« 9. Litanía hins Alhelga Hjarta JesúRitningarlesturinn 18. október 2006 »

18.10.06

  08:30:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 633 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

8. Helstu þættir guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú.

8. Alhelga hjarta

Guðrækni hins Alhelga Hjarta birtist í nokkrum myndum í samfélagi kirkjunnar. Mikilvægustu þættir hennar eru eftirfarandi:

Hátíð hins Alhelga Hjarta, en hún er haldin á fyrsta föstudeginum eftir Kristslíkamahátíðina (Corpus Christi).

Meðtaka Evkaristíunnar og gera yfirbót sökum eigin synda og annarra með því að minnast píslarsára Drottins á fyrstu föstudögunum í 9 mánuði samfellt.

Heilög stund iðrunar og yfirbóta milli klukkan 11 og 12 á hádegi á fimmtudeginum sem fer á undan hinni níu föstudagayfirbót.

Að biðja sérstaka rósakransbæn hinu Alhelga Hjarta til vegsemdar.

Að fara með og syngja Litaníu hins Alhelga Hjarta Jesú.

Að koma mynd eða líkneski af hinu Alhelga Hjarta fyrir á heimilum, í kirkjum, sjúkarahúsum og öðrum opinberum stöðum.

Að bera sífellt á sér bænakort með mynd af hinu Alhelga Hjarta Jesú með ákalli til hans sem farið er með þegar tækifæri gefst í dagsins önn og áður en mikilvægar ákvarðanir eru teknar.

Guðrækni hins Alhelga Hjarta er í sífelldri þróun innan helgisiða kirkjunnar. Auk þeirrar guðrækni sem vikið er að hér að ofan og rekja má til þeirra heil. Jean Eudes og Margrétar Maríu Alacoque má þannig minnast á það afbrigði hennar sem glæddist með opinberunum heil. Maríu Faustina Kowalska í Póllandi, en þar er áherslan á hina miskunnsömu elsku Kristshjartans. Hún felst í að fara með sérstaka bæn á rósakransi Jesús Krists, Konungs hinnar miskunnarríku elsku. Auk þess í sérstakri guðrækni á hinu Alhelga Hjarta klukkan þrjú á daginn, í Níudagabæn hins miskunnsama Hjarta Jesú og að leggja rækt við dagleg miskunnarverk.

HELGUNARBÆN FRAMMI FYRIR HJARTA JESÚ
(fyrir einstaklinga og fjölskyldur)

Drottinn Jesús Kristur! Við helgum þig okkur í dag, hvert og eitt og öll til samans sem fjölskylda. Hið Alhelga Hjarta þitt, Hjarta krossfests og upprisins líkama þíns, er ævarandi uppspretta miskunnar og náðar, elsku og vonar okkur til handa. Við viljum helga þér okkur sjálf og líf okkar sem þakklætisvott.

Kenndu okkur að vera ávallt sameinuð þér í þínum Heilaga Anda af huga og hjarta, í öllum hugsunum okkar, orðum, athöfnum, gleði og þjáningum. Gef að okkur megi lærast að bera sífellt fyllra skyn á þig, að að elska þig með fyllri hætti og fylgja þér með fyllri hætti.

Við viljum taka þátt í endurlausnarverki þínu í heimi okkar, þannig að vilji Föðurins verði sannarlega ríkjandi á jörðu eins og á himnum, þannig að menning réttlætis og elsku verði ríkjandi í landi okkar.

Alhelga Hjarta Jesú. Hjálpaðu okkur til að uppræta syndina í okkar eigin lífi. Hjálpaðu okkur til að vera elskurík og þjóna og fyrirgefa hvert öðru. Lifðu ætíð í hjörtum okkar og á heimilum okkar. Gef að við megum verða þín að fullu og öllu.

Við endurnýjum helgun okkar í þínu Alhelga Hjarta ásamt með Flekklausu Hjarta Móður okkar þannig að dýrð okkar himneska Föður megi sífellt fara sívaxandi.

Jesús, María og Jósef. Verið með okkur og blessið okkur núna og á dauðastund okkar. Amen.

BÆN:
Alhelga Hjarta Jesú. Gef í miskunnarríkri náð þinni að mitt bersynduga hjarta megi verða gagntekið sama ástarfuna elsku og þitt eigið Hjarta. Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og gef mér nýjan stöðugan anda.

Næst. 9. Litanía hins Alhelga Hjarta Jesú, sem faðir Jean Croiset S. J. samdi upphaflega og Leó páfi XIII samþykkti síðan eftir örlitla breytingu á henni sem Stjórnardeild trúarkenninga gerði árið 1899.

No feedback yet