« Enn bætast guðfræðingar og prestar úr röðum lútherskra í kaþólsku kirkjunaSamkynhneigðir jafnhæfir til barnauppeldis og aðrir? »

14.05.06

  12:18:05, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 208 orð  
Flokkur: Siðferði og samfélag, Ýmis skáld

Á mæðradaginn 2006

Í dag er mæðradagurinn – við heiðrum mæður okkar í orði og verki. – Þjóðfélagið býður fram sína félagslegu þjónustu fyrir þá, sem komnir eru á efri ár, en reyndar nær hún stundum allt of skammt, eins og þekkt er af umræðu samtíðar okkar. En horfum líka til þess tíma, þegar ömmur okkar komust á efri ár, lifðu gjarnan maka sinn, en áttu þá víst húsaskjól hjá einhverju barna sinna. Alltjent er ljóst, að hið opinbera getur aldrei tekið á sig þær sonar- og dótturskyldur, sem okkur sjálfum tilheyra. Hlýðum nú á orð Gísla Jónssonar, úr ljóði hans Móðir:

Þótt sonurinn flýi úr fátækt og þröng,
samt fellir hann tár og er hljóður,
ef aðeins hann skilur þar eftir á braut
sína' ástríku, hjartfólgnu móður.

Þótt eignist hann vini um víðan heim
og virðing hans aukist og sjóður, ––
hann veit engin ást er eins einlæg og heit
og ástin hjá trygglyndri móður.

–––––––––––––––––––––
Úr bókinni Til móður minnar. Kvæði. Ragnar Jóhannesson og Sigurður Skúlason tóku saman. Rvík, 1945, s. 72.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Megi Logi Elsku hins flekklausa Hjarta Maríu umvefja allar mæður og feður þessa lands og blinda Satan og
hersveitir hans í framsókn dauðamenningarinnar!

14.05.06 @ 13:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vel og réttilega mælt, bróðir Jón.

14.05.06 @ 13:32
Lúðvík Emil Kaaber

Góðan dag, góðir kaþólikkar.

Afskaplega hef ég nú stundum gaman af vefspjalli og innleggjum ykkar, og fyrir kemur að mér finnast þau líka auðgandi og benedicentes. Hitt er annað, að mér finnst meðferð margra ykkar á “ástkæra ylhýra” svolítið hvatvísleg og enskulapskennd á köflum.

Nóg um það að sinni, en mig langar til að koma á framfæri við ykkur afskaplega fallegu kvæði eftir prótestantíska (eða alla vega ekki kaþólska) fornbókmenntafræðinginn Jón heitinn Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn, er heitir einfaldlega “Maríukvæði". Jóni var afar lagið að setja sig í annarra skálda spor, og jafnvel að yrkja fyrir þau. Hér yrkir hann í orðastað einhvers Íslendings áður en ólöglegt varð að yrkja þannig:

María drottning mild og fín
mætust allra kvenna,
oft eg dirfumst upp til þín
augum mínum renna.
Þung munu lýtin þykja mín,
þess eg hlýt að kenna
þá annað ljós mér í augu skín
eftir bjarma þenna.

[Hann hefur sem sagt orðið var við bjarma hérna megin, blessað skáldið. En hvernig verður manni við, þegar sjálft ljósið skín í augu?]

Mun þá býsna beiskleg skál
bylla út syndum mínum,
djöflar tendra brennheitt bál,
búast við fengi sínum,
mun þá um aldur aumleg sál
engjast sárt í pínum,
utan hið ljúfa líknar mál
líði af vörum þínum.

Allt er hálft sem ég fæ gert
undir jarðlífs þunga,
bænamálið blandið hvert
bæði deyfð og drunga.
Fyrirlát þú mér fræðið skært
fagnaðar blómstrið unga,
ekkert lof sem um sé vert
yrkir dauðleg tunga.

Ég er ekki viss um að þetta kvæði sé hafið yfir gagnrýni þeólógískt séð (þ.e. að María hafi sjálf fyrirgefningarvald; kannske er hér bara verið að fara fram á intercessionem), en fallegt finnst mér kvæðið, og talað þar af kærleika og virðingu til þessa mesta manns heimssögunnar, sem var ekki hershöfðingi og ekki stjórnmálamaður, heldur kona og móðir. Það er prentað í síðustu kvæðabók Jóns (frá 1997 eða svo, minnir mig), og er með þeim undrum gjört að vera með miðaldastafsetningu (sem veldur því að ég er ekki alveg pottþéttur á að ég fari rétt með það á nútímastafsetningu; a.m.k. tvö önnur kvæði Jóns í þeirri bók eru með sama hætti stafsett, nefnilega “Tannlæknakvæði” og “Hvar fæ ég höfði hallað", bæði stórskemmtileg, þannig séð.

Mér er ljóst að þetta innlegg mitt er eiginlega ekki athugasemd, heldur eiginlega barasta innlegg. En ekki kann ég aðra aðferð til að koma þessu á framfæri en að nota aths-möguleikann á vefsíðunni, og hananú.

Með beztu kveðjum,
Lúðvík Kaaber.

21.05.06 @ 19:14
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

free open source blog