« Ritningarlesturinn 15. október 2006Ritningarlesturinn 14. október 2006 »

14.10.06

  06:41:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1959 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

7. Samfélag milljarða hjartna

Í heilagri arfleifð kirkjunnar er íkonan nefnd „gluggi til himins.“ Í íkonunni tjáir kirkjan þá íhugun sem á sér stað í hennar eigin hjarta, rétt eins og Guðsmóðirin varðveitti allt í hjarta sínu og hugleiddi (sjá Lk 2. 19). Íkonan er bendill til himna í lífi náðarinnar, rétt eins og myndin af hinu Alhelga Hjarta er bendill til ástarfuna elsku Kristshjartans. Og eftir að Drottinn opinberaðist okkur í holdtekju sinni á jörðu getum við dregið upp myndir af honum því að hið stranga lögmál Gamla sáttmálans um myndlausan Guð var afnumið í eitt skipti fyrir öll með holdtekju Dottins sem opinberaðist okkur í grashálmi jötunnar. Þetta voru rök kirkjunnar gegn íkonubrjótunum á sínum tíma sem samþykkt voru á Öðru samkirkjuþinginu í Níkeu 787. Kristnir menn trúa ekki á óhlutstæðan og fjarlægan Guð eins og Íslam, en það voru einmitt kalífarnir í Damaskus sem stóðu að baki og studdu íkonubrjótana í Miklagarði. [1]

Á annarri íkonu af Vegvísunni sjáum við varpað einstæðu ljósi á samband Guðsmóðurinnar og Sonar hennar. Jesús horfir skelfingu lostinn í mennsku sinni til tákns písla sinna – krossins – sem erkiengillinn Mikjáll heldur á lofti. Og í mennsku sinni leitar Jesús skjóls hjá Móður sinni og verður aðnjótandi huggunar hennar. Þetta eigum við öll að gera. Svona lítið var Jesúbarnið í mennskum vanmætti sínum! Þess vegna er enginn skömm af því að vera lítil angistarfull sál sem þarfnast móðurelsku Maríu Guðsmóður í hjarta kirkjunnar.

Hodigitrian

Þetta beinir athygli okkar að hinni heilögu fjölskyldu, þeim Maríu og Jósef, en hjá þeim naut Jesús skjóls, ástúðar og umhyggju í uppvexti sínum sem Mannssonurinn. Í einni opinberana sinna segir Jesús við systir Erzsbet Szsanto:

Allar mæður eru Hjarta mínu til gleði og verðskuldun ykkar er ekki minni en presta minna sem gegna æðstu embættum. Þið foreldrar, þið mæður! Leitist við að skilja þá háleitu köllun sem ég hef falið ykkur á hendur. Það er ykkur sem er falið að sjá Konungsríki mínu fyrir þegnum . . . Konungsríki mitt stækkar til samræmis við það hvernig þið mæðurnar auðsýnið sköpuðum sálum umhyggju. Ykkur er falið mikilvægasta hlutverkið og um fram allt það ábyrgðarmesta. Þetta verk fól ég ykkur á hendur til að leiða sæg sálna til endurlausnar. Ég veiti ykkur sérstaka blessun sökum þessa mikilvæga hlutverks ykkar.“ [2]

Hversu ólíkur er ekki þessi boðskapur þeim femínisma sem tröllríður nú veraldarhyggjunni og á uppruna sinn að rekja til kenninga Friedrichs Engels og frú Margrétar Sangers sem boða upplausn allra fjölskyldugildna og kynlífsfrelsi á kostnað ófæddra barna sem verða að gjalda það með lífi sínu sökum skorts á móðurelsku. Það kemur því ekki á óvart eftir að Satan missti sigðina og hamarinn úr höndum sér að hann ráðist nú af heiftaræði gegn helgidómi fjölskyldunnar ásamt þjónum sínum á jörðu með afskræmingu allra sannra fjölskyldugildna og „stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af“ (2Þ 2. 7): HINNI HELÖGU FJÖLSKYLDU!

Jesús og María boða flekkleysi hinnar HEILÖGU FJÖLSKYLDU í samsemd hjartna sinna, vernd hennar, umhyggju og skjól. Þetta er samfélag milljarða hjartna sem grundvallast á ástarfuna Kristselskunnar sem streymir fram úr hinu Alhelga Hjarta Jesú, FJÖLSKYLDU GUÐS:

„Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?“ Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gjörir vilja Föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir“ (Mt 12. 49, 50)

Þær sálir sem lúta vilja Guðs eru fjölskylda Jesú, fjölskyldumeðlimir hinnar heilögu fjölskyldu: Samfélag kirkjunnar. Slíkar sálir elska Jesú og hlýða því boðorðum hans: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af Föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig“ (sjá Jh 15. 21). Og Drottinn bætti við: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars“ (Jh 13. 34, 35).

