« Lát þú þetta eigi verða að verðleika órumÞess biðjum vér í þvísa lífi »

07.03.06

  09:33:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1811 orð  
Flokkur: Bænalífið, Faðirvorið

Abba Ísak og Faðirvorið

Þegar þeir Jóhannes Kassían og vinur hans, Germanus, dvöldust meðal eyðimerkurfeðranna um fjórtán ára skeið (um 386-400) var abba Ísak á vegi þeirra. Jóhannes lýsir viðræðum sínum við hann í 9. og 10. kaflanum í Collationes. Engin skrif um bænalífið hafa haft jafn víðtæk áhrif í kirkjusögunni eins og einmitt þessi. Þannig byggði Benedikt frá Núrsíu reglur sínar á frásögnum Kassíans af viðræðum sínum við abbana. Í Austurkirkjunni er Kassían ávallt nefndur „Rómverjinn.“ Abbann líkti bæninni við að byggja andlegan turn dyggðanna.

En áður en við hefjum að reisa hinn andlega turn sem dæmisaga guðspjallsins skírskotar til (Lk 6. 46-49), verðum við að gera okkur ljóst hvers við þörfnumst til að reisa turninn og hvað það er sem er honum skaðlegt eða stefnir tilvist hans í voða. Í upphafi verður að undirbúa sjálft byggingarsvæðið, að uppræta óráð lastanna og sigrast á öllum skaðlegum löngunum, þannig að hjörtu okkar séu grundvölluð á óhagganlegu bjargi (Lk  6. 47), traustri rótfestu sem grundvallast á einfaldleika og auðmýkt. Það er einungis unnt að reisa turn andlegra dyggða sem nær til himinhæða á slíkum grunni (sem beinist að guðdómlegu ásæi og kyrrð hjartans). Þegar hann er reistur á grundvelli einfaldleika og auðmýktar getur hann ekki fallið um sjálfan sig. Ekkert fær hann þá til að riða til falls, hvort sem það svo er vatnsflóð ástríðnanna eða flóðbylgjur ofsókna eða megna stormsveipir fjandsamlegra anda að hagga honum úr stað.

Það er til bæn sem kennir okkur að stefna að þessu ástandi í elsku, en það er hin „Drottinlega bæn”, Faðirvorið (Mt 6. 9). Þegar við lofum Guð og Drottinn alheimsins sem Föður okkar – samkvæmt boði hans –  játum við að við höfum verið hafnir upp úr þrældómsokinu til sonararfleifðarinnar.
   Því bætum við auk þess við: Þú sem ert á himnum. Tími okkar hér á jörðinni er sem útlegð. Við erum líkt og framandi gestir í ókunnu landi vegna þess að við lifum aðskildir frá okkar himneska Föður. Við skulum láta hér staðar numið! Við skulum beina för okkar af brennandi ákafa til þess lands þar sem Faðir okkar býr sem við játum í trú.
   Þegar við höfum þannig verið hafnir upp til stöðu sonanna og brennum í barnslegri hrifningu skulum við ekki leita fullnægju í þessari hreinu elsku heldur nota hana af einlægni til að vegsama Föðurinn með því að ákalla hann: Helgist þitt nafn – en með þessu látum við í ljós að þrá okkar og fögnuðurinn felur í sér að vegsama Föðurinn.

9. 19. Í annarri bónarbæninni biðjum við í hreinleika hjartans um að ríki Föðurins muni brátt birtast – en auk þess það ríki þar sem Kristur birtist dag frá degi í hinum heilögu sem konungur þegar veldi djöfulsins er brotið á bak aftur í hjörtum okkar með upprætingu lastanna og Guð tekur að ríkja í okkur í undursamlegum ilmi dyggðanna (sjá 2 Kor 2. 15). Þetta þýðir bókstaflega: Þegar hreinleikinn hefur sigrast á saurguninni og mildin verður ríkjandi þegar reiðin hefur liðið undir lok og auðmýktin birtist þegar stærilætið hefur verið bælt niður og hún (auðmýktin) gagntekur hjörtum okkar.

