« Hvernig Guð mætir stundum manninumKraftaverkið í Hiroshima þann 6. ágúst 1945 »

25.02.06

  14:58:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 695 orð  
Flokkur: Kraftaverk

67. staðfesta kraftaverkið í Lourdes

Þann 14. nóvember s. l. samþykkti kaþólska kirkjan lækningu Önnu Santaniello, 93 ára gamallar ítalskrar konu, í lindinni í Lourdes sem kraftaverk. Þetta gerði kirkjan eftir nær 50 ára rannsókn. Atvikið átti sér stað 1952.

Meðlimir alþjóðlegu læknanefndarinnar höfðu komist að þeirri niðurstöðu árið 1964, að engin náttúrleg eða læknisfræðileg skýring væri fyrir hendi á lækningu hennar af alvarlegum hjartasjúkdómi. Samkvæmt starfsreglum sínum sendi nefndin skjöl hvað áhrærir mál Santaniello til erkibiskupsins af Salerno-Campagne-Acerno á Ítalíu, en sérstök nefnd sem hann skipaði lýsti því yfir að hún kæmist ekki að neinni niðurstöðu um mál hennar.

Ekkert gerðist í málinu næstu 40 árin. Þá tók dr. Patrick Theillier, lækningaforstjóri í Lourdes mál Önnu upp að nýju á fundi með ítölskum kaþólikkum árið 2004. Gerardo Pierro erkibiskup af Salerno hóf að nýju rannsókn máls hennar. Eftir að hafa fengið læknisskýrslur hennar og sjúkrasögu í hendur auk nýrra hjartalínurita, tilkynnti erkibiskupinn læknanefndinni í september s. l. að hann væri samþykkur því að hér væri um kraftaverk að ræða.

Hin opinbera vefsíða Lourdes komst svo að orði: „Anna Santaniello gekk með alvarlegan hjartasjúkdóm og í kjölfar hans tók að gæta alvarlegrar liðagigtar og bólgu. Hún þjáðist einnig af varanlegum öndunarerfiðleikum (dysnea) og Bouillaudseinkennum sem gerðu henni erfitt um mál og ófært að ganga auk mikilla astmaeinkenna og andlitslömunar og lömunar í fótum.

Fjölskylda, vinir og prestur Önnu sögðu henni að hún væri allt of veik til að fara til Lourdes: Í útvarpi Vatíkansins komst hún svo að orði: „Ég sagði þeim öllum að ég vildi fara. Ef ég ætti að deyja, þá vildi ég sjá Guðsmóðurina áður en ég dæi.“ Öndunarerfiðleikar hennar voru svo miklir að sjálfboðaliðarnir í Lourdes vildu helst ekki fara með mig niður að hellinum af sjúkraheimilinu.

„Ég bað upphátt svo að hún heyrði til mín: Blessaða mey, þú verður að hjálpa mér. Ég sá skugga bregða fyrir, skugga á himnum sem hvíslaði í eyra mér: Ekki hlusta á þau, haltu áfram að ganga. Allir báðu fyrir mér, karlar sem konur. Þau létu mig kyssa styttuna af Vorri Frú sem stóð þarna á litlu altari.“

Hún steig niður í ískalt vatnið í lindinni, „en eftir örfáar mínútur fann ég fyrir hitatilkenningu í kringum hjartað. Mikil kyrrð kom yfir mig. Ég sté upp úr lauginni og sjálfboðaliðarnir ætluðu að leggja mig aftur á börurnar. Ég sagði þá við þá að þeir skyldu fara og hjálpa hinum því að þetta gæti ég sjálf. Ég fór út úr hellinum að torginu og tók að gefa hinum sjúku hádegismatinn. Klukkan 4 síðdegis fara þeir í skrúðgöngu með hið Blessaða sakramenti og ég tók undir sálmasönginn.“

Eftir að Anna kom heim til Ítalíu fór hún til hjartalæknis sem sagði eftir ítarlega rannsókn að hún væri fullkomlega heilbrigð. Eftir lækningu sína fór hún nokkrum sinnum til Lourdes sem hjúkrunarkona.

Anna Santaniello sagði við útvarp Vatíkansins: „Ég er þakklát Guðsmóðurinni vegna þess að ég missti bæði bróðir minn og systur úr þessum sama sjúkdómi. Hann var 29 ára gamall, en hún 33 ára gömul.

Lourdes er fjölsóttasti pílagrímastaður kirkjunnar fyrir utan sjálfa Róm og þangað koma 6 milljónir pílagríma árlega.

Þeir sem hafa áhuga á að leita sér lækninga geta skrifað rafpóst beint til Lourdes eða haft samband við kaþólsku biskupsskrifstofuna í Landakoti (séra Jakob Rolland). Sjá: [Tengill á Lourdes]

Næst mun ég fjalla um efkaristíundrið í Lanciano á Ítalíu

No feedback yet