Sú sál sem uppfyllir boðorð elskunnar uppfyllir öll boðorð Drottins því að elskan er tvö æðstu boðorða hans: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Hann svaraði honum: ,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir“ (Mt 22. 36-40). Boðorð Drottins er eilíft líf, boðorð himnesks Föður hans: „Og ég veit, að boðorð hans er EILÍFT LÍF. Það sem ég tala, það tala ég því eins og Faðirinn hefur sagt mér“ (Jh 12. 50). Fjölskyldubönd Guðs á jörðu munu vara að eilífu á himnum um aldir alda!

kirkjan

Á myndinni hér að ofan sjáum við sögu friðþægingar Drottins á fórnarhæð krossins líkt og í hnotskurn. Það er hið Alhelga Hjarta Jesú sem er uppsprettulind hins háheilaga og dýrlega blóðs friðþægingarinnar. Í Gamla sáttmálanum var prestum Arons ekki heimilað að neyta blóðs fórnarinnar vegna þess að blóðið var tákn þess yfirskilvitlega lífs sem fyrirhugað var börnum hins Nýja sáttmála. Það er þetta yfirskilvitlega líf sem drýpur fyrst yfir hið Flekklausa Hjarta Maríu Guðsmóður á Fórnarhæð krossins og streymir síðan til allra annarra mennskra hjartna með hliðsjón af því hversu opin þau eru gagnvart lífi náðarinnar. Þetta er hjartasláttur Guðs Föður í samfélagi kirkjunnar og jafnframt hjartasláttur hins Alhelga Hjarta Jesú í eilífri samsemd þess við Föðurinn. Og eins og systir Elísabet af Þrenningunni orðaði það svo fagurlega: ÞAÐ ER EINUNGIS EIN HRÆRING Í HINU ALHELGA HJARTA JESÚ, AÐ UPPRÆTA SYNDINA OG LEIÐA SÁLIRNAR TIL SÍNS HIMNESKA FÖÐUR, alls sem stríðir gegn þessari hræringu og sundrar samfélag mannshjartnanna við Guð Föður.

Hið nýja og yfirskilvitlega samfélag sem verður til á jörðu á Hvítasunnudag er samfélag bræðra og systra Jesú undir verndarhjúp Móður hans, hinnar blessuðu Meyjar, samfélag milljarða hjartna sem er ímynd hinnar heilögu fjölskyldu, allra þeirra sem trúa á Jesú og skírast til nafns hans. Öllu mannkyninu er boðið að ganga í þetta samfélag, að verða að bræðrum og systrum Jesú í baráttunni við óvin alls lífs, Satan, og starfa saman að því að grundvalla Konungsríki hans á jörðu í sínu eigin lífi og samfélagi. Þetta felur í sér að við tökum Guðsmóðurina okkur til fyrirmyndar í auðmýkt hennar og flekkleysi og höfnum syndinni og leggjum grunninn að SIÐMENNINGU LJÓSS, LÍFS OG ELSKU á jörðinni í stað DAUÐAMENNINGAR VERALDARHYGGJUNNAR.

Theotokos

Meðan Frelsarinn dvaldi með okkur á jörðu sagði hann: „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð“ (Mt 10. 35). Drottinn talar hér um stríð kærleikans, stríð sem snýst um líf og dauða sálarinnar. Þetta er styrjöld sem á sér stað í mannshjörtunum og um sérhvert mannshjarta. Það er engin tilviljun að Biblían hefst og lýkur með konunni: „Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis“ (1M 3. 15). Það er María Guðsmóðir sem mun „merja höfuð“ höggorms dauðans sem hin nýja Eva. Þetta er sá sannleikur sem opinberaðist ungversku karmelsysturinni Erzebet (Elísabet) Szanto. Guðsmóðirin sagði við hana: „Logi náðarinnar sem ég færi þér úr Flekklausu Hjarta mínu verður að berast frá hjarta til hjarta. Þetta er það kraftaverk sem mun blinda Satan. Þetta er logi elsku og einingar og við munum slökkva eld með eldi: Eld hatursins með eldi elskunnar! Mér áskotnaðist þessi náð hjá himneskum Föður okkar sökum píslarsára Sonar míns.“ Því bað Drottinn okkur að biðja á þennan veg í lokaátökunum við óvin alls LÍFS, LJÓSS OG ELSKU:

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér,
blessuð sért þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesú.
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthell náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastundu vorri. [3].

Ef meðlimir fjölskyldu Guðs Föður í hinni stríðandi kirkju Sonar hans á jörðu leggja rækt við þessa bæn af þolgæði og trúfestu rennur ÖLD JESÚ OG MARÍU, aldarskeið hinna tveggja hjartna í garð: ÖLD HINS ALHELGA HJARTA JESÚ OG HINS FLEKKLAUSA HJARTA MARÍU:

„Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið" (Opb 21. 1-5).

Þetta mun gerast í sjöundu vikunni – viku sverðs réttlætis elskunnar (sjá Mt 10. 25) – eins og Enok spámaður sagði fyrir um í viknaspádómi sínum fyrir þúsundum ára, hann „sem Guð nam burt,“ (1M 5. 24) rétt ein og María Guðsmóðir var numin á burt til himins. Og í Fatíma sagði hún að við lifum á endatímanum – tímum sverðs elskunnar!

Því er komist svo að orði í Litaníu hins Alhelga Hjarta Jesú:

Alhelga Hjarta Jesú, tjaldbúð Guðs hins Hæsta, miskunna okkur syndugum mönnum!

[1]. Sjá: http://tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/iconoclasm.html
[2]. Logi elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu, 29. febrúar 1964.
[3]. Imprimatur: Sóknardómstóllinn Szekesfehervar, Ungverjalandi, 26. september 1978/1404. Nihil obstat: Dr. Laszlo Iranyi, 31. maí 1984. En hefur hið heilaga Sæti ekki tekið afstöðu til þessarar breytingar á Maríubæninni, en hinum trúuðu er heimilt að biðja hana með þessum hætti.

Myndin af hinu yfirskilvitlega hjartasamfélagi er komin frá Trúboðsstöð Salisíana í Pasay City á Filippseyjunum. Myndin af Loga elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu er gerð af listamanninum Erwin Schoppl í Regensburg í Austurríki (1977).

Næst: 8. Helstu þættir guðrækni hins Alhelga Hjarta.

No feedback yet