« Ekkert starf kirkjunnar er jafn mikilvægt og Kristselskan – hl. Jóhannes af Krossi, kirkjufræðariMaðurinn sér ekki vel nema með hjarta Kritstselskunnar – bæn »

12.04.08

  06:05:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1098 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

„Að biðja fyrir fólki (þjóðum) er að úthella blóði sínu“ fyrir „allan Adam“

Kafli úr bókinni Heilagur Silúan starets á Aþosfjalli eftir Sophronij arkimandríta (bls. 54-56):

Undarlegt og óskiljanlegt er hið kristna líf í augum heimsins. Allt er hér þversagnakennt, allt gengur þvert á þær siðvenjur sem gilda í heiminum. Ekki er unnt að varpa ljósi á slíkt með orðum. Eina leiðin til að bera skyn á slíkt er að lúta vilja Guðs, með því að virða boðorð Krists: Að ganga þann veg sem hann benti okkur sjálfur á.

Eftir að Silúan hafði meðtekið þessa opinberun Drottins tók hann að ganga þann veg sem honum hafði verið leitt fyrir sjónir. Frá og með þessum degi varð hann „ljúflingssöngur“ hans, eins og hann komst sjálfur að orði:

„Brátt mun ég deyja og aumkunarverð sál mín mun hverfa niður í svartnætti vítis. Þar mun ég brenna aleinn í myrkum eldtungunum og hrópa til Drottins hágrátandi: „Hvar ert þú ljós sálar minnar? Hvers vegna hefur þú yfirgefið mig? Án þín get ég ekki lifað.“

En þessi eldlegi vegur átti ekki eftir að verða neitt stundarfyrirbrigði og sú ljúfa elska sem hann glæddi í andlegri verund hans lét ekki á sér standa. Náðin hvarf ekki lengur frá honum eins og áður og hann varð áþreifanlega var við nærveru hennar í hjarta sínu. Hann skynjaði lifandi nærveru Guðs og var fullur undrunar á miskunn Guðs.

Djúpstæður friður Krists gagntók á stundum sálu hans og Heilagur Andi glæddi að nýju með honum mátt elskunnar. En þrátt fyrir að hann væri nú orð­inn að hugrökkum andlegum glímukappa hélt hann áfram að þjást vegna „sveiflnanna” og staðfestuleysi mennsks eðlis. Þannig hélt hann áfram að gráta af ósegjanlegum harmi þegar dró úr áhrifamætti náðarinnar hið innra með honum. Enn átti eftir að líða önnur fimmtán löng ár uns hann að lokum öðlaðist kraft með einni hræringu andans – ósýnilegri hið ytra – til að hrekja frá sér það sem áður olli honum svo mikilli þjáningu.

Eftir því sem áþreifanleiki náðarinnar jókst meira og varði leng­ur, þess meira jókst næmleikinn gagnvart Guði í sálu Silúans:

„Ó Drottinn,“ hrópaði hann upp yfir sig, „hvernig get ég þakkað þér fyrir þessa nýju og óumræðilegu náð, að þú skulir opinbera syndugum manni eins og mér leyndardóma þína? Heimurinn gengur á glötunarvegi, en þú opinberar mér, lítil­sigldustum allra manna, lífið eilífa. Drottinn, ég vil ekki vera sá eini! Gef allri heimsbyggðinni að þekkja þig!“

Smám saman tók samúðin með þeim sem ekki þekkja Guð að vega þyngra í bænalífi hans. „Að biðja fyrir fólki er að úthella blóði sínu“, sagði staretsinn, þeirra sem lært hafði að elska með Kristselskunni í Heilögum Anda.

Kristselskan er ljúfleiki sem ekkert annað í þessum heimi kemst í samjöfnuð við. En jafnhliða þessu felur hún í sér þján­ingar sem eru öllum öðrum þjáningum meiri. Að elska með Kristselskunni er að bergja á kaleiknum, þeim kaleik sem Krist­ur bað Föður sinn að færi fram hjá sér (sjá Mt 26. 39, Mk 14. 36 og Lk 22. 42).

Í hreinni bæn lærist djúphyggjumanninum hinn mikli leyndardómur hins andlega lífs. Hann lætur anda sinn síga niður í hjartað, í fyrstu hið náttúrlega hjarta, en síðan nið­ur í þau djúp sem eiga ekkert sameiginlegt með holdi og blóði. Hann uppgötvar hjartadjúpið, hinn andlega og háspekilega kjarna verundar sinnar. Þar sér hann að tilvist mannkynsins er ekki eitthvað sem er honum framandi og óviðkomandi, heldur óaðskiljanlegur hluti hans eigin tilvistar.

„Bróðir okkar er líf okkar,“ sagði staretsinn.

Í Kristselskunni verða allir menn að óaðskiljanlegum hluta okkar eigin einstaklingsbundnu og eilífu tilveru. Silúan starets skildi sífellt betur að boðorðið um að elska náungann eins og sjálfan sig er eitthvað meira heldur en einungis hrein siðferðileg krafa. Í orðunum sá hann ekki aðeins vikið að vaxandi mætti elsk­unnar, heldur sameiginlegri tilvist alls mannkynsins.

„Enda dæmir Faðirinn engan, heldur hefur hann falið Syninum allan dóm . . . því að hann er Mannssonurinn“ (Jh 5. 22-27). Þessi Mannssonur, hinn mikli dómari heimsins, mun segja við hinn hinsta dóm, að „einn á meðal þessara minnstu bræðra“ sé einmitt hann sjálf­ur. Eða með öðrum orðum: Hann gerir sérhverja mennska tilvist að hluta einstaklingsbundinnar til­vistar sjálfs síns. Mannssonurinn hefur gert allt mannkynið að hluta af sjálfum sér – „allan Adam“ og þjáðist fyrir hann. Páll post­uli sagði að við ættum líka að hugsa og finna til með sama hætti: Að vera „með sama hugarfari og Kristur“ (Fl 2. 5).

Þegar Heilagur Andi uppfræddi Silúan um Kristselskuna, gafst honum raunveruleg hlutdeild í þessu lífi og að gera líf alls mannkynsins að sínu lífi. Innileg bæn hans þegar hann grét sökum alls mannkynsins batt hann „öllum Adam“ sterkum böndum. Fyrir þann sem hefur upplifað upprisu sinnar eigin sálar, er eðlilegt að líta á sérhvern mann sem bróðir sinn til eilífðar. Í jarðnesku lífi okkar er um ákveðinn tímanlegan og landfræðilegan aðskilnað að ræða, en í eilífðinni erum við öll eitt. Af þessum sökum eigum við ekki einungis að beina at­hyglinni að okkur sjálfum, heldur horfa einnig til þessarar einingar.

Eftir að hafa sjálfur upplifað vítiskvalirnar og hvatningarorð Drottins: „Láttu anda þinn dvelja í víti,“ var það Silúan starets einkar hjartfólgið að biðja fyrir hinum framliðnu og þeim sem þjást í víti. En hann bað einnig fyrir lifendum og óbornum kyn­slóðum. Í bæn sinni sem náði út yfir tímanleg mörk gufaði allt upp sem aðskildi menn. Í þjáningum sínum fyrir hönd mann­kynsins sá hann einungis tvo hópa manna: „Þá sem kynnst höfðu Guði“ og „þá sem höfðu ekki lært að þekkja Guð“. Hann mátti ekki til þess hugsa að einhver yrði hinu „ysta myrkri“ (Mt 22. 13) að bráð.

No feedback yet