9. 20. Þriðja bónarbæn sona Guðs hljóðar: Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Er um nokkra aðra svo háleita bæn að ræða eins og þessa þrá: Að hið jarðneska samlíkist sjálfum himninum? Tjáir ekki þessi bæn þá ósk að mennirnir verði sem englarnir, uppfylli vilja Guðs eins og þeir sem dvelja á himnum , að allir hér á jörðu hlíti ekki eigin vilja heldur hans? Þannig getur einungis sá beðið sem biður úr djúpi hjartans, sá sem treystir því að Guð standi öllu að baki, hvort sem slíkt virðist boða hamingju eða ógæfu hvað sjálfa okkur áhrærir og að Faðirinn beri meiri umhyggju fyrir heill og velferð sinna heldur en við megnum að gera sjálfir.

9. 21. Þá kemur önnur bónarbæn: Gef oss í dag vort yfirskilvitlega brauð (ton arton himon ton epiousion, id est panem supersubstantionem) (Mt 6. 11). Í öðru guðspjalli stendur „daglegt” – það er að segja: Brauðið býr yfir eiginleika sem er svo háleitur að eðli til, að í hátign sinni og mætti er það æðra öllu hinu skapaða. Það er ekki um einn einasta dag að ræða sem við þörfnumst þessi ekki til að metta hjarta okkar til styrkingar hinum innri mann, [1] 

9. 22. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Ó þú ósegjanlega mildi Guðs! Guð gefur okkur ekki einungis fyrirmynd í bæninni. Hann hefur ekki einungis leitt okkur fyrir sjónir hvernig hann vill að afstaða okkar sé, heldur einnig hvernig rífa eigi upp með rótum reiðina og hryggðina þegar við biðjum þessa bæn daglega eins og hann vill. Hann sýnir þeim sem biðja hana einnig sjálfan veginn og hvernig við getum falið Guði allt á hendur og dæmt okkur sjálfa af gæsku og mildileika. Guð gefur okkur vissulega vald til að milda úrskurð dómara okkar sökum þess að með hliðsjón af okkar eigin fyrirgefningu knýjum við hann til að fyrirgefa okkur okkar eigin syndir, þegar við segjum við hann: Fyrirgef oss eins og vér fyrirgefum.
   Í trúartrausti þessarar bænar getur sérhver beðið um fyrirgefningu eigin synda af öryggi með því að auðsýna sínum eigin skuldunauti gæsku. Sá sem fyrirgefur hins vegar ekki bróðir sínum sem brotið hefur gegn honum afmáir þannig ekki sína eigin sekt með því að biðja þessa bæn, heldur kallar yfir sig dóm. Með þessum kallar hann yfir sig enn harðari dóm í bæninni vegna þess að hann segir: Fyrirgefðu mér eins og ég fyrirgef. Ef við viljum að Guð dæmi okkur í mildileika sínum og miskunn verðum við að vera mildir og miskunnsamir gagnvart þeim sem hafa gert á hlut okkar.

9. 23. Og eigi leið þú oss í freistni. Þessi bónarbæn þýðir ekki að Guð muni ekki leiða okkur í freistni, heldur: Lát það ekki henda að við bíðum lægri hlut fyrir freistingunni. Ef við mundum biðja um að við værum aldrei leiddir í freistni, stendur þá ekki skrifað: „Sá sem hefur eigi glímt við freistingu hefur ekki verið fullreyndur” (Sír 34. 11)? Abrahams var freistað og Jakobs var freistað, en hvorugur þeirra beið lægri hlut í freistingunum vegna þess að þeir létu ekki undan freistingunni.
   Að lokum kemur svo bónarbænin: Heldur frelsa oss frá illu. Þetta þýðir: Gef að djöfullinn freisti okkar ekki um megn fram, heldur „sýn okkur veginn út úr freistingunni svo að við fáum staðist” (1 Kor 10. 12).

9. 24. Þetta er sú fyrirmynd sem dómari okkar gaf okkur, þannig að við gætum beðið með þessum hætti. Hér er ekki að finna neina beiðni um veraldlegan auð, ekkert þakklæti fyrir mannvirðingar, enga löngun eftir valdi og styrk, ekkert ákall um líkamlegt heilbrigði eða  annað það sem felst í þessu lífi milli fæðingar og dauða. Sá sem lagði grundvöllinn að eilífðinni vill ekki að við ánetjumst hinu fallvalta, inntakslausa og hverfulleika tímans. Sá sem lætur undir höfuð leggjast og biður fremur um hið fallvalta og forgengilega hafnar hátign hans og gjafmildi.

9. 25. Þrátt fyrir að Faðirvorið feli augljóslega í sér fyllingu fullkomleikans sem grundvallast á valdi sjálfs Drottins, hefur Guð engu að síður þá sem eru nánir trúnaðarvinir hans til enn hærri tinds, eins og þegar hefur verið vikið að (9. 14, 15, 18): Þetta er hin hreina eða brennandi bæn. Einungis fáir vita um þessa bæn eða hafa reynt hana. Hún er, eins og ég hef áður sagt, ósegjanleg og æðri öllu mennsku vitundarástandi. Þessi bæn birtist hvorki í áhrifamætti sínum í hljóðum, röddum eða á mæltu máli eða í orðum. Innsta eðli mannsins er baðað í himnesku ljósi – sem ekki er unnt að tjá í takmarkanleika mennsks máls – og þaðan sprettur hún upp og hrífur manninn frá sjálfum sér líkt og úr yfirfullum brunni tilfinninga, þrungin ástúð og stígur upp til Guðs. Í núi eins andartaks ber þessi bæn svo mikið fram fyrir Guð, að maðurinn getur aldrei talað um slíkt eða hugsað þegar hann snýr aftur til sjálfs síns. Við sjáum einnig dæmi um þessa bæn hjá Drottni þegar hann leitaði einverunnar á fjallinu (sjá Lk 5. 16) og bað hljóður og einnig þegar blóðdropar spruttu fram á enni hans í angist hans. Þetta er dæmi um yfirskilvitlega fórnarbæn sem ekki er unnt að líkja eftir.

[1]. Það var einmitt á þessum árum sem hl. Jeróme var að þýða Vulgata sem leysti Veta Latina af hólmi innan Vesturkirkjunnar. Þar þýðir hann Faðirvorið í Markúsarguðspalli með þessum sömu orðum. En í Lúkasarguðspalli má lesa orðin hið daglega brauð. Ástæðan er ókunn. í rússnesku þýðingunni er þannig talað um hið nauðsynlega daglega brauð og sama gegnir um forna armeiska texta. Hið nauðsynlega brauð er vitaskuld efkaristían. Í Austurkirkjunni er epiousian notað í gríska textanum, en enski textinn í helgisiðum messunar hljóðar our daily bread.

Heilagur Maxímos játarinn hefur varpað einstæðu ljósi á þennan sannleika með andlegri skarpskyggni sinni. Í verkum sínum vekur hann athygli á þeirri staðreynd, að hin raunverulega synd þeirra Adams og Evu hafi falist í því að hafna „brauðinu sem koma af himni ofan“ í syndafallinu. Hann kemst svo að orði:

Næring þessa blessaða lífs er Brauðið sem kom af himni ofan og veitti heiminum líf, eins og Orðið sem fer ekki með ósannindi komst að orði um sjálfan sig í guðspjöllunum. Þar sem hinn fyrsti maður hafnaði því að nærast á þessu Orði, var hann með réttu útilokaður frá hinu guðdómlega lífi og öðlaðist þar með annars konar líf háðu fallvaltleika dauðans. (Ambigua PG 91, 1157A).

No feedback yet