðstæður sumra í dag að þá er holhljómurinn í málflutningi þeirra sem prýða sig með þessum tveim medalíum svo mikill að jaðrar við tómahljóð. Þeim væri nær að taka upp hanskann fyrir unga foreldra og sjá til þess að þeirra bíði þó mannsæmandi og sómasamlegt frjálst val. Ef þeir treysta sér ekki til þess þá ættu þeir að láta vera að styðja fósturdeyðingar opinberlega nema þeir vilji hætta á að missa allan trúverðugleika. Við hin sem erum á móti þessum aðgerðum megum svo að sjálfsögðu ekki heldur fría okkur þeirri ábyrgð. Hún er jöfn fyrir alla.

Það má í raun spyrja hvort samfélagið sé ekki orðið meðvirkt með þessu. Baráttufólk fyrir réttindum kvenna álítur þetta rétt þeirra þó svo allt eins megi varpa fram þeirri spurningu hvort sú réttindabarátta sé nokkuð annað en meðvirkni í þágu karllægra gilda. Þ.e. fyrst fær karlinn vilja sínum framgengt og síðan fríar hann sig af ábyrgð og segir móðurinni að ábyrgðin og valið sé hennar. Hvort vilji hún frelsið og ‘réttindin’ eða margra ára skuldbindingu og áhættu varðandi menntun og framavonir. Vitaskuld velur hún fyrri kostinn og trúir sínum manni. Hún trúir því sjálf að hún hafi bæði valið sjálf og nýtt sér frelsið þó í raun hafi hún bæði verið blekkt og svikin af sínum herra sem og af hinu meðvirka, óvirka og áhugalausa samfélagi.

27.02.07 @ 17:58