« Biðjum vér, góð systkinLát þú þetta eigi verða að verðleika órum »

08.03.06

  06:53:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 733 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Abba Makaríos og skrattinn

Meðan abba Makaríos hafðist við í þeim hluta eyðimerkurinnar þar sem hann settist að (vegna þess að neðri eyðimörkin var þéttsetin bræðrum), horfði hann niður eftir veginum kvöld eitt og sá djöfulinn koma í mannslíki íklæddan línkyrtli með ótal götum og úr hverju gatanna sveiflaðist lítil krús. Og öldungurinn sagði við hann: „Hvert ert þú nú að fara, illvirki.” Og hann svaraði: „Ég er að fara til að erta bræðurna sem búa í hinu neðra.” (neðri eyðimörkinni). Og öldungurinn sagði: „Hvers vegna ertu með svona margar krúsir meðferðis?” Og hann sagði: „Ég er með einhverja huggun fyrir bræðurna og ástæðan til þess að ég ber svona margar krúsir er sú, að ef þeim geðjast ekki að einni, þá sýni ég þeim aðra. Og ef þeim gest ekki að henni sýni ég þeim enn aðra. Því fer ekki milli mála að einhver þeirra kemur að notum.”

Og að þessum orðum mæltum hvarf hann á brott. En öldungurinn stóð í sömu sporum og horfði niður eftir veginum þar til hann snéri við og þegar djöfullinn birtist sagði öldungurinn: „Gangi þér allt í haginn.” En djöfullinn sagði: „Hvernig getur þú fengið þér af að segja þetta þegar þeir hafa allir snúist gegn mér og engin vill hlíta ráðum mínum?” Og öldungurinn sagði: „Ertu þá alveg vinalaus?” En djöfullinn sagði: „Ég á mér einn vin sem er mér einhuga og í hvert skipti sem hann sér mig snýst hann um eins og skopparakringla eins og mér þóknast.” Og þegar Makaríos innti djöfulinn eftir nafni hans, svaraði hann: „Hann er nefndur Þeopemptos.” Síðan hvarf hann á brott og abba Makaríos reis á fætur og stefndi för sinni til neðri eyðimerkurinnar. Og þegar bræðrunum bárust þessi tíðindi komu þeir til móts við hann og allir undirbjuggu sig í von um að Makaríos myndi dvelja í klefa hans. En hann spurðist fyrir um klefa Þeopemptosar og lagði leið sína þangað.

Og þegar honum hafði verið fagnað og þeir settust niður, sagði öldungurinn: „Hvernig er högum þínum varið, sonur minn?” Og hann svaraði: „Nú sem stendur gengur mér allt í haginn,” sökum þess að hann blygðaðist sín. Og öldungurinn sagði við hann: „Sjáðu til. Eftir öll þessi ár í eyðimörkinni þar sem allir hafa mig í heiðri jafn aldurhniginn og ég er, þjaka illar hugsanir mínar mig ennþá.” Og Þeopemptos svaraði: „Trúðu mér faðir. Það sama má segja um mig.” Því næst greindi öldungurinn frá hverri ímyndinni á eftir aðra sem þjökuðu hann, uns Þeopemptos hafði gert játningu sína fyrir honum. Þá spurði Makaríos: „Hvernig heldur þú föstuna?” „Allt til níundu stundar.” Og öldungurinn sagði: „Fastaðu til kvöldmála og íhugaðu ávallt eitthvað úr guðspjöllunum eða hinum ritningunum. Og í hvert sinn sem einhver óhrein hugsun glæðist með þér skaltu ekki líta niður heldur upp til Guðs og hann mun koma þér skjótt til hjálpar.”

Skömmu síðar snéri abba Makaríos til sinnar eigin einveru. Og hann horfði aftur niður eftir veginum og sá djöfulinn koma og spurði hann: „Enn á faraldsfæti?” Og hann svaraði: „Til að erta bræðurna enn einu sinni.” En þegar hann snéri til baka, spurði Makaríos hver viðbrögð bræðranna hefðu verið. Og hann svaraði: „Þau voru slæm vegna þess að þeir eru allir orðnir illskeyttir og það sem mér sárnar mest er að sá sem ég átti að vin og hlýddi mér í einu og öllu hefur snúist gegn mér. Ég veit ekki hvers vegna og hann virtist harðskeyttari en allir hinir til samans.” Og hann sór þess eið að láta ekki sjá sig þar um slóðir á næstunni og að svo mæltu hvarf hann á braut.

Birt sökum heilags guðspjalls Jesú Krists þann 8. mars

No feedback